Ferill 395. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 395 . mál.


Sþ.

689. Tillaga til þingsályktunar



um frelsi í gjaldeyrismálum og aðlögun að sameiginlegum fjármagnsmarkaði Evrópuríkjanna.

Flm.: Þorsteinn Pálsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Ingi Björn Albertsson,


Friðrik Sophusson, Halldór Blöndal, Ragnhildur Helgadóttir,


Kristinn Pétursson, Ólafur G. Einarsson, Guðmundur H. Garðarsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gefa gjaldeyrisviðskipti frjáls í samræmi við alþjóðlega þróun í þeim efnum og tryggja þannig að Ísland taki þátt í sókn nágrannalandanna til aukinnar hagsældar og framfara.
    Jafnframt er ríkisstjórninni falið að falla frá sérstökum fyrirvara, sem gerður var af Íslands hálfu við Efnahagsáætlun Norðurlanda 1989–1992, sem hamlar á móti því að eðlileg tengsl skapist við viðskipta- og fjármálalíf í nálægum löndum.

Greinargerð.


    Ákvörðun Evrópubandalagsins um sameinaðan markað frá 1992 hefur skapað gerbreytt viðhorf í viðskipta- og atvinnulífi Evrópu. Á það jafnt við um lönd innan bandalagsins og lönd utan þess, eins og Ísland, sem á þar mikilla viðskiptahagsmuna að gæta. Einhver mesta breytingin, sem er að verða á efnahagslegu umhverfi Evrópu, felst í óhindruðu fjármagnsflæði milli landa og frjálsum bankaviðskiptum og annarri fjármálaþjónustu þvert á landamæri.
    Íslendingar standa í þessum efnum frammi fyrir nýjum aðstæðum sem kalla á viðbrögð af hálfu stjórnvalda og atvinnulífs. Óskiptur fjármagnsmarkaður í Evrópu mun stuðla að því að fjármagnið rennur þangað sem arðsemi þess er mest. Eigendum þess bjóðast fjölbreyttari og betri ávöxtunarkostir. Notkun fjármagns er mikil í fjölmörgum greinum atvinnurekstrar. Samkeppnisstaða fyrirtækja getur af þeim sökum ráðist af því hversu greiðan aðgang þau hafa að fjármagni og á hvaða kjörum. Það er því þýðingarmikið hagsmunamál íslenskra atvinnufyrirtækja að þau hafi í þessu efni ekki lakari aðstöðu en keppinautar þeirra í Evrópu. Margt þarf að breytast til að svo verði.
    Ákvörðun Evrópubandalagsins um afnám allra hafta í fjármagnsviðskiptum tekur gildi 1. júlí 1990. Þessi ákvörðun gildir um öll aðildarlönd Evrópubandalagsins, en Spánn, Portúgal, Grikkland og Írland hafa frest til ársloka 1992 til að framfylgja ákvæðum hennar. Bretland, Vestur-Þýskaland og Holland hafa fellt niður hömlur á gjaldeyrisviðskipti. Sama gildir um Danmörku. Danski seðlabankinn tilkynnti 1. október 1988 að Danmörk hefði að fullu uppfyllt ákvæðin í fyrrgreindri ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins um afnám hafta í fjármagnsflutningum.
    Evrópubandalagið lét á sínum tíma kanna hvaða fjárhagslegur ávinningur gæti orðið af aukinni samkeppni í fjármálaþjónustu í framhaldi af samruna fjármagnsmarkaða í aðildarríkjum bandalagsins og heimilda til að bjóða fram og selja þjónustu af þessu tagi. Meginniðurstaðan af þessari athugun, sem tók til átta aðildarríkja bandalagsins, er að búast má við 10% lækkun á þjónustukostnaði að meðaltali og svarar þessi lækkun til 0,7% af samanlagðri landsframleiðslu landanna átta. Niðurstöðurnar bera jafnframt með sér að gera má ráð fyrir enn meiri ávinningi í þeim löndum þar sem fjármagnsmarkaðir eru skammt á veg komnir á þróunarbrautinni og einangraðir frá umheiminum. Ef gert er ráð fyrir að niðurstöður athugunarinnar eigi í grófum dráttum einnig við hér á landi svara fyrrgreindar tölur til þess að á Íslandi væri um að ræða sparnað í lækkuðum þjónustugjöldum sem svaraði til um tveggja milljarða króna á ári 1).
.....
1)Sjá nánar í European Economy, tímariti Evrópubandalagsins, nr. 35, mars 1988.
.....
    Gera má ráð fyrir að ákvarðanir Evrópuríkjanna um frelsi fjármagnshreyfinga og fjármálaþjónustu muni leiða af sér miklar efnahagslegar breytingar þegar þeim hefur að fullu verið hrundið fram. Sýnt er að aukin samkeppni og stærri markaður mun leiða til þess að vextir verða áþekkir um álfuna alla. Ríki Evrópubandalagsins stefna að því að treysta stöðugleika í gengi milli einstakra mynta á grundvelli frjálsra fjármagnshreyfinga. Stefna þessara ríkja byggir á að fylgt sé jafnvægisstefnu í ríkisfjármálum og peningamálum sem ásamt stöðugleika í gengi tryggja að verðbólgu og kostnaðarhækkunum sé haldið í skefjum.
    Íslendingar hljóta að stefna inn á sömu braut vilji þeir koma á jafnvægi og stöðugleika í efnahagslífinu.
    Á þingi Norðurlandaráðs, sem haldið var í Stokkhólmi í fyrra, var samþykkt sérstök áætlun um efnahagsmál, Efnahagsáætlun Norðurlanda 1989–1992. Áætlun þessi kemur í framhaldi af fyrri áætlun um efnahagsmál sem samþykkt var á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík 1985. Hin nýja áætlun ber þess mjög merki að á Norðurlöndum er talið brýnt að bregðast af snerpu við ákvörðunum Evrópubandalagsins. Sérstakur kafli í áætluninni fjallar um aukið frjálsræði í fjármálaviðskiptum og fjármagnshreyfingum. Fjármálaráðherra gerði sérstakan fyrirvara af Íslands hálfu við þennan hluta hinnar norrænu áætlunar á meðan hún var í höndum norrænu ráðherranefndarinnar. Forsætisráðherra staðfesti á Alþingi 9. mars 1989 að fyrirvarinn lýsi stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki.
    Efnahagsáætlunin gerir ráð fyrir að Norðurlönd muni á tímaskeiði áætlunarinnar rýmka heimildir gjaldeyrisreglna hvað varðar:
1.     kaup á erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða sem fjárfest hafa í erlendum hlutabréfum,
2.     kaup erlendra aðila á hlutabréfum í innlendum fyrirtækjum og hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða sem fjárfest hafa í slíkum bréfum,
3.     fasteignakaup erlendis,
4.     rekstrarlán fyrirtækja í erlendum gjaldeyri til lengri tíma en eins árs,
5.     lán í innlendum og erlendum gjaldeyri til allt að eins árs til að fjármagna innflutning og útflutning,
6.     lán gjaldeyrisbanka í erlendri mynt til erlendra aðila,
7.     heimildir fyrirtækja til að geyma gjaldeyristekjur tímabundið á erlendum reikningi.
    Efnahagsáætlun Norðurlanda gerir ráð fyrir að tilgreindum áföngum í frjálsræðisátt skuli náð fyrir árlok 1992. Eins og áður segir hefur Danmörk uppfyllt ákvæðin í ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins um afnám hafta í fjármagnsflutningum. Heita má að Svíþjóð eigi aðeins skamma leið ófarna að markmiðinu um frjáls gjaldeyrisviðskipti. Nýjar reglur á sviði gjaldeyrisviðskipta tóku gildi 1. júlí sl. og frá þeim tíma hefur Svíþjóð uppfyllt ákvæðin um aukið frelsi í gjaldeyrismálum í norrænu áætluninni. Í Noregi og Finnlandi hefur verið haldið áfram á þeirri braut að losa um hömlur á gjaldeyrisviðskiptum. Hér á landi komst um tíma nokkur skriður á afnám hafta á þessu sviði, en á síðustu missirum hefur hægt á þeirri þróun.
    Í áætluninni er lýst því markmiði að heimiluð verði starfsemi fjármálafyrirtækja frá löndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, í hverju landi fyrir sig. Möguleikinn á að þessi stefna geti komið til framkvæmda á tímabilinu 1990–1992 verður athugaður í ljósi þróunarinnar á þessu sviði innan Evrópubandalagsins.
    Á aukafundi Norðurlandaráðs á Álandseyjum 14. nóvember sl. gáfu fjármálaráðherrar Norðurlanda út yfirlýsingu þess efnis að frá og með 1. júlí 1990 skuli öllum hömlum á fjármagnsflutningum milli landanna rutt úr vegi. Af hálfu íslenska fjármálaráðherrans var enn gerður fyrirvari, í þetta sinn varðandi umrædda tímasetningu. Endurteknir fyrirvarar bera með sér að ríkisstjórnin treystir sér ekki til að vera nágrannaþjóðunum samferða í aðlögun að breyttum aðstæðum í evrópsku fjármála- og viðskiptalífi. Þessi fyrirvarastefna er misráðin og hættuleg. Íslensk fyrirtæki í mörgum greinum atvinnurekstrar eiga líf sitt undir því að geta staðist erlendum keppinautum snúning. Möguleikar á fjármagni á samkeppniskjörum getur ráðið úrslitum í þessu efni. Jafnframt er eðlilegt að fjármagn hafi farveg út úr landinu til mótvægis við miklar lántökur erlendis frá. Reynslan sýnir að þegar fjármagnið streymir einungis í eina átt getur skapast mikill þrýstingur og jafnvægisleysi í efnahagslífinu.
    Af öllum þessum ástæðum ber að fella brott hinn sérstaka fyrirvara sem gerður hefur verið af Íslands hálfu við hina norrænu áætlun. Íslendingum er heillavænlegast að eiga samstarf við nágrannaþjóðirnar í aðlögun að breyttum aðstæðum í Evrópu og verða þeim samferða að því marki. Leggja ber áherslu á það sem Ísland á sameiginlegt í efnahagslegu tilliti með nágrönnum sínum sem er miklu meira en það sem skilur á milli. Jafnframt er eðlilegt að fella á brott almennan fyrirvara sem gerður er af hálfu Íslands við samþykkt Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París, OECD, um aukið frelsi fjármagnshreyfinga (Code of Liberalisation of Capital Movements). Ísland er eina aðildarland stofnunarinnar sem gerir slíkan fyrirvara við samþykktina í heild sinni, en önnur lönd styðjast við fyrirvara við einstök atriði samþykktarinnar og hafa miðað að því að fækka slíkum fyrirvörum jafnt og þétt.
    Gildandi lög um gjaldeyris- og viðskiptamál geyma víðtækar heimildir til að auka frelsi í gjaldeyrisviðskiptum. Á grundvelli þeirra má stíga öll þau skref í frjálsræðisátt sem hin norræna áætlun gerir ráð fyrir.