Ferill 337. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 337 . mál.


Ed.

588. Frumvarp til laga



um viðauka við lög um skipan dómsvalds í héraði, lögreglustjórn, tollstjórn o.fl., nr. 74 27.

apríl 1972.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90.)



1. gr.

    Við eftirtalin embætti skulu starfa héraðsdómarar sem hér greinir:
    a.     Við embætti sýslumannsins í Vestur-Skaftafellssýslu, sýslumannsins í Rangárvallasýslu, bæjarfógetans á Akranesi, sýslumannsins í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, sýslumannsins í Snæfellsness- og Hnappadalssýslu og bæjarfógetans í Ólafsvík og sýslumannsins í Dalasýslu skal starfa einn héraðsdómari fyrir öll embættin í senn.
    b.     Við embætti sýslumannsins í Barðastrandarsýslu, bæjarfógetans í Bolungarvík, sýslumannsins í Ísafjarðarsýslu og bæjarfógetans á Ísafirði og sýslumannsins í Strandasýslu skal starfa einn héraðsdómari fyrir öll embættin í senn.
    c.     Við embætti sýslumannsins í Húnavatnssýslu, sýslumannsins í Skagafjarðarsýslu og bæjarfógetans á Sauðárkróki, bæjarfógetans á Siglufirði, bæjarfógetans á Ólafsfirði, sýslumannsins í Þingeyjarsýslu og bæjarfógetans á Húsavík skal starfa einn héraðsdómari fyrir öll embættin í senn.
    d.     Við embætti sýslumannsins í Norður-Múlasýslu og bæjarfógetans á Seyðisfirði, sýslumannsins í Suður-Múlasýslu og bæjarfógetans á Eskifirði, bæjarfógetans í Neskaupstað og sýslumannsins í Austur-Skaftafellssýslu skal starfa einn héraðsdómari fyrir öll embættin í senn.
    e.     Við embætti lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli skal starfa einn héraðsdómari.

2. gr.


    Forseti Íslands skipar héraðsdómara samkvæmt lögum þessum. Héraðsdómarar skv. a–d-liðum 1. gr. skulu skipaðir að tillögu dóms- og kirkjumálaráðherra, en dómari skv. e-lið 1. gr. að tillögu utanríkisráðherra.
    Héraðsdómarar samkvæmt lögum þessum skulu skipaðir tímabundið til 30. júní 1992, en þá leggjast embætti þeirra niður. Njóta þeir ekki þess forgangs til skipunar í embætti héraðsdómara eftir þann tíma sem kveðið er á um í 18. gr. laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989.
    Heimilt er að skipa héraðsdómara fyrsta sinni samkvæmt lögum þessum án þess að embættin hafi áður verið auglýst laus til umsóknar.
    Skipa má mann í embætti héraðsdómara samkvæmt lögum þessum þótt hann fullnægi ekki skilyrðum 7. tölul. 1. mgr. 32. gr. laga um meðferð einkamála í héraði, nr. 85/1936.

3. gr.

    Héraðsdómurum skv. a–d-liðum 1. gr. verður ekki falið að fara með stjórnvaldsmálefni eða dómstörf í öðrum málum en opinberum málum nema með samþykki þeirra.

4. gr.


    Um störf, réttindi og skyldur héraðsdómara samkvæmt lögum þessum fer eftir almennum reglum að öðru leyti en leiðir af fyrirmælum 2. og 3. gr.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Um frumvarp þetta, sem lagt er fyrir Alþingi skv. 28. gr. stjórnarskrárinnar, vísast til fylgiskjals hér á eftir.



Fylgiskjal.


BRÁÐABIRGÐALÖG


um viðauka við lög um skipan dómsvalds í héraði, lögreglustjórn,


tollstjórn o.fl., nr. 74 27. apríl 1972.



F ORSETI Í SLANDS
gjörir    kunnugt: Dóms- og kirkjumálaráðherra hefur tjáð mér, að þann 9. janúar 1990 hafi gengið dómur í Hæstarétti Íslands í máli nr. 120/1989, þar sem niðurstaðan hafi orðið á þann veg, að dómur uppkveðinn í sakadómi Árnessýslu hafi verið felldur úr gildi og málinu vísað heim í hérað til löglegrar málsmeðferðar og dómsálagningar. Hafi þetta verið gert sökum þess, að sýslumaðurinn í Árnessýslu og fulltrúi hans, sem kvað upp hinn áfrýjaða dóm, hafi verið vanhæfir til að fara með dómstörf í málinu, þar sem sýslumaðurinn sé jafnframt lögreglustjóri í sama umdæmi og hafi sem slíkur farið með lögreglurannsókn málsins. Sú staða sé því uppi í tuttugu umdæmum landsins, að einn og sami maður sé í senn lögreglustjóri og dómari, án þess að sjálfstæðir héraðsdómarar starfi við þau embætti, sem geti farið með og dæmt í opinberum málum á eigin ábyrgð, óháð því hvort forstöðumaður embættisins sé vanhæfur til meðferðar máls. Af þessum sökum sé svo komið í umræddum umdæmum, að þeir, sem þar fari nú með dómsvald að gildandi lögum, verði í ljósi áðurnefnds dóms Hæstaréttar taldir vanhæfir til að fara með flest þau opinberu mál, sem þar séu og verði til meðferðar, þar til ný skipan dómstóla í héraði samkvæmt lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92 1. júní 1989, komi til framkvæmda þann 1. júlí 1992. Til að tryggja að dómarar verði fyrir hendi í umræddum umdæmum, sem taldir verði hæfir og bærir til að fara með opinber mál þar, beri brýna nauðsyn til að nú þegar verði gerð breyting á núgildandi lögum, svo meðferð þessara dómsmála stöðvist ekki eða dragist óhæfilega.
                Fyrir því eru hér með sett bráðabirgðalög samkvæmt 28. grein stjórnarskrárinnar á þessa leið:

1. gr.


    Við eftirtalin embætti skulu starfa héraðsdómarar sem hér greinir:
     a.     Við embætti sýslumannsins í Vestur-Skaftafellssýslu, sýslumannsins í Rangárvallasýslu, bæjarfógetans á Akranesi, sýslumannsins í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, sýslumannsins í Snæfellsness- og Hnappadalssýslu og bæjarfógetans í Ólafsvík og sýslumannsins í Dalasýslu skal starfa einn héraðsdómari fyrir öll embættin í senn.
     b.     Við embætti sýslumannsins í Barðastrandarsýslu, bæjarfógetans í Bolungarvík, sýslumannsins í Ísafjarðarsýslu og bæjarfógetans á Ísafirði og sýslumannsins í Strandasýslu skal starfa einn héraðsdómari fyrir öll embættin í senn.
     c.     Við embætti sýslumannsins í Húnavatnssýslu, sýslumannsins í Skagafjarðarsýslu og bæjarfógetans á Sauðárkróki, bæjarfógetans á Siglufirði, bæjarfógetans á Ólafsfirði, sýslumannsins í Þingeyjarsýslu og bæjarfógetans á Húsavík skal starfa einn héraðsdómari fyrir öll embættin í senn.
     d.     Við embætti sýslumannsins í Norður-Múlasýslu og bæjarfógetans á Seyðisfirði, sýslumannsins í Suður-Múlasýslu og bæjarfógetans á Eskifirði, bæjarfógetans í Neskaupstað og sýslumannsins í Austur-Skaftafellssýslu skal starfa einn héraðsdómari fyrir öll embættin í senn.
     e.     Við embætti lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli skal starfa einn héraðsdómari.

2. gr.


    Forseti Íslands skipar héraðsdómara samkvæmt lögum þessum. Héraðsdómarar skv. a–d-liðum 1. gr. skulu skipaðir að tillögu dóms- og kirkjumálaráðherra, en dómari skv. e-lið 1. gr. að tillögu utanríkisráðherra.
    Héraðsdómarar samkvæmt lögum þessum skulu skipaðir tímabundið til 30. júní 1992, en þá leggjast embætti þeirra niður. Njóta þeir ekki þess forgangs til skipunar í embætti héraðsdómara eftir þann tíma sem kveðið er á um í 18. gr. laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989.
    Heimilt er að skipa héraðsdómara fyrsta sinni samkvæmt lögum þessum án þess að embættin hafi áður verið auglýst laus til umsóknar.
    Skipa má mann í embætti héraðsdómara samkvæmt lögum þessum þótt hann fullnægi ekki skilyrðum 7. tölul. 1. mgr. 32. gr. laga um meðferð einkamála í héraði, nr. 85/1936.

3. gr.

    Héraðsdómurum samkvæmt a–d-liðum 1. gr. verður ekki falið að fara með stjórnvaldsmálefni eða dómstörf í öðrum málum en opinberum málum nema með samþykki þeirra.

4. gr.

    Um störf, réttindi og skyldur héraðsdómara samkvæmt lögum þessum fer eftir almennum reglum að öðru leyti en leiðir af fyrirmælum 2. og 3. gr.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Gjört í Reykjavík, 13. janúar 1990



Vigdís Finnbogadóttir.


(L.S.)


-----------------------

Óli Þ. Guðbjartsson