Ferill 430. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 430 . mál.


Ed.

751. Frumvarp til laga



um Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90.)



1. gr.

    Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum er háskólastofnun sem tengist læknadeild og hefur sérstaka stjórn og sjálfstæðan fjárhag.
    Kostnaður af starfsemi tilraunastöðvarinnar greiðist úr ríkissjóði og af sértekjum sem henni er heimilt að afla sér, m.a. samkvæmt gjaldskrá.

2. gr.

    Hlutverk stofnunarinnar skal vera m.a.:
1.    Að stunda grunnrannsóknir í líf- og læknisfræði dýra og manna.
2.    Að annast rannsóknir og þjónustu í þágu heilbrigðiseftirlits, sjúkdómsgreininga og sjúkdómsvarna fyrir búfé og önnur dýr í samstarfi við yfirdýralækni og þróa aðferðir í því skyni. Enn fremur að vera yfirdýralækni til ráðuneytis um allt er varðar sjúkdóma í dýrum og varnir gegn þeim.
3.    Að þróa, framleiða, flytja inn og dreifa bóluefni og lyfjum gegn sjúkdómum í búfé og öðrum dýrum.
4.    Að veita háskólakennurum og öðrum sérfræðingum, sem ráðnir eru til kennslu og rannsókna á sviðum stofnunarinnar, aðstöðu til rannsókna eftir því sem við verður komið.
5.    Að annast endurmenntun dýralækna eftir því sem aðstæður leyfa og miðlun upplýsinga til þeirra í samvinnu við yfirdýralækni.
6.    Að annast eldi á tilraunadýrum fyrir vísindalegar rannsóknir í landinu.
7.    Að taka þátt í rannsóknum og þróunarvinnu í þágu líftækni og líftækniiðnaðar í landinu.

3. gr.


    Háskólaráð skipar fimm menn í stjórn tilraunastöðvarinnar til fjögurra ára
í senn. Læknadeild Háskóla Íslands tilnefnir einn, raunvísindadeild einn og landbúnaðarráðherra tvo og skal annar þeirra vera úr hópi starfsmanna. Fundur starfsmanna stofnunarinnar tilnefnir einn fulltrúa. Fulltrúi læknadeildar eða raunvísindadeildar skal vera formaður stjórnar samkvæmt ákvörðun háskólaráðs. Forseti læknadeildar eða staðgengill hans er málsvari tilraunastöðvarinnar á fundum háskólaráðs.

4. gr.

    Hlutverk stjórnar tilraunastöðvarinnar er m.a.:
1.    Að marka stofnuninni stefnu í samráði við forstöðumann og sérfræðinga stofnunarinnar.
2.    Að samþykkja starfs- og fjárhagsáætlanir tilraunastöðvarinnar og bera ábyrgð á reikningum hennar.
3.    Að fjalla um árlega skýrslu forstöðumanns.
    Stjórnin hefur heimild til að skipta starfsemi tilraunastöðvarinnar í rannsóknasvið eða deildir eftir því sem þurfa þykir í samráði við forstöðumann.

5. gr.


    Við tilraunastöðina starfar forstöðumaður sem skal hafa lokið háskólaprófi í læknisfræði dýra eða manna, líffræði eða öðrum skyldum greinum sem eru á rannsóknasviði stofnunarinnar. Hann er jafnframt prófessor við læknadeild Háskóla Íslands með takmarkaðri kennsluskyldu samkvæmt nánari ákvörðun háskólaráðs. Hann er ráðinn í starf forstöðumanns til sex ára í senn og má háskólaráð endurráða hann að fengnu áliti stjórnar tilraunastöðvarinnar. Um ráðningu hans fer að öðru leyti eins og segir í háskólalögum um prófessora og getur hann haldið prófessorsembætti þótt hann láti af störfum forstöðumanns. Í dómnefnd um stöðu forstöðumanns eiga sæti fulltrúi læknadeildar og raunvísindadeildar, auk fulltrúa háskólaráðs og menntamálaráðuneytis.
    Meginhlutverk forstöðumanns er forusta um vísindastarfsemi stofnunarinnar
en hlutverk hans er m.a.:
1.    Að koma fram fyrir stofnunina og vera fulltrúi hennar gagnvart stjórnvöldum og hagsmunaaðilum.
2.    Að hafa yfirsýn yfir rannsóknir og sjá um að gerðar séu áætlanir um ný rannsóknarverkefni og að áætlanir um eldri verkefni séu endurskoðaðar árlega.
3.    Að gera tillögur til stjórnar um breytingu á rekstri stofnunarinnar eftir því sem þörf krefur á hverjum tíma.
4.    Að fylgjast með rekstri og fjárreiðum stofnunarinnar og gera árlega skýrslu til stjórnar þar að lútandi.
5.    Að ráða starfslið annað en sérfræðinga, svo sem framkvæmdastjóra, bústjóra, sérhæft aðstoðarfólk, tækjavörð og skrifstofufólk, auk annars aðstoðarfólks.
    Forstöðumaður skal sitja fundi stjórnar með tillögurétti en án atkvæðisréttar.

6. gr.


    Menntamálaráðherra skipar sérfræðinga til rannsóknastarfa við tilraunastöðina á sama hátt og kennara við læknadeild að fengnu áliti dómnefnda sem skipaðar eru samkvæmt háskólalögum og einnig að fengnu áliti forstöðumanns og stjórnar. Kennsla þeirra og önnur störf fyrir Háskóla Íslands eða aðrar stofnanir er háð samkomulagi viðkomandi yfirvalda og stjórnar tilraunastöðvarinnar. Fastráðnir háskólakennarar geta jafnframt verið sérfræðingar við tilraunastöðina.
    Heimilt er að ráða sérfræðinga til tímabundinna starfa sem tengjast verkefnum stofnunarinnar. Skulu slíkar stöður veittar að jafnaði til allt að þriggja ára.

7. gr.

    Framkvæmdastjóri tilraunastöðvarinnar skal ráðinn af forstöðumanni með samþykki stjórnar. Hlutverk hans er að annast daglegan rekstur tilraunastöðvarinnar í umboði forstöðumanns og sjá um aðföng, skrifstofu- og starfsmannahald. Framkvæmdastjóri aðstoðar forstöðumann við gerð fjárlagatillagna og framkvæmd fjárhagsáætlana og hefur eftirlit með fjárreiðum stofnunarinnar.

8. gr.


    Menntamálaráðherra setur, að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar, gjaldskrá fyrir stofnunina.

9. gr.

    Menntamálaráðherra setur, að fengnum tillögum háskólaráðs, forstöðumanns og stjórnar, reglugerð um nánari tilhögun á starfsemi stofnunarinnar.

10. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1990. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 11 28. febrúar 1947, um Tilraunastöð Háskólans í meinafræði.

11. gr.

    Lög þessi skal endurskoða innan fimm ára frá gildistöku þeirra.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í maímánuði 1987 skipaði menntamálaráðuneytið nefnd til að endurskoða málefni tilraunastöðvarinnar. Í henni áttu sæti: Guðmundur Eggertsson prófessor, tilnefndur af raunvísindadeild Háskóla Íslands, formaður, Margrét Guðnadóttir prófessor, tilnefnd af læknadeild Háskóla Íslands, Bjarni Guðmundsson, þáverandi aðstoðarmaður landbúnaðarráðherra, tilnefndur af landbúnaðarráðuneytinu, Guðmundur Pétursson forstöðumaður, tilnefndur af Tilraunastöð Háskólans í meinafræði, Jónas Hallgrímsson prófessor, tilnefndur af heilbrigðisráðuneytinu, Leifur Eysteinsson, þáverandi deildarstjóri, tilnefndur af Fjárlaga- og hagsýslustofnun, Stefán Stefánsson stjórnarráðsfulltrúi, tilnefndur af menntamálaráðuneytinu, Vilhjálmur Lúðvíksson framkvæmdastjóri, tilnefndur af Rannsóknaráði ríkisins. Starfsmaður „Keldnanefndar“, eins og endurskoðunarnefndin var kölluð, var Eiríkur Baldursson deildarstjóri, Rannsóknaráði ríkisins.
    Verkefni nefndarinnar var að gera úttekt á stöðu og þróunarmöguleikum tilraunastöðvarinnar, m.a. með hliðsjón af mikilvægi hennar við uppbyggingu rannsókna á undirstöðusviðum líftækni hér á landi. Jafnframt skyldi nefndin fjalla um meginatriði er varða verkefnaval, starfshætti og stjórnun og hvernig efla beri aðstöðu stofnunarinnar svo að hún geti sinnt hlutverki sínu sem best. Keldnanefnd leitaði í störfum sínum álits fjölmargra aðila sem á einn eða annan hátt eiga hagsmuna að gæta í starfsemi tilraunastöðvarinnar og skilaði síðan viðamikilli skýrslu í febrúar 1989.
    Í mars 1989 skipaði menntamálaráðuneytið síðan nefnd til að semja tillögur að frumvarpi til laga um breytingar á lögum nr. 11 frá 1947, um Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum. Nefndinni var ætlað að byggja tillögur sínar á grundvelli nefndarálits Keldnanefndar frá febrúar 1989. Í nefndinni voru Guðrún Agnarsdóttir alþingiskona, sem var formaður, Haraldur Ólafsson, dósent við Háskóla Íslands, og Jón Höskuldsson lögfræðingur, deildarstjóri í landbúnaðarráðuneytinu. Nefndin kynnti sér nefndarálit Keldnanefndar ítarlega, fór í kynnisferðir að Keldum og ræddi við starfsfólk þar. Enn fremur var leitað álits stjórna læknadeildar og raunvísindadeildar á niðurstöðum Keldnanefndar, einkum hvað varðar stjórnunarlega stöðu og tengsl tilraunastöðvarinnar við Háskóla Íslands. Nefndin leitaði einnig álits ýmissa annarra aðila, svo sem yfirdýralæknis og fyrrverandi yfirdýralæknis, rektors Háskóla Íslands og háskólanefndar Dýralæknafélags Íslands.
    Frumvarp þetta miðast að verulegu leyti við tillögur Keldnanefndar. Nefndin hefur þó vikið frá þeim í nokkrum atriðum og eins þurfti hún að taka afstöðu til ágreinings sem var í Keldnanefnd, m.a. varðandi tengsl tilraunastöðvarinnar við Háskólann og stjórnunarlega stöðu stofnunarinnar. Rétt þykir að tilraunastöðin sé áfram háskólastofnun og rannsóknavettvangur sem tengist læknadeild. Jafnframt skal stofnunin annast þjónustu við búfé, eldisdýr og villt dýr og er það hlutverk skilgreint sérstaklega.
    Ekki þykir þörf á að setja sérstakt ákvæði um kennslu í dýralækningum í lög um tilraunastöðina. Í 9. grein laga nr. 77/1979, um Háskóla Íslands, kemur fram að deildir Háskólans séu sjálfráðar um eigin málefni innan þeirra marka er sameiginlegar reglur Háskólans setja. Í sömu grein er einnig heimild til að stofna til námsbrauta sem veiti sérhæfða menntun er leiði til háskólaprófs þegar svo stendur á að náminu verður ekki komið fyrir innan háskóladeilda. Það verður ákvörðun læknadeildar, háskólaráðs og menntamálaráðherra hvenær kennsla í dýralækningum hefst hér á landi. Eðlilegt er þó að kennsla í dýralækningum fari fram á tilraunastöðinni, en ekkert í þessu frumvarpi hindrar það. Hins vegar er tilraunastöðin nú þegar sjálfsagður vettvangur endurmenntunar og miðlunar upplýsinga til dýralækna um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.
    Í frumvarpinu er lagt til að stjórn stofnunarinnar sé heimilt í samráði við forstöðumann að skipta starfsemi tilraunastöðvarinnar í rannsóknasvið eða deildir. Í tillögum Keldnanefndar er lagt til að slík heimild sé í reglugerð.
Starfsemi stofnunarinnar er þegar að vissu leyti deildaskipt eftir verkefnum. Þróun starfseminnar og hefð hefur ráðið því að Rannsóknadeild sauðfjársjúkdóma hefur verið aðskilin frá tilraunastöðinni stjórnunarlega þar sem hún heyrir undir landbúnaðarráðuneytið. Sú skipan á sér þó ekki stoð í lögum og breyting á henni krefst því ekki lagabreytinga. Lagt er til að Rannsóknadeild sauðfjársjúkdóma verði sameinuð tilraunastöðinni og tilraunastöðin annist verkefni rannsóknadeildarinnar og aðrar rannsóknir á sauðfjársjúkdómum í samræmi við hlutverk sitt skv. 2. gr. frumvarpsins. Einnig hafa nýleg lög um Rannsóknadeild fisksjúkdóma, nr. 50/1986, veitt samnefndri deild eða verkefnasviði formlega sérstöðu umfram önnur verkefnasvið tilraunastöðvarinnar. Þau lög þarf að endurskoða sérstaklega til samræmingar við efni þessa frumvarps enda segir í þeim lögum að þau skuli endurskoða innan fimm ára frá gildistöku. Nefndin ákvað eftir vandlega íhugun að leggja ekki til breytingar á lögum um Rannsóknadeild fisksjúkdóma að sinni, en telur afdráttarlaust að málefni er varða rannsóknir fisksjúkdóma eigi að falla undir lög og reglugerð um tilraunastöðina. Rannsóknir á fisksjúkdómum eins og öðrum dýrasjúkdómum samræmast fyllilega hlutverki stofnunarinnar eins og það er skilgreint í 2. gr. frumvarpsins. Að öðru leyti ættu málefni fisksjúkdóma eins og um þau er fjallað í núgildandi lögum um Rannsóknadeild fisksjúkdóma að heyra undir sérstök lög um fiskeldi, fisksjúkdóma og varnir gegn þeim, sem brýna nauðsyn ber til að setja hið fyrsta. Nefndin lítur svo á að núgildandi lög um Rannsóknadeild fisksjúkdóma samræmist ekki þessu frumvarpi og skuli einungis gilda til bráðabirgða eða þar til sérstök lög um fiskeldi, fisksjúkdóma og varnir gegn þeim hafa verið sett.
    Rétt þykir að stjórn stofnunarinnar hafi lagaheimild til þess að ákvarða að hve miklu leyti og hvernig skuli skipuleggja innra starf stofnunarinnar í samræmi við þarfir og viðfangsefni á hverjum tíma. Nú ráða hefðir og sérstök lög misjöfnu vægi verkefnasviða eins og áður er getið. Nánari reglur um deildaskiptingu eða verkefnasvið og hlutverk deildarstjóra þykir rétt að setja í reglugerð. Erlendir ráðgjafar Keldnanefndar mæltu að vísu eindregið gegn því að stofnuninni yrði skipt í deildir á formlegan hátt. Slíkt gæti torveldað samskipti og stuðlað að einangrun, aukið á stjórnunarbyrði vísindamanna og unnið gegn sveigjanleika. Fremur bæri að leggja áherslu á myndun verkefnahópa undir stjórn verkefnisstjóra sem hefði það hlutverk auk umsjónar með rannsóknarverkefnum að stuðla að tengslum verkefnahóps síns við aðra hópa bæði innan tilraunastöðvarinnar og utan.
    Við skipan stjórnar er að mestu farið að tillögum meiri hluta Keldnanefndar. Rétt þykir að efla tengsl stofnunarinnar við bæði raunvísindadeild og læknadeild með því að skipa fulltrúa þeirra í stjórn stofnunarinnar og jafnframt að kveða svo á að annar hvor skuli gegna formennsku. Vegna mikilvægs þjónustuhlutverks tilraunastöðvarinnar við landbúnaðinn þykir rétt að landbúnaðarráðuneytið eigi tvo fulltrúa í stjórninni og er lagt til að annar þeirra komi úr hópi starfsmanna og þá væntanlega þeirra sem starfa á þeim sviðum er sérstaklega varða landbúnað. Sjálfsagt er að starfsfólk stofnunarinnnar tilnefni einnig sinn fulltrúa í stjórn hennar.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að forstöðumaður sé ráðinn tímabundið til sex ára í senn en ekki til fimm ára eins og segir í tillögum meiri hluta Keldnanefndar. Mikilvægt þykir að tryggja endurmat og endurnýjun á þennan hátt. Eðlilegt er að endurnýjun í stjórn stofnunarinnar verði ekki alger á fjögurra ára fresti heldur verði þess gætt að skipta aðeins um hluta stjórnarmanna í senn. Lenging á ráðningartíma forstöðumanns miðar að því að tryggja enn frekar stöðugleika við stjórn stofnunarinnar.
    Þá er lagt til að framkvæmdastjóri annist daglegan rekstur stofnunarinnar í umboði forstöðumanns en í tillögum Keldnanefndar er hann nefndur fjármálastjóri. Rétt þykir að víkka starfsheitið í samræmi við fjölþætt viðfangsefni stofnunarinnar.
    Það frumvarp, sem hér er lagt fram, felur í sér ný heildarlög um tilraunastöðina og að eldri lög, frá 1947, falli úr gildi. Nefndin leggur áherslu á að lög nr. 50/1986, um Rannsóknadeild fisksjúkdóma, svo og ákvæði laga nr. 77 frá 1981, um dýralækni fisksjúkdóma, verði endurskoðuð og samræmd þessu frumvarpi. Ekki er ástæða til að breyta öðrum lögum eða reglugerðum sem varða tilraunastöðina vegna ákvæða þessa frumvarps.
    Með frumvarpi þessu eru prentuð sem fylgiskjöl þau lög og reglugerðarákvæði er varða tilraunastöðina og þeir hlutar úr skýrslu Keldnanefndar sem nefndin byggði einkum tillögur sínar á.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að stofnunin sé áfram háskólastofnun með tengsl við læknadeild, en hlutverk stofnunarinnar samræmist betur viðfangsefnum læknadeildar en annarra deilda Háskólans. Ýmis ákvæði í frumvarpinu miða að því að efla þessi tengsl. Heiti stofnunarinnar er breytt þannig að hún er kennd við Háskóla
Íslands. Enn fremur er í samræmi við málvenju bætt við orðunum: að Keldum.

Um 2. gr.


    Tilraunastöðinni er ætlað að sinna bæði rannsóknum og þjónustu eins og verið hefur. Rannsóknarhlutverk hennar er skilgreint á víðtækan hátt til að gefa sem mest svigrúm. Tilraunastöðinni er ætlað að stunda grunnrannsóknir í líf- og læknisfræði dýra og manna, en þar eru meðtaldar rannsóknir í meinafræði, sem merkir sjúkdómafræði og er í þessu frumvarpi túlkað í víðasta skilningi þess orðs. Jafnframt er tilraunastöðinni ætlað að stunda rannsóknir á bættum aðferðum til greininga og varna gegn sjúkdómum og hagnýta niðurstöður slíkra rannsókna til hvers kyns þjónustu í þágu heilbrigðiseftirlits, sjúkdómsgreininga og sjúkdómavarna fyrir búfé, eldisdýr og villt dýr.
    Nauðsynlegt er að þjónusturannsóknir hafi virk tengsl við grunnrannsóknir. Slík samvirkni eykur á öryggi og gæði þjónustunnar og tryggir endurnýjun rannsóknaraðferða í samræmi við þekkingu á hverjum tíma. Vegna rannsókna á búfjársjúkdómum og þekkingar og reynslu starfsfólks tilraunastöðvarinnar í þeim efnum hlýtur stofnunin að vera sjálfsagður vettvangur endurmenntunar dýralækna og miðlunar upplýsinga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.
    Yfirdýralæknir fer með yfirstjórn sjúkdómavarna í dýrum. Rétt þykir að tryggja formleg tengsl hans við þá stofnun sem hefur á verksviði sínu rannsóknir á dýrasjúkdómum þannig að hann geti sótt þangað ráðgjöf og aðstoð þegar þess gerist þörf. Það er t.d. í verkahring yfirdýralæknis að ákveða hvaða bóluefni má flytja inn en Lyfjaverslun ríkisins má ein sjá um þann innflutning. Nauðsynlegt er fyrir yfirdýralækni hafa sér til ráðuneytis sérfræðinga í dýrasjúkdómum og vörnum gegn þeim til þess að meta og prófa hvaða bóluefni sé ráðlegt að flytja inn.
    Viðunandi aðstöðu fyrir skipulegt eldi tilraunadýra, sem nota þarf við ýmsar vísindalegar rannsóknir, hefur lengi vantað hér á landi. Lagt er til að tilraunastöðinni sé falið þetta hlutverk. Hún hefur hlaupið undir bagga í þessum efnum um margra ára skeið án þess þó að hafa til þess nægilega góðar aðstæður. Mikilvægt er að koma þessum málum í betra horf og telja má eðlilegt og hagkvæmt að slíkt dýrahald sé hérlendis á ábyrgð eins aðila eða stofnunar.
    Segja má að líftækniiðnaður hafi verið stundaður að Keldum um margra ára skeið þar sem er framleiðsla tilraunastöðvarinnar á efnum til ónæmisaðgerða. Eðlilegt er að stofnunin verði áfram virk og eflist á sviði líftækni sem nú er í örri þróun. Henni er því sérstaklega ætlað slíkt hlutverk í þessu frumvarpi.

Um 3. gr.


    Skipan stjórnar tilraunastöðvarinnar er að mestu leyti í samræmi við tillögur meiri hluta Keldnanefndar sem birtar voru í skýrslu hennar í febrúar 1989 eins og kemur fram í almennum athugasemdum. Viðfangsefni tilraunastöðvarinnar gera að öllum líkindum meiri kröfur um tengsl við læknadeild en aðrar deildir Háskólans og því er lagt til að forseti læknadeildar fari með mál hennar á fundum háskólaráðs.
    Lagt er til að háskólaráð velji annaðhvort fulltrúa læknadeildar eða raunvísindadeildar sem formann stjórnar. Þessi háttur er hafður á til þess að efla tengsl tilraunastöðvarinnar við báðar deildir.

Um 4. gr.


    Starfsemi tilraunastöðvarinnar er þegar að vissu leyti deildaskipt með óformlegum hætti eftir rannsóknasviðum. Hér er lagt til að stjórninni sé heimilt að skipta starfseminni í rannsóknasvið eða deildir. Ákvörðun um skiptingu hlýtur að ráðast af stærð stofnunarinnar, viðfangsefnum og öðrum ástæðum á hverjum tíma og því óheppilegt að binda slíkt í lögum.

Um 5. gr.


    Tímabundnar stöðuveitingar til stjórnunarstarfa auðvelda endurmat og koma í veg fyrir stöðnun. Hér er lagt til að forstöðumaður sé ráðinn til sex ára í senn. Endurráðning er heimil og er ekki sett hámark á ráðningartíma. Gert er ráð fyrir að forstöðumaður hafi prófessorsstöðu við læknadeild til að efla tengsl tilraunastöðvarinnar og læknadeildar. Kennsla og stjórnunarstörf forstöðumanns við læknadeild ákvarðast af samkomulagi milli hans og deildarinnar en það skal staðfest af stjórn stofnunarinnar.
    Eðlilegt þykir að ráðningu hans sé háttað eins og annarra prófessora og jafnframt að hann geti haldið prófessorsstöðu þótt hann láti af starfi forstöðumanns. Er slíkt jafnvel talið auðvelda eðlilega endurnýjun forstöðumanna. Rétt þykir að festa í lögum tengsl raunvísindadeildar og læknadeildar við tilraunastöðina með því að tilgreina sérstaklega fulltrúa þeirra í dómnefnd.

Um 6. gr.


    Rétt þykir að sérfræðingar tilraunastöðvarinnar verði skipaðir á sama hátt og kennarar við læknadeild þannig að jafnræði haldist milli háskólamenntaðra
starfsmanna tilraunastöðvarinnar og háskólamenntaðra kennara við þá deild sem stofnunin tengist mest. Það ætti að auðvelda tengsl milli deildarinnar og tilraunastöðvarinnar. Almenn tengsl við Háskólann munu einnig aukast ef sérfræðingar tilraunastöðvarinnar geta jafnframt verið fastráðnir háskólakennarar. Eðlilegt er að álit forstöðumanns og stjórnar tilraunastöðvarinnar fylgi dómnefndarálitum þannig að hægt sé að hafa þau til hliðsjónar við atkvæðagreiðslu á fundi í læknadeild.

Um 7. gr.


    Hlutverk framkvæmdastjóra er fyrst og fremst að létta á stjórnunarbyrði forstöðumanns, einkum varðandi fjármál og önnur framkvæmdaatriði sem varða daglegan rekstur.

Um 8.–10. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 11. gr.


    Rétt þykir að endurskoða þær tillögur sem liggja til grundvallar þessu frumvarpi að fenginni reynslu.



Fylgiskjal I.

(Texti er ekki til tölvutækur.)




Fylgiskjal II.


(Texti er ekki til tölvutækur.)