Ferill 528. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 528 . mál.


Nd.

925. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá fjárhags- og viðskiptanefnd.



1. gr.

    Við 17. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðist svo:
    Hagnaður manns af sölu hlutabréfa, sem hann hefur keypt á árinu 1990 og síðar í félögum sem ríkisskattstjóri hefur á söluári bréfanna veitt staðfestingu um að uppfylli skilyrði III. kafla laga nr. 9/1984, telst þó ekki til skattskyldra tekna hafi hin seldu hlutabréf verið í eigu mannsins í full fjögur ár. Hámark skattfrjáls hagnaðar samkvæmt þessari málsgrein er 300.000 kr. Um hagnað umfram skattfrjálst hámark og um hagnað af sölu hlutabréfa, sem maður hefur keypt á árinu 1989 eða fyrr, fer eftir ákvæðum 1. mgr.

2. gr.

    Í stað „10%“ í 1. málsl. 2. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna, sbr. a-lið 4. gr. laga nr. 8/1984 og a-lið 1. gr. laga nr. 117/1989, komi: 15%.

3. gr.

    Við 31. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 2/1988, bætist nýr töluliður er verði 4. tölul. og orðist svo:
    Sannanlega tapað hlutafé sem aðili hefur eignast á þann hátt að hann hefur, vegna greiðsluerfiðleika hlutafélags, tekið hlutabréf sem gagngjald fyrir viðskiptakröfu sem hann átti á hendur hlutafélagi, enda hafi viðskiptakrafan verið vegna sölu á vöru eða þjónustu. Má draga verð slíkra hlutabréfa frá tekjum á því tekjuári þegar hlutafé er sannanlega tapað.

4. gr.

    Í stað „10%“ í 8. tölul. 1. mgr. 31. gr. laganna, sbr. b- og c-lið 5. gr. laga nr. 8/1984, komi: 15%.

5. gr.

    4. málsl. 5. tölul. 1. mgr. 74. gr. laganna orðist svo: Séu verðbréf önnur en hlutabréf skráð á opinberu kaupþingi skal telja þau til eignar á kaupþingsverði síðasta kaupþingsdags fyrir lok reikningsárs.

6. gr.

    122. gr. laganna, sbr. a-lið 20. gr. laga nr. 49/1987, 19. gr. laga nr. 97/1988 og 14. gr. laga nr. 117/1989, orðist svo:
    Skylt er að hækka eða lækka fjárhæðir sem um ræðir í 3. mgr. 17. gr., 2. og 4. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr., 2. mgr. 30. gr., 41. gr., 68. gr., 69. gr., 78. gr. og 83. gr. í samræmi við skattvísitölu sem ákveðin skal í fjárlögum ár hvert, í fyrsta sinn í fjárlögum fyrir árið 1991.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 1991 vegna tekna og eigna á árinu 1990.

Greinargerð.


    Í þessu frumvarpi til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt er lagt til að gerðar verði nokkrar breytingar varðandi skattfrádrátt vegna fjárfestingar manna í hlutafélögum. Í desember sl. voru gerðar breytingar á framangreinum lögum varðandi frádráttarheimildir vegna fjárfestingar í hlutafélögum þar sem t.d. hámarksfrádráttur vegna fjárfestingar í hlutafélögum var hækkaður umfram verðlag. Þær breytingar, sem gerðar voru í desember sl., höfðu veruleg áhrif á viðskipti með hlutabréf og varð mikil aukning á sölu hlutabréfa í lok síðasta árs.
    Á því samdráttarskeiði, sem atvinnulíf landsmanna gekk í gegnum á síðustu tveimur árum, hefur komið í ljós hversu veikburða og skuldug íslensk fyrirtæki eru. Þessi rýra eiginfjárstaða íslenskra fyrirtækja gerir þau vanhæfari til að þola tímabundin áföll. Erfiðleikarnir undanfarin tvö ár höfðu því mörg gjaldþrot í för með sér. Með þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar sem miða að því að örva eiginfjármyndun í íslenskum atvinnurekstri.
    Breytingarnar sem felast í frumvarpinu eru þessar:
—     Söluhagnaður af hlutabréfum í tilteknum fyrirtækjum verður skattfrjáls ef hann er ekki yfir 300.000 kr. eftir fjögurra ára eignarhaldstíma.
—     Heimilt verður að miða skattfrjálsar arðgreiðslur við allt að 15% af nafnverði hvers einstaks hlutabréfs í stað 10% samkvæmt núgildandi lögum.
—     Hjá fyrirtækjum verður úthlutaður arður frádráttarbær upp að 15% af nafnverði hlutabréfs í stað 10% samkvæmt núgildandi lögum.
—     Lagaákvæðum er breytt í því skyni að auðvelda viðskipti með hlutabréf á Verðbréfaþingi Íslands.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að söluhagnaður af hlutabréfum verði skattfrjáls upp að tilteknu marki og að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Gert er ráð fyrir því að söluhagnaður af sölu á hlutabréfum, sem er ekki hærri en 300.000 kr. hjá hverjum manni, verði skattfrjáls, enda hafi viðkomandi maður átt hlutabréfin í full fjögur ár. Hér er einungis um að ræða söluhagnað af sölu á hlutabréfum í félögum sem ríkisskattstjóri hefur á söluári veitt staðfestingu um að uppfyllt séu skilyrði III. kafla laga nr. 9/1984, um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri, með síðari breytingum. Sem dæmi um framangreind skilyrði er að um sé að ræða hlutafélag með hlutafé a.m.k. að fjárhæð 12.000.000 kr. (miðað við árslok 1988), hluthafar séu a.m.k. 25 og að engar hömlur séu lagðar á viðskipti með hlutafé félagsins og ársreikningar þess séu öllum aðgengilegir. Þessi grein tekur aðeins til söluhagnaðar af sölu á hlutabréfum sem keypt eru á árinu 1990 eða síðar.

Um 2. gr.


    Samkvæmt þessari grein er lagt til að arður, sem greiddur er einstaklingum, verði skattfrjáls að hámarki 15% af nafnverði hvers einstaks hlutabréfs eða hlutar í stað 10% samkvæmt núgildandi lögum. Samkvæmt þessu verður einstaklingum heimilt að draga frá tekjum sínum, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, fenginn arð að hámarki 15% af nafnverði hvers einstaks hlutabréfs, þó að hámarki 115.000 kr. hjá einstaklingi og 230.000 kr. hjá hjónum.

Um 3. gr.


    Samkvæmt greininni verður heimilt að draga frá tekjum tapaða hlutafjáreign sem vegna greiðsluerfiðleika hlutafélags var tekin sem gagngjald fyrir viðskiptakröfu sem viðkomandi átti á hendur hlutafélaginu.

Um 4. gr.


    Lagt er til að samræmi verði á milli skattfrelsis á útgreiddum arði hjá einstaklingi, sbr. 2. gr. frumvarpsins, og félagsins sem greiðir hann út. Samkvæmt þessu verður félaginu heimilað að draga frá tekjum sínum fjárhæð þá, sem það greiðir eða úthlutar í arð, þó að hámarki 15% af nafnverði hlutafjár í stað 10% eins og lögin kveða á um.

Um 5. gr.


    Ekki þarf samkvæmt greininni að telja hlutabréf til eignar á kaupþingsverði þótt þau séu skráð á opinberu kaupþingi. Núgildandi lög eru talin koma í veg fyrir viðskipti með hlutabréf á Verðbréfaþingi Íslands. Tilgangurinn með þessari breytingu er að örva viðskipti með hlutabréf á Verðbréfaþingi Íslands og gera þau samkeppnisfær.

Um 6. gr.


    Samkvæmt þessari grein er lagt til að hámarksfjárhæð skattfrjáls söluhagnaðar af sölu hlutabréfa skv. 1. gr. frumvarpsins breytist með sama hætti og fleiri fjárhæðir laga nr. 75/1981. Samkvæmt þessari grein mun fjárhæðin breytast í samræmi við skattvísitölu sem ákveðin er í fjárlögum.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.