Ferill 453. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 453 . mál.


Nd.

788. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 67/1988, um bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku og Namibíu.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90.)



1. gr.

    Orðin „eða Namibíu“ og „eða Namibía“ í 1. og 2. mgr. 1. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Á eftir 2. mgr. 1. gr. laganna kemur ný málsgrein svohljóðandi:
    1. og 2. mgr. skulu einnig gilda um svæði sem lúta yfirráðum Suður-Afríku.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

4. gr.

    Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skulu lögin í heild gefin út að nýju með fyrirsögninni:
    Lög um bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 67 frá 20. maí 1988, um bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku og Namibíu, var bannað að flytja til Íslands vörur sem upprunnar eru í Suður-Afríku og Namibíu og að flytja frá Íslandi vörur til Suður-Afríku eða Namibíu eða gera samning um útflutning vara frá Íslandi þegar ljóst má vera að endanlegur áfangastaður varanna er Suður-Afríka eða Namibía. Með setningu laganna var aðskilnaðarstefnu stjórnvalda í Suður-Afríku mótmælt og höfðu sams konar lög verið sett annars staðar á Norðurlöndum.
    Namibía, sem var þýsk nýlenda, var hernumin af Suður-Afríku í fyrri heimsstyrjöldinni. Eftir lok styrjaldarinnar veitti Þjóðabandalagið Suður-Afríku umboð til að fara með stjórn á svæðinu. Eftir að Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar fóru suður-afrísk stjórnvöld fram á að þeim yrði heimilað að innlima Namibíu. Þessari beiðni var hafnað á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, en Suður-Afríku hins vegar veitt umboð til að stjórna Namibíu á grundvelli gæsluverndarkerfis Sameinuðu þjóðanna þar til landið fengi sjálfstæði. Þessi ákvörðun allsherjarþingsins var síðar staðfest af Alþjóðadómstólnum í Haag. Þrátt fyrir ákvarðanir allsherjarþingsins og Alþjóðadómstólsins hélt Suður-Afríka áfram að reyna að innlima Namibíu og setti t.d. upp sérstök heimalönd í Namibíu fyrir blökkumenn, þ.e. afmörkuð svæði þar sem þeim er gert að búa í samræmi við kynþáttaaðskilnaðarstefnu suður-afrískra stjórnvalda.
    Sameinuðu þjóðirnar hafa síðan 1966 unnið að því að Namibía öðlist sjálfstæði þegar allsherjarþingið lýsti yfir því í fyrsta skipti að umboð Suður-Afríku til að stjórna Namibíu væri ógilt og hernám Suður-Afríku í Namibíu því ólögmætt. Namibíuráð Sameinuðu þjóðanna var sett á fót árið 1967 og fékk það hlutverk að undirbúa sjálfstæði landsins og koma fram sem fulltrúi Namibíu á alþjóðavettvangi.
    Árið 1978 samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktun nr. 435 um hvernig standa ætti að því að Namibía fengi sjálfstæði. Í ályktuninni er kveðið á um vopnahlé, brottflutning alls herliðs Suður-Afríku frá Namibíu, afnám kynþáttaaðskilnaðarlaga í landinu, kosningar til sérstaks stjórnlagaþings í þeim tilgangi að semja stjórnarskrá og að Sameinuðu þjóðirnar skuli hafa eftirlit með kosningum og með landinu þar til það öðlist sjálfstæði.
    Hinn 22. desember 1988 urðu þáttaskil í Namibíumálinu þegar þríhliða samningur var undirritaður af Angólu, Suður-Afríku og Kúbu annars vegar og tvíhliða samningur á milli Angólu og Kúbu hins vegar. Samningsaðilar féllust á að framkvæmd á ályktun öryggisráðsins nr. 435 skyldi hefjast 1. apríl 1989 og sömdu um brottflutning kúbanskra hermanna frá Angólu, en Suður-Afríka hafði um langt skeið sett brottflutninginn sem skilyrði fyrir því að Namibía fengi sjálfstæði. Öryggisráðið staðfesti ábyrgð Sameinuðu þjóðanna á Namibíu og ákvað að framkvæmd ályktunar nr. 435 skyldi hefjast 1. apríl 1989.
    Eftirlitssveitir Sameinuðu þjóðanna komu til Namibíu 1. apríl 1989 og var hlutverk þeirra fyrst og fremst að tryggja frjálsar kosningar í landinu. Dagana 7.–11. nóvember 1989 voru síðan haldnar kosningar undir eftirliti Sameinuðu þjóðanna. Kosningaþátttakan var 97,04% sem sýnir hve Namibíumenn töldu kosningarnar mikilvægar. Tíu stjórnmálaflokkar voru í framboði og hlutu Þjóðfrelsishreyfing Namibíu (SWAPO) og Lýðræðisfylkingin (DTA) flest atkvæði. Af 72 þingsætum hlaut Þjóðfrelsishreyfingin 41 sæti og Lýðræðisfylkingin 21 sæti. Sameinuðu þjóðirnar telja að kosningarnar hafi verið frjálsar og gengið eðlilega fyrir sig og verið í samræmi við ályktun nr. 435. Þinginu, sem kosið var til, er ætlað það hlutverk að semja stjórnarskrá fyrir landið, ákveða hvenær landið verður sjálfstætt ríki og setja saman ríkisstjórn. Þingið hefur nú þegar komið sér saman um drög að stjórnarskrá og er þar kveðið á um lýðræðislegt stjórnskipulag að vestrænni fyrirmynd. Landið öðlast sjálfstæði 21. mars 1990.
    Eina almennilega höfnin í Namibíu er á svæði sem kallast Valvis Bay sem nú lýtur de facto yfirráðum Suður-Afríku. Íslensk stjórnvöld telja að Valvis Bay tilheyri Namibíu og að leysa verði málið um yfirráð svæðisins með viðræðum milli stjórnvalda Namibíu og Suður-Afríku eftir að Namibía hlýtur sjálfstæði. Þar sem líkur benda til þess að svæðið muni enn um sinn lúta yfirráðum Suður-Afríku þykir rétt að viðskiptabannið verði einnig látið taka til svæða sem lúta yfirráðum Suður-Afríku, sbr. 2. gr. frumvarps þessa.
    Ísland hefur frá fyrstu tíð stutt sjálfstæðisbaráttu namibísku þjóðarinnar og hefur greitt atkvæði með mörgum ályktunartillögum um þetta efni á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Með sjálfstæði Namibíu hefur kynþáttaaðskilnaður þar verið afnuminn og forsendan fyrir viðskiptabanni gegn Namibíu er því brostin.
    Einstakar greinar frumvarpsins þarfnast ekki skýringa.