Ferill 302. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 302 . mál.


Sþ.

539. Tillaga til þingsályktunar



um húsnæði fyrir aðstandendur sjúklinga.

Flm.: Anna Ólafsdóttir Björnsson, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir,


Kristín Einarsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að leita nú þegar leiða til að leysa húsnæðisvanda aðstandenda sjúklinga sem þurfa að dveljast langdvölum fjarri heimilum sínum.

Greinargerð.


    Flestir verða einhvern tíma á ævinni fyrir því að veikjast alvarlega eða að einhver þeim nákominn þurfi á læknismeðferð og sjúkrahúsvist að halda. Slíkt er nógu erfitt í sjálfu sér þótt ekki bætist við langar fjarvistir frá heimili, húsnæðisvandi, aðskilnaður fjölskyldu, vinnutap, launamissir og margháttuð fjárútlát, m.a. vegna tvöfalds heimilishalds, barnagæslu, ferðalaga o.s.frv.
    Þetta er því miður reynsla margra, sérstaklega íbúa landsbyggðarinnar sem þurfa að sækja sérhæfða læknisþjónustu til Reykjavíkur. Slík reynsla er ævinlega þungbær og oft mjög dýr þar sem aðstoð af hálfu samfélagsins er af mjög skornum skammti. Sumpart má leysa vanda þessa fólks gegnum tryggingalöggjöfina og má í því sambandi minna á frumvarp sem Kvennalistakonur lögðu fram á 110. löggjafarþingi (þskj. 562) um breytingu á almannatryggingalögum. Því frumvarpi var vísað til ríkisstjórnarinnar og hefur verið haft til hliðsjónar í tryggingaráði við endurskoðun reglna um greiðslur í slíkum tilvikum.
    Hins vegar þarf engin lög til þess að leysa húsnæðisvanda þeirra sem hér um ræðir. Til þess þarf aðeins vilja, samvinnu og framkvæmdir.
    Kanna þarf hversu marga um er að ræða til jafnaðar sem þurfa á húsnæði að halda af þessum sökum. Á grundvelli slíkrar könnunar þarf að tryggja að alltaf
sé til reiðu húsnæði sem aðstandendur sjúklinga geta fengið leigt á góðum kjörum svo að þeir þurfi a.m.k. ekki að vera þjakaðir af húsnæðisáhyggjum til viðbótar við alla aðra erfiðleika.
    Flutningsmenn telja eðlilegt að heilbrigðisráðuneytið leiti samstarfs við Samband íslenskra sveitarfélaga og Rauða kross Íslands um lausn þessa vanda og æskilegast væri að koma upp húsnæði sem næst Landspítalanum sem aðstandendur sjúklinga utan af landi gætu gengið að sem vísu. Vísir að slíku er fyrir hendi í lítilli íbúð í grennd við Landspítalann þar sem foreldrar krabbameinssjúkra barna geta fengið tímabundið húsaskjól. Einnig hefur Krabbameinsfélag Reykjavíkur frá ársbyrjun 1988 styrkt aðstandendur krabbameinssjúklinga í 14 daga til dvalar á sjúkrahóteli Rauða krossins eða greitt jafnvirði dvalarkostnaðar í leigustyrk. Til þeirra mála ætlar félagið ákveðna upphæð, en ekki er ljóst hvert framhald verður á þeim styrkjum. Á þennan hátt hefur verið bætt úr brýnasta vandanum um sinn, en þörfin á húsnæði er eftir sem áður mjög mikil og fer síst minnkandi. Dvalarkostnaður aðstandenda mjög veikra sjúklinga fjarri heimabyggð er mikill og oft bætist hann ofan á vinnutap sem hvergi fæst bætt.
    Þessi þingsályktunartillaga fékk jákvæðar undirtektir í umræðum á Alþingi, en var ekki afgreidd úr nefnd. Þörf á húsnæði fyrir aðstandendur sjúklinga virðist síst hafa minnkað þrátt fyrir lofsvert framtak Krabbameinsfélagsins til úrbóta fyrir aðstandendur krabbameinssjúklinga. Því er þingsályktunartillagan nú flutt hér óbreytt í þriðja sinn.