Ferill 422. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 422 . mál.


Nd.

734. Frumvarp til laga



um breytingu á læknalögum, nr. 53/1988.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90.)



1. gr.

    1. mgr. 2. gr. hljóði svo:
    Leyfi skv. 1. gr. skal veita þeim sem lokið hafa prófi frá læknadeild Háskóla Íslands, svo og viðbótarnámi á heilbrigðisstofnunum hér á landi eftir reglum sem ráðherra setur, að fengnum tillögum læknadeildar Háskóla Íslands, Læknafélags Íslands eða landlæknis.
    3. mgr. 2. gr. hljóði svo:
    Áður en leyfi er veitt samkvæmt þessari grein skulu liggja fyrir tillögur landlæknis og læknadeildar Háskóla Íslands.

2. gr.

    3. gr. hljóði svo:
    Veita má manni, sem lokið hefur sambærilegu prófi og um getur í 2. gr., lækningaleyfi og þar með rétt til að kalla sig lækni hér á landi, enda uppfylli hann skilyrði 2. gr. að öðru leyti. Læknadeild Háskóla Íslands getur sett sem skilyrði að viðkomandi gangi undir próf í lögum og reglum er varða störf lækna hér á landi og sanni kunnáttu í mæltu og rituðu íslensku máli. Læknadeild Háskóla Íslands getur og krafist þess að umsækjandi sanni kunnáttu sína í læknisfræði með því að gangast undir próf.

3. gr.

    2. mgr. 5. gr. hljóði svo:
    Ráðherra setur reglur um nám sérfræðinga, að fengnum tillögum læknadeildar Háskóla Íslands, Læknafélags Íslands eða landlæknis. Áður en lækni er veitt leyfi til að kalla sig sérfræðing skulu liggja fyrir tillögur nefndar sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn og í eiga sæti landlæknir, sem jafnframt er formaður, einn fulltrúi tilnefndur af læknadeild Háskóla Íslands og einn fulltrúi tilnefndur af Læknafélagi Íslands. Varamenn skulu skipaðir
með sama hætti. Nefndin skal setja sér starfsreglur sem ráðherra staðfestir.
    Á eftir 2. mgr. 5. gr. kemur ný málsgrein sem verður 3. mgr. og hljóði svo:
    Hafi læknir leyfi til að kalla sig sérfræðing á einhverju Norðurlandanna getur heilbrigðisráðherra veitt honum sams konar sérfræðileyfi, að fengnum tillögum landlæknis, enda sé að mati landlæknis ekki ástæða til að mæla gegn því að leyfi verði veitt.

4. gr.

    Fyrirsögn G-liðar (16. gr.) í III. kafla laganna verði: Afhending sjúkraskráa.

5. gr.

    16. gr. hljóði svo:
    Sjúkraskrá er eign heilbrigðisstofnunar þar sem hún er færð eða læknis sem hana færir.
    Lækni er skylt að afhenda sjúklingi eða umboðsmanni hans afrit sjúkraskrár, alla eða að hluta. Sama gildir gagnvart opinberum aðilum, sem lögum samkvæmt athuga kæru sjúklings eða umboðsmanns vegna læknismeðferðar. Gildir þetta einnig um sjúkraskrár sem færðar eru fyrir gildistöku þessara laga.
    Upplýsingar í sjúkraskrá, sem hafðar eru eftir öðrum en sjúklingi sjálfum eða heilbrigðisstarfsfólki, skal ekki sýna nema með samþykki þess sem upplýsingarnar gaf.
    Nú telur læknir að það þjóni ekki hagsmunum sjúklings að afhenda framangreindum aðilum afrit sjúkraskrár og skal læknir þá án tafar afhenda landlækni afrit sjúkraskrárinnar til frekari afgreiðslu.
    Landlæknir skal innan fjögurra vikna ákveða hvort viðkomandi fái afrit sjúkraskrárinnar.
    Ráðherra setur nánari reglur um afhendingu og varðveislu sjúkraskráa, að fengnum tillögum landlæknis og Læknafélags Íslands.

6. gr.

    26. gr. hljóði svo:
    Lækni er óheimilt að reka lækningastofu eftir 75 ára aldur. Heilbrigðisráðherra getur þó, að fenginni umsókn viðkomandi læknis og samkvæmt meðmælum landlæknis, veitt undanþágu frá þessu ákvæði til eins árs í senn.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu skal fella þau inn í meginmál læknalaga, nr. 53/1988, og gefa þau út svo breytt.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Ísland hefur um nokkurra ára skeið verið aðili hvað snertir lækna og lyfjafræðinga að norrænum samningi um viðurkenningu á starfsréttindum innan heilbrigðisþjónustunnar og dýralæknaþjónustunnar. Samkvæmt honum hefur Ísland skuldbundið sig til að viðurkenna lækningaleyfi og sérfræðileyfi sem gefin eru út annars staðar á Norðurlöndum. Þetta þýðir í raun að íslenskur læknir, sem stundað hefur framhaldsnám í einhverju Norðurlandanna, t.d. Svíþjóð, og fengið sérfræðingsviðurkenningu þarlendra heilbrigðisyfirvalda, ætti í krafti samningsins að fá sams konar sérfræðingsleyfi hér á landi þó svo að einhver munur kunni að vera milli landanna á námsfyrirkomulagi í viðkomandi sérgrein.
    Læknadeild Háskóla Íslands hefur túlkað ákvæði norræna samningsins svo að þrátt fyrir sérfræðingsviðurkenningu frá einhverju Norðurlandanna skuli deildin leggja sjálfstætt mat á það hvort veita eigi viðkomandi íslenskt sérfræðingsleyfi. Vegna þess að einhver munur er milli landanna á námsfyrirkomulagi í einstökum sérgreinum hefur læknadeild nokkrum sinnum synjað íslenskum læknum, sem þegar hafa fengið — í flestum tilfellum sænska — sérfræðingsviðurkenningu, um íslenska sérfræðingsviðurkenningu. Þar til nú hafa íslenskir læknar, sem þannig hafa fengið synjun læknadeildar, sætt sig við þá synjun og bætt við framhaldsnám sitt þeim mánuðum sem munurinn milli landanna segir til um.
    Síðla árs 1987 synjaði læknadeild íslenskum lækni, sem árið 1986 hafði fengið sænska sérfræðingsviðurkenningu, um íslenskt sérfræðingsleyfi í viðkomandi sérgrein. Synjunina byggði deildin á tilteknu ákvæði í reglugerð nr. 311/1986, um veitingu lækningaleyfis og sérfræðingsleyfa. Ákvæðið heimilar læknadeild að synja lækni um sérfræðingsviðurkenningu hafi námið ekki verið nægilega samfellt eða óeðlilega langur tími hafi liðið frá því að viðkomandi lauk samfelldu sérnámi og þar til umsókn um sérfræðingsleyfi barst. Vegna ákvæða læknalaga, sem veita læknadeild algert neitunarvald í þessu efni, varð heilbrigðisráðherra að synja viðkomandi lækni um sérfræðingsviðurkenningu.
    Í ljósi norræna samningsins vildi læknirinn ekki una þessum málalokum og skaut málinu til embættismannanefndar á vegum Norðurlandaráðs sem hefur það verkefni að fylgjast með framkvæmd samningsins. Að lokinni athugun sænska fulltrúans í nefndinni var málið tekið þar til umræðu og afgreiðslu. Niðurstaða nefndarinnar varð sú að með synjuninni hefði heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið brotið ákvæði norræna samningsins um gagnkvæma viðurkenningu starfsréttinda innan heilbrigðisþjónustunnar. Nefndin beindi þeim tilmælum til heilbrigðisráðuneytisins að málið yrði endurskoðað og sérfræðileyfi veitt.
    Að óbreyttum læknalögum og reglugerð um veitingu sérfræðingsleyfa getur heilbrigðisráðherra ekki veitt umræddum lækni sérfræðingsleyfi. Heilbrigðisráðherra ritaði því læknadeild Háskóla Íslands bréf og greindi deildinni frá áformum sínum um að fella reglugerðarákvæði það sem málið strandaði á úr gildi. Læknadeild svaraði og vísaði til 5. gr. læknalaga sem segir að „ráðherra setur reglur um nám sérfræðinga samkvæmt tillögum læknadeildar Háskóla Íslands ...“, þ.e. benti ráðherra á að reglugerðinni gæti hann ekki breytt nema tillaga þar að lútandi kæmi frá læknadeildinni.
    Á sama tíma hafa bæði Noregur og Svíþjóð reynt að synja læknum, með íslenskt lækningaleyfi, um norskt og sænskt lækningaleyfi með vísan til þess að í hinu íslenska viðbótarnámi sé ekki lengur innifalinn starfstími í heilsugæslu í dreifbýli. Hið íslenska viðbótarnám er þannig 12 mánuðir á sama tíma og norskir og sænskir læknakandídatar þurfa að ljúka tæplega tveggja ára viðbótarnámi til að fá lækningaleyfi í sínu heimalandi. Þessar tilraunir norskra og sænskra heilbrigðisyfirvalda hafa verið brotnar á bak aftur með vísan til norræna samningsins um gagnkvæm starfsréttindi.
    Eftirlitsnefndin með framkvæmd norræna samningsins tók mál íslenska læknisins upp að nýju á fundi sínum í nóvember 1989 og ítrekaði þar fyrri niðurstöðu sína. Nefndin ákvað að ef engin breyting yrði á næstu þremur mánuðum á afstöðu íslenskra heilbrigðisyfirvalda í máli umrædds læknis mundi hún kæra heilbrigðisráðuneytið fyrir norrænu ráðherranefndinni fyrir brot á samningnum.
    Tilraunir heilbrigðisráðherra til að leysa þetta mál hafa strandað á því að ákvæði læknalaga gefa læknadeild Háskóla Íslands algert vald um veitingu sérfræðileyfa og um setningu reglna um nám sérfræðinga. Er þetta einsdæmi meðal heilbrigðisstétta. Hjá öllum öðrum heilbrigðisstéttum hefur fagfélag eða háskóladeild viðkomandi stéttar eingöngu umsagnarrétt ásamt landlækni.
    Til að tryggja það að túlkun læknadeildar Háskóla Íslands á norræna samningnum stefni ekki í voða hagsmunum íslenskra lækna í framhaldsnámi á Norðurlöndum verður að breyta þeim ákvæðum læknalaga sem málið hefur strandað á. Um leið yrði því afstýrt að íslensk heilbrigðisyfirvöld verði kærð fyrir norrænu ráðherranefndinni vegna brota á norrænum samningi sem Íslendingar hafa staðfest og skuldbundið sig til að fylgja.
    Tæplega tveggja ára framkvæmd hinna nýju læknalaga hefur einnig leitt í
ljós nokkra aðra annmarka en þá sem hér hafa þegar verið raktir og er því notað tækifærið og þeir lagfærðir.
    Um er að ræða annars vegar ákvæði læknalaga um afhendingu sjúkraskráa og hins vegar reglur um málsmeðferð vegna leyfis til lækna, eldri en 75 ára, til að reka læknastofu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. og 3. gr.


    Hér er gert ráð fyrir breytingum á 2. og 5. gr. læknalaga sem hníga í þá átt að fjölga þeim aðilum sem geta gert tillögur til heilbrigðisráðherra um breytingar á reglum um viðbótarnám nýútskrifaðra lækna og um nám sérfræðinga. Auk læknadeildar Háskóla Íslands getur landlæknir eða Læknafélag Íslands gert tillögur til heilbrigðisráðherra um reglur um viðbótarnám og sérfræðingsnám. Þar með er aðili sem heyrir beint undir ráðherra, þ.e. landlæknir, kominn með tillögurétt í þessu efni auk þess sem fagfélag lækna, Læknafélag Íslands, fær samsvarandi tillögurétt.
    Hér eru og gerðar tillögur um breytta meðferð umsókna um almennt lækningaleyfi. Samkvæmt gildandi ákvæðum skal þriggja manna nefnd skoða umsóknir um almennt lækningaleyfi. Þorri þeirra sem sækja um almennt lækningaleyfi hafa lokið námi frá læknadeild Háskóla Íslands. Það sem skoða þarf vegna umsókna um almennt lækningaleyfi er hvort umsækjandi hafi lokið viðbótarnáminu, þ.e. kandídatsári, í samræmi við settar reglur. Það er óþarflega tafsamt fyrirkomulag að hafa þriggja manna nefnd í því að kanna hvort skilyrðum um viðbótarnám er fullnægt. Frumvarpið gerir því ráð fyrir að læknadeild skuli ásamt landlækni gera tillögur um afgreiðslu umsókna um almennt lækningaleyfi.
    Rétt þykir að fela þriggja manna nefnd, skipaðri landlækni sem formanni og fulltrúum tilnefndum af læknadeild Háskóla Íslands og Læknafélagi Íslands að meta umsóknir um sérfræðingsleyfi. Íslenskir læknar stunda sérfræðinám víða um heim og því eðlilegt að sérstök nefnd kanni gaumgæfilega umsóknir um sérfræðingsviðurkenningu. Með því að gera landlækni formann nefndarinnar er umsagnarferillinn einfaldaður því, eins og fyrirkomulagið er nú, fara allar umsóknir um sérfræðingsleyfi á tvo staði, til landlæknis og til læknadeildar. Þá þykir eðlilegt að fulltrúi Læknafélags Íslands eigi aðild að þessari nefnd líkt og önnur fagfélög heilbrigðisstétta eru umsagnaraðilar um sambærilegar leyfisveitingar. Varamenn yrðu skipaðir með sama hætti sem þýðir að aðstoðarlandlæknir verður varaformaður nefndarinnar.
    Í samræmi við norræna samninginn um gagnkvæm starfsréttindi innan heilbrigðisþjónustunnar gerir frumvarpið ráð fyrir að hafi læknir leyfi heilbrigðisyfirvalda í einhverju Norðurlandanna til að kalla sig sérfræðing þá geti ráðherra veitt honum sams konar sérfræðileyfi án umsagnar læknadeildar Háskóla Íslands. Ætíð skal þó leita tillagna landlæknis vegna þessara umsókna um leyfi til að kalla sig sérfræðing. Í þessum tilvikum yrði það hlutverk landlæknis að athuga hvort heilbrigðisyfirvöld á Norðurlöndum hafi gert athugasemdir við störf viðkomandi læknis.

Um 2. gr.


    Breytingarnar í 2. gr. frumvarpsins á 3. gr. laganna skýra sig sjálfar í ljósi breytinga skv. 1. gr. frumvarpsins.

Um 4. og 5. gr.


    Undanfarna mánuði hefur heilbrigðisráðuneytið haft til athugunar tillögur Læknafélags Íslands og landlæknis um reglur vegna afhendingar sjúkraskráa. Ráðuneytið telur að lagaákvæðið, sem reglur þessar byggjast á, sé ekki nægilega skýrt og gerir því tillögur um breytingar á ákvæðinu.
    Heilbrigðisráðuneytið telur að læknalög þurfi að kveða skýrt á um að sjúkraskrá sé eign þeirrar heilbrigðisstofnunar þar sem hún er færð eða þess læknis sem hana færir. Jafnframt þarf það að vera skýrt í lögum að þegar sjúkraskrá er afhent skal afhenda afrit skrárinnar. Sömuleiðis þarf lagaheimild um afhendingu til fleiri aðila en sjúklings, svo sem opinberra aðila sem lögum samkvæmt athuga kæru frá sjúklingi eða umboðsmanni hans vegna læknismeðferðar. Hér má nefna sem dæmi nefnd skv. 3. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 59/1983. Þá þarf það og að vera ljóst að skylda til afhendingar nær til eldri sjúkraskráa.
    Nauðsynlegt er að læknalög taki af tvímæli um hvað læknir skuli gera telji hann leika vafa á því að afhending afrits þjóni hagsmunum sjúklings. Þá skal hann án tafar afhenda landlækni afrit sjúkraskrár til ákvörðunar. Með þessu er komið í veg fyrir að læknir tefji málið.
    Þá er talið nauðsynlegt að setja reglur um það hversu langan tíma landlæknir hefur til ákvörðunar í þessum tilvikum. Við setningu slíkra tímamarka eru m.a. hafðar í huga ábendingar frá umboðsmanni Alþingis um meðferð mála hjá stjórnsýslunni.
    Ástæða breytingar á fyrirsögn G-liðar (16. gr.) er sú að sjúkragögn er þrengra hugtak en sjúkraskrá. Sjúkraskrá telst vera safn sjúkragagna. Meðal sjúkragagna eru röntgenmyndir og því ekki talin ástæða til að tilgreina þær sérstaklega í lagaákvæðinu.

Um 6. gr.


    Framkvæmd 26. gr. hefur reynst óþarflega tafsöm. Meðmæli landlæknis eru að mati heilbrigðisráðuneytisins nægjanleg í ljósi þess að eftirlit með starfi lækna er í höndum landlæknisembættisins. Tilgangur umsagnar er fyrst og fremst sá að afla upplýsinga um það hvort venjubundið eftirlit landlæknis hafi leitt nokkuð í ljós sem mælir gegn því að læknir megi reka áfram lækningastofu eftir að 75 ára aldri er náð. Um endurmat á lækniskunnáttu er ekki að ræða. Umsögn læknadeildar er því í raun óþörf auk þess sem hún kann að valda ónauðsynlegum töfum á afgreiðslu umsóknar.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.