Ferill 352. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 352 . mál.


Ed.

609. Frumvarp til laga



um stjórn fiskveiða.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90.)



I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

    Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.

2. gr.

    Til nytjastofna samkvæmt lögum þessum teljast sjávardýr, svo og sjávargróður, sem nytjuð eru og kunna að verða nytjuð í íslenskri fiskveiðilandhelgi og sérlög gilda ekki um.
    Til fiskveiðilandhelgi Íslands telst hafsvæðið frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands eins og hún er skilgreind í lögum nr. 41 1. júní 1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.

3. gr.

    Sjávarútvegsráðherra skal, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, ákveða með reglugerð þann heildarafla sem veiða má á ákveðnu tímabili eða vertíð úr þeim einstökum nytjastofnum við Ísland sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á. Heimildir til veiða samkvæmt lögum þessum skulu miðast við það magn.
    Leyfður heildarafli botnfisktegunda skal miðaður við veiðar á 12 mánaða tímabili, frá 1. september ár hvert til 31. ágúst á næsta ári, og nefnist það tímabil fiskveiðiár. Skal heildarafli fyrir komandi fiskveiðiár ákveðinn fyrir 1. ágúst ár hvert. Ráðherra er heimilt innan fiskveiðiársins að auka eða minnka leyfðan heildarafla einstakra botnfisktegunda, þó er óheimilt að breyta leyfðum heildarafla þorsks eftir 15. apríl. Heildarafli annarra tegunda
sjávardýra skal ákveðinn með hæfilegum fyrirvara fyrir upphaf viðkomandi vertíðar eða veiðitímabils og er ráðherra heimilt að auka hann eða minnka á meðan vertíð eða veiðitímabil varir.

II. KAFLI


Veiðileyfi og aflamark.


4. gr.

    Enginn má stunda veiðar við Ísland nema hafa fengið til þess almennt veiðileyfi. Veiðileyfi eru tvenns konar: leyfi til veiða í atvinnuskyni og leyfi til tómstundaveiða. Veiðileyfi þessi skulu gefin út til árs í senn.
    Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að auk almenns veiðileyfis skuli veiðar á ákveðnum tegundum nytjastofna, veiðar í tiltekin veiðarfæri, veiðar ákveðinna gerða skipa eða veiðar á ákveðnum svæðum háðar sérstöku leyfi ráðherra. Getur ráðherra bundið leyfi og úthlutun þess þeim skilyrðum er þurfa þykir. Ráðherra getur m.a. ákveðið að aðeins hljóti leyfi ákveðinn fjöldi skipa, skip af ákveðinni stærð eða gerð eða skip er tilteknar veiðar stunda eða hafa áður stundað.

5. gr.

    Við veitingu leyfa til veiða í atvinnuskyni koma til greina þau skip ein sem veiðileyfi fengu skv. 4. og 10. gr. laga nr. 3/1988, um stjórn fiskveiða, og ekki hafa horfið varanlega úr rekstri. Enn fremur bátar undir 6 brl. sem skráðir eru á skipaskrá hjá Siglingamálastofnun ríkisins innan mánaðar frá gildistöku laga þessara eða hafin er smíði á fyrir gildistöku laga þessara, enda verði haffærisskírteini gefið út af Siglingamálastofnun ríkisins innan þriggja mánaða þar frá.
    Hverfi skip sem á kost á veiðileyfi skv. 1. mgr. þessarar greinar varanlega úr rekstri má veita nýju eða nýkeyptu sambærilegu skipi veiðileyfi í þess stað, enda hafi veiðiheimildir þess skips er úr rekstri hvarf ekki verið sameinaðar varanlega veiðiheimildum annarra skipa eða horfið til Úreldingarsjóðs fiskiskipa.

6. gr.

    Leyfi til tómstundaveiða skal bundið við skip. Það skal veitt þeim sem þess óska til árs í senn. Tómstundaveiðileyfi veitir heimild til að stunda fiskveiðar með handfærum án sjálfvirknibúnaðar til eigin neyslu. Afla, sem veiddur er samkvæmt heimild í þessari grein, er óheimilt að selja eða fénýta á annan hátt. Ráðherra skal með reglugerð ákveða gjald fyrir tómstundaveiðileyfi. Tekjur af gjaldinu renna til eflingar hafrannsókna.

7. gr.

    Veiðar á þeim tegundum sjávardýra, sem ekki sæta takmörkun á leyfilegum heildarafla skv. 3. gr., eru frjálsar öllum þeim skipum, sem leyfi fá til veiða í atvinnuskyni skv. 4. gr., með þeim takmörkunum sem leiðir af almennum reglum um veiðisvæði, veiðarfæri, veiðitíma og reglum settum skv. 2. mgr. 4. gr.
    Veiðiheimildum á þeim tegundum, sem heildarafli er takmarkaður af, skal úthlutað til einstakra skipa. Skal hverju skipi úthlutað tiltekinni hlutdeild af leyfðum heildarafla tegundarinnar. Nefnist það aflahlutdeild skips og helst hún óbreytt milli ára, sbr. þó 4. málsl. þessarar málsgreinar. Við ákvörðun hlutdeildar einstakra skipa í botnfiskafla skal árlega áætla þann afla, sem er utan aflamarks, á grundvelli heimilda í 1. málsl. 6. mgr. 10. gr.
    Aflamark skips á hverju veiðitímabili eða vertíð ræðst af leyfðum heildarafla viðkomandi tegundar og hlutdeild skipsins í þeim heildarafla skv. 2. mgr., sbr. þó ákvæði 9. gr. Skal sjávarútvegsráðuneytið senda sérstaka tilkynningu vegna hvers skips um aflamark þess í upphafi veiðitímabils eða vertíðar.

8. gr.

    Verði veiðar takmarkaðar skv. 3. gr. á tegundum sjávardýra sem samfelld veiðireynsla er á, en ekki hafa áður verið bundnar ákvæðum um leyfðan heildarafla, skal aflahlutdeild úthlutað á grundvelli aflareynslu síðustu þriggja veiðitímabila.
    Ef ekki er fyrir hendi samfelld veiðireynsla á viðkomandi tegund skal ráðherra ákveða aflahlutdeild einstakra skipa. Getur hann við þá ákvörðun tekið mið af fyrri veiðum, stærð eða gerð skips. Getur ráðherra bundið úthlutun samkvæmt þessari málsgrein því skilyrði að skip afsali sér heimildum til veiða á öðrum tegundum.

9. gr.


    Sé fyrirsjáanlegt að verulegar breytingar verði á aflatekjum milli veiðitímabila af veiðum á öðrum tegundum, sem sæta ákvæðum um leyfilegan heildarafla, en botnfiski og úthafsrækju er ráðherra heimilt að skerða eða auka tímabundið botnfiskaflamark þeirra fiskiskipa sem aflahlutdeild hafa af þeirri tegund sem breytingum sætir. Veruleg telst breyting á aflatekjum af sérveiðum í þessu sambandi ef hún veldur því að heildaraflaverðmæti skipa, sem viðkomandi sérveiðar stunda, hefur að mati ráðherra vikið meira en 20% að meðaltali frá meðalaflaverðmæti síðustu fimm ára miðað við fast verðlag.
    Tímabundin breyting botnfiskaflamarks skv. 1. mgr. skal koma til hlutfallslegrar hækkunar eða lækkunar á botnfiskveiðiheimildum annarra fiskiskipa. Leiði þetta til breytinga á botnfiskaflamarki á yfirstandandi fiskveiðiári skal sjávarútvegsráðuneytið þegar í stað senda sérstaka tilkynningu vegna hvers skips um breytingu á botnfiskaflamarki þess, sbr. 3. mgr. 7. gr.

10. gr.

    Heimilt er að veiða umfram úthlutað aflamark af tiltekinni botnfisktegund allt að 5% af heildarverðmæti botnfiskaflamarks, enda skerðist aflamark annarra botnfisktegunda hlutfallslega miðað við verðmæti samkvæmt ákvörðun ráðuneytis í upphafi árs. Heimild þessarar málsgreinar nær þó ekki til veiða umfram úthlutað aflamark af þorski.
    Hafi aflamark verið flutt milli skipa skv. 12. gr. flyst heimild til breytinga skv. 1. mgr. frá skipi sem flutt er af til þess skips sem flutt er til.
    Heimilt er að flytja allt að 20% af aflamarki hverrar botnfisktegundar og aflamarki úthafsrækju frá einu fiskveiðiári yfir á það næsta. Á sama hátt er heimilt að flytja allt að 10% af aflamarki humars og síldar frá einu veiðitímabili til þess næsta.
    Þá er og heimilt að veiða allt að 5% umfram aflamark hverrar botnfisktegundar, enda dregst sá umframafli frá við úthlutun aflamarks næsta fiskveiðiárs á eftir.
    Beita skal skerðingarákvæðum 1. mgr. áður en heimild 3. mgr. er nýtt. Heimild 4. mgr. rýmkar ekki heimildir til breytinga milli fisktegunda skv. 1. mgr.
    Fiskur, sem veiðist á línu í janúar, febrúar, nóvember og desember, skal aðeins að hálfu talinn með í aflamarki fiskiskips. Ráðherra getur ákveðið með reglugerð að fiskur undir tiltekinni stærð teljist aðeins að hluta með í aflamarki.
    Þá getur ráðherra ákveðið að afli á ákveðnum fisktegundum, sem fluttur er óunninn á erlendan markað, skuli reiknaður með álagi þegar metið er hversu miklu af aflamarki skips er náð hverju sinni. Skal álagið vera allt að 20% á
þorsk og ýsu en allt að 15% á aðrar tegundir.

11. gr.

    Sé rekstri skips hætt, sbr. 2. mgr. 5. gr., skal úthluta nýju eða nýkeyptu skipi í eigu sama aðila aflahlutdeild hins eldra skips, enda sé um sambærilegt skip að ræða. Farist skip skal útgerð þess halda aflamarki skipsins í 12 mánuði talið frá upphafi næsta mánaðar eftir að skip fórst enda þótt nýtt eða nýkeypt skip hafi ekki komið í þess stað innan þess tíma.
    Við eigendaskipti að fiskiskipi fylgir aflahlutdeild þess, nema aðilar geri sín á milli skriflegt samkomulag um annað, enda sé fullnægt ákvæðum 3. og 4. mgr. þessarar greinar.
    Hyggist útgerð selja fiskiskip sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni ber henni að tilkynna opinberlega að sala sé fyrirhuguð. Tilkynning skal birt í Lögbirtingablaði. Jafnframt skal tilkynning send sveitarstjórn á útgerðarstað skips og útvegsmannafélagi á viðkomandi landsvæði. Verði gerður bindandi samningur um sölu fiskiskips innan mánaðar eftir birtingu tilkynningar fylgir aflahlutdeild skipsins ekki við sölu. Ákvæði þessarar málsgreinar tekur ekki til opinna báta.
    Heimilt er að framselja aflahlutdeild skips að hluta eða öllu leyti og sameina hana aflahlutdeild annars skips, enda leiði flutningur aflahlutdeildar ekki til þess að veiðiheimildir þess skips, sem flutt er til, verði bersýnilega umfram veiðigetu þess. Fyrirhugað framsal aflahlutdeildar til skips í eigu annarrar útgerðar skal tilkynnt með mánaðar fyrirvara í samræmi við ákvæði 3. mgr. og fellur aflahlutdeild niður sé þess ekki gætt. Tafarlaust skal leita staðfestingar ráðuneytisins á að flutningur aflaheimildar sé innan heimilaðra marka. Öðlast slíkur flutningur ekki gildi fyrr en staðfesting ráðuneytis liggur fyrir. Ekki er heimilt að framselja þann hluta aflahlutdeildar skips sem rekja má til uppbóta samkvæmt ákvæði I til bráðabirgða fyrr en að liðnum fimm árum frá gildistöku laga þessara, enda hafi skipi, sem framselt er af, verið haldið til veiða allt það tímabil.

12. gr.

    Heimilt er að færa aflamark milli skipa sömu útgerðar eða skipa sem gerð eru út frá sömu verstöð eftir því sem hlutaðeigandi útgerðaraðilar koma sér saman um. Sama gildir um skipti á aflamarki milli skipa sem ekki eru gerð út frá sömu verstöð, enda sé um jöfn skipti að ræða að mati ráðuneytisins.
    Tilkynna skal sjávarútvegsráðuneytinu fyrir fram um flutning aflamarks milli skipa og öðlast hann ekki gildi fyrr en ráðuneytið hefur staðfest móttöku tilkynningar um flutninginn frá þeim sem hlut eiga að máli.
    Annar flutningur á aflamarki milli skipa er óheimill nema með samþykki ráðuneytisins og að fenginni umsögn sveitarstjórnar og stjórnar sjómannafélags í viðkomandi verstöð.
    Séu minna en 25% af aflamarki skips ekki nýtt með veiðum skipsins sjálfs tvö fiskveiðiár í röð fellur aflahlutdeild þess niður. Skal við mat á þessu hlutfalli miðað við verðmæti einstakra tegunda í aflamarki skips samkvæmt ákvörðun ráðuneytis í upphafi árs.

III. KAFLI

Framkvæmd og eftirlit.

13. gr.

    Ráðherra getur sett nánari reglur varðandi framkvæmd laga þessara.

14. gr.

    Sérstök samráðsnefnd, skipuð einum fulltrúa tilnefndum sameiginlega af samtökum sjómanna og einum tilnefndum af samtökum útvegsmanna, auk formanns sem skipaður er af ráðherra án tilnefningar, skal fjalla um álita- og ágreiningsmál varðandi veiðileyfi, úthlutun aflahlutdeildar og aflamark samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim og gera tillögur til ráðherra um úrlausn þeirra.

15. gr.

    Skipstjórnarmenn veiðiskipa, sem hljóta veiðileyfi í atvinnuskyni skv. 5. gr., skulu halda sérstakar afladagbækur sem ráðuneytið leggur til. Skal með reglugerð kveða nánar á um þær upplýsingar sem skrá skal í afladagbækur, form þeirra og skil til ráðuneytis.
    Útgerðarmönnum, skipstjórnarmönnum og kaupendum afla, svo og umboðsmönnum, útflytjendum, flutningsaðilum, bönkum og lánastofnunum, er skylt að láta ráðuneytinu eða Fiskifélagi Íslands ókeypis í té og í því formi, sem ráðherra ákveður, allar þær upplýsingar sem unnt er að láta í té og nauðsynlegar eru taldar vegna eftirlits með framkvæmd laga þessara.

16. gr.

    Afli skal ávallt veginn á löndunarstað. Hafnaryfirvöld á hverjum löndunarstað skulu hafa yfirumsjón með vigtun afla og söfnun upplýsinga um
landaðan afla.
    Ráðuneytið skal að höfðu samráði við samgönguráðuneytið og hafnasamband sveitarfélaga kveða nánar á í reglugerð um hvernig afli skuli veginn og upplýsingum um landað aflamagn safnað.
    Sé afli unninn um borð í veiðiskipi skal skylt að halda sérstaka vinnsludagbók, sem ráðuneytið leggur til, um vinnslu aflans. Skipum, sem vinna afla um borð, er óheimilt að sigla með afurðir til sölu á mörkuðum erlendis án sérstaks leyfis ráðuneytisins. Ráðuneytið getur bundið slík leyfi því skilyrði að útgerð skipsins greiði kostnað vegna ferðar eftirlitsmanns ráðuneytisins til að fylgjast með löndun úr skipinu erlendis eða skipið komi til hafnar á Íslandi vegna eftirlits.

17. gr.

    Sjávarútvegsráðuneytið annast eftirlit með framkvæmd laga þessara og hefur í því skyni sérstaka eftirlitsmenn í sinni þjónustu.
    Jafnframt því sem þessir eftirlitsmenn sinna verkefnum skv. 8. gr. laga nr. 31. maí 1976 og eftirliti með reglum settum samkvæmt heimild í þeim lögum skulu þeir fylgjast með löndun, vigtun og vinnslu afla, enn fremur útflutningi afla eða afurða eins og nánar er kveðið á í lögum þessum, reglugerðum settum samkvæmt þeim og í erindisbréfi.
    Eftirlitsmönnum er heimilt að fara í veiðiferðir með fiskiskipum og að fara um borð í skip til athugunar á farmi og veiðarfærum. Enn fremur skal þeim heimill aðgangur að öllum vinnslusölum fiskverkana og birgðageymslum.

18. gr.

    Ráðherra skal með reglugerð ákveða sérstakt gjald — veiðieftirlitsgjald — fyrir veiðiheimildir sem veittar eru á grundvelli laga þessara eða annarra laga er kveða á um stjórn fiskveiða. Skal gjaldið renna til reksturs veiðieftirlits ráðuneytisins og skal upphæð þess miðast við að það standi undir rekstri eftirlitsins að hálfu.
    Gjald vegna tilkynningar um aflamark skal miðast við áætlað verðmæti þess aflamarks sem úthlutað er. Skal ráðherra árlega áætla hlutfallslegt verðmæti einstakra tegunda í þessu skyni. Aldrei skal gjald samkvæmt þessari málsgrein vera hærra en 0,2% af áætluðu verðmæti þess afla sem aflamark skips heimilar veiðar á á komandi fiskveiðiári, vertíð eða veiðitímabili. Gjald fyrir hverja tilkynningu um aflamark skal þó aldrei vera lægra en 1.000 kr. og er sú fjárhæð grunntala er miðast við byggingarvísitölu í janúar 1991 og breytist í hlutfalli við þær breytingar sem síðar kunna að verða á henni.
    Fyrir veitingu almenns leyfis til veiða í atvinnuskyni og veiðileyfa sem veitt verða á grundvelli 2. mgr. 4. gr., skal greiða fast gjald er ráðherra ákveður með reglugerð.
    Útgerð skips skal greiða fæði veiðieftirlitsmanna og sjá þeim endurgjaldslaust fyrir aðstöðu meðan þeir stunda eftirlitsstörf um borð.

IV. KAFLI

Viðurlög o.fl.

19. gr.

    Brot gegn ákvæðum laga þessara, reglum settum samkvæmt þeim eða ákvæðum leyfisbréfa varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
    Um mál þau, sem rísa út af brotum gegn lögum þessum skal fara að hætti opinberra mála.

20. gr.

    Ráðuneytið skal beita ákvæðum laga nr. 32 19. maí 1976, um upptöku ólöglegs sjávarafla, vegna brota gegn þessum lögum eftir því sem við á.
    Ráðuneytinu er enn fremur heimilt, vegna brota á ákvæðum laga þessara, reglna settra samkvæmt þeim og leyfisbréfa, að svipta skip heimild til veiða í tiltekinn tíma og varða veiðar eftir leyfissviptingu m.a. upptöku skv. 1. mgr. Sama gildir verði vanskil á greiðslu andvirðis ólöglegs sjávarafla sem sætt hefur upptöku.

V. KAFLI

Ýmis ákvæði.

21. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. laga nr. 81 31. maí 1976, með áorðnum breytingum, skulu veiðar með vörpu heimilaðar á vannýttum fisktegundum á ákveðnum svæðum samkvæmt reglum er ráðherra setur.

22. gr.

    Með lögum þessum eru felldar úr gildi 10., 13. og 14. gr. laga nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.
    Jafnframt breytist 2. mgr. 2. gr. þeirra laga og orðist svo: Íslenskum skipum eru bannaðar veiðar með botnvörpu og flotvörpu í fiskveiðilandhelginni, nema þær sem sérstakar heimildir eru veittar til slíkra veiða í lögum þessum.

23. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 1991. Ákvæði er lúta að veiðum á öðrum tegundum sjávardýra en botnfiski koma til framkvæmda við upphaf fyrstu vertíðar eða veiðitímabils eftir 1. janúar 1991.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Við ákvörðun aflahlutdeildar við gildistöku laga þessara til veiða á botnfiski og úthafsrækju fyrir skip 10 brl. og stærri skal leggja til grundvallar úthlutun aflamarks á árinu 1990 samkvæmt rg. nr. 585 19. desember 1989 um stjórn botnfiskveiða 1990 og rg. nr. 586 19. desember 1989 um veiðar á úthafsrækju 1990.
    Fyrir hvert fiskiskip 10 brl. og stærra skal reikna aflamark í einstökum botnfisktegundum og úthafsrækju til þorskígilda. Ráðherra skal með reglugerð ákveða verðmætahlutfall við þann útreikning. Fyrir hvern sóknarmarksflokk samkvæmt rg. nr. 585 19. desember 1989 skal síðan reikna meðaltalsaflamark þessara tegunda samanlagt. Fyrir þau skip, sem hafa samanlagt aflamark ofan við meðaltal síns flokks, er aflamark hverrar tegundar á árinu 1990 ráðandi við ákvörðun aflahlutdeildar.
    Fyrir þau fiskiskip, sem hafa samanlagt aflamark þessara tegunda undir meðaltali síns sóknarmarksflokks, skulu hins vegar reiknaðar uppbætur á eldra aflamark er nema skulu 40% af þeim mun sem er milli meðaltals sóknarmarksflokksins og aflamarks skipsins. Til aflamarks skips í þessu sambandi telst þó ekki sá hluti aflamarks sem sameinaður hefur verið eldra aflamarki á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 3/1988. Þannig reiknaðri uppbót skal síðan skipt milli einstakra tegunda í aflamarki skipsins í hlutfalli við verðmæti fyrra aflamarks. Fyrir skip, sem fá reiknaða uppbót samkvæmt þessari málsgrein, verður því samtala aflamarks ársins 1990 og reiknaðrar uppbótar ákvarðandi fyrir aflahlutdeildina.
    Skip sem loðnuveiðar stunda og skip, sem stunda úthafsrækjuveiðar sem sérhæfð rækjuveiðiskip á árinu 1990 samkvæmt ákvæðum rg. 586 19. desember 1989 um veiðar á úthafsrækju 1990, fá þó ekki reiknaðar uppbætur skv. 3. mgr. þessarar greinar. Þessum skipum gefst kostur á í árslok 1990 að velja milli aflamarks í botnfiski og aflamarks í úthafsrækju í samræmi við ákvæði rg. 586 19. desember 1989 um veiðar á úthafsrækju 1990 og verður aflamark samkvæmt því vali ákvarðandi fyrir aflahlutdeild þeirra.

II.


    Við úthlutun aflahlutdeildar við gildistöku þessara laga til veiða á botnfiski fyrir báta minni en 10 brl. skulu eftirfarandi reglur gilda sé óskað eftir leyfi til fiskveiða í atvinnuskyni skv. 1. mgr. 4. gr.
    Samanlögð úthlutuð aflahlutdeild allra báta minni en 10 brl. í leyfilegum heildarafla allra botnfisktegunda, sem úthlutað er til einstakra skipa og báta, skal vera jöfn aflahlutdeild þeirra í ársafla sömu botnfisktegunda árið 1989.
    Fyrir þá báta, sem á árinu 1990 stunda veiðar með aflahámarki sem byggir á eigin veiðireynslu samkvæmt ákvæðum rg. nr. 587 19. desember 1989 um veiðar smábáta 1990, skal miða við forsendur þess aflahámarks við úthlutun aflahlutdeildar.
    Hjá þeim bátum, sem ekki falla undir ákvæði 3. mgr. þessarar greinar, skal aflahlutdeild byggð á veiðireynslu áranna 1987–1989 þannig að byggt sé á meðalafla tveggja bestu áranna.
    Þrátt fyrir ákvæði 3. og 4. mgr. þessarar greinar gefst útgerðum báta undir 6 brl., sem skráðir eru á skipaskrá fyrir 31. desember 1989 og útgerðum báta undir 6 brl. sem skráðir eru á skipaskrá eftir þann tíma en fyrir gildistöku laga þessara, kostur á að velja á árunum 1991, 1992 og 1993 leyfi til veiða með línu og handfæri með dagatakmörkunum í stað aflahlutdeildar. Reynist hlutdeild þessara báta af heildarbotnfiskafla hafa vaxið meira en sem nemur 25% að meðaltali á þessum þremur árum miðað við þá aflahlutdeild sem þeir áttu kost á árið 1991 skal þeim ákvörðuð aflahlutdeild frá og með upphafi þess fiskveiðiárs er hefst 1. september 1994. Ræður aflareynsla þeirra á þessum þremur árum þá aflahlutdeild þeirra, sbr. þó 2. mgr. Hafi aflahlutdeild þessara báta hins vegar ekki farið fram úr framangreindum mörkum skulu gilda óbreyttar reglur um veiðar þeirra næstu þrjú fiskveiðiár og koma þær aftur til sams konar endurskoðunar í lok þess tímabils. Þeim bátum, sem þennan kost velja, skulu óheimilar ár hvert veiðar frá og með 1. janúar til og með 31. janúar, í tíu daga um páskahelgi, tíu daga um verslunarmannahelgi samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra og enn fremur frá og með 1. desember til og með 31. desember.
    Sérstök samstarfsnefnd, skipuð fulltrúa tilnefndum af Landssambandi smábátaeigenda, fulltrúa tilnefndum af Fiskifélagi Íslands og formanni skipuðum af ráðherra án tilnefningar, skal fjalla sérstaklega um málefni þeirra aðila sem keypt hafa nýja báta eftir 31. janúar 1988 og hafa því ekki fulla aflareynslu á viðmiðunartímabilinu til að byggja ákvörðun aflahlutdeildar á.
Nefndin skal og fjalla um önnur álitaefni sem upp koma og gera tillögur til sjávarútvegsráðherra um aflahlutdeild viðkomandi báta.
    Sjávarútvegsráðherra skal með reglugerð setja nánari reglur um úthlutun þessa. Úthlutunin skal taka mið af þeim reglum sem giltu um úthlutun aflamarks til skipa 10 brl. og stærri á árinu 1984, sbr. rg. nr. 44/1984, eftir því sem við verður komið. Þó skulu reglur um frátafir frá veiðum og skipstjóraskipti undanskildar.
    Sjávarútvegsráðuneytið skal til upplýsingar birta bréflega útgerðum allra báta 10 brl. og minni úthlutað aflamark eins og það hefði orðið árið 1990 samkvæmt lögum þessum ásamt forsendum fyrir þeirri úthlutun.
    Útgerðum skal veittur hæfilegur frestur til athugasemda og skýringa gerist þess þörf. Að því loknu skal samstarfsnefnd skv. 5. mgr. gera endanlega tillögu um aflahlutdeild sérhvers báts í viðkomandi botnfisktegund. Sú aflahlutdeild verður síðan grundvöllur árlegrar úthlutunar aflamarks viðkomandi báta.

III.


    Leyfður heildarafli botnfisktegunda skv. 2. mgr. 3. gr. fyrir heilt 12 mánaða tímabil skal í fyrsta skipti ákveðinn fyrir fiskveiðiárið er hefst 1. september 1991. Skal sú ákvörðun tekin fyrir 1. ágúst 1991.
    Fyrir 1. nóvember 1990 skal ráðherra taka ákvörðun um leyfðan heildarafla botnfisktegunda á tímabilinu 1. janúar 1991 til 31. ágúst 1991. Skal þeim heildarafla skipt milli skipa á grundvelli fastrar aflahlutdeildar hvers skips sem ákveðin er samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I og II annars vegar og dreifingu afla af hverri tegund innan ársins hjá einstökum flokkum fiskiskipa hins vegar.
    Reiknað skal hversu hátt hlutfall ársafla af hverri botnfisktegund hefur veiðst að meðaltali á fyrstu átta mánuðum ársins á árunum 1986 til 1988. Jafnframt skal reiknað fyrir hvern útgerðarflokk, sbr. 2. gr. rg. nr. 585 19. desember 1989 um stjórn botnfiskveiða 1990, og fyrir hvern stærðarflokk smábáta, sbr. 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II, hversu mikill hluti heildarársafla flokksins af hverri tegund hefur verið veiddur á fyrstu átta mánuðum ársins að meðaltali á sama árabili.
    Hlutdeild hvers skips í heildarafla hverrar tegundar á framangreindu átta mánaða tímabili á árinu 1991 skal vera föst aflahlutdeild skipsins af viðkomandi tegund deilt með hlutfalli átta mánaða heildarveiða af tegundinni skv. 1. málsl. 3. mgr., en margfaldað með hlutfalli átta mánaða veiða flokksins skv. 2. málsl. 3. mgr.
    Ráðherra skal með hliðstæðum hætti ákveða heildarafla af úthafsrækju á fyrstu átta mánuðum ársins 1991 og hlutdeild einstakra skipa í honum.

IV.


    Aflahlutdeild til veiða á loðnu, síld og humri skal úthlutað á grundvelli hlutdeildar viðkomandi skips í heildarúthlutun á því veiðitímabili eða vertíð sem síðast lauk fyrir gildistöku laga þessara.
    Aflahlutdeild á svæðisbundnum veiðum á innfjarðarrækju og hörpuskelfiski skal úthlutað í samræmi við hlutdeild viðkomandi skips í heildarúthlutun á viðkomandi veiðisvæði á því veiðitímabili sem síðast lauk fyrir gildistöku laga þessara.

V.


    Óheimilt er að framselja aflahlutdeild skips skv. 3. mgr. 11. gr. án þess að skip hverfi varanlega úr rekstri og sé afmáð af skipaskrá, nema fyrir liggi samþykki þeirra aðila sem samningsveð áttu í skipinu við gildistöku laga þessara.

VI.


    Sjávarútvegsráðherra skal þegar eftir gildistöku laga þessara skipa nefnd er kanni hvort og þá með hvaða hætti mögulegt sé að koma við vigtun hérlendis á afla sem fluttur er óunninn úr landi. Nefnd þessi skal skipuð fulltrúum útgerðar, sjómanna og fiskvinnslu, auk formanns er ráðherra skipar. Skal hún skila tillögum sínum eigi síðar en hálfu ári eftir gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 3 8. janúar 1988, um stjórn fiskveiða 1988–1990, var kveðið á um að sjávarútvegsráðherra skuli skipa nefnd eftir tilnefningu þingflokka og helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Nefndinni var falið að undirbúa tillögur um fyrirkomulag fiskveiðistjórnar að loknum gildistíma laganna. Í starfi sínu skyldi nefndin m.a. kanna áhrif laga um stjórn fiskveiða á afkomu og hagkvæmni í sjávarútvegi og athuga tilhögun veiðiheimilda, m.a. heimilda sem ekki eru bundnar við skip. Jafnframt var nefndinni falið að móta tillögur um breytingar á gildandi lögum eftir því sem tilefni gefst til. Þá var kveðið á um að nefndin skuli skila fyrsta áliti eigi síðar en haustið 1989.
    Að fengnum tilnefningum samkvæmt ákvæði laganna voru eftirtaldir aðilar skipaðir í nefndina af sjávarútvegsráðherra 13. júlí 1988: Guðjón A. Kristjánsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, til vara Helgi Laxdal, Lárus Jónsson frá Félagi rækju- og hörpudiskframleiðenda, Árni Benediktsson frá Félagi Sambandsfiskframleiðenda, Þorsteinn Gíslason frá Fiskifélagi Íslands, Jakob Jakobsson frá Hafrannsóknastofnun, Kristján Ragnarsson og Sigurður Einarsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Arthur Bogason frá Landssambandi smábátaeigenda, til vara Örn Pálsson, Óskar Vigfússon frá Sjómannasambandi Íslands, Jón Ingvarsson frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, til vara Arnar Sigmundsson, Dagbjartur Einarsson frá Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda, Þröstur Ólafsson frá Verkamannasambandi Íslands, Skúli Alexandersson frá þingflokki Alþýðubandalagsins, Eiður Guðnason frá þingflokki Alþýðuflokksins, til vara Karl Steinar Guðnason, Hreggviður Jónsson frá þingflokki Borgaraflokksins, Stefán Guðmundsson frá þingflokki Framsóknarmanna, Unnur Steingrímsdóttir frá þingflokki Samtaka um kvennalista, til vara Kristín Halldórsdóttir, Guðmundur H. Garðarsson og Halldór Blöndal frá þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Þórður Friðjónsson frá Þjóðhagsstofnun, Jón B. Jónasson og Árni Kolbeinsson, sem jafnframt er formaður nefndarinnar, tilnefndir af sjávarútvegsráðherra.
    Á starfstíma nefndarinnar tók Jón Kjartansson sæti Þrastar Ólafssonar sem hvarf til annarra starfa. Þá urðu þær breytingar á skipan nefndarinnar að Guttormur Einarsson, starfsmaður þingflokks Borgaraflokksins, tók sæti Hreggviðs Jónssonar sem fulltrúi Borgaraflokksins, en jafnframt var Hreggviður tilnefndur af hálfu Frjálslynda hægriflokksins. Þá var Jóhann A. Jónsson framkvæmdastjóri tilnefndur af hálfu Samtaka jafnréttis og félagshyggju.
    Ritarar nefndarinnar voru Gylfi Gautur Pétursson og Kristján Skarphéðinsson, deildarstjórar í sjávarútvegsráðuneytinu.
    Nefndin hóf störf haustið 1988. Eins og fyrri nefndir, sem þessu verkefni hafa sinnt, hefur hún verið kölluð ráðgjafarnefnd um fiskveiðistefnu. Strax í upphafi starfsins ákvað nefndin í ljósi þess hve verkefnið var umfangsmikið að nefndarmenn skyldu starfa í fjórum vinnuhópum sem hver um sig hafði afmarkað verksvið. Fyrir hvern vinnuhóp var settur verkefnastjóri úr hópi nefndarmanna, en auk þess störfuðu tveir starfsmenn með hverjum hópi. Hlutverk hópanna var að gera úttekt á þeim málaflokkum sem undir þeirra verksvið féllu, lýsa mögulegum leiðum til lausnar viðfangsefna, kostum þeirra og göllum.
    Viðfangsefni fyrsta hópsins var að fjalla um einstaklingsbundnar og almennar veiðitakmarkanir. Undir það féll m.a. ákvörðun heildarafla, veiðiheimildir og skipastóll og samanburður á aflakvótakerfi og öðrum meginleiðum við stjórn fiskveiða. Verkefnastjóri þessa hóps var Þorsteinn Gíslason fiskimálastjóri, en starfsmenn hópsins voru þau Arndís Steinþórsdóttir deildarstjóri og Ólafur Karvel Pálsson fiskifræðingur. Annar hópurinn fjallaði um úthlutun eða sölu veiðiheimilda og skyldi hópurinn m.a. kanna áhrif fiskveiðistjórnar á aðra atvinnuvegi. Verkefnastjóri var Kristján Ragnarsson, formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, en starfsmenn Kristján Skarphéðinsson deildarstjóri og Þorkell Helgason prófessor. Þriðji hópurinn fékk það verkefni að fjalla um handhöfn og framsal veiðiheimilda. Í því fólst m.a. athugun á því hverjir gætu verið handhafar veiðiheimilda og til hve langs tíma og með hvaða takmörkunum slíkt forræði skyldi vera. Verkefnastjóri var Árni Benediktsson, framkvæmdastjóri, en starfsmenn voru Hólmgeir Jónsson framkvæmdastjóri og Ragnar Árnason prófessor. Fjórði hópurinn fjallaði um umfang og framkvæmd laga um fiskveiðistjórn, þar á meðal veiðar smábáta og tómstundaveiðar, ráðstöfun afla, upplýsingastreymi og almennt eftirlit. Hópstjóri var Guðjón A. Kristjánsson, forseti Farmanna- og fiskimannasambandsins, en starfsmenn hópsins voru þeir Benedikt Valsson hagfræðingur og Þórður Eyþórsson deildarstjóri.
    Hóparnir skiluðu álitsgerðum sínum sl. vor. Voru þær ræddar á fundi nefndarinnar í maímánuði. Mátti ráða af niðurstöðum hópanna að víðtæk samstaða væri í nefndinni um ýmis meginatriði varðandi fyrirkomulag fiskveiðistjórnunar. Ákvað nefndin að fela formanni hennar í samvinnu við verkefnastjóra vinnuhópanna að vinna um sumarið að mótun tillagna er byggðu á niðurstöðum hópanna. Formaður og verkefnastjórar sömdu drög að frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða, ásamt minnisatriðum um ýmis álitamál sem þeir voru sammála um að leggja fyrir nefndina sem umræðugrundvöll. Drögin voru kynnt í ráðgjafarnefndinni snemma á þessu hausti og hafa þau verið til umfjöllunar í nefndinni frá þeim tíma. Auk þess hafa þau verið til kynningar og umfjöllunar á þingum og fundum allra helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi á þessu hausti. Hafa ýmsar breytingar verið gerðar frá upphaflegu drögunum. Það frumvarp, sem hér liggur fyrir, eru tillögur nefndarinnar um fyrirkomulag fiskveiðistjórnar að loknum gildistíma núgildandi laga.
    Í tillögum nefndarinnar er gert ráð fyrir eftirfarandi meginbreytingum frá gildandi lögum:
1.     Lögin verði ótímabundin eins og algengast er um lagasetningu hér á landi.
2.     Botnfiskveiðiheimildir verði miðaðar við tímabilið 1. september til 31. ágúst ár hvert, en ekki almanaksárið eins og nú er. Nefnist þetta tímabil fiskveiðiár.
3.     Útgáfa veiðileyfa verði einfölduð verulega frá því sem nú er og gerð eru skil milli veiða í atvinnuskyni og tómstundaveiða.
4.     Óheimilt verði að fjölga öllum gerðum og stærðum fiskiskipa sem fá leyfi til veiða í atvinnuskyni. Jafnframt verða teknar upp samræmdar endurnýjunarreglur fyrir þessi skip.
5.     Tekið verði upp eitt samræmt aflamarkskerfi. Aflahlutdeild einstakra fiskiskipa verði ákvörðuð í upphafi árs 1991 á þeim tegundum sem sæta ákvæðum um leyfilegan heildarafla. Sóknarmark verði afnumið og sérreglum um veiðar smábáta fækkað frá því sem nú er.
6.     Tekin verði upp opinber tilkynningarskylda við sölu á fiskiskipum.
7.     Hámarksálag vegna útflutnings á óunnum þorski og ýsu verði hækkað úr 15% í 20%, en hámarksálag á öðrum botnfisktegundum verði 15% sem er óbreytt frá gildandi lögum.
8.     Flestar meginreglur fiskveiðistjórnar verði lögbundnar og þeim atriðum, sem ætluð eru ráðherra til ákvörðunar, verði fækkað.
    Fram á síðasta áratug voru litlar hömlur á fjölgun fiskiskipa og aukningu afkastagetu fiskiskipaflotans. Þar sem fiskveiðiauðlindin er sameiginleg auðlind telur enginn einstakur útgerðarmaður sér hag í því að takmarka sókn sína til að vernda fiskstofna eða auka hagkvæmni veiðanna í heild. Þvert á
móti er frá sjónarhóli hvers einstaks útvegsmanns skynsamlegt og á stundum nauðsynlegt að auka veiðimöguleikana með viðbótarfjárfestingum til að ná sem stærstum hluta aflans eða halda sinni aflahlutdeild í heildarveiðinni. Ótakmarkaður aðgangur að þessari sameiginlegu auðlind leiðir því óhjákvæmilega til óþarfrar fjárfestingar, minnkandi hagkvæmni í útgerð og getur stefnt fiskstofnum í hættu.
    Frá styrjaldarlokum hefur fjárfesting í sjávarútvegi aukist margfalt á við aukningu aflaverðmætis. Á meðan erlendir fiskveiðiflotar voru í opinni samkeppni við íslenska flotann um aflann á Íslandsmiðum var óraunhæft að tala um verndun fiskstofna eða takmörkun sóknar. Slíkar einhliða aðgerðir hefðu einungis orðið til þess að draga úr hlutdeild Íslendinga í heildaraflanum. Eftir að sigur vannst í landhelgismálinu árið 1976 og Íslendingar fengu einir forræði á 200 mílna fiskveiðilögsögunni sköpuðust hins vegar forsendur til að takmarka sóknina. Hin gífurlega fjárfesting í fiskiskipaflotanum á árunum upp úr 1970 leiddi til þess að afkastageta fiskiskipaflotans varð bersýnilega meiri en afrakstursgeta fiskstofnanna og varð þess valdandi að síðar reyndist nauðsynlegt að grípa til stjórnar á fiskveiðum.
    Á árinu 1977 voru í fyrsta sinn á grundvelli tillagna Hafrannsóknastofnunarinnar innleiddar almennar takmarkanir á þorskveiðum. Hjá bátaflotanum skyldi netaveiðum á vetrarvertíð hætt þegar ákveðnu þorskaflamagni væri náð. Togaraflotanum var hins vegar beint til veiða á öðrum fiskstofnum með því að takmarka það hlutfall sem þorskur mátti vera af heildarafla á ákveðnum veiðitímabilum. Þessi aðferð við fiskveiðistjórn, sem kölluð var skrapdagakerfi, var óbreytt við lýði fram til 1983. Þessi sóknarstjórn var á ýmsan hátt gölluð. Í fyrsta lagi tókst ekki að hafa tilætlaðan hemil á þorskveiðum og fór heildarþorskaflinn oft langt fram úr settum mörkum. Í öðru lagi leiddi kerfið til of mikillar sóknar í aðra botnfiskstofna en þorsk og voru menn t.d. farnir að hafa áhyggjur af karfastofninum. Í þriðja lagi leiddi þetta fyrirkomulag til óhóflegs sóknarkostnaðar vegna harðrar samkeppni um að ná sem stærstum hlut takmarkaðs afla.
    Á árunum 1982 og 1983 dró verulega úr þorskveiði þrátt fyrir mikla sókn. Sýnt þótti að ástand þorskstofnsins væri orðið það slæmt að draga þyrfti verulega úr sókn. Eftir víðtækt samráð milli sjávarútvegsráðuneytisins og hagsmunaaðila í sjávarútvegi var ákveðið að taka upp gjörbreyttar aðferðir við stjórn botnfiskveiða. Tekið var upp fyrirkomulag við fiskveiðistjórn er byggði á úthlutun aflakvóta til einstakra skipa. Var það í upphafi lögleitt til eins árs, þ.e. fyrir árið 1984. Síðan hafa lögin um stjórn fiskveiða verið framlengd þrívegis með nokkrum breytingum. Í grundvallaratriðum hefur stjórn fiskveiða byggt á sömu meginreglum frá árinu 1984.
    Á árinu 1984 var afkastageta fiskiskipaflotans orðin mun meiri en afrakstursgeta fiskstofnanna. Var það meginástæða þess að takmarkanir kvótakerfisins voru taldar nauðsynlegar. Margir eigendur fiskiskipa sættu sig illa við sína hlutdeild er byggði á veiðireynslu áranna 1981–1983. Töldu margir þeirra sinn hlut ónógan til að tryggja áframhaldandi rekstur skipa sinna og þótti kvótakerfið sníða sér of þröngan stakk. Mörgum fannst einnig að aflareynsla þessara ára gæfi þeim hvorki rétta né sanngjarna viðmiðun í kvótakerfinu. Til að koma til móts við þessi sjónarmið var í upphafi kvótakerfisins veitt takmörkuð heimild til að velja sóknarmark í stað aflamarks. Reglur um sóknarmark hafa breyst nokkuð á þeim árum sem kvótakerfið hefur verið í gildi.
    Veiðum úr nær öllum nytjastofnum er nú stýrt með úthlutun aflakvóta til einstakra skipa. Einstaklingsbundnir aflakvótar eiga sér raunar lengri sögu í ýmsum sérveiðum en í botnfiskveiðum. Aflakvóta var fyrst úthlutað árið 1976 við stjórn síldveiða. Um sérveiðar gilda um margt líkar reglur og um botnfiskveiðarnar. Munurinn felst fyrst og fremst í því að ekki gefst kostur á sóknarmarki nema í botnfiskveiðum og þar hefur sjávarútvegsráðuneytið heldur rýmri lagaheimildir til að breyta kvótaúthlutuninni, t.d. ef skip með sérveiðiheimild flyst á milli landshluta.
    Tilgangur lagafrumvarps þessa er að marka meginreglur varðandi framtíðarskipan stjórnar fiskveiða og skapa grundvöll fyrir hagkvæmri og skynsamlegri nýtingu fiskstofnanna. Frumvarpinu er ætlað að skapa sjávarútveginum almenna umgjörð og leikreglur. Innan þessa ramma er þeim er við sjávarútveg vinna hins vegar falið að taka ákvarðanir á þann hátt sem þeir telja hagkvæmastan. Með því að nýta þekkingu og dugnað þeirra er gerst til þekkja má ætla að hámarksafrakstri af fiskveiðiauðlindinni verði náð fyrir þjóðfélagið í heild.
    Í frumvarpinu eru mun færri atriði ætluð ráðherra til ákvörðunar en í gildandi lögum. Það er þó óhjákvæmilegt að fela framkvæmdarvaldinu að taka ákvarðanir um þætti sem fyrirsjáanlega geta verið miklum breytingum undirorpnir, t.d. heildaraflamagn einstakra fisktegunda og ýmis smærri framkvæmdaratriði. Allar grunnreglur eru þó lögbundnar samkvæmt frumvarpinu, bæði að því er varðar botnfiskveiðar og sérveiðar.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lögin verði ótímabundin. Þetta er algengasta form löggjafar á Íslandi og þarf því í sjálfu sér ekki sérstaks rökstuðnings við. Með þessu skapast nauðsynlegar forsendur til að byggja á ákvarðanir um fjárfestingar og önnur þau atriði er langtímaáhrif hafa. Er hafið yfir allan vafa að langur gildistími er forsenda þess að það hagræði náist sem fiskveiðistjórnin býður upp á, t.d. varðandi flotastærð. Þar sem lögunum er ætlaður ótakmarkaður gildistími eru í meginmáli þeirra einungis þau ákvæði er varanlega þýðingu hafa. Þau atriði, er einungis varða framkvæmd við gildistöku, eins og t.d. upphafleg úthlutun veiðiheimilda, eru í ákvæðum til bráðabirgða.
    Lagt er til að fiskveiðiárið hefjist 1. september hvert ár og ljúki 31. ágúst ári seinna. Hér er um að ræða róttæka breytingu frá gildandi lögum. Til að gera þessa framkvæmd mögulega þurfa tillögur Hafrannsóknastofnunar að koma fram fyrir 1. ágúst hvert ár. Meginkostir þessa fyrirkomulags eru að flestar vertíðir eða veiðitímabil falla innan þessa ramma. Þá er slíkt fyrirkomulag til þess fallið að draga úr aflatoppum yfir sumarmánuðina, en sá fiskur hefur að öllu jöfnu nýst fiskvinnslunni illa. Þá er mikilvægt út frá allri áætlanagerð um þróun og framvindu efnahagsmála að upplýsingar um leyfilegt aflamagn liggi fyrir snemma á haustin. Hins vegar skapar þetta fyrirkomulag einnig vandamál sérstaklega hvað varðar úthlutun veiðiheimilda við upphaf slíks kerfis því að veiðiheimildum verður einungis úthlutað til átta mánaða á fyrsta ári.
    Miðað er við að allar veiðar verði leyfisbundnar og jafnframt er lagt til að útgáfa leyfa til veiða í atvinnuskyni verði einfölduð mikið frá því sem nú er. Er gert ráð fyrir að árlega verði öllum þeim skipum, sem fullnægja almennum ákvæðum laganna, veitt eitt almennt veiðileyfi. Þetta leyfi veitir heimild til að veiða þær tegundir, sem ekki sæta sérstöku aflamarki, með þeim takmörkunum sem leiðir af almennum reglum um veiðisvæði, veiðarfæri og veiðitíma. Er við það miðað að útgáfa leyfa til sérveiða hverfi að mestu. Þrátt fyrir þessa almennu stefnumörkun þykir nauðsynlegt að hafa allvíðtæka heimild til að ákveða útgáfu sérveiðileyfa ef sérstaklega stendur á. Meðal slíkra tilvika má nefna dragnótaveiðar, veiðar í tilraunaskyni o.s.frv. Í frumvarpinu er gerð tillaga að nýmæli um leyfi til tómstundaveiða og mörk ákveðin milli tómstundaveiða og veiða í atvinnuskyni.
    Gert er ráð fyrir að eftir sem áður verði óheimilt að fjölga fiskiskipum og sú meginregla gildi áfram að því einungis geti nýtt eða nýkeypt skip fengið veiðileyfi að annað sambærilegt hverfi úr flotanum. Lagt er til að þessi regla verði framvegis einnig látin gilda um báta undir 6 brl. að því er veiðar í atvinnuskyni varðar. Ef þær meginreglur, sem lagt er til að lögbundnar verði í frumvarpinu, festast í sessi ætti þegar frá líður að vera óhætt að afnema reglur um endurnýjun fiskiskipa. Reglur frumvarpsins hafa þau áhrif að menn munu ekki sjá sér hag í að auka afkastagetu fiskiskipa sinna því að það leiðir ekki til aukins afla. Stærð fiskiskipaflotans mun því aðlagast afrakstursgetu fiskstofnanna þegar fram líða stundir.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að öllum fiskiskipum, sem fá leyfi til veiða í atvinnuskyni, verði úthlutað fastri aflahlutdeild í leyfilegum heildarafla. Sóknarmark verði afnumið og sérreglum um veiðar smábáta verði fækkað verulega frá því sem nú er. Eins og áður hefur verið vikið að var sóknarmark tekið upp á sínum tíma til að koma til móts við sjónarmið þeirra sem höfðu laka aflareynslu á viðmiðunarárunum. Reglur um sóknarmark hafa breyst frá því að þær voru settar á árinu 1985. Á árunum 1986 og 1987 voru þessar reglur rúmar og urðu til þess að flestir útgerðaraðilar völdu þann kost, jafnvel fyrir þau skip sem höfðu bestu aflareynsluna. Sá möguleiki á aflaaukningu, sem sóknarmarkið gaf, hafði tvenns konar afleiðingar. Annars vegar olli það mikilli óvissu um heildarafla og var helsti skekkjuvaldur í spám um heildaraflamagn. Hins vegar leiddi ávinningur sóknarmarksskipa til skertrar aflahlutdeilar aflamarksskipa. Er gildandi lög voru sett var reynt að bæta úr þessu með því að lækka mögulegan ávinning sóknarmarksskipa og lögfesta þá reglu að heildarávinningur sóknarmarksskipa skerti ekki aflaúthlutun til aflamarksskipa. Í lögunum var ráðherra jafnframt veitt heimild til að setja hámark á aflaheimildir fyrir fleiri tegundir en þorsk. Auk aflahámarks á heimildir togara í þorski hefur aflahámark einnig verið sett á karfa og grálúðu. Á þessu ári eru veiðar stærstu bátanna takmarkaðar í sömu tegundum. Reglur um sóknarmark hafa einnig haft áhrif á fjárfestingar í fiskiskipaflotanum. Útgerðaraðilar hafa séð sér hag í því að auka afkastagetu skipa sinna til að auka aflaheimildir sínar. Fullvíst má telja að reglur um sóknarmark hafi átt mestan þátt í því að sú hagkvæmni, sem að var stefnt með upptöku kvótakerfisins 1984, hefur ekki náðst að fullu.
    Takmarkaður heildarafli leiðir til þess að nauðsynlegt er að setja reglur um veiðar smábáta til samræmis við þær reglur sem gilda um veiðar annarra skipa. Með gildandi lögum voru í fyrsta skipti settar skorður við fjölgun báta milli 6 og 10 brl. og aflahámark sett á allar netaveiðar báta minni en 10 brl. Sýnt er að þrátt fyrir þær takmarkanir, sem settar hafa verið á veiðar og fjölgun þessara báta, hefur hlutdeild þeirra í heildarafla aukist. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að öllum bátum minni en 10 brl., sem stunda veiðar í atvinnuskyni, verði úthlutað aflamarki er byggir á eigin aflareynslu. Þá er gert ráð fyrir að sömu reglur gildi um aflamark smábáta og gilda um skip stærri en 10 brl. Bátum minni en 6 brl. gefst auk þess kostur á að stunda veiðar með línu og handfærum auk dagatakmarkana. Jafnframt eru sett inn ákvæði sem eiga að tryggja að hlutur þessara báta í heildaraflanum aukist ekki verulega umfram það sem nú er.
    Sé talið nauðsynlegt að takmarka veiðar á einhverjum stofni sjávardýra skal sjávarútvegsráðherra ákveða heildaraflamark fyrir tegundina á komandi vertíð, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar. Er gert ráð fyrir að aflaheimildum af hverri einstakri tegund verði síðan skipt milli einstakra skipa eftir nánar tilgreindum reglum. Hlutdeild hvers skips í leyfilegum heildarafla viðkomandi tegundar nefnist aflahlutdeild og helst óbreytt frá ári til árs. Árlegar veiðiheimildir hvers skips breytast því til hækkunar eða lækkunar í hlutfalli við breytingar á leyfilegu heildaraflamagni hverrar tegundar. Árleg veiðiheimild skips af tiltekinni tegund nefnist aflamark þess. Almennt veiðileyfi ásamt tilkynningu ráðuneytis til skips um aflamark þess af viðkomandi tegund á yfirstandandi veiðitímabili eru þau skilríki sem skip þarf til viðkomandi veiða. Reglur um úthlutun aflahlutdeildar yrðu að mestu lögbundnar þannig að ákvörðun árlegs leyfilegs heildarafla hverrar tegundar yrði mikilvægasta ákvörðunin sem stjórnvöldum væri falin. Þó er ráðherra heimilað að grípa til tímabundinna ráðstafana verði verulegar breytingar á magni eða verðmæti sérveiða milli ára.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að úthlutun aflahlutdeildar við gildistöku laganna taki mið af þeim aflaheimildum sem viðkomandi skip hafði fyrir gildistöku þeirra. Hlutdeild í loðnu, síld og humri er beinlínis leidd af hlutdeild einstakra skipa síðasta veiðitímabil fyrir gildistöku laganna. Hins vegar er lagt til að til mótvægis við afnám sóknarmarksins verði aflamark þeirra skipa, sem hafa lítið aflamark í botnfiski og úthafsrækju, endurskoðað. Í frumvarpinu er við það miðað að skipaflokkar í sóknarmarki ráði meðaltali þess aflamarks sem uppbætur miðast við.
    Lagt er til að ákvæði um heimild til geymslu veiðiheimilda milli ára í botnfiski, úthafsrækju, síld og humri verði rýmkað verulega frá gildandi lögum en heimild til millifærslu milli botnfisktegunda verði þrengd. Ákvæði um undirmálsfisk verði óbreytt frá gildandi lögum. Gert er ráð fyrir að hámarksálag á kvóta vegna útflutnings á þorski og ýsu verði hækkað úr 15% í 20%. Hámarksálag í öðrum tegundum verði óbreytt frá gildandi lögum eða 15%. Jafnframt er í ákvæði til bráðabirgða VI kveðið á um skipun nefndar til að koma með tillögur um vigtun þess afla sem fluttur er óunninn úr landi. Þá er lagt til að línuafli í janúar, febrúar, nóvember og desember verði að hálfu utan aflamarks, en í gildandi lögum er heimild fyrir ráðherra að ákveða að línuafli skuli ekki eða aðeins að hluta teljast með í aflamarki eða sóknarmarki.
    Gert er ráð fyrir að aflahlutdeild fylgi skipi við sölu nema aðilar semji um annað. Einnig er lagt til að heimilt verði að flytja aflahlutdeild eða hluta hennar frá skipi, enda sé hún flutt til annars skips og flutningurinn leiði ekki til þess að veiðiheimildir viðtakanda verði bersýnilega umfram veiðigetu.
    Samkvæmt frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir neins konar bindingu aflahlutdeildar við byggðarlög eða landsvæði, en við það miðað að Byggðastofnun eða önnur stjórnvöld geti á hverjum tíma gripið til þeirra fjárhagsráðstafana er þurfa þykir til að hafa áhrif á byggðaþróun. Hins vegar eru sett ákvæði um tilkynningarskyldu þeirra aðila sem hyggjast selja fiskiskip eða hluta af sínum veiðiheimildum varanlega. Er það gert til að skapa vissa tregðu í skipasölu og eins til að gefa heimaaðilum færi á að bjóða í þau skip sem til sölu kunna að vera. Ekki er lögð til breyting á gildandi lögum hvað varðar umsagnarrétt sveitarstjórna og viðkomandi sjómannafélags áður en ráðuneytið staðfestir færslu aflamarks milli byggðarlaga. Þá er lagt til að skip, sem ekki nýta verulegan hluta sinna veiðiheimilda tvö ár í röð, missi þær að öllu leyti.
    Lagt er til að framkvæmd vigtunar sjávarfangs verði samræmd og eftirlit með henni eflt. Afli verði ávallt veginn á löndunarstað og hafnaryfirvöldum fengin yfirumsjón með vigtunarmálunum. Vigtarskýrslur um landaðan afla yrðu samkvæmt þessu þær grunnupplýsingar sem stjórn fiskveiða og allar opinberar upplýsingar um fiskveiðar byggja á, en kvótaskýrslur útgerða og skýrslur kaupenda afla í núverandi mynd yrðu afnumdar. Samhliða þessu yrði öllum skipstjórum gert að halda afladagbækur þar sem mikilvægustu upplýsingar um veiðar og afla væru skráðar jafnóðum og fullnægði dagbókin í senn þörfum Hafrannsóknastofnunar og fiskveiðistjórnar. Sérstök skýrslugjöf til Hafrannsóknastofnunar yrði jafnframt afnumin. Loks yrði kaupendum afla skylt að skila reglulega framleiðsluskýrslum. Með þessu er ætlunin að tryggja skilvirkt eftirlitskerfi með sem minnstri fyrirhöfn fyrir skýrslugjafa.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að kostnaður við veiðieftirlit verði greiddur að hálfu af þeim sem fá leyfi til að stunda fiskveiðar í atvinnuskyni í samræmi við nýsamþykkt lög um veiðileyfisgjald. Gjöld þessi verða tengd aflaheimildum skipa og tekjum af þeim varið sérstaklega til veiðieftirlits.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði nokkrar breytingar á lögum nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.
    Lagt er til að felld verði úr gildi 10. gr. laga nr. 81/1976, en í þeirri grein eru ákvæði um takmarkaða heimild til handa ráðherra til þess að setja hámark þess afla sem veiða má af hverri fisktegund á tilteknu tímabili, vertíð eða heilu ári. Með hliðsjón af 3. gr. þessa frumvarps þykir eðlilegt að fella þessa grein úr gildi.
    Þá er lagt til að felld verði úr gildi 14. gr. laga nr. 81/1976 um leyfisbindingu veiða og í stað hennar komi 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins.
    Í gildandi lögum nr. 81/1976 eru ákvæði um dragnótaveiðar í 2. mgr. 2. gr. og 14. gr. Í 2. mgr. 2. gr. laganna er gert ráð fyrir að allar dragnótaveiðar séu bannaðar í íslenskri fiskveiðilögsögu, en ráðherra er síðan heimilt að veita sérstök leyfi til þeirra veiða skv. 14. gr. Samkvæmt þeirri breytingu, sem felst í frumvarpi þessu, er gert ráð fyrir að dragnótaveiðar séu leyfilegar, en ráðherra geti síðan í reglugerð, sbr. 4. gr., kveðið nánar á um skipulag þeirra. Er markmiðið m.a. með þessari breytingu að gera útgáfu veiðileyfa einfaldari en nú er.
    Í lögum nr. 81/1976 eru allar togveiðiheimildir lögbundnar og ráðherra hefur í raun aðeins heimild til þrengingar á þeim togveiðiheimildum með veiðibönnum og skiptingu veiðisvæða milli veiðarfæra. Í frumvarpi þessu er lagt til að ráðherra sé heimilt að leyfa veiðar með vörpu á vannýttum fisktegundum á ákveðnum svæðum samkvæmt nánari reglum er hann setur.
    Breytingar þær, sem hér er lagt til að gerðar verið á lögum nr. 81/1976, eru efnislega eins og þær breytingar er gerðar voru á lögum nr. 81/1976 með lögum nr. 97 20. desember 1985, um stjórn fiskveiða 1986–1987, og lögum nr. 3 8. janúar 1988, um stjórn fiskveiða 1988-1990. Verði breytingar þessar að lögum má segja að eftir standi í lögum nr. 81/1976 aðeins ákvæði sem snerta togveiðiheimildir fiskiskipa, skiptingu veiðisvæða milli veiðarfæra og enn fremur ákvæði sem lúta að verndun fiskstofna með veiðibönnum og svæðalokunum. Enn fremur eru ýmsar reglur um útbúnað veiðarfæra settar með stoð í þessum lögum. Öll önnur helstu ákvæði um skipulag veiða við Ísland eru í frumvarpi þessu.
    Fiskstofnarnir við Ísland eru helsta auðlind íslensku þjóðarinnar. Lífskjör þjóðarinnar ráðast að miklu leyti af því hvernig til tekst um nýtingu þeirra. Með frumvarpi þessu er að því stefnt að setja almennar leikreglur um fyrirkomulag fiskveiða er stuðli að sem mestum afrakstri úr þessari takmörkuðu auðlind.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Grein þessi er efnislega samhljóða 1. gr. núgildandi laga um stjórn fiskveiða. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru langmikilvægasta auðlind íslensku þjóðarinnar og forsenda fyrir þeirri þróun íslensks efnahagslífs og íslensks samfélags er orðið hefur á þessari öld. Það hefur kostað Íslendinga mikla baráttu að ná forræði yfir þessari auðlind. Með fyrsta málslið greinarinnar er minnt á mikilvægi þess að varðveita fullt forræði Íslendinga yfir henni. Jafnframt felst í þessu sú sjálfsagða stefnumörkun að markmiðið með stjórn fiskveiða er að nýta fiskstofnana til hagsbóta fyrir þjóðarheildina. Enda þótt frumvarpið byggi á því að fiskstofnarnir verði skynsamlegast nýttir með því að fela þeim sem daglega starfa að fiskveiðum víðtækt ákvörðunarvald í þessum efnum má það ekki verða til þess að með því verði talin myndast óafturkallanlegt og stjórnarskrárvarið forræði einstakra aðila yfir auðlindinni. Það verður að vera ákvörðunarefni löggjafans á hverjum tíma hvaða skipulag teljist best henta til að nýta þessa sameign þjóðarinnar með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Síðari málsliður greinarinnar er svipaður upphafsákvæði laga nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Með því móti einu að tryggja hámarksafrakstur nytjastofnanna til langs tíma með lágmarkstilkostnaði er unnt að skapa traustar forsendur fyrir atvinnu og byggð í landinu.

Um 2. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um gildissvið frumvarpsins. Frumvarpið nær til nýtingar á lífrænum auðlindum, hvort sem er úr jurta- eða dýraríkinu, á hafsbotni eða í hafinu yfir honum, innan fiskveiðilandhelgi Íslands. Fiskveiðilandhelgin er skilgreind sem hafsvæðið frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands eins og þau eru skilgreind á hverjum tíma, sbr. nú lög nr. 41 1. júní 1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Fiskveiðilandhelgin nær því yfir tvö belti umhverfis landið, annars vegar hina eiginlegu landhelgi næst landinu, sbr. I. kafla laga nr. 41/1979, og hins vegar efnahagslögsöguna sem tekur við utan landhelginnar, sbr. II. kafla laga nr. 41/1979. Í þessu sambandi er þó rétt að benda á að forræði íslenskra stjórnvalda til að setja reglur um veiðar íslenskra skipa er ekki bundið við landhelgina, sbr. lög nr. 34 17. maí 1976, um veiðar íslenskra skipa utan fiskveiðilandhelgi Íslands. Er ekki gert ráð fyrir að gildi þeirra laga verði haggað með frumvarpi þessu. Reglur um nýtingu lífvera á hafsbotni á landgrunni Íslands utan fiskveiðilögsögu, sbr. III. kafla laga nr. 41/1979, yrðu einnig byggðar á þeirri löggjöf.

Um 3. gr.


    Með þessari grein er lagt til að lögfest verði sú meginregla að sé talin þörf á að takmarka veiðar af einhverjum stofni sjávardýra skuli það gert með þeim hætti að ráðherra ákveði leyfilegan heildarafla úr stofninum. Ráðherra ber að taka þessa ákvörðun að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, en er ekki bundinn við að fara eftir þeim tillögum. Er þetta sú aðferð sem beitt hefur verið varðandi ákvörðun heildarafla úr fiskstofnum við Ísland á undanförnum árum, en í núgildandi lögum um stjórn fiskveiða er hún einungis lögbundin varðandi botnfiskveiðar. Hafrannsóknastofnunin gefur árlega út skýrslu um nytjastofna sjávar og umhverfisþætti og er þar að finna tillögur um hámarksafla á komandi veiðitímabili. Hefur það verið keppikefli Hafrannsóknastofnunarinnar að flýta árlegri útgáfu þessarar skýrslu þannig að hún birtist í júní eða júlímánuði ár hvert.
    Í 2. mgr. eru nánari ákvæði varðandi ákvörðun heildarafla af einstökum tegundum. Er þar greint á milli botnfisktegunda annars vegar og annarra nytjastofna hins vegar. Ákvörðun um heildarafla af þeim síðarnefndu skal tekin með hæfilegum fyrirvara fyrir upphaf viðkomandi vertíðar eða veiðitímabils. Aðstæður varðandi einstaka stofna eru svo mismunandi og breytilegar að hvorki er talið fært að binda tiltekin veiðitímabil í lög eða lögbinda að ákvörðun um heildarafla sé tekin með nákvæmlega tilgreindum fyrirvara fyrir upphaf veiðitímabils. Ákvarðanir um veiðitímabil varðandi þessa stofna eru því faldar ráðherra, sbr. hina almennu reglugerðarheimild í 13. gr. Öðru máli gegnir um botnfiskveiðarnar. Í núgildandi lögum er bæði veiðitímabil og tími til ákvörðunar á heildarafla lögbundinn varðandi þessar tegundir og er lagt til í frumvarpinu að svo verði einnig framvegis. Fram til þessa hefur veiði á þessum tegundum verið miðuð við almanaksárið. Í frumvarpinu er lagt til að á þessu verði gerð breyting og hvert veiðitímabil verði talið frá 1. september til 31. ágúst á næsta ári. Þessi aðskilnaður fiskveiðiárs og almanaksárs er rökstuddur með því að hagkvæmara sé að láta þá þurrð á veiðiheimildum, sem oft fylgir síðustu mánuðum hvers veiðitímabils, koma frekar niður á sumrinu en öðrum árstímum. Á þeim árstíma eru aflabrögð oft góð en fiskur verri til vinnslu en á öðrum árstímum og fiskvinnslan vanbúin að taka við miklum afla vegna sumarleyfa starfsfólks. Þessi breyting ætti því að stuðla að aukinni verðmætasköpun í sjávarútvegi. Tillaga þessa efnis var samþykkt á 48. fiskiþingi og fékk almennt fylgi á þingum og ársfundum flestra hagsmunasamtaka í sjávarútvegi á sl. hausti. Þá er lagt til að ráðherra taki ákvörðun um heildarafla á komandi veiðitímabili fyrir 1. ágúst ár hvert eða a.m.k. mánuði fyrir upphaf veiðitímabils. Samkvæmt núgildandi lögum skal slík ákvörðun tekin hálfum öðrum mánuði fyrir árslok. Með því að flýta þessari ákvörðun verða nauðsynlegar forsendur fyrir gerð þjóðhagsáætlunar og fjárlaga fyrir komandi ár fyrr ljósar. Á hinn bóginn er því ekki að neita að aðskilnaður fiskveiðiárs og almanaksárs getur gert þessar forsendur ótryggari. Þessi breyting á fiskveiðiárinu skapar vissa byrjunarörðugleika á því ári sem breytingin á sér stað. Í ákvæði til bráðabirgða III eru tillögur um hvernig á þeim skuli tekið. Loks er lagt til að heimild ráðherra til að auka eða minnka leyfðan heildarafla af þorski innan fiskveiðiársins verði bundin við að ákvörðun um breytingu sé tekin fyrir 15. apríl, en í gildandi lögum er slík takmörkun á heimild til að breyta fyrri ákvörðunum varðandi allar botnfisktegundir. Rökin að baki þessari reglu eru fyrst og fremst þau að hún sé nauðsynleg til að gæta jafnræðis milli mismunandi gerða fiskiskipa þar eð mikill hluti bátaflotans aflar verulegs hluta ársafla síns á vetrarvertíð. Þessi rök eru þungvægari varðandi þorsk en aðrar botnfisktegundir.

Um 4. gr.


    Með þessari grein er annars vegar lagt til að allar veiðar í fiskveiðilandhelginni verði leyfisbundnar en hins vegar að veruleg einföldun verði gerð varðandi útgáfu veiðileyfa.
    Samkvæmt núgildandi lögum eru botnfiskveiðar allra skipa stærri en 6 brl. háðar útgáfu sérstakra veiðileyfa sem og þorskfisknetaveiðar báta undir 6 brl. Veiðar á fjölmörgum öðrum fisktegundum eru háðar sérstökum leyfum og er lögbundið að slík leyfi þurfi til veiða á rækju, humri, skelfisk, síld og loðnu. Þau skip, sem stunda veiðar á mörgum fisktegundum, þurfa því að fá mörg veiðileyfi á ári hverju. Með frumvarpi þessu er ráðgert að þetta veiðileyfakerfi verði einfaldað til muna. Lagt er til að hvert fiskiskip þurfi aðeins eitt almennt veiðileyfi árlega og að þetta veiðileyfi veiti heimild til veiða á öllum þeim tegundum sjávardýra sem ekki sæta aflahámarki, en til veiða á þeim tegundum, sem aflahámarki sæta, þurfi að auki úthlutun aflamarks, sbr. 7. gr. Þrátt fyrir þessa almennu stefnumörkun í 1. mgr. greinarinnar er ráðherra
með 2. mgr. hennar veitt allvíðtæk heimild til að krefjast sérstakra veiðileyfa auk hins almenna. Á grundvelli þessarar heimildar gæti leyfisbinding til veiða með tilteknum veiðarfærum, t.d. dragnót, haldist með svipuðum hætti og verið hefur. Á sama hátt skapar þessi heimild möguleika til að leysa vandamál sem upp kunna að koma vegna staðbundinna veiða og vegna veiða í tilraunaskyni.
    Samkvæmt frumvarpinu verða allar veiðar nú leyfisbundnar. Bátar undir 6 brl., sem ekki stunda netaveiðar, þurfa því í fyrsta skipti á árinu 1991 að fá leyfi til veiðanna. Ástæða þess er sú að skv. 5. gr. frumvarpsins er lagt til að komið verði í veg fyrir frekari fjölgun fiskibáta undir 6 brl. að stærð. Til þess að slíkt sé mögulegt er óhjákvæmilegt að leyfisbinda veiðar þeirra. Jafnframt er óhjákvæmilegt að skilja á milli veiða í atvinnuskyni og tómstundaveiða því að ekki er ætlunin að takmarka fjölgun skemmtibáta eða banna mönnum að veiða sér fisk í soðið. Tekið skal fram að samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II eiga allir þeir sem selt hafa fisk á viðmiðunarárunum þess kost að fá aflahlutdeild og þar með árlegt aflamark og leyfi til veiða í atvinnuskyni án tillits til þess hvort veiðar á viðmiðunarárunum hafa verið stundaðar sem aðalstarf eða í frístundum. Um þetta efni vísast að öðru leyti til athugasemda með 6. gr.

Um 5. gr.


    Á undanförnum árum hafa gilt mjög strangar reglur varðandi endurnýjun fiskiskipaflotans. Hefur aðgangur að flotanum í raun verið lokaður og því aðeins heimilt að taka nýtt fiskiskip í notkun að sambærilegt skip hafi horfið úr rekstri. Rökin fyrir þessu eru augljós. Flotinn er of stór miðað við afrakstursgetu fiskstofnanna og því nauðsynlegt að sporna við frekari stækkun hans. Með grein þessari er því lagt til að þessi regla verði lögfest áfram.
    Þetta bann við fjölgun fiskiskipa hefur lengst af ekki náð til báta undir 10 brl. Þessum bátum hefur því fjölgað jafnt og þétt eða úr 1.475 bátum árið 1983 í 1.838 báta árið 1988. Jafnframt hefur þeim bátum af þessari stærð, sem selja afla, fjölgað verulega eða úr 815 bátum árið 1983 í 1.400 báta árið 1988. Óheft fjölgun smábáta, ásamt því að ekki hafa gilt sömu reglur um veiðar þeirra og annarra skipa, hefur leitt til þess að heildarafli smábátanna af botnfiski hefur jafnframt aukist ár frá ári eða úr 14.480 lestum þorskígilda árið 1983 í 40.122 lestir þorskígilda 1988. Þar sem heildaraflinn er takmarkaður er ljóst að óheft fjölgun fiskiskipa undir 10 brl. mun leiða til þess að minna verður til skiptanna og mun því leiða til minnkandi aflahlutdeildar þeirra sem fyrir eru. Þörf á að sporna við fjölgun smábáta hefur því verið ljós um alllangt skeið. Með núgildandi lögum um stjórn fiskveiða var stigið skref í þessa átt og settar skorður við fjölgun báta á bilinu 6 til 10 brl. Hins vegar var fjölgun minni báta engin takmörk sett. Ástæða þess var fyrst og fremst sú að menn sáu í hendi sér að erfitt yrði í framkvæmd að leyfisbinda allar veiðar án tillits til stærðar báta, en slík leyfisbinding er forsenda þess að unnt sé að takmarka fjölgun báta af þessum stærðarflokki. Smábátum hefur hins vegar haldið áfram að fjölga og komið hefur í ljós að mælingareglur eru svo rúmar að unnt er að hanna afkastamikil fiskiskip sem mælast innan við 6 brl. Er nú svo komið að ekki verður lengur vikist undan að taka á þessu máli þrátt fyrir alla framkvæmdaerfiðleika. Er lagt til að allar veiðar smábáta í atvinnuskyni verði framvegis bundnar sérstökum veiðileyfum á sama hátt og veiðar báta milli 6 og 10 brl. hafa verið leyfisbundnar undanfarin tvö ár. Einungis er hægt að fá leyfi til veiða í atvinnuskyni fyrir báta, sem skráðir eru hjá Siglingamálastofnun, innan mánaðar frá gildistöku laga þessara. Þá er og gefið þriggja mánaða svigrúm til að ljúka þeim bátum sem smíði er þegar hafin á. Eftir þann tíma er því aðeins unnt að fá veiðileyfi fyrir nýja báta að þeir komi í stað sambærilegra báta sem hverfa varanlega úr rekstri.

Um 6. gr.


    Í þessari grein eru nánari ákvæði um svonefnd tómstundaveiðileyfi. Ástæðan fyrir því að tillaga er gerð um veitingu leyfa til tómstundaveiða er skýrð í athugasemdum með 4. gr. Eins og þar kemur fram er ekki ætlunin að takmarka fjölgun skemmtibáta eða frelsi manna til að renna fyrir fisk sér til gamans. Allir, sem þess óska, geta því fengið þessi leyfi. Með þessari grein er því nánast verið að koma á skráningarskyldu þessara aðila og leggja áherslu á þann mun sem samkvæmt frumvarpinu er gerður á veiðum í atvinnuskyni og tómstundaveiðum. Það skal ítrekað að allir þeir sem stundað hafa fiskveiðar á bátum undir 10 brl. á viðmiðunarárunum og selt aflann, sbr. ákvæði til bráðabirgða II, eiga kost á atvinnuveiðileyfi með aflahlutdeild er byggir á reynslu viðmiðunaráranna og gildir einu hvort þær veiðar voru stundaðar sem aðalstarf, hlutastarf eða í frístundum. Þeim sem tómstundaveiðileyfi hafa er óheimilt að selja eða fénýta aflann á annan hátt. Þeim mundi þannig einnig óheimilt að verka aflann sjálfir í því skyni að selja afurðirnar. Til að auðvelda eftirlit er heimild tómstundaleyfishafa bundin við veiðar með handfærum án sjálfvirknibúnaðar, enda ekki þörf á stórvirkum veiðarfærum miðað við nýtingarheimildir á aflanum. Veiðar á stöng mundu að sjálfsögðu falla undir heimild greinarinnar. Gert er ráð fyrir að ráðherra ákveði með reglugerð gjald fyrir tómstundaveiðileyfi. Hér yrði um tiltölulega lágt fast gjald að ræða, hliðstætt gjöldum fyrir önnur opinber leyfi. Tekjur af gjaldinu renna til eflingar hafrannsókna.

Um 7. gr.


    Í þessari grein eru settar fram meginreglur frumvarpsins um stjórn fiskveiða. Þær eru í sjálfu sér mjög einfaldar í sniðum. Til þess að stunda fiskveiðar í atvinnuskyni þarf eitt almennt leyfi. Þetta leyfi veitir eitt sér heimild til veiða á þeim tegundum, sem ekki sæta heildaraflamörkum, með þeim takmörkunum þó sem leiðir af almennum reglum um veiðisvæði, veiðitíma og veiðarfæri, sbr. og 2. mgr. 4. gr. Til þess að mega veiða þær tegundir, sem heildarafli er takmarkaður á, þarf viðkomandi skip að auki að hafa aflamark af viðkomandi tegund. Veiðiheimildum á þeim tegundum, sem nauðsynlegt er hverju sinni að takmarka veiðar á, er skipt niður á milli einstakra skipa og hverju skipi úthlutað tilteknu hlutfalli af leyfðum heildarafla tegundarinnar, sbr. 8. gr. og ákvæði til bráðabirgða I, II og IV. Þetta hlutfall kallast aflahlutdeild skips og helst óbreytt milli ára. Veiðiheimildir hvers skips á einstöku veiðitímabili eru nefndar aflamark skipsins. Ræðst það annars vegar af hinni föstu aflahlutdeild skipsins og hins vegar af leyfðum heildarafla á viðkomandi veiðitímabili. Aflamark hvers skips af hverri tegund breytist því til hækkunar og lækkunar í sama hlutfalli og leyfður heildarafli af viðkomandi tegund.
    Tvö atriði geta þó valdið frávikum frá þessari meginreglu. Annars vegar telst hálfur línuafli í janúar, febrúar, nóvember og desember utan aflamarks skips skv. 6. mgr. 10. gr. Er hér um að ræða allverulegt magn, t.d. nam hálfur línuafli af þorski í þessum mánuðum u.þ.b. 11.000 lestum árið 1988 og ýsuaflinn tæpum 2.000 lestum. Breyting á þessum afla veldur augljóslega samsvarandi breytingum á hlutdeild einstakra skipa í heildaraflanum. Svo að dæmi sé tekið hefði 50% aukning þorskafla á línu í þessum mánuðum valdið u.þ.b. 3% lækkun á aflahlutdeild allra þeirra skipa sem þorskveiðiheimildir hafa hefðu ákvæði þessa frumvarps verið í gildi árið 1988. Við ákvörðun aflahlutdeildar einstakra skipa er ráðuneytinu ætlað að áætla árlega þann afla sem af þessum sökum er utan aflamarks. Hins vegar er ráðherra með 9. gr. frumvarpsins veitt heimild til að bregðast við verulegum tekjusveiflum sem af sérveiðum kunna að vera með því að auka eða minnka tímabundið botnfiskaflamark þeirra skipa sem viðkomandi sérveiðar stunda. Slíkar breytingar hafa að sjálfsögðu áhrif á botnfiskaflamark annarra skipa.
    Sjávarútvegsráðuneytinu er gert að senda sérstaka tilkynningu vegna hvers skips um aflamark þess í upphafi veiðitímabils. Gjaldtaka skv. 2. mgr. 18. gr. miðast við útgáfu þessarar tilkynningar. Nauðsynleg skilríki til veiða á þeim tegundum, sem háðar eru hámarksafla, eru því annars vegar almennt veiðileyfi skv. 4. gr., en hins vegar tilkynning um aflamark af viðkomandi tegund.

Um 8. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um hvernig ákveða skuli aflahlutdeild einstakra skipa ef til þess kemur á gildistíma laganna að takmarka þurfi veiðar á fleiri tegundum en nú sæta ákvæðum um leyfilegan heildarafla. Í ákvæðum til bráðabirgða I, II og IV er hins vegar kveðið á um ákvörðun aflahlutdeildar við gildistöku laganna af þeim tegundum sem nú sæta aflatakmörkunum.
    Sé samfelld veiðireynsla af viðkomandi tegund skal ákveða aflahlutdeild einstakra skipa á grundvelli aflareynslu síðustu þriggja ára. Sé slík aflareynsla hins vegar ekki fyrir hendi er ráðherra falið að ákveða skiptingu veiðiheimilda milli einstakra skipa og getur hann í þeim efnum tekið mið af ýmsum atriðum hliðstæðum þeim sem nú eru talin upp í 12. gr. laga nr. 3/1988. Mat á því hvort veiðireynsla sé svo samfelld að ákvæði 1. mgr. eigi við getur eflaust á stundum orðið vandasamt, en ráðherra verður að skera úr um það hverju sinni.

Um 9. gr.


    Með þessari grein er lagt til að ráðherra verði heimilað að bregðast við verulegum aflabresti eða aflaaukningu í sérveiðum eða miklum breytingum á verði sérveiðitegunda með því að breyta tímabundið botnfiskveiðiheimildum þeirra sérveiðiskipa sem í hlut eiga. Hliðstæð heimild er nú í lokamálsgrein 5. gr. laga nr. 3/1988. Hér er þó lagt til að löggjafinn setji framkvæmdarvaldinu heldur þrengri skorður varðandi beitingu heimildarinnar en gert er í gildandi lögum. Það eru einungis breytingar á tekjum af sérveiðum sem orðið geta tilefni til að heimildinni sé beitt. Ástæðan er einfaldlega sú að botnfiskveiðarnar eru slíkur burðarás í fiskveiðum okkar Íslendinga að engar aðrar veiðar eru þess megnugar að vega upp að neinu marki tekjusveiflur er þar kunna að verða. Greinin heimilar að verulegum tekjusveiflum af sérveiðum sé mætt með því að auka eða skerða tímabundið botnfiskaflamark þeirra skipa sem
þessar sérveiðar stunda. Forsenda þess að heimilt sé að beita ákvæðum greinarinnar er að breyting á aflatekjum af sérveiði sé svo mikil að hún valdi því að heildaraflaverðmæti þeirra skipa, er viðkomandi sérveiði stunda, víki að meðaltali meira en 20% frá meðalaflaverðmæti síðustu fimm ára. Sé þessum mörkum náð er það hins vegar lagt í mat ráðherra hvort eða að hvaða marki hann beitir heimildinni.

Um 10. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að reglur um sveigjanleika, að því er varðar heimild til tilfærslu milli tegunda, verði þrengdar allnokkuð frá því sem nú er. Eru breytingarnar tvíþættar. Í fyrsta lagi er lagt til að niður verði felld sú sérregla gildandi laga að engin takmörk séu á heimild til þess að breyta þorskaflamarki í aðrar tegundir. Reynslan hefur sýnt að full þörf er á að takmarka þessa heimild varðandi þorskinn með sama hætti og varðandi aðrar tegundir. Í öðru lagi er lagt til að heimild til að veiða umfram úthlutað aflamark af þorski verði felld niður, enda hefur reynslan sýnt að þessi heimild er í vaxandi mæli nýtt til fulls og þar með hættir hún að þjóna þeim tilgangi að skapa sveigjanleika í kerfinu. Á árinu 1989 kvað mikið að því að aflaheimildir væru fluttar milli skipa í árslok í þeim tilgangi einum að nýta samspil heimilda til millifærslu milli tegunda og millifærslu milli ára til að sem allra stærstum hluta flotans nýttist til fulls heimildin til að veiða umfram þorskaflamarkið gegn hlutfallslegri skerðingu á aflamarki annarra botnfisktegunda.
    Í 3. mgr. er lagt til að heimildin til að geyma aflamark milli ára verði rýmkuð að tvennu leyti. Annars vegar verði þessi heimild varðandi botnfiskinn aukin úr allt að 10% af aflamarki hverrar tegundar í allt að 20% en hins vegar verið opnuð heimild til að geyma 10% af aflamarki humars og síldar frá einu veiðitímabili til hins næsta, en slíkt er ekki heimilt samkvæmt gildandi lögum.
    Ákvæði 4. mgr. um heimild til að veiða 5% umfram aflamark hverrar botnfisktegundar gegn samsvarandi frádrætti frá aflamarki næsta fiskveiðiárs er samhljóða samsvarandi ákvæði í gildandi lögum.
    Í 6. mgr. er lagt til að fiskur, sem veiðist á línu í janúar, febrúar, nóvember og desember, skuli aðeins að hálfu teljast með í aflamarki skips á sama hátt og verið hefur. Rökin fyrir þessari sérreglu eru þau að með henni er hvatt til línuveiða sem skila mjög góðu hráefni, jafnframt því sem veiðum er beint á þann tíma ársins þegar hættast er við hráefnisskorti í fiskvinnslunni. Með þessu er vikið frá meginreglu frumvarpsins um að sem allra fæstar undantekningar skuli gerðar frá almennum reglum um stjórn fiskveiða með aflamarki. Við undirbúning málsins voru nokkuð skiptar skoðanir um hvort afnema ætti þessa sérreglu en niðurstaða 48. fiskiþings, sem og funda og þinga flestra annarra hagsmunasamtaka í sjávarútvegi, var að leggja til að henni yrði haldið í óbreyttri mynd. Í sömu málsgrein er einnig gerð tillaga um að núgildandi ákvæði um undirmálsfisk verði lögfest áfram í óbreyttri mynd.
    Í lokamálsgrein greinarinnar er ákvæði um álag vegna útflutnings á óunnum fiski. Lagt er til að hámarksálag verði hækkað úr 15% í 20% á þorski og ýsu, en hámarksálag vegna útflutnings á öðrum botnfisktegundum verði 15% eins og í ákvæðum gildandi laga. Þau sjónarmið, sem hér liggja að baki, eru að þorskur og ýsa nýtast innlendri fiskvinnslu betur og því beri að stefna að því að draga úr útflutningi á þessum tegundum. Þá er lagt til í ákvæði til bráðabirgða VI að gerð verði athugun á því hvort og þá með hvaða hætti hægt sé að koma við vigtun innan lands á þeim afla sem fluttur er óunninn úr landi.

Um 11. gr.


    Fyrri hluti 1. mgr. þessarar greinar er samhljóða upphafsákvæði 14. gr. gildandi laga og þarfnast ekki nánari skýringa. Með síðari hluta málsgreinarinnar er lagt til að dregið verði úr þeirri röskun sem skiptapi óhjákvæmilega hefur í för með sér með því að tryggja að útgerð skipa haldi aflamarki þess í 12 mánuði frá því að skip fórst enda þótt nýtt eða nýkeypt skip hafi ekki komið í þess stað. Með þessu móti eru líkur á að draga megi úr áhrifum skiptapans á hráefnisöflun og útgerð gefst ráðrúm til að afla nýs skips í stað þess sem fórst. Við upphaf fiskveiðiárs eða veiðitímabils á þessu 12 mánaða tímabili mundi þeim útgerðum, er í hlut eiga, úthlutað hlutfallslegu aflamarki miðað við tíma.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að veiðiréttindi fylgi skipi við sölu, nema aðilar geri skriflegt samkomulag sín á milli um annað. Er þetta ákvæði hliðstætt 2. mgr. 14. gr. gildandi laga en þó er lagt til að fellt verði niður það ákvæði að aldrei fylgi fiskiskipi við sölu hærra aflamark en nemur meðalaflamarki skipa í sama flokki og á sama svæði.
    Í 3. mgr. er lagt til að upp verði tekin skylda til að tilkynna opinberlega með mánaðarfyrirvara ef útgerð hyggst selja fiskiskip. Að undanförnu hefur nokkuð borið á því að skip séu fyrirvaralítið seld milli byggðarlaga og hefur þá oft gætt óánægju með að aðilum á útgerðarstað skipsins hafi ekki verið gefið ráðrúm til að bregðast við áformum um söluna. Með því að lögbinda tilkynningarskyldu um söluna er hugmyndin að slíkt ráðrúm gefist.
Heimamönnum gefst á þessum mánaðarfresti möguleiki á að leita samninga við þá útgerð sem hyggst selja fiskiskip og gera ráðstafanir til að stofna félög og leita lánafyrirgreiðslu í því sambandi eða til að grípa til annarra aðgerða til að tryggja hráefnisöflun. Með slíkri tilkynningarskyldu eru ekki að öðru leyti lagðar neinar beinar kvaðir varðandi sölu skips á þá útgerð sem hyggst selja. Í reynd er þó næsta víst að tilkynningarskyldan muni verða nokkur hemill á sölu skipa milli byggðarlaga og þar með koma til móts við sjónarmið um aukin tengsl skipa við byggðarlög án þess að kostum markaðshagkerfis sé fórnað á altari miðstýringar. Ef fyrirmæli um tilkynningarskylduna eru brotin hefur það samkvæmt frumvarpinu engin áhrif á einkaréttarlegt gildi sölunnar. Hins vegar fylgir aflahlutdeild skipi ekki í þeim tilvikum og mundi hún þá ganga til hlutfallslegrar aukningar á aflahlutdeild annarra skipa sem veiðiheimildir hafa af viðkomandi tegundum. Fyrirmæli þessarar málsgreinar gilda ekki við nauðungarsölu skips enda eru í þeim tilvikum þegar í gildi skýr fyrirmæli um opinberar tilkynningar varðandi fyrirhugaða sölu. Eðlilegt þykir að opnir bátar séu undanþegnir þessari tilkynningarskyldu.
    Í lokamálsgrein greinarinnar er fjallað um varanlegan flutning aflaheimilda milli skipa. Er þar opnuð heimild til að framselja aflahlutdeild skips að hluta eða öllu leyti og sameina hana aflahlutdeild annars skips. Fiskiskipum mun ekki fækka nema víðtæk heimild sé til þess að sameina aflaheimildir þeirra. Slík heimild er því nauðsynleg forsenda þess að það meginmarkmið frumvarpsins að samræma afkastagetu flotans afrakstursgetu fiskstofnanna náist. Í núgildandi lögum er takmörkuð heimild til slíkrar sameiningar og hefur hún þrátt fyrir skamman gildistíma laganna þegar haft þau áhrif að meira en 30 fiskiskip hafa horfið úr flotanum á síðustu tveimur árum. Sé fyrirhugað að framselja aflahlutdeild skips skal gæta sömu reglna um opinberar tilkynningar og þegar skip er selt og réttaráhrif þess, ef út af því er brugðið, eru hin sömu. Það er skilyrði fyrir framsali aflahlutdeildar að það leiði ekki til þess að veiðiheimildir þess skips, sem við tekur, verði bersýnilega umfram veiðigetu þess. Mat á því er í höndum ráðuneytisins, en ekki er til þess ætlast að strangt sé farið í sakirnar að þessu leyti. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á ákvæði til bráðabirgða V varðandi samþykki þeirra sem veð eiga í skipum við gildistöku laganna fyrir framsali aflaheimilda.

Um 12. gr.


    Í þessari grein er fjallað um heimildir til framsals aflamarks innan viðkomandi fiskveiðiárs eða veiðitímabils. Er lagt til að lögfestar verði áfram óbreyttar þær reglur sem nú gilda um þetta framsal skv. 13. gr. laga nr. 3/1988. Þessar reglur byggjast á málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða og hafa að flestu leyti reynst vel í framkvæmd. Þykir því ekki ástæða til að gera tillögur um breytingar á þeim.
    Í lokamálslið greinarinnar er lagt til að skip, sem nýtir ekki verulegan hluta veiðiheimilda sinna vegna framsals eða af öðrum ástæðum tvö ár í röð, missi aflahlutdeild sína. Með þessu ákvæði er komið í veg fyrir að skip, sem bundin eru við bryggju eða liggja uppi á kambi, geti verið notuð til spákaupmennsku með veiðiheimildir. Veiðiheimildirnar falla niður við upphaf þess fiskveiðiárs sem hefst næst á eftir þeim tveimur árum sem aflaheimildir eru ekki nýttar á. Falla þær endanlega niður og að öllu leyti. Aflahlutdeild sem fellur niður af þessum sökum kemur til hlutfallslegrar hækkunar á veiðiheimildum þeirra skipa sem hafa aflahlutdeild í viðkomandi tegund.

Um 13. gr.


    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að allar meginreglur, er varða botnfiskveiðar og sérveiðar, séu lögbundnar. Eru mun færri atriði ætluð ráðherra til ákvörðunar en samkvæmt gildandi lögum. Í ýmsum greinum frumvarpsins er gert ráð fyrir að ráðherra taki ýmsar ákvarðanir og gefi út reglugerðir þar að lútandi, t.d. í 3., 4., 6., 15. og 17. gr. Jafnframt er óhjákvæmilegt að ráðherra hafi heimild til setningar reglna um ýmis atriði sem lúta að framkvæmd laganna.

Um 14. gr.


    Hér er lagt til að samráðsnefnd starfi áfram, en nefndin hefur starfað frá árinu 1984. Hefur nefndin tryggt að um allar veigameiri ákvarðanir, sem snerta veiðiheimildir skipa, sé fjallað af fulltrúum sjómanna og útgerðarmanna. Enda þótt aukin lögbinding meginreglna eigi að leiða til þess að álitamál og ágreiningsmál verði færri er ljóst að slík mál koma ávallt upp. Er gert ráð fyrir að nefndin verði eins skipuð og verið hefur til þessa og starfi með sama hætti.

Um 15. gr.


    Í 1. mgr. þessarar greinar er gert ráð fyrir að allir skipstjórar fiskiskipa, sem veiðar stunda í atvinnuskyni, haldi sérstakar afladagbækur. Nánar verði kveðið á í reglugerð um færslu slíkra dagbóka.
    Samkvæmt núgildandi kerfi skila allir þeir, sem botnfiskveiðar stunda, sérstökum skýrslum um afla og úthald. Jafnframt þurfa þeir sem leyfi fá til ákveðinna veiða eins og t.d. rækjuveiða, humarveiða eða dragnótaveiða að skila sérstökum skýrslum til Hafrannsóknastofnunarinnar um þær veiðar. Skýrslur um afla og úthald eru sendar ráðuneytinu og eru grundvöllur veiðieftirlits en með sérstökum skýrslum til Hafrannsóknastofnunar fær stofnunin veigamiklar vísindalegar upplýsingar. Hér er gert ráð fyrir að þessar afladagbækur leysi allar aðrar skýrslur af hólmi og þjóni bæði þörfum fiskveiðistjórnunar og eins Hafrannsóknastofnunar. Með þessum hætti ættu allar nauðsynlegar upplýsingar að fást með sem einföldustum hætti fyrir skýrslugjafa.
    Í annarri málsgrein er sú skylda lögð á ýmsa aðila, sem tengjast veiðum, vinnslu, sölu og útflutningi á fiski og fiskafurðum, að láta ráðuneytinu í té upplýsingar sem það telur þörf á í því skyni að fylgjast með framkvæmd laganna. Þetta ákvæði er efnislega samhljóða 16. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að samkvæmt frumvarpi þessu tekur ákvæðið einnig til flutningsaðila, banka og lánastofnana. Eru þessir aðilar felldir hér undir vegna þess að reynslan hefur sýnt að við eftirlit með útflutningi á óunnum fiski er nauðsynlegt að afla upplýsinga hjá skipafélögum um útflutning þeirra. Einnig er brýnt að styrkja allt eftirlit og að unnt sé að afla upplýsinga frá bönkum og lánastofnunum um veðsetningar og afurðalán einstakra fyrirtækja. Með því móti fást upplýsingar bæði um kaup einstakra fyrirtækja á afla og um framleiðslu þeirra.

Um 16. gr.


    Í því kerfi, sem hér er lagt til að notað verði við stjórn fiskveiða, er nauðsynlegt að tryggja að allur afli sé veginn og allt eftirlit með vigtun afla verði sem best. Í þessari grein er kveðið á um hvernig skuli staðið að vigtun afla og er lagt til að öll framkvæmd við vigtun afla verði samræmd og eftirlit með henni eflt. Jafnframt að eftirlitið færist meira til hlutaðeigandi hafnarstjórna.
    Í þessari grein er kveðið á um að allur afli skuli veginn á löndunarstað. Með þessu ákvæði er ekki lagt til að breyting verði gerð á núverandi framkvæmd vigtunar og vísast til reglugerðar nr. 567/1989 um vigtun sjávarafla. Í 1. og 4. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að heimilt sé að vigta afla erlendis, enda verði aflinn seldur og veginn á uppboðsmörkuðum sem ráðuneytið hefur viðurkennt vigtunaraðferðir hjá. Í þessu sambandi vísast einnig til ákvæðis til bráðabirgða VI, en samkvæmt því er sérstakri nefnd falið að kanna framkvæmd þess að vigta hér á landi allan fisk sem fluttur er óunninn úr landi. Aðstaða til vigtunar afla er mjög mismunandi eftir höfnum og er því hér lagt til að ráðherra skuli kveða nánar á um í reglugerð, að höfðu samráði við samgönguráðuneytið og hafnasamband sveitarfélaga, hvernig afli skuli veginn og upplýsingum safnað. Eftir að sú ákvörðun liggur fyrir er gert ráð fyrir að hafnaryfirvöld á hverjum stað hafi yfirumsjón með vigtun afla og söfnun upplýsinga um landaðan afla. Verður að telja að hafnaryfirvöld séu best í búin til að fylgjast með löndun og vigtun afla og er þeim jafnframt nauðsyn á að afla slíkra upplýsinga þar sem gjöld, sem greiðast fyrir notkun hafna, miðast við landað aflamagn.
    Í þriðju málsgrein er kveðið á um sérstaka vinnslubók fyrir fiskiskip sem vinna eiginn afla um borð. Er það gert í því skyni að hægt sé með einföldum hætti að kanna hvaða fisktegundir hafa verið unnar um borð í þessum skipum og hvernig þær hafa verið unnar og reikna þannig út afla skipsins upp úr sjó. Til að tryggja enn frekar eftirlit með þessum skipum er þeim óheimilt að sigla með afurðir sínar á markaði erlendis án sérstaks leyfis ráðuneytisins. Veiti ráðuneytið slíkt leyfi getur það gert það með því skilyrði að eftirlitsmaður verði sendur á kostnað útgerðar til eftirlits erlendis eða að skipið komi fyrst til hafnar hér á landi þannig að eftirlit geti farið fram.

Um 17. gr.


    Í 8. gr. laga nr. 31 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, er ráðherra veitt heimild til ráðningar sérstakra eftirlitsmanna, en hlutverk þeirra samkvæmt þeim lögum er einkum að fara í veiðiferðir með fiskiskipum í því skyni að hafa eftirlit með veiðum og koma í veg fyrir dráp á smáfiski. Starfssvið þessara eftirlitsmanna hefur með breyttu skipulagi við stjórn fiskveiða orðið víðtækara og hefur hlutverk þeirra m.a. verið að fylgjast með þeim þáttum sem kveðið er á um í 2. mgr. þessarar greinar.
    Í þriðju málsgrein er lagt til að eftirlitsmennirnir hafi heimildir til þess að fylgjast með afla bæði meðan hann er um borð í veiðiskipinu og enn fremur eftir að fiskvinnslufyrirtæki hafa tekið hann til vinnslu. Eins og fyrr segir fjalla gildandi lög aðeins um störf eftirlitsmanna um borð í veiðiskipunum og er nauðsyn að kveða skýrt á um heimildir þeirra til eftirlits í landi miðað við þær breytingar sem hafa orðið á starfssviði þeirra.

Um 18. gr.


    Í lok desember 1989 voru á Alþingi samþykkt lög nr. 129/1989, um
veiðieftirlitsgjald. Enda þótt þau lög séu ekki tímabundin þykir eðlilegt að taka þessi lög hér inn í heildarlögin um stjórn fiskveiða og jafnframt er lagt til að gerðar verði nokkrar veigaminni breytingar á þeim sem m.a. leiðir af því að samkvæmt þessu frumvarpi er gert ráð fyrir því að sóknarmarkið verði afnumið og bátar undir 10 brl. fái sérstaka aflakvóta.
    Í fyrstu málsgrein, sem efnislega er samhljóða 1. gr. laga nr. 129/1989, er gert ráð fyrir að ráðherra ákveði með reglugerð sérstakt gjald fyrir veiðiheimildir. Gjald þetta renni til veiðieftirlits og miðist við að það standi undir rekstri þess að hálfu.
    Meginreglan við ákvörðun gjaldsins er að það miðist við áætlað verðmæti þess aflamarks sem úthlutað er. Tekur þetta samkvæmt frumvarpinu til allra veiðiheimilda þar sem skipum er úthlutað ákveðnu aflamagni. Mundi þessi meginregla gilda um allar helstu veiðiheimildir eins og til botnfisk-, rækju-, humar-, loðnu- og síldveiða.
    Í þriðju málsgrein er fjallað um sérstök veiðileyfi þar sem veiðileyfin heimila ekki veiðar á ákveðnu aflamagni eins og t.d. leyfi til dragnótaveiða eða grásleppuveiða. Er lagt til að ráðherra ákveði með reglugerð fast gjald fyrir þessi leyfi.
    Í fjórðu málsgrein eru tekin af öll tvímæli um að útgerðum beri að greiða fæði veiðieftirlitsmanna og sjá þeim endurgjaldslaust fyrir aðstöðu meðan þeir sinna skyldustörfum um borð og er þetta í samræmi við viðteknar venjur.

Um 19. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um refsingar vegna brota á lögum þessum, reglugerðum settum samkvæmt þeim eða ákvæðum leyfisbréfa. Er hér lagt til að ákvörðun um viðurlög vegna brota verði alfarið lögð í hendur dómara og ekki verði í lögunum markaður ákveðinn refsirammi eins og gert er í gildandi lögum. Er þetta í samræmi við þá þróun sem orðið hefur varðandi viðurlagaákvæði laga.

Um 20. gr.


    Í fyrstu málsgrein þessarar greinar er vísað til laga nr. 32 19. maí 1976, um upptöku ólöglegs sjávarafla, en í þeim lögum segir m.a. að ráðuneytið skuli gera upptækan afla sem er umfram ákveðinn hámarksafla sem bátum er settur. Með frumvarpi þessu er stefnt að því að veiðiheimildir flestra skipa byggist á ákveðnu aflamagni og mun eftirlit með veiðum að miklu leyti beinast að því að fylgjast með, að fiskiskip veiði ekki umfram það magn sem því er úthlutað. Fari skip fram yfir úthlutað aflamagn er nauðsynlegt að þegar sé gripið til aðgerða og reynslan hefur sýnt að upptaka umframafla er fjótvirk og áhrifarík leið.
    Í annarri málsgrein eru ákvæði er lúta að sviptingu veiðileyfa vegna brota á lögunum, reglugerðum settum samkvæmt þeim, leyfisbréfum og enn fremur vegna vanskila á greiðslu andvirðis ólöglegs sjávarafla. Eru þessi ákvæði samhljóða ákvæðum gildandi laga.

Um 21. gr.


    Grein þessi er óbreytt frá gildandi lögum. Á grundvelli þessarar heimildar hefur ráðuneytið undanfarin ár opnað togveiðisvæði út af Vestfjörðum og Héraðsflóa á haustin þar sem fengist hefur nokkur skarkolaafli.

Um 22. gr.


    Í 10. gr. laga nr. 81/1976 eru ákvæði um takmarkaðar heimildir fyrir ráðherra til að setja hámark á afla úr ofnýttum fiskstofnum sem rétt er að fella úr gildi með hliðsjón af 3. gr. þessa frumvarps. Með sama hætti er rétt að fella úr gildi 14. gr. sömu laga með hliðsjón af 4. gr. frumvarps þessa.
    Í lögum nr. 18/1976 eru ákvæði um dragnótaveiðar í 2. gr. og 13. gr. Er þar gert ráð fyrir að dragnótaveiðar séu bannaðar í íslenskri fiskveiðilögsögu nema þar sem þær eru heimilaðar með sérstökum veiðileyfum, en heimild til útgáfu dragnótaveiðileyfa eru þó háðar ákveðnum takmörkunum. Í lögum nr. 97/1985, um stjórn fiskveiða 1986–1987, og síðan í lögum nr. 3/1988, um stjórn fiskveiða 1988–1990, var rýmkuð heimild til útgáfu dragnótaveiðileyfa. Er hér lagt til að sú skipan verði lögfest að dragnótaveiðar verði í raun frjálsar, en ráðherra ákveði síðan skipulag þeirra á grundvelli 4. gr. frumvarps þessa.

Um 23. gr.


    Þarfnast ekki skýringar.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Hér er lagt til að úthlutun aflamarks í botnfiski og úthafsrækju fyrir árið 1990 verði lögð til grundvallar við úthlutun aflahlutdeildar fyrir öll fiskiskip 10 brl. og stærri. Aflahlutdeild allra fiskiskipa 10 brl. og stærri í botnfiski og úthafsrækju yrði því í upphafi ársins 1991 leidd af aflamarkskosti skipanna fyrir árið 1990. Með þessu ákvæði eru tekin af öll tvímæli um að velji skip að stunda botnfiskveiðar með sóknarmarki á árinu 1990 hafi afli þeirra á því ári ekki áhrif á ákvörðun um aflahlutdeild þeirra í upphafi árs 1991. Í 2. og 3. mgr. er kveðið á um ákvörðun aflahlutdeildar þeirra skipa sem fá sérstakar bætur vegna afnáms sóknarmarksins.
    Í fyrsta lagi er kveðið á um að fyrir hvert fiskiskip 10 brl. og stærri verði reiknað aflamark í botnfiski og úthafsrækju til þorskígilda. Við þann útreikning verði lagt til grundvallar verðmætahlutfall einstakra tegunda er taki mið af verðmæti þorsks. Ráðherra er falið að ákveða þessi verðmætahlutföll með reglugerð. Við þá útreikninga verður miðað við verðmæti þess afla sem hefur verið landað innan lands á árunum 1987 til 1989.
    Í öðru lagi er lagt til að fyrir hvern einstakan sóknarmarksflokk skv. 7. gr. reglugerð nr. 585 19. desember 1989 verði reiknað meðaltalsaflamark í botnfiski og úthafsrækju til þorskígilda samkvæmt þeim verðmætahlutföllum sem ákvörðuð verða samkvæmt ofansögðu. Þegar kvótakerfið var tekið upp árið 1984 var öllum fiskiskipum stærri en 10 brl. skipt í ákveðna útgerðarflokka. Skipting þessi náði annars vegar til skiptingar milli togara og báta og hins vegar skiptingar milli báta innbyrðis er grundvallaðist á heimildum þeirra til sérveiða. Auk þessarar flokkunar skipa í útgerðarflokka hefur þessum skipum verið skipt í sóknarmarksflokka sem hafa verið ákvarðandi um veiðiheimildir þeirra skipa sem árlega hafa getað valið að stunda veiðar með sóknarmarki. Við þá skiptingu hefur verið tekið mið af stærð og gerð þeirra, veiðisvæði og veiðarfærum. Rökin fyrir þessari flokkun skipanna við útreikning bóta vegna afnáms sóknarmarksins eru þau að sóknarmarksflokkarnir hafa verið ráðandi um veiðiheimildir þeirra skipa sem árlega hafa getað valið sóknarmark.
    Í þriðja lagi er lagt til að reiknaðar verði bætur á eldra aflamark þeirra fiskiskipa sem hafa lægra samanlagt aflamark í botnfiski og úthafsrækju í þorskígildum talið en sem nemur meðaltalsaflamarki viðkomandi sóknarmarksflokks í sömu tegundum. Lagt er til að þessar bætur nemi fyrir hvert skip 40% af þeim mun sem er á milli meðalaflamarks sóknarmarksflokksins og aflamarks viðkomandi skips. Við útreikning á þessum bótum er gert ráð fyrir að halda fyrir utan þeim veiðiheimildum sem sameinaðar hafa verið varanlega eldra aflamarki sama skips fyrir 1. janúar 1991 á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 3/1988. Þetta er gert til að tryggja að hlutur þeirra útgerða, sem hafa fyrir árslok 1990 sameinað veiðiheimildir eldra aflamarki skipa sinna, verði ekki gerður verri af þeim sökum. Við ákvörðun á því hvort bætur verði reiknaðar verður því slíkum heimildum haldið fyrir utan.
    Í fjórða lagi er kveðið á um hvernig bótum fyrir hvert skip verði skipt á einstakar tegundir. Er gert ráð fyrir að það verði gert í hlutfalli við verðmæti einstakra tegunda í eldra aflamarki. Með því móti mun ákvörðun þessara bóta leiða til þess að aflasamsetning skipanna raskast ekki frá því sem nú er. Fyrir þau skip sem fá reiknaðar uppbætur samkvæmt því sem hér hefur verið lýst, verður aflamark ársins 1990, að viðbættum uppbótum, ákvarðandi fyrir aflahlutdeild þeirra í einstökum tegundum eftir 1990.
    Ljóst er að sá útreikningur bóta vegna afnáms sóknarmarksins, sem hér hefur verið gerð grein fyrir, mun ekki nema að hluta vega upp þann sveigjanleika til aukinnar veiði sem sóknarmarkið hefur veitt. Lætur nærri að þær vegi u.þ.b. helming af sveigjanleika sóknarmarksins miðað við reynslu undanfarinna ára. Það hlýtur ávallt að vera álitamál hve langt eigi að ganga varðandi það að bæta hlut lakast settu skipanna sem ávallt hlýtur að verða á kostnað þeirra sem betri veiðiheimildir hafa. Útgerðum lakast settu skipanna hefur á undanförnum árum gefist kostur á að bæta hlutdeild skipa sinna í gegnum sóknarmarkið. Þessi sjónarmið voru m.a. rædd á 48. fiskiþingi en þar var lagt til að bótum vegna afnáms sóknarmarksins yrði skipt með þeim hætti sem hér er lagt til. Ýmis þing og ársfundir samtaka í sjávarútvegi, sem haldnir voru á sl. hausti, tóku undir þessi sjónarmið. Gert er ráð fyrir að það svigrúm, sem eftir stendur vegna afnáms sóknarmarksins, hafi ekki áhrif á aflahlutdeild einstakra skipa en verki í raun eins og hækkun á leyfilegum ársafla sem komi öllum skipum til góða.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að loðnuskip og skip sem stunda úthafsrækjuveiðar sem sérhæfð rækjuveiðiskip á árinu 1990, fái ekki reiknaðar bætur samkvæmt því sem að framan greinir. Þessi skip hafa ekki átt þess kost að stunda veiðar með sóknarmarki og því þykir ekki eðlilegt að reiknaðar verði sérstakar bætur til þeirra við afnám þess. Gert er ráð fyrir að þessum skipum gefist kostur á að velja í árslok 1990 milli aflamarks í botnfiski og aflamarks í úthafsrækju í samræmi við ákvæði reglugerðar 586 19. desember 1989 um veiðar á úthafsrækju 1990. Það val yrði síðan ákvarðandi um aflahlutdeild þessara skipa í einstökum tegundum.
    Hér hafa því verið markaðar reglur um úthlutun aflahlutdeildar til einstakra fiskiskipa í þorski, ýsu, ufsa, karfa, grálúðu og úthafsrækju verði frumvarp þetta að lögum. Árlegar veiðiheimildir hvers fiskiskips munu ráðast annars vegar af aflahlutdeild í viðkomandi tegund og hins vegar af leyfilegum heildarafla í sömu tegund á hverjum tíma.

Um II.


    Til samræmis við reglur um veiðiheimildir fiskiskipa 10 brl. og stærri er
gert ráð fyrir að bátum minni en 10 brl., sem stunda veiðar í atvinnuskyni, verði úthlutað ákveðinni aflahlutdeild í þeim tegundum sem sæta ákvæðum um leyfilegan heildarafla.
    Lagt er til að hlutdeild þessara báta í þeim botnfisktegundum sem sæta ákvæðum um leyfilegan heildarafla verði ákveðin sem tiltekið hlutfall við gildistöku laganna. Gert er ráð fyrir að þetta hlutfall verði það sama og sem nam hlutdeild báta minni en 10 brl. í ársafla sömu botnfisktegunda á árinu 1989. Heildaraflahlutdeild bátanna verður síðan skipt milli einstakra báta á grundvelli 3. og 4. mgr. þessarar greinar og ákvörðun ráðherra samkvæmt tillögum sérstakrar samráðsnefndar, sbr. 6. mgr.
    Lagt er til að meginreglan varðandi úthlutun aflahlutdeildar verði aflareynsla þessara báta á árunum 1987 til 1989 en meðaltalsafli tveggja bestu áranna verði lagður til grundvallar. Með því móti er komið til móts við þá aðila sem af ýmsum ástæðum hafa ekki fulla viðmiðun öll þrjú árin. Aftur á móti verður ekki tekið tillit til frátafa eða skipstjóraskipta með sama hætti og gert var þegar aflamarki var úthlutað á fiskiskip stærri en 10 brl. árið 1984. Rökin fyrir því að taka ekki tillit til frátafa frá veiðum og skipstjóraskipta eru þau að útgerðum bátanna gefst kostur á að velja á milli aflareynslu tveggja bestu áranna sem lögð verða til grundvallar, en við úthlutun aflamarks á skip 10 brl. og stærri árið 1984 var eingöngu byggt á veiðireynslu þriggja undangenginna ára.
    Gert er ráð fyrir að aflahlutdeild þeirra báta, sem byggja aflahámark sitt á aflareynslu samkvæmt reglugerð 587 19. desember 1989, verði tekin til endurskoðunar. Þetta er lagt til þar sem aflahámark þessara báta byggir á annarri viðmiðun eða aflareynslu áranna 1985 til 1987. Auk þess hefur við framkvæmd gildandi laga verið sett ákveðið hámark á árlegar veiðiheimildir þeirra báta sem bestu veiðireynsluna höfðu. Ekki er lagt til að slíkt hámark verði sett heldur verði aflahámarki þessara báta skipt upp í einstakar tegundir og jafnframt tekið tillit til þeirra breytinga sem orðið hafa á meðalafla sambærilegra báta sem hafa sætt öðrum veiðitakmörkunum á árunum 1988 og 1989.
    Í 5. mgr. er gert ráð fyrir að útgerðum báta minni en 6 brl. sem skráðir eru á skipaskrá fyrir 31. desember 1989 og útgerðum báta, sem eru undir 6 brl. eftir þann tíma en fyrir gildistöku laganna, gefist kostur á að velja á árunum 1991, 1992 og 1993 milli leyfis til veiða með línu og handfæri auk dagatakmarkana í stað aflahlutdeildar samkvæmt ákvæðum 3. og 4. mgr. Lagt er til að útgerðir þessara báta verði að velja milli þessara kosta fyrir 1. janúar 1991 vegna veiði bátanna árin 1991, 1992 og 1993. Við upphaf fiskveiðiársins, sem hefst 1. september 1994, verður heildaraflahlutdeild þessara báta í þeim botnfisktegundum, sem sæta ákvæðum um leyfilegan heildarafla, tekin til endurskoðunar. Reynist hlutdeild þeirra, sem þennan kost völdu, hafa vaxið meira en sem nemur 25% að meðaltali í þessum tegundum á þessum þremur árum miðað við þá aflahlutdeild sem þeir áttu kost á árið 1991 verður þeim ákvörðuð ný aflahlutdeild frá og með 1. september 1994. Við þá ákvörðun verður afli þeirra þessi þrjú ár ráðandi, sbr. þó 2. mgr. Hafi hlutdeild þeirra ekki aukist umfram þessi mörk er gert ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi um veiðar þeirra fyrir næstu þrjú árin, en að þeim tíma liðnum fari fram sams konar endurskoðun á veiðiheimildum þessara báta.
    Í 6. mgr. er kveðið á um skipan samráðsnefndar. Er það í samræmi við það sem gert var þegar aflamarki var úthlutað á fiskiskip stærri en 10 brl. árið 1984. Flestum ber saman um að sú ráðstöfun að skipa slíka nefnd á sínum tíma hafi verið farsæl, en í henni áttu sæti fulltrúi frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og fulltrúi frá sjómönnum, auk formanns sem skipaður var af ráðherra. Nefndin gerði tillögur til ráðherra um ýmis álitamál varðandi úthlutun á aflamarki til einstakra skipa. Gert er ráð fyrir að í þeirri samráðsnefnd, sem hér er lagt til að verði skipuð, taki sæti einn fulltrúi tilnefndur af Landssambandi smábátaeigenda, einn fulltrúi tilnefndur af Fiskifélagi Íslands, auk formanns sem skipaður yrði af ráðherra. Hlutverk nefndarinnar yrði að fjalla um málefni þeirra aðila sem keypt hafa nýja báta eftir 31. janúar 1988 og hafa því ekki fulla aflareynslu á því tímabili sem lagt er til að úthlutun aflahlutdeildar byggi á. Auk þess er nefndinni ætlað að fjalla um og gera tillögur um aflahlutdeild báta í þeim tilvikum sem útgerðir þeirra hafa gert athugasemdir við úthlutun. Gert er ráð fyrir að nefndin skili endanlegum tillögum til ráðherra fyrir árslok 1990, en í framhaldi af því mun ráðherra ákvarða endanlega aflahlutdeild allra báta 10 brl. og minni sem stunda veiðar í atvinnuskyni. Samtala aflahlutdeildar þessara báta skal síðan vera jöfn hlutdeild allra báta minni en 10 brl. í ársafla þeirra tegunda sem á árinu 1989 sæta ákvæðum um leyfilegan heildarafla.

Um III.


    Samkvæmt 3. gr. frumvarpsins er eins og áður segir lagt til að fiskveiðiárið verði framvegis talið frá 1. september til 31. ágúst næsta árs. Í 1. mgr. þessarar greinar er kveðið á um að leyfilegur heildarafli fyrir heilt 12 mánaða tímabil verði fyrst ákveðinn fyrir fiskveiðiárið er hefst 1. september 1991. Þar sem gert er ráð fyrir að gildistaka laganna verði miðuð
við 1. janúar 1991 skal miða leyfilegan heildarafla fyrir fyrstu átta mánuði ársins 1991 eða fyrst tímabilið 1. janúar til 31. ágúst. Lagt er til að sú ákvörðun verði tekin fyrir 1. nóvember 1990.
    Þessi breyting á fiskveiðiárinu mun leiða til nokkurra erfiðleika við framkvæmd fyrstu úthlutunar á aflahlutdeild. Kemur það til af því að einstakir flokkar fiskiskipa hafa mismunandi sóknarmynstur innan ársins. Bátar, sem nýta t.d. sérveiðiheimildir sínar á haustin, nýta megnið af sínum botnfiskveiðiheimildum á fyrstu átta mánuðum ársins, en afli togaranna dreifist hins vegar yfirleitt jafnar yfir árið. Af þessum sökum er gerð tillaga um að við fyrstu úthlutun, sem tekur til fyrstu átta mánuða ársins 1991, verði aflahlutdeild einstakra skipa ákveðin á því tímabili með tilliti til dreifingar afla af hverri tegund innan ársins hjá einstökum flokkum fiskiskipa. Lagt er til að reiknað verði hversu hátt hlutfall af hverri botnfisktegund veiddist fyrstu átta mánuðina á árunum 1986 til 1988 að meðaltali miðað við ársafla þessara ára. Með sama hætti verði fundið út hversu mikill hluti ársafla einstakra flokka fiskiskipa hefur verið veiddur að meðaltali fyrstu átta mánuði ársins á sama árabili af hverri tegund. Við þessa útreikninga verða lagðir til grundvallar útgerðarflokkar, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 585 19. desember 1989, og dreifing afla smábáta. Þessa útreikninga er e.t.v. best að útskýra með dæmi. Í ímynduðum flota eru tveir flokkar fiskiskipa og fjögur fiskiskip. Fiskiskip A og B tilheyra útgerðarflokki 1, en fiskiskip C og D tilheyra útgerðarflokki 2. Föst aflahlutdeild skipanna í ákveðinni botnfisktegund er þannig að skip A hefur 20%, skip B hefur 25%, skip C hefur 40% og skip D 35%. Á því árabili, sem lagt er til grundvallar, hafa að meðaltali veiðst 80% af viðkomandi tegund á fyrstu átta mánuðum ársins, en veiði sömu tegundar hefur verið 70% af veiðiheimildum í útgerðarflokki 1, en 90% í útgerðarflokki 2. Aflahlutdeild þessara skipa fyrir átta mánaða tímabil yrði því sem hér segir:


    Útgerðarflokkur 1         ÚtreikningurAflahlutdeild
             aflahlutdeildar    átta mánaða
    Fiskiskip A         (0,20x0,7)/0,8    =17,5%
    Fiskiskip B         (0,25x0,7)/0,8    =21,2%

    Útgerðarflokkur 2
    Fiskiskip C         (0,40x0,9)/0,8    =49,0%
    Fiskiskip D         (0,35x0,9)/0,8    =39,3%

    Af þessu skýringardæmi má ráða að hlutdeild þeirra flokka fiskiskipa, sem að meðaltali veiða meiri hluta sinna veiðiheimilda á fyrri hluta ársins, kemur til með að aukast tímabundið við fyrstu úthlutun veiðiheimilda fyrir tímabilið 1. janúar 1991 til 31. ágúst sama árs. Þetta stafar, eins og áður segir, af mismunandi útgerðarmynstri, en leiðréttist að sjálfsögðu aftur þegar úthlutað verður fyrir heilt fiskveiðiár, en gert er ráð fyrir að sú úthlutun fari fram 1. september 1991. Þá er lagt til að sömu reglum verði beitt bæði varðandi ákvörðun heildarafla af úthafsrækju og ákvörðun hlutdeildar einstakra skipa.

Um IV.


    Hér er gerð tillaga um úthlutun aflahlutdeildar til veiða á loðnu, síld, humri, innfjarðarækju og hörpuskel. Lagt er til að aflahlutdeild fyrir hvert skip verði ákveðin á grundvelli hlutdeildar viðkomandi skips í heildarúthlutun á því veiðitímabili eða vertíð sem síðast lauk fyrir gildistöku laganna. Sú breyting, sem lögð er til í 3. gr. varðandi breytingu á fiskveiðiárinu, hefur ekki áhrif á þessa úthlutun þar sem veiðitímabil á þessum tegundum falla ekki saman við fiskveiðiárið.

Um V.


    Í 4. mgr. 11. gr. frumvarpsins er það nýmæli að heimilt er að framselja hluta varanlegrar aflahlutdeildar skips. Fram til þessa hefur varanlegt framsal aflahlutdeildar verið óheimilt nema skipið væri afmáð af skipaskrá og hefur afskráning verið háð því skilyrði að viðkomandi skip væri veðbandalaust. Veðhafar gátu þannig treyst því að skip, sem þeir höfðu veð í, lækkaði ekki í verði við það að aflahlutdeild væri flutt varanlega af skipinu. Hér er lagt til að óheimilt sé að flytja hluta aflahlutdeildar, nema fyrir liggi samþykki
veðhafa sem veð eiga í skipinu þegar lög þessi öðlast gildi. Veðhafar, sem öðlast veðrétt í skipi eftir gildistöku laganna, verða að tryggja með öðrum hætti að veð þeirra rýrni ekki því að í frumvarpinu er ekki lagt til að samþykki þeirra þurfi til varanlegs flutnings aflahlutdeildar eftir að lögin öðlast gildi.

Um VI.


    Í ráðgjafarnefnd um mótun fiskveiðistefnu, sem vann að tillögugerð við undirbúning frumvarpsins, urðu miklar umræður um útflutning á óunnum afla og eftirlit með þessum útflutningi. Kom fram tillaga um að allur gámafiskur skyldi veginn innan lands, en við framkvæmd gildandi laga hefur vigt við sölu erlendis verið látin gilda hvort sem afli hefur verið sendur utan í gámum eða fiskiskip siglt með eiginn afla. Þau sjónarmið, sem lágu að baki tillögunnar, voru tvíþætt. Annars vegar var talið að með því að krefjast vigtunar innan,lands á gámafiski skapaðist betri grundvöllur til tryggara eftirlits með þessum útflutningi og hins vegar leiddi slíkt fyrirkomulag til betri stöðu íslenskrar fiskvinnslu í samkeppni um þann afla sem fluttur er út. Í nefndinni voru skiptar skoðanir um hvort mögulegt væri að framkvæma slíka vigtun án þess að það leiddi til þess að gæðum aflans hrakaði. Varð að samkomulagi í nefndinni að leggja til að sjávarútvegsráðherra skipaði nefnd til að kanna hvort og þá hvernig hægt væri að koma við vigtun á slíkum afla. Gert er ráð fyrir að nefndin hefji störf þegar eftir gildistöku laganna og er henni ætlað að ljúka störfum innan sex mánaða. Verði frumvarp þetta að lögum á því þingi sem nú stendur yfir munu tillögur nefndarinnar því liggja fyrir áður en lögin koma til framkvæmda.



Fylgiskjal I.

Ráðgjafarnefnd um fiskveiðistefnu:


Skilabréf nefndarinnar til sjávarútvegsráðherra


ásamt bókunum og sérálitum einstakra nefndarmanna.


(26. janúar 1990.)




    Í erindisbréfi nefndarinnar, dags. 13. júlí 1988, var henni falið að undirbúa tillögur um fyrirkomulag fiskveiðistjórnunar að loknum gildistíma laga nr. 3/1988. Jafnframt skyldi hún móta tillögur um breytingu á lögum nr. 3/1988 á gildistíma þeirra eftir því sem tilefni yrði til. Nefndin skyldi m.a. kanna áhrif laganna á afkomu og hagkvæmni í sjávarútvegi og skynsamlega nýtingu fiskstofna. Einnig skyldi hún athuga tilhögun veiðiheimilda, m.a. heimilda sem ekki væru bundnar við skip. Nefndinni var ætlað að skila fyrsta áliti eigi síðar en haustið 1989. Eins og fram kemur í bréfi formanns til sjávarútvegsráðherra, dags. 20. desember sl., varð að samkomulagi í nefndinni að fresta lokaáliti af hálfu nefndarinnar til loka janúar. Var af þeim sökum ekki talin ástæða til að skila ítarlegri áfangaskýrslu, en með bréfinu taldi nefndin að hún hefði fullnægt þeirri lagaskyldu að skila fyrsta áliti haustið 1989.
    Nefndin hóf störf haustið 1988. Ákvað hún í upphafi starfs síns að nefndarmenn skyldu starfa í fjórum vinnuhópum er hver hefði afmarkað verksvið. Vinnuhóparnir störfuðu á sl. vetri og skiluðu álitsgerðum í maímánuði sl. Á fundi í maílok ákvað nefndin að fela formanni, ásamt verkefnisstjórum vinnuhópanna, að móta tillögur er byggðu á niðurstöðum hópanna. Þessar tillögur, sem voru í formi frumvarps ásamt sérstökum minnisatriðum, voru kynntar í októberbyrjun og hafa síðan verið til umfjöllunar í nefndinni. Jafnframt hafa frumvarpsdrögin verið til umfjöllunar á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda, fiskiþingi, fundi Félags rækju- og hörpudiskframleiðenda, þingi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna og formannafundi Sjómannasambands Íslands. Hafa tillögur og samþykktir þessara hagsmunasamtaka verið til umfjöllunar í nefndinni.
    Hjálagt fylgja tillögur nefndarinnar í formi draga að frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða, ásamt athugasemdum. Meginatriði tillagnanna eru að eitt samræmt aflamarkskerfi verði tekið upp og sérreglur varðandi sóknarmark verði afnumdar og reglur um veiðar smábáta að mestu færðar til samræmis við þær reglur er gilda um stærri skip. Aflaheimildum verði úthlutað til skipa og við þá úthlutun verði fyrst og fremst tekið mið af því aflamarki sem skip hafa samkvæmt gildandi lögum. Þá er gert ráð fyrir að heimilt sé innan ákveðinna marka að færa aflaheimildir milli skipa að hluta eða í heild, bæði varanlega og eins innan einstakra veiðitímabila. Lagt er til að flestar reglur fiskveiðistjórnunar verði lögbundnar og þeim atriðum, sem ætluð eru ráðherra til ákvörðunar, verði fækkað. Gert er ráð fyrir að botnfiskveiðiheimildir verði framvegis miðaðar við tímabilið 1. september til 31. ágúst, en ekki almanaksárið eins og verið hefur. Þá er lagt til að lögin verði ótímabundin eins og almennt gerist um löggjöf á Íslandi. Gerð er tillaga um að útgáfa veiðileyfa verði einfölduð verulega frá því sem nú er og gjöld vegna útgáfu aflaheimilda standi framvegis undir kostnaði við veiðieftirlit að hálfu. Lagt er til að hámarksálag vegna útflutnings á óunnum þorski og ýsu verði hækkað úr 15% í 20%, en hámarksálag vegna útflutnings á öðrum botnfisktegundum verði 15% sem er óbreytt frá gildandi lögum. Þá er gerð tillaga um að skipuð verði nefnd til að kanna hvort og með hvaða hætti hægt sé að koma við vigtun á gámafiski innan lands.
    Einstakir nefndarmenn gera grein fyrir sérstökum sjónarmiðum sínum með bókunum er fylgja bréfi þessu.
    Nefndin leggur áherslu á nauðsyn þess að frumvarp til laga um stjórn fiskveiða verði lagt fram á Alþingi sem fyrst og Alþingi ljúki afgreiðslu málsins fyrir þinglok í vor. Með því gefst þeim aðilum, sem við sjávarútveg starfa, nauðsynlegur tími til undirbúnings.
    Með þessu bréfi telur nefndin sig hafa lokið þeim meginþætti starfs síns að móta tillögur um fyrirkomulag fiskveiðistjórnar að loknum gildistíma laga nr. 3 8. janúar 1988, um stjórn fiskveiða 1988–1990. Samkvæmt erindisbréfi nefndarinnar skal hún starfa á gildistíma laga nr. 3/1988 til ársloka 1990. Á þeim tíma mun nefndin í samræmi við erindisbréf sitt fjalla um breytingar á lögum nr. 3/1988, eftir því sem tilefni verður til, sem og önnur atriði varðandi stjórn fiskveiða sem ráðherra kanna að óska eftir.

Virðingarfyllst,



Árni Kolbeinsson.


Árni Benediktsson.


Jakob Jakobsson.


Guðmundur H Garðarsson.


Dagbjartur Einarsson.


Kristján Ragnarsson.


Þorsteinn Gíslason.


Sigurður Einarsson.


Hreggviður Jónsson.


Skúli Alexandersson.


Eiður Guðnason.


Arthur Bogason.


Halldór Blöndal.


Óskar Vigfússon.


Þórður Friðjónsson.


Jón Ingvarsson.


Stefán Guðmundsson.


Lárus Jónsson.


Jón B. Jónasson.




Sérálit Árna Benediktssonar frá Félagi Sambandsfiskframleiðenda.


(Bókun 26. janúar 1990.)



1.     Ég mælist til þess að tillaga okkar Jóhanns A. Jónssonar, ásamt greinargerð sem lögð var fram á fundi nefndarinnar 11. desember 1989, verði lögð fram sem fylgiskjal II með þeim drögum að frumvarpi til laga sem hér liggja fyrir.
2.     Margt hefur áunnist í starfi ráðgjafarnefndarinnar, t.d. a) að samkomulag hefur orðið um eina aðferð við úthlutun veiðiréttinda; b) að lög um fiskveiðistjórnun verði ótímabundin, en það gerir framkvæmd þeirra markvissari; c) að framsal veiðiréttinda verði með þeim hætti að líklegt er að fullt samræmi verði innan tíðar milli veiðigetu fiskiskipaflotans og þess afla sem ráðlegt verður að taka í hverjum tíma; d) að fiskveiðiárið verði frá september til ágúst.
3.     Hins vegar skortir mjög á það jafnræði sem verður að vera milli greina innan sjávarútvegsins, svo mjög að ekki verður við unað þar sem fiskvinnsla og fiskvinnslufólk hefur nánast engin spil á hendi í samskiptum við útgerðina. Í öðru lagi er hvergi neitt að finna sem getur hamlað gegn hraðri og skipulagslausri röskun. Þetta hvort tveggja leiðir líklega til þess, verði frumvarp byggt á þessum drögum að lögum, að framkvæmdarvaldið, einstakar stofnanir þjóðfélagsins og þingmenn einstakra kjördæma verði stöðugt að grípa inn í atburðarásina til þess að forða fólki frá atvinnu- og eignamissi.
    Með fyrirvara um þessa veigamiklu annmarka og í trausti þess, að úr verði bætt annaðhvort áður en frumvarpsdrögin verða lögð fyrir Alþingi eða í meðförum þingsins, skrifa ég undir frumvarpsdrögin.


Bókun Guðmundar H. Garðarssonar og Halldórs Blöndal.


(26. janúar 1990.)



    Þrátt fyrir það, að ekki hefur tekist heildarsamkomulag í ráðgjafarnefndinni um tillögur að frumvarp til laga um fiskveiðistjórn, er núgildandi lög falla úr gildi, get ég fallist á að afgreiða málið úr nefndinni.
    Nauðsynlegt er að sjávarútvegsráðherra leggi fram á Alþingi frumvarp til laga um fiskveiðistjórn sem fyrst.
    Sjálfstæðisflokkurinn mun taka afstöðu til þess frumvarps, sem ráðherra mun væntanlega leggja fram á Alþingi þegar þar að kemur.


Bókun Skúla Alexanderssonar.


(23. janúar 1990.)



    Í október sl. lagði vinnuhópur, sem starfaði sl. sumar á vegum ráðgjafarnefndarinnar, fram tillögu í formi frumvarps.
    Tillögur þessar hafa síðan verið til umfjöllunar í nefndinni.
    Ekki hefur náðst allsherjarsamkomulag í nefndinni um ýmis atriði í frumvarpsdrögunum. Um önnur atriði virðist vera fullt samkomulag, t.d. um afnám sóknarmarksins, veiðitímabil verði ekki miðað við almanaksárið og að væntanleg lög verði ekki tímabundin.
    Mínir fyrirvarar við frumvarpsdrögin nú við lokaafgreiðslu í nefndinni eru aðallega við eftirtaldar greinar:
    9. gr. um skerðingu botnfiskaflamarks vegna sérveiða, 10. gr. um álag og vigtun á fiski sem fluttur er óunninn á erlendan markað, 11. gr. og síðar í frumvarpsdrögum um aflahlutdeild sem fylgir skipi við eigendaskipti og flutning milli byggða, sbr. tillögur Alþýðubandalagsins um sjávarútvegsstefnu og byggðakvóta, og við 17. og 18. gr. um eftirlit sjávarútvegsráðuneytisins með framkvæmd væntanlegra laga.
    Ég mun fylgja breytingartillögum sem fram kunna að koma við frumvarpsdrögin við meðferð málsins á Alþingi og í ríkisstjórn telji ég þær til bóta.


Bókun fulltrúa Landssambands smábátaeigenda, Arthurs Bogasonar,


á fundi ráðgjafarnefndar um mótun fiskveiðistefnu.


(26. janúar 1990.)



    Landssamband smábátaeigenda fellst í megindráttum á fram kominn texta er lagður var fyrir ráðgjafarnefnd um fiskveiðistefnu 23. janúar 1990 er varðar fyrirkomulag um veiðar smábáta frá og með árinu 1991. Er það gert í trausti þess að eftirfarandi atriði verði leiðrétt:
1.    Vegna ýmissa óvissuþátta hvað varðar málefni grásleppusjómanna telur LS nauðsynlegt að í stað sjálfvirkrar yfirfærslu í kvótakerfi, fari 0–6 brl. hópurinn fram úr áðurgreindum viðmiðunarmörkum verði sett endurskoðunarákvæði þar sem þessi óvissa verði vegin inn í. Þá verði málefni grásleppubáta, sem háðir eru aflahámörkum, tekin til sérstakrar meðferðar verði verulegar breytingar á tekjuöflun þeirra af grásleppuveiðum.
    Til greina komi að meta grásleppuveiðar sem sérveiðar.
2.    Þeir nýju bátar sem eru á leið inn í 0–9.99 brl. flokkinn skaði hvorki það svigrúm sem 0–6 brl. hópurinn hefur né áunna aflahlutdeild 6–9.99 brl. hópsins og á þeirra málefnum verði tekið sérstaklega.
    Landssamband smábátaeigenda ítrekar fyrri afstöðu sína hvað varðar framsalsrétt veiðiheimilda og hafnar varanlegu framsali milli smábáta og stærri skipa.


Bókun Óskars Vigfússonar, fulltrúa Sjómannasambands Íslands,


í ráðgjafarnefnd um mótun fiskveiðistefnu.



    Fulltrúi Sjómannasambands Íslands vill með þessari bókun árétta ályktun formannafundar Sjómannasambands Íslands frá 8. desember sl. varðandi sölu á aflakvótum skipa, en þar segir:
    „Formannafundur SSÍ er mótfallin hvers konar sölu á aflakvótum skipa eins og áður hefur komið fram í ályktunum frá Sjómannasambandinu. Fundurinn fellst á að heimilt sé að flytja aflaheimildir milli skipa sömu útgerðar og milli skipa innan sama byggðarlags. Jafnframt fellst formannafundurinn á að heimilt sé að skipta á veiðiheimildum einstakra tegunda enda sé um jöfn skipti að ræða. Að öðru leyti verði sala aflaheimilda bönnuð.“
    Þau drög að frumvarpi til laga um stjórnun fiskveiða, sem nú liggja fyrir, eru málamiðlun. Fulltrúi SSÍ er tilbúinn til að standa að drögunum þó svo að ýmislegt í þeim falli ekki að þeim skoðunum sem ríkjandi eru innan Sjómannasambands Íslands.


Bókun Lárusar Jónssonar, fulltrúa Félags rækju- og hörpudiskframleiðenda.


(23. janúar 1990.)



    Ég hef lagt til í nefndinni, f.h. Félags rækju- og hörpudiskframleiðenda, að veiðikvótar úthafsrækju skiptist milli veiða og vinnslu að jöfnu. Í því sambandi hef ég vísað til sérstöðu úthafsrækjuveiðanna, en sáralítill hluti þess flota, sem þær stunda, er í eigu vinnslustöðva gagnstætt því er varðar botnfiskinn. Jafnframt hef ég bent á að vænta megi meiri heildarhagkvæmni í þessari mikilvægu framleiðslu úr sjávarafla með skiptingu kvóta milli veiða og vinnslu úthafsrækju en stefnt er að með tillögu í þessum frumvarpsdrögum. Þetta sjónarmið hefur ekki hlotið nægar undirtektir í nefndinni. Ég hef því fyrirvara um þetta atriði við afgreiðslu málsins.
    Ég hef einnig vakið athygli á sérstöðu veiða og vinnslu innfjarðarækju og hörpudisks og að lög um samræmda vinnslu sjávarafla og veiðar, sem háðar eru sérstökum leyfum nr. 12 frá 25. apríl 1975 verði, áfram í gildi þrátt fyrir fyrirhugaðar breytingar á lögum sem gert er ráð fyrir í frumvarpsdrögum þessum. Í fyrrgreindum lögum er mikilvægt ákvæði sem Félag rækju- og hörpudiskframleiðenda leggur þunga áherslu á að ekki verði breytt né skert án samráðs við framleiðendur.
    Að öðru leyti vísa ég til vinnugagna sem lögð hafa verið fram í nefndinni af hálfu félagsins og undirrita nefndarálitið með vísan til framangreindrar bókunar.


Bókun Hreggviðs Jónssonar, fulltrúa þingflokks Frjálslynda hægriflokksins.


(26. janúar 1990.)



    Ráðgjafarnefnd um mótun fiskveiðistefnu hefur unnið gott starf, aflað mikilsverðra upplýsinga og skoðað ýmsa mismunandi valkosti um stjórn fiskveiða. Það er hins vegar ljóst að samkomulag er ekki um frumvarpsdrögin og ágreiningur er um veigamikla þætti.
    Frjálslyndi hægriflokkurinn telur hins vegar brýnt að ný lög um stjórn fiskveiða verði lögð fram af sjávarútvegsráðherra á Alþingi sem fyrst. Frjálslyndi hægriflokkurinn mun þá taka endanlega afstöðu til frumvarpsins og er undirritun mín í dag því gerð með fyrirvara og m.a. vísað til fyrri bókunar í nefndinni.
    Í þessu sambandi er rétt að minna á dóms- og refsiákvæði laganna, tómstundaveiðar og auknar takmarkanir á útflutning fersks fisks. Þá er það álitamál hvort ekki eigi að leggja á sérstakt veiðigjald.


Bókun Eiðs Guðnasonar, fulltrúa þingflokks Alþýðuflokksins.


(26. janúar 1990.)



    Undirritaður hefur fyrir hönd þingflokks Alþýðuflokksins tekið þátt í störfum ráðgjafarnefndar um mótun fiskveiðistefnu.
    Í skipunarbréfi nefndarinnar segir m.a. að nefndin skuli athuga „tilhögun veiðiheimilda, m.a. heimilda sem ekki séu bundnar við skip“. Þetta hefur verið rætt í nefndinni, en um það reyndist ekki samstaða og er því ekkert að finna í þeim drögum, sem nefndin skilar, er þetta atriði varðar. Undirritaður telur þetta miður og ítrekar þá stefnu Alþýðuflokksins að skilja beri milli skipa og veiðiheimilda.
    Þingflokkur Alþýðuflokksins telur að við mótun fiskveiðistefnu beri að taka meira tillit til byggðasjónarmiða, en gert er í þeim frumvarpsdrögum sem nú liggja fyrir.
    Þá skal bent á að ástæða er til að sinna betur því verkefni sem nefndinni var falið, „að kanna áhrif laganna á afkomu og hagkvæmni í sjávarútvegi og skynsamlega nýtingu fiskstofna“. Frekar mætti vinna að slíkri athugun meðan málið er til meðferðar á Alþingi.
    Undirritaður leggur áherslu á að gott samkomulag hefur tekist í nefndinni um ýmis mikilvæg atriði er horfa til betri vegar, svo sem breytingu kvótaársins, rýmri reglur um framsal veiðiheimilda og að nefnd taki vigtunarmál í tengslum við útflutning til gagngerðrar athugunar.
    Ljóst er að málið á eftir að taka breytingum í meðförum Alþingis og áskilja þingmenn Alþýðuflokksins sér rétt til að flytja og fylgja breytingartillögum sem þar kunna fram að koma.


Ályktun FFSÍ um stjórn fiskveiða,


undirrituð af fulltrúa þess, Guðjóni A. Kristjánssyni.



    Stjórn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands samþykkir ekki frumvarp til nýrra laga um stjórn fiskveiða eins og það birtist í drögum 20. janúar 1990.
    Helsta ástæða fyrir þessari afstöðu FFSÍ er sú að í frumvarpsdrögunum er gert ráð fyrir sölu á óveiddum fiski sem mun leiða af sér byggðaröskun, misvægi milli einstakra útgerðarflokka, t.d. báta og togara, og aukinn tekjumun milli sjómanna. Þá vill FFSÍ benda á það ósamræmi í frumvarpinu og reyndar í gildandi lögum um stjórn fiskveiða sem fellst í því ákvæði sem segir að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar á sama tíma og einstakir handhafar veiðiréttar hafa umtalsverðar tekjur af sölu á óveiddum fiski.
    FFSÍ hefur algjörlega hafnað hugmyndum um sölu á óveiddum fiski í fyrri samþykkt 28. nóvember sl. Í sömu samþykkt var jafnframt bent á leiðir, sem gætu dregið verulega úr viðskiptum á óveiddum fiski.
    FFSÍ harmar hversu lítil umfjöllun hefur verið í ráðgjafarnefndinni um þetta mikilvæga atriði í frumvarpsdrögunum og þá sérstaklega um þær afleiðingar, sem óheft sala á óveiddum fiski, getur haft í för með sér bæði fyrir einstaklinga og þjóðarbúið í heild.
    FFSÍ lýsir eindregnum vilja til að finna lausn á því vandamáli sem sala á óveiddum fiski er í dag og gæti orðið í framtíðinni og er því reiðubúið til að vinna að frekari útfærslum eða hugmyndum sem gætu leitt til farsællar lausnar á þessu vandasama máli.


Sérálit Guttorms Einarssonar fyrir hönd Borgaraflokksins


á fundi ráðgjafarnefndar um fiskveiðistefnu.


(26. janúar 1990.)



    Í drögum að frumvarpi um stjórn fiskveiða, sem nefndin er að senda frá sér og kynnt voru í ríkisstjórninni 23. janúar, hljóðar fyrsta greinin svo:
    „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“
    Jafnframt segir í erindisbréfi nefndarinnar:
    „Nefndin skal m.a. kanna áhrif laganna á afkomu og hagkvæmni í sjávarútvegi og skynsamlega nýtingu fiskstofna. Einnig skal hún athuga tilhögun veiðiheimilda, m.a. heimilda sem ekki eru bundin við skip.
    Undirritaður álítur að viðunandi verndunarsjónarmið hafi náð fram í frumvarpinu og það leiði til hraðfara samdráttar í flota landsmanna, en það fullnægi engan veginn þeim skilyrðum sem vega þyngst á metunum samkvæmt ofanrituðu og skulu vera leiðandi í því.
    Uppkast frumvarpsins kom frá undirnefndum til aðalnefndar og lá fyrir þegar undirritaður kom í nefndina. Í undirnefndunum störfuðu m.a. hagsmunaaðilar og bar uppkastið þess glögg merki að sjónarmið þröngs hóps voru þar allsráðandi, þ.e. sérhagsmunir hans á kostnað þjóðarhags.
    Uppkastið byggist nær alfarið á frjálsum markaðsviðskiptum með veiðiheimildir, án tillits til hagsmuna fiskvinnslu eða byggða, og þrátt fyrir ítrekaða viðleitni margra nefndarmanna hefur nefndinni ekki tekist að lagfæra þessa megingalla.
    Verði frumvarpið svo búið að lögum kemur það óhjákvæmilega til með að lækka rauntekjur þjóðarinnar vegna minnkandi atvinnu og lækkandi verðmætastigs sjávarafurða. Erlendir aðilar munu leynt og ljóst fá nær hömlulausa íhlutun til áhrifa á útflutning óunnins afla. Með þessu mun Ísland nálgast þann hóp þjóða er byggja afkomu sína á hráefnisútflutningi.
    Enginn jöfnuður næst milli landshluta í úreldingu fiskveiðiflotans og verður hún bæði svo hröð og tilviljunarkennd að hún kippir gjörsamlega fótunum undan atvinnuöryggi smærri sjávarplássa án þess að ráðrúm gefist til þess að skapa ný atvinnutækifæri.
    Þetta óvissuástand nægir eitt sér til þess að fólksflótti bresti á í þessum byggðum og þjóðflutningar þeir, sem koma í kjölfarið, munu leiða af sér ómælt eignatjón og félagslegar hörmungar fyrir stóran hluta þjóðarinnar. Þannig varpar frumvarp þetta fyrir róða félagslegu öryggi um land allt.
    Afleiðingar alls þessa munu skapa væntanlegum ríkisstjórnum – og jafnvel þeirri sem nú situr – ómælda erfiðleika við að leysa vanda þessara byggðarlaga, sem og fólksins þar og í nærliggjandi sveitum er mun flosna upp og hrökklast frá verðlausum eignum sínum. Áður en varir munu stjórnvöld tilneydd að greiða götu þessa fólks og bæta tjón líklega með því að leggja auðlindaskatt (veiðileyfisgjald) á þá fáu sem eftir standa með veiðiréttinn og margfalda þannig þessa óheillaþróun.
    Það má öllum vera ljóst að þessi leið til að minnka fiskveiðiflota landsmanna er of dýru verði keypt. Þá skal á það bent að uppsöfnun veiðiréttarins á fárra hendur mun á skömmum tíma veita handhöfum hans hefðbundinn eignarrétt á þessari veigamestu auðlind okkar og hugsanlegan bótarrétt þegar þar kemur að nauðsyn krefst breytinga á fyrirkomulaginu.
    Til að forðast þennan vanda hefur undirritaður stutt hugmyndir um fiskvinnslu- og byggðakvóta og vísar til umræðna um þau mál. Það er álit hans að vönduð útfærsla á samþættingu veiði-, vinnslu- og sveigjanlegs landshlutakvóta hefði náð settum markmiðum með hæfilega hraðfara úreldingu veiðiskipa og fiskvinnslustöðva. Þannig fengist svigrúm fyrir byggðarlögin að móta nýja atvinnustefnu með hliðsjón af breyttum markaðsviðhorfum, og til þrautavara aðlögunartími til samdráttar í stærri byggðakjarna.
    Með tilvísan til þeirra breytinga, sem ríkisvaldið hefur orðið að grípa til við aðskilnað dómsvalds og lögreglu, álítur undirritaður að ekki verði komist hjá því að færa eftirlit, refsivald og stjórn fiskveiða frá sjávarútvegsráðuneytinu til sjálfstæðrar stofnunar og viðeigandi dómstóls sem sæi um framkvæmd laganna. Í ölduróti íslenskra stjórnmála skapar slíkt fyrirkomulag stöðugleika í málefnum sjávarútvegs og fiskvinnslu.
    Starfsfólki sjávarútvegsráðuneytisins undir forustu Árna Kolbeinssonar ráðuneytisstjóra færir undirritaður bestu þakkir fyrir vönduð störf, skelegga fundarstjórn og mikla lipurð í tilraunum til að laða fram einingu í nefndinni. Á sama hátt lýsir hann yfir fullu trausti á störf fundaritara og skilningi á nauðsyn þess að stytta fundargerðir svo sem kostur er þótt það kunni jafnvel að leiða til þess að túlka megi ummæli manna þar á verri veg sé vilji fyrir hendi. Hann harmar að undir ágætri stjórn þeirra hefur nefndin ekki borið gæfu til að ná þeim markmiðum, sem fram koma í erindisbréfi nefndarinnar, og yfirlýst eru í 1. gr. frumvarpsins.
    Að öllu meðtöldu hefur undirritaður komist að þeirri niðurstöðu að lagafrumvarpið sé enn ófullburða og hefur því ákveðið að beita áhrifum sínum á öðrum vettvangi til lagfæringa á því.
    Því telur hann sér skylt að hafna frumvarpsdrögunum eins og þau liggja fyrir og getur ekki tekið ábyrgð á þeim afleiðingum sem þau munu skapa þjóðinni allri og þó sérstaklega landsbyggðinni sem byggir mestalla afkomu sína á sjávarútvegi og fiskvinnslu, verði þau að lögum.


Bókun Jóhanns A. Jónssonar.


(25. janúar 1990.)



    Fyrsta grein í drögum að frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða hljóðar svo:
    „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.
    Í erindisbréfi nefndarinnar er eftirfarandi tekið fram:
    „Nefndin skal m.a. kanna áhrif laganna á afkomu og hagkvæmni í sjávarútvegi og skynsamlega nýtingu fiskstofna. Einnig skal hún athuga tilhögun veiðiheimilda, m.a. heimilda sem ekki eru bundin við skip.
    Undirritaður álítur að lagafrumvarpið fullnægi ekki ofangreindum markmiðum.
    Afleiðing þeirrar stefnu, sem í frumvarpsdrögunum felst, mun skapa stjórnvöldum mikla erfiðleika og leiðir af sér fólksflutninga samfara eignatjóni og félagslegum hörmungum.
    Ég vísa til tillagna um fiskvinnslukvóta og umræðna um byggðakvóta sem fram fóru í nefndinni.
    Þrátt fyrir góðan vilja margra nefndarmanna hefur nefndin ekki borið gæfu til að vinna störf sín í samræmi við erindisbréf og yfirlýst markmið draganna eins og kemur fram í fyrstu grein þeirra.
    Samkvæmt ofanrituðu get ég ekki samþykkt frumvarpsdrögin eins og þau liggja fyrir og tekið þannig ábyrgð á þeim afleiðingum sem þau munu skapa þjóðinni allri og þó sérstaklega landsbyggðinni sem byggir mest alla afkomu sína á sjávarútvegi.


Sérálit Verkamannasambands Íslands á drögum


að frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða.


(26. janúar 1990.)



    Með drögum þeim að lögum um stjórn fiskveiða, sem meiri hluti ráðgjafarnefndar um mótun fiskveiðistefnu virðist hafa komið sér saman um, er ljóst að verið er að lögfesta um ófyrirséða framtíð eignarhald útgerðar á þessari þýðingarmestu auðlind þjóðarinnar.
    Það er einnig deginum ljósara að nái frumvarpið fram að ganga í óbreyttri mynd, verða aflaheimildir komnar á hendur örfárra fjársterkra útgerðaraðila innan fárra ára. Fyrir sjómenn mun það þýða gífurlegan mismun á tekjum og fyrir fiskvinnslufólk atvinnumissi og byggðaröskun í meira mæli en áður hefur þekkst.
    Verkamannasamband Íslands telur að verði drög þessi að lögum hafi ráðgjafarnefndin með öllu misst sjónar á upphaflegum tilgangi laganna eins og hann kemur fram í 1. gr., að nytjastofnarnir séu eign þjóðarinnar allrar og sem nýta beri af hagkvæmni og tryggja með því atvinnu og byggð í landinu.
    Því leggur Verkamannasamband Íslands til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
    7. gr. 2. mgr. orðist svo: 70% veiðiheimilda á þeim tegundum, sem heildarafli er takmarkaður af á hverjum tíma, skal úthlutað til einstakra skipa. Nefnist það aflahlutdeild skips.
    Gerðar verði breytingar á frumvarpinu sem þörf er á til samræmis við þetta.

Ákvæði um fiskvinnslukvóta


sem felld verði inn í viðeigandi greinar frumvarpsins.


(26. janúar 1990.)



1.     30% veiðiheimilda á þeim tegundum, sem heildarafli er takmarkaður af á hverjum tíma, skal úthlutað til einstakra fiskvinnslustöðva. Nefnist það aflahlutdeild vinnslustöðva. Aflahlutdeild vinnslustöðvar skal einungis ráðstafa til vinnslu í viðkomandi fiskvinnslustöð, sbr. þó 4. gr.
2.     Aflahlutdeild vinnslustöðva er fundinn þannig að lagður er saman allur afli vinnslustöðva sem móttekinn var til vinnslu árin 1987, 1988 og 1989. Síðan er mótteknum afla einstakra fiskvinnslustöðva í þessi þrjú ár deilt upp í heildartöluna.
3.     Nú hefur fiskvinnslustöð hætt starfsemi sinni án gjaldþrots fyrir árslok 1988 og skal þá reiknuð aflahlutdeild hennar fyrir árin 1987 og/eða 1988 bætast við aflahlutdeild þeirra fiskvinnslustöðva sem eftir eru í byggðarlaginu.
4.     Ekki er vinnslustöð heimilt, að selja eða fénýta aflahlutdeild sína á annan hátt en getið er um í 1. gr., en skipti á afla á jöfnu mega fara fram milli fiskvinnslustöðva í samráði við eða með vitneskju ráðuneytis.
5.     Nú hættir fiskvinnslustöð starfsemi sinni og skal þá aflahlutdeild hennar renna til fiskvinnslustöðva sem fyrir eru í byggðarlaginu eftir sömu reglum og um getur í 2. gr. í samráði við ráðuneytið.
6.     Verði fiskvinnslufyrirtæki gjaldþrota og nýtt fyrirtæki hefur rekstur með húsakosti og tækjum hins gjaldþrota fyrirtækis innan tveggja ára skal hið nýja fyrirtæki fá úthlutað aflahlutdeild þess fyrirtækis er gjaldþrota varð.
7.     Leggist fiskvinnsla niður í byggðarlagi skal aflahlutdeild þess eða þeirra fiskvinnslustöðva, er hættu rekstri, skiptast milli fiskvinnslustöðva í viðkomandi landsfjórðungi eftir sömu reglum og um getur í 2. gr.
8.     Heimildir til að flytja aflamark á milli fiskveiðiára skulu vera þær sömu hjá fiskvinnslustöðvum og um getur í 10. gr. laganna.
    Verkamannasambandið telur að koma beri í veg fyrir sölu á óveiddum afla nema í sérstökum undantekningartilfellum og bendir á að þær hömlur á slíkri sölu, sem fram koma í tillögum Farmanna- og fiskimannasambands Íslands um breytingar á 11. og 12. gr. laganna, væru rétt spor í þá átt.
    Einnig gerir VMSÍ að tillögu sinni að í 16. grein komi ný málsgrein á eftir 1. mgr. er hljóði svo: „Öllum fiski, sem fluttur er út í gámum, fylgi vigtarvottorð er tilgreini þyngd og fjölda tegunda í hverjum gámi.“
    Rökin fyrir því að bæta þessari málsgrein inn eru ærin. Eins og fram kom í umræðum í nefndinni fullyrti undirritaður að beitt væri skipulögðum þjófnaði á vog á erlendum fiskmörkuðum og virðast íslenskir seljendur sætta sig við 10% „rýrnun“. Upplýsingar, sem ráðuneytið hafði undir höndum, sýndu „rýrnun“ allt frá 4% í 27%.
    Það má furðu gegna að hvorki seljendur né stjórnvöld virðast hafa gert minnstu tilraun til að leiðrétta það ranglæti, en fyrsta skrefið til að koma kvörtunum á framfæri er að hafa í höndunum staðfestingu á því að menn viti með nokkurri nákvæmni hvað þeir eru að senda frá sér.
    Einnig vill VMSÍ benda á að óhóflegur útflutningur á óunnum fiski hefur þegar valdið umtalsverðu atvinnuleysi fiskvinnslufólks víðs vegar um land og telur Verkamannasambandið það ekki í anda laganna um fiskveiðistefnu að byggja upp atvinnulíf á Humber-svæðinu og í Norður-Þýskalandi meðan „eigendur“ auðlindarinnar ganga um atvinnulausir.
    Því leggur VMSÍ til að allur fiskur, sem fluttur er út óunninn en veginn hér á landi, taki á sig 15% álag, sbr. síðustu málsgrein 10. gr., en sé slíkur fiskur fluttur út óveginn taki hann á sig 25% álag.


Sérálit Unnar Steingrímsdóttur og Kristínar Halldórsdóttur


fyrir hönd kvennalistakvenna.


(26. janúar 1990.)



    Í þessum drögum að frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða er markmiðssetning skýr þar sem segir orðrétt í 1. gr.: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“
    Vissulega eru þetta þau markmið sem að skal stefnt, að viðbættum atriðum eins og betri kjörum, aðbúnaði og öryggi þeirra sem starfa í sjávarútvegi. kvennalistakonur telja þessi frumvarpsdrög hins vegar í algjörri mótsögn við þessi markmið þar sem veiðiheimildum er sem fyrr úthlutað beint til einstaklinga og útgerðarfélaga sem geta ráðskast með þær í eiginhagsmunaskyni. Hagsmunir fiskvinnslufólks og byggðasjónarmið eru algjörlega fyrir borð borin þrátt fyrir vaxandi fylgi við þau sjónarmið innan nefndarinnar sem vann að mótun frumvarpsdraganna. Þess vegna sjá kvennalistakonur sér ekki fært að samþykkja þessi drög enda þótt nokkur atriði horfi þar til betri vegar frá núgildandi lögum. Ber þar sérstaklega að nefna breytt mörk fiskveiðiárs sem stuðlað geta að hagkvæmni í vinnslu, dregið úr aflatoppum að sumrinu og hamlað gegn atvinnuleysi á síðustu mánuðum ársins.
    Hér á eftir verða raktir í stórum dráttum þeir þættir í stjórn fiskveiða sem kvennalistakonur leggja mesta áherslu á:
1.     Með tilliti til ástands fiskstofna og afkastagetu fiskiskipastólsins er óhjákvæmilegt að beita kvótastjórn a.m.k. enn um sinn. Kvennalistinn telur affarasælast að úthluta hlutdeild í veiðiheimildum til byggðarlaga, sbr. tillögur sem kvennalistakonur lögðu fram við undirbúning og afgreiðslu núgildandi laga um stjórn fiskveiða.
2.     Kvennalistinn vill efla verulega rannsóknir á auðlindinni og telur jafnframt eðlilegt að Hafrannsóknastofnun verði færð frá hagnýtingarráðuneyti atvinnugreinarinnar og sett undir umhverfisráðuneyti. Auk þess sem nauðsynlegt er að huga enn frekar að gæðum en nú er gert verður að bæta nýtingu sjávarafla, auka úrvinnslu sjávarafurða, vöruþróun og markaðsrannsóknir.
3.     Kvennalistinn hafnar því algjörlega að íslensk útgerð haldi uppi erlendri fiskvinnslu á kostnað okkar eigin. Við verðum að tryggja okkar eigin vinnslu nægilegt hráefni, fyrst og fremst til að tryggja atvinnu fiskvinnslufólks. Einnig er nægilegt hráefni forsenda þess að unnt sé að auka fullvinnslu sjávarafurða, bæta nýtingu og auka verðmæti aflans. Kvennalistinn telur þó rétt að leyfa takmarkaðan útflutning á ísfiski, en um það þurfa að gilda skýrar reglur. Á tækniöld er vel framkvæmanlegt að fylgjast með því hvort menn nýta erlenda ísfiskmarkaðinn skynsamlega og því sjálfsagt að nota útflutning ásamt aflamiðlun innan lands til þess að taka kúfinn af aflatoppum.
4.     Kvennalistinn telur ákvæði frumvarpsdraganna um vigtun sjávarafla spor í rétta átt, en hefði viljað ganga lengra og gera skylt að vigta allan afla innan lands. Um þann afla, sem seldur er erlendis án viðkomu í íslenskri höfn, mætti notast við þær reglur sem nú eru í gildi um kvótaskerðingu að því tilskildu að eftirlit erlendis sé í samræmi við kröfur hér á landi.

    Rauði þráðurinn í þessum frumvarpsdrögum, líkt og í núgildandi lögum, er sú ofuráhersla sem lögð er á yfirráð sjávarútvegsráðuneytisins og sjávarútvegsráðherra á öllum stigum í stjórn fiskveiða og eftirliti. Þrátt fyrir áherslu kvennalistakvenna á valddreifingu viðurkenna þær nauðsyn vissrar miðstýringar í þessari atvinnugrein með tilliti til heildarhagsmuna þar sem umrædd auðlind er „sameign íslensku þjóðarinnar“, sbr. 1. gr. draganna, en öllu má nú ofbjóða.
    Ráð til að draga úr miðstýringu eru nokkur. Má þar minna á fyrrnefnda hugmynd um tilflutning Hafrannsóknastofnunar, auk þess sem ástæða er til að íhuga vel leiðir til að flytja eftirlitsþáttinn frá ráðuneytinu til annarra aðila, t.d. Fiskifélags Íslands eða e.t.v. væntanlegs umhverfisráðuneytis.
    Þyngst mundi þó vega breytt tilhögun við úthlutun veiðiheimilda. Við afgreiðslu núgildandi laga fyrir rúmum tveimur árum lögðu kvennalistakonur fram tillögur í þeim efnum. Þær eru enn í fullu gildi. Þá, eins og nú, töldu þær fyrst og fremst nauðsynlegt að rjúfa óeðlilegt samband milli skips og veiðiheimilda og vildu úthluta veiðiheimildum til byggðarlaga. Með því móti væru hagsmunir þeirra og þess fólks, sem starfar í sjávarútvegi, best tryggðir, auk þess sem slík tilhögun mundi draga úr óhóflegri miðstýringu.
    Reynslan hefur sannað réttmæti þessara sjónarmiða og flestir annmarkar núgildandi tilhögunar, sem bent var á, komnir fram. Þrátt fyrir það og vaxandi skilning og stuðning við áðurnefndar hugmyndir, m.a. í kvótanefndinni svokölluðu, sér þess ekki stað í þessum frumvarpsdrögum.
    Kvennalistakonur hafna því þessum drögum, en munu vinna áfram að framgangi tillagna sinna við umfjöllun málsins á Alþingi.



Fylgiskjal II.


Breytingartillögur við frumvarp til laga um stjórn fiskveiða


lagðar fram af Jóhanni A. Jónssyni og Árna Benediktssyni.



    7. gr. breytist.
    Önnur málsgrein hefjist þannig: „7% veiðiheimilda á þeim tegundum, sem heildarafli er takmarkaður af á hverjum tíma, skal úthlutað til einstakra skipa. Nefnist það aflahlutdeild skips ... „
    Gerðar verði þær breytingar á frumvarpinu, sem þörf er á til samræmis við þetta.

Ákvæði um fiskvinnslukvóta


sem verði felld inn í viðeigandi greinar frumvarpsins.



    „30% veiðiheimilda á þeim tegundum, sem heildarafli er takmarkaður af á hverjum tíma, skal úthlutað til einstakra fiskvinnslustöðva. Nefnist það aflahlutdeild vinnslustöðva.“
    „Aflahlutdeild vinnslustöðva er fundin þannig að lagður er saman afli allra vinnslustöðva sem móttekin, var til vinnslu árin 1987, 1988 og 1989. Síðan er mótteknum afla einstakra fiskvinnslustöðva í þessi þrjú ár deilt upp í heildartöluna.“
    „Nú hefur fiskvinnslustöð hætt starfsemi sinni án gjaldþrots fyrir árslok 1988 og skal þá reiknuð aflahlutdeild hennar fyrir árin 1987 og/eða 1988 bætast við aflahlutdeild þeirra fiskvinnslustöðva sem eftir eru í byggðarlaginu.“
    „Hafi fiskvinnslustöð orðið gjaldþrota á árunum 1988/1989 og sé starfsemi hafin í nýju fyrirtæki innan árs frá gildistöku laga þessara í fyrri húsakynnum hennar og með vélbúnaði hennar má úthluta nýja fyrirtækinu útreiknaða aflahlutdeild þeirrar stöðvar sem varð gjaldþrota.“
    „Nú hættir fiskvinnslustöð starfsemi sinni og er henni þá heimilt að framselja aflahlutdeild sína varanlega til annarra fiskvinnslustöðva fyrir lok fiskveiðiárs. Að þeim tíma liðnum fellur réttur til aflahlutdeildar niður. Nú hefur fiskvinnslustöð orðið gjaldþrota og skal þá nýtt fyrirtæki, sem tekur til starfa í húsakynnum og með vélbúnaði hennar innan tveggja ára frá gjaldþroti, eiga rétt á aflahlutdeild hennar.“
    „Fiskvinnslustöð er heimilt að afhenda aflahlutdeild sína til árs í senn, einu eða fleiri fiskiskipum, og er henni skylt að tilkynna sjávarútvegsráðuneytinu um afhendingu jafnóðum og hún fer fram og fá viðurkenningu fyrir. Ekki er heimilt að afhenda fiskiskipi aflahlutdeild nema til veiða fyrir viðkomandi fiskvinnslustöð. Afhenda má aflahlutdeild fiskiskipi, sem landar afla sínum á fiskmarkað, samkvæmt sérstökum samningi um viðskipti fiskvinnslustöðvarinnar við fiskmarkaðinn.“
    „Fiskvinnslustöðvar geta sameinað aflahlutdeild sína varanlega og einnig má framselja aflahlutdeild öðrum fiskvinnslustöðvum varanlega. Sé fyrirhugað að framselja aflahlutdeild til annars byggðarlags hefur fiskvinnslustöð eða fiskvinnslustöðvar í byggðarlaginu forkaupsrétt. Sé fyrirhugað að sameina fiskvinnslustöð fyrirtæki í öðru byggðarlagi er skylt að bjóða fiskvinnslustöðvum í byggðarlaginu aflahlutdeildina á gangverði.“
    „Heimilt er að flytja allt að 20% af aflamarki hverrar botnfisktegundar og aflamarki úthafsrækju frá einu fiskveiðiári yfir á það næsta. Á sama hátt er heimilt að flytja allt að 10% af aflamarki humars og síldar frá einu veiðitímabili til þess næsta.“

Greinargerð.


    Það hefur legið fyrir frá upphafi að skoða yrði hvort ekki væri rétt að skipta aflahlutdeildinni milli fiskiskipa og vinnslustöðva. Þar að auki hefur verið uppi það sjónarmið að skoða þyrfti á hvern hátt væri hægt að festa veiðiheimildir við ákveðin byggðarlög að meira eða minna leyti. Þegar ráðgjafarnefndin kom fram með fyrstu frumvarpsdrögin voru þessi álitamál sett fram ásamt ýmsu öðru þannig að þau biðu nánari umræðu. Þess vegna fóru frumvarpsdrögin til umfjöllunar fiskiþings, aðalfundar LÍÚ og Farmanna- og fiskimannasambandsins á þann hátt að í meginmáli var öll aflahlutdeildin sett á skip í sundurliðunum útfærðum tillögum sem auðvelt var að átta sig á.
    Hins vegar var aflahlutdeild vinnslustöðva ekki formlega sett fram í sundurliðuðum tillögum og kann það að hafa orðið til þess að skilning skorti á því hvernig hann yrði framkvæmdur. Til þess bendir m.a. að á síðasta fundi ráðgjafarnefndarinnar koma fram sú spurning hvernig menn gerðu ráð fyrir að hægt væri að skipta aflahlutdeild af Ögra milli margra fiskvinnslustöðva þannig að sitt lítið kæmi í hlut hverrar. Þetta bendir til þess að spyrjandinn hafi haldið að fiskurinn sé eyrnamerktur ákveðnum skipum, en svo er ekki eins og margir vita. En fleirum kynni að hafa skjátlast, þó varla svona óskaplega. En slík vanþekking á því sem verið er að fjalla um kynni að hafa orðið til þess að niðurstöður ofannefndra þinga og funda hafi ekki verið eins marktækar og ætla mátti.

Tillögur um aflahlutdeild fiskvinnslustöðva.
    Þess vegna er ábyggilega ástæða til að setja fram tillögur með meginlínum um hvernig haga megi aflahlutdeild vinnslustöðva. Ekki er við því að búast að allt sé tínt til sem nauðsynlegt er að taka inn í frumvarpið ef mönnum skyldi sýnast að betra væri að hafa þennan háttinn á. En í ráðgjafarnefndinni eru margir sem væntanlega yrðu fúsir til að bæta úr ágöllum þeim sem menn kynnu að sjá.

Fiskveiðistjórn til frambúðar.
    Þeim fjölgar stöðugt sem gera sér ljóst að um fyrirsjáanlega framtíð verður að takmarka þann afla sem tekinn er úr sjónum. Veiðarfæri eru orðin það fullkomin og leitartæki svo örugg að tiltölulega auðvelt er að elta fiskinn hvar sem hann er í höfunum og ná honum í veiðarfæri. Séu veiðar algjörlega stjórnlausar er líklegast að flestir fiskstofnar yrðu ofveiddir og þeim jafnvel útrýmt. Og veiðarfæri verða enn þá fullkomnari og fiskileitartæknin er enn í framför. Þess vegna þarf stjórnvaldsaðgerðir til þess að takmarka afla. Þess vegna þarf reglur til þess að stjórna veiðunum hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.
    Það er orðinn meira en áratugur síðan Íslendingar neyddust til að taka upp verulegar takmarkanir á fiskveiðum. Segja má að allan þann tíma höfum við verið að leita að skipulagi sem hæfði okkur og flestir gætu sætt sig við. Allan þennan tíma hafa staðið deilur um þær aðferðir sem notaðar hafa verið. Þetta hefur valdið röngum ákvörðunum um fjárfestingu þar sem menn hafa gjarnan verið að keppast við að gera eitthvað sem kynni að verða bannað í næstu lögum um fiskveiðistjórn.

Framtíðarskipulag.
    En nú er væntanlega orðið tímabært að leit að aðferðum ljúki og við komum okkar saman um framtíðarskipulag. Skipulag, sem vonast er til að hæfi til frambúðar, verður að vera vel undirbúið og það þarf að skoða sem flesta möguleika og reyna að gera sér grein fyrir afleiðingunum af hverju skrefi sem stigið er. Ráðgjafarnefnd um fiskveiðistjórn, sú sem nú situr, hefur fengið mjög rúman tíma til þess að skoða tillögur og hefur að flestu leyti unnið mjög gott starf. En samt skortir töluvert á að hún hafi reynt að kortleggja áhrifin af þeim hugmyndum sem fram hafa komið. Það er nauðsynlegt að bæta úr því og hér verður gerð tilraun í þá átt.

Aflaheimild er vald.
    Fram á síðasta áratug var Íslendingum heimilt að sækja sjóinn að vild með örfáum undantekningum. Það varð mikil breyting þegar nauðsynlegt reyndist að taka upp skömmtun á afla. Nýtt afl kom til sögunnar í þjóðfélaginu, yfirráð yfir aflaheimild. Það má glögglega sjá þýðingu þessa nýja afls á því hvert fjárhagslegt verðmæti þess er orðið í verði fiskiskipa og tímabundnu framsali aflaheimilda. Hins vegar eru hin gífurlegu áhrif þess í skiptum innan sjávarútvegsins ekki eins greinileg, en þau eru engu að síður tilfinnanleg fyrir þá sem verða fyrir barðinu á þeim eins og glöggt mátti sjá þegar tilraun varð gerð til þess að auka frjálsræði í verðlagningu sjávarfangs.
    Þegar reglur eru settar í lýðræðisþjóðfélagi hlýtur alltaf að verða að leitast við að hafa jafnræði, að reglurnar séu ekki þannig að einn hafi frjálsar hendur, en annar sé bundinn og varnarlaus. Það á ekkert síður við um fiskveiðistjórn en hvað annað að nauðsynlegt er að leita jafnræðis, að t.d. útgerð og fiskvinnsla hafi jafna samningsstöðu í viðskiptum sínum með fisk. Slíkt jafnræði er ekki fyrir hendi ef annar hefur allt í hendi sér, en hinn ekkert. Að þessu þarf að huga vel áður en endanlega er gengið frá frumvarpi til laga um fiskveiðistjórn.
    Það hefur lengi verið vitað að ekki er heppilegt að afhenda einum allt vald yfir ákveðnum gæðum eða ákveðnum málefnum. Þessa dagana höfum við það greinilegar fyrir augunum en oft áður hvaða afleiðingar það hefur að afhenda einum stjórnmálaflokki alræðisvald. Því verður ekki lýst hér, en nákvæmlega það sama á við um alræðisvald yfir auðlindum. Þess vegna ber að forðast það.

Sameiginlegt vald útgerðar og sjómanna.
    Fiskveiðiheimild, sem er bundin við skip, er sameiginlegt vald útgerðarmanna og sjómanna. Þó að vald útgerðarmannsins geti verið nokkru meira en sjómannsins, sem þó er ekki sjálfgefið, verja þeir þetta vald sameiginlega. Þess vegna berjast þeir sameiginlega fyrir því að aflaheimild skuli að öllu leyti bundin við skip, en það er þeirra sameiginlegi vettvangur. Hins vegar eru ákveðnir þættir sem skilja þá innbyrðis. Í því ljósi má skoða að sjómenn eru mótfallnir því að útgerðarmaður geti selt fiskveiðiheimildina fyrir fé eða fénýtt hana á annan hátt án þátttöku sjómanna.

Sameiginlegt vald fiskvinnslu og fiskvinnslufólks.
    Hlutdeild fiskvinnslu í fiskveiðiheimild gefur fiskvinnslu og fiskvinnslufólki hluta af þessu valdi og skapar þannig jafnvægi. Þar eru tengslin ekki eins augljós og tengslin milli útgerðar og sjómanna. Þess vegna hefur ekki náðst samstaða þar á milli. Þeir sem fara með málefni fiskvinnslufólks hafa skirrst við að koma upp að hliðinni á fiskvinnslunni í þessu máli, en þar væri þeirra eðlilegasti staður. Þess í stað hafa þeir reynt að finna sér annan stað til að standa á. Þann stað hafa þeir ekki fundið og hafa því orðið áhrifalausir um málefni sem skiptir umbjóðendur þeirra miklu. Fiskvinnslan hefur ekki heldur staðið einhuga um þessa hagsmuni. Ástæðan fyrir því er sú að fiskvinnslan á veruleg ítök í fiskiskipaflotanum og þar með hefur hún töluverð áhrif á meðferð aflaheimildanna. Ljóst er að afstaða einstakra fiskverkenda byggist mjög á þessum ítökum. Þeir sem hafa yfirráð yfir öllum þeim skipum, sem leggja upp hjá þeim, kæra sig ekki um aflahlutdeild fiskvinnslu. Það er af þeirri einföldu ástæðu að þeir hafa hana nú þegar með yfirráðum yfir skipum. Þeir fiskverkendur, sem ekki eiga fiskiskip sjálfir, kenna mjög þess valds sem fiskveiðiheimildum fylgir. Afstaða þeirra mótast af því.

Hagsmunir fiskvinnslufólks.
    Þeir sem fara með málefni fiskvinnslufólks hafa hallast að hugmyndum um byggðakvóta eða einhverjum undantekningarreglum sem tryggja hagsmuni þeirra. Það skortir töluvert á að byggðakvóti hafi verið skilgreindur nægilega, en þó munu flestir hugsa sér hann þannig að sveitarfélag (sveitarstjórn) hafi ráðstöfunarrétt á hluta kvótans eða að minnsta kosti einhvers konar neitunarvald um ráðstöfun hans. Í slíkum hugmyndum felst engin trygging og ekkert vald til handa fiskvinnslufólki því að þess er varla að vænta að yfirvöld sveitarfélags taki hagsmuni fiskvinnslufólks fram yfir hagsmuni sjómanna. Byggðakvóti yrði því oft hlutlaus í hagsmunatogstreitunni, en útgerð og sjómenn héldu eftir sem áður sínu valdi í sínum hluta aflahlutdeildarinnar. Byggðakvóti mundi því aðeins staðfesta misvægið. Hins vegar er sameiginlegt vald fiskvinnslu og fiskvinnslufólks falið í aflahlutdeild fiskvinnslu. Þó að það vald sé fremur í höndum fiskvinnslunnar en fiskvinnslufólksins er það engu að síður mikilvægara fyrir fiskvinnslufólkið en fyrir einstakar fiskvinnslustöðvar eins og sýnt verður fram á síðar.

Aflahlutdeild fiskvinnslustöðva.
    Fái fiskvinnslan hlutdeild í aflaheimildum mundi hún gera samning við útgerð um að veiða fiskinn. Jafnræðið felst í því að þegar fiskvinnslan semur við útgerð um löndun afla hefur hún eitthvað að bjóða á móti þeim gæðum sem útgerð ræður yfir. Útgerðin fær meira magn til að veiða og lætur ekki fjármuni á móti. Það getur verið spurning hvort skiptingin 30/70 sé hin eina rétta til þess að ná nauðsynlegu jafnvægi milli veiða og vinnslu. Þeirri tölu getur þurft að breyta eftir aðstæðum og eftir þeim markmiðum sem þarf að ná fram hverju sinni. Ef stjórnvöldum, ríkisstjórn eða Alþingi þætti rétt að breyta áherslum, t.d. að auka ferskfisksútflutning eða minnka hann, væri auðveldast að gera það með því að breyta þessum hlutföllum.
    Breyting á hlutföllum annaðhvort með því að auka eða minnka aflahlutdeild skips í hlutfalli við aflaheimild fiskvinnslu með tilliti til þjóðfélagslegra markmiða er líka í samræmi við 1. gr. núgildandi laga um að auðlindir sjávar séu sameign þjóðarinnar. Þannig væri komið í veg fyrir að veiðirétturinn yrði með tímanum einkaeign eins hóps.
    Samningur, sem fiskvinnsla mundi gera við útgerð skips, yrði fólginn í því að skipið legði upp afla hjá fiskvinnslustöðinni og fengi aflahlutdeild frá fiskvinnslustöðinni á móti. Slíkur samningur gæti falist í því að skipið legði upp tilskilið hlutfall aflans og eftir því sem hlutfallið væri hærra fengi skipið meiri aflaheimild á móti. Í sumum tilfellum yrði vafalítið samið um allan afla skips, en oftar má þó búast við að skipið héldi einhverju eftir til þess að nýta hagstæða markaðsmöguleika erlendis. En í slíkum samningum ætti fiskvinnslan og útgerðin í sameiningu að geta fundið það meðalhóf sem þarf til þess að tryggja sæmilega stöðuga vinnslu í fiskvinnslustöðinni og þar með sæmilega trygga atvinnu fyrir fiskvinnslufólkið, jafnframt því að útgerðin gæti nýtt sér erlendan markað þegar verðið er hæst. Að sjálfsögðu er hægt að ná sömu markmiðum ef fiskvinnslan á fiskiskipin og hefur þannig ráðstöfnunarrétt á aflanum.
    Því hefur nokkrum sinnum verið fleygt inn í umræðuna að fiskvinnslan hafi nú þegar tök á ráðstöfun aflans þar sem hún eigi 85% flotans. Sú fullyrðing er röng. Fiskvinnslan hefur að vísu ýmist full umráð eða einhver ítök í 75–85% togaraflotans, en hún hefur minnihlutaítök í bátaflotanum og nánast engin ítök í smábátunum.

Hvað breytist ef frumvarpsdrögin óbreytt verða að lögum?
    Það er hins vegar nokkuð ljóst að ítök fiskvinnslunnar í fiskiskipaflotanum munu aukast verulega ef samþykkt verða ný lög um fiskveiðistjórn þar sem allar fiskveiðiheimildir eru afhentar fiskiskipum. Vörn fiskvinnslunnar verður að reyna að eignast skipin til þess að ná nauðsynlegri stjórn og samræmingu á veiðar og vinnslu. En helstu breytingar, sem búast má við, eru þessar:
1.     Útgerðir munu sameina aflaheimildir í nokkrum mæli og leggja vanbúnustu skipunum. Sennilegast er að þetta gerist á þann hátt að útgerðir bæði sameinist og verði keyptar upp. Líklegt er að þetta gerist í tiltölulega stuttum tíma.
2.     Líklegt er að innan skamms verði þetta til þess að flotinn minnki að því marki að flest skip hafi næg verkefni allt árið. Þar með hefur náðst mikilvægt markmið og afkoma flotans yrði allt önnur og betri.
3.     Samdrátturinn í flotanum kemur mjög misjafnlega niður og ræðst mest af fjárhagslegri getu. Líklegt er að fjölmargar byggðir missi hráefni, jafnvel allt.
4.     Fiskvinnslustöðvar munu týna tölunni, sérstaklega á þeim stöðum sem missa hráefni, en aðrar rísa upp í staðinn á öðrum stöðum. Ekkert í skipulaginu er líklegt til að breyta því sem hefur verið að gerast um langa hríð, þ.e. að fiskvinnslustöðvum fjölgi í heild.
5.     Fiskvinnslustöðvar munu hraða því að ná eignarhaldi á fiskiskipum. Búast má við að þróunin verði sú að fiskveiðiflotinn skiptist í tvennt, annars vegar skip í eigu fiskvinnslustöðva sem veiði fyrir þær og hins vegar skip í eigu sjálfstæðra útgerða sem veiði fyrir erlendan markað.
6.     Ekki verður hægt að taka upp frjálslegri aðferðir við verðlagningu sjávarafurða fyrr en fiskvinnslustöðvarnar hafa náð eignarhaldi á fiskiskipunum, en þá er ekki lengur þörf á neinum aðferðum við verðlagningu.
7.     Eitt aðaláhyggjuefni og meginverkefni stjórnvalda verður að fást við að bjarga þeim byggðarlögum sem missa hráefni.

Hver verður þróunin ef veiðiheimildum er skipt?
1.–3.     Ekki er ástæða til að ætla annað en þróunin verði mjög svipuð og lýst er hér að framan í 1–3 lið. Fremur mætti þó búast við að þróunin yrði nokkru hægari. Þá verður fjárhagslegur styrkur ekki eins allsráðandi í þróuninni þar sem aflahlutdeild fiskiskipaflotans verður miklu verðminni.
4.     Fiskvinnslustöðvum fækkar allnokkuð, en það mun gerast hægt og án þess að veruleg röskun verði á byggð þar sem fiskvinnslustöðvar munu fremur sameinast innan byggðarlags. Atvinna fiskvinnslufólks er því tryggari. Áður var til þess vitnað að hagsmunir fiskvinnslufólks af aflahlutdeild fiskvinnslustöðva væru jafnvel meiri en hagsmunir fiskvinnslustöðvanna sjálfra. Það er vegna þess að fiskvinnslustöð getur þurft að hætta rekstri eins og jafnan verður, en aflahlutdeild hennar verður eftir í byggðarlaginu og færist á aðrar stöðvar þannig að atvinnan verður sú sama.
5.     Líklegt er að eignarhald fiskiskipa verði svipað og nú er, þar sem engin nauðsyn verður fyrir fiskvinnslustöðvarnar að ná yfirráðum yfir þeim. Flest fiskiskipin munu væntanlega veiða bæði fyrir fiskvinnslu hér á landi og til sölu á erlenda markaði.
6.     Öll skipti milli útgerðar og fiskvinnslu verða frjálslegri, þar á meðal í verðlagsmálum, þar sem báðir standa nær jafnfætis þegar gengið er til samninga.
7.     Tapi byggðarlag fiskiskipi af einhverjum ástæðum, t.d. við gjaldþrot eða það sé selt í burtu, verður auðveldara að leysa mál byggðarlagsins án atbeina stjórnvalda þar sem fiskvinnslan hefur aflahlutdeild og hefur því stöðu til að gera samninga við útgerðir skipa um veiðar fyrir sig.

Lokaorð.
    Þeir sem hafa verið að vinna að gerð þessa frumvarps hafa margir, jafnvel flestir, gengið að því verki með það í huga að nú sé orðið tímabært að koma á framtíðarskipulagi þar sem eftirfarandi sjónarmiða sé gætt:
1.     Að fiskveiðiflotinn minnki og verði varanlega af þeirri stærð að hann hafi að jafnaði fullt verkefni árið um kring.
2.     Að ekki þurfi stöðug afskipti stjórnvalda til þess að stýra þróuninni í ákveðinn farveg. Þess í stað verði aðeins settur rammi til að vinna eftir og innan þess ramma verði þróunin algjörlega frjáls og á ábyrgð sjávarútvegsins sjálfs.
3.     Til þess að ná því marki verður að huga vel að því að jafnræði sé í skiptum innan sjávarútvegsins. Augljóst er að mikið skortir á slíkt jafnræði ef einum hóp er fengið í hendur allt það vald sem í aflaheimild felst.