Ferill 556. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 556 . mál.


Sþ.

956. Tillaga til þingsályktunar



um könnun á fjárveitingum úr Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins.

Flm.: Eggert Haukdal, Hreggviður Jónsson.



    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta fara fram könnun á því hvort ákvæði um Mannvirkjasjóð Atlantshafsbandalagsins eða önnur ákvæði heimili fjárveitingar til bættra samgangna, vega, stórbrúa og jarðgangagerðar sem nauðsynlegs hluta varnarkerfis landsins. Jafnframt verði kannað hvort fordæmi eru fyrir fjárveitingum í öðrum ríkjum bandalagsins til samgangna, fjarskipta og flugvallargerðar af hálfu þess.

Greinargerð.


    Nú liggur fyrir Alþingi breytingartillaga við vegáætlun fyrir árið 1990 sem samþykkt var síðastliðið vor. Með þeirri breytingu eru framlög til vegamála stórskert frá því sem ákveðið var fyrir réttu ári.
    Við samþykkta vegáætlun fyrir árin 1990–1992 mátti una án breytinga og hún gaf vonir um betri tíð. Sá niðurskurður á henni fyrir árið 1990, sem nú liggur fyrir, boðar því miður ekki góð tíðindi fyrir byggðir landsins. Á sama tíma og þetta gerist er talað um að flýta ýmsum samgönguframkvæmdum og er það vissulega vel ef hægt er. Það eru hins vegar alveg ný sannindi ef hægt er að stórflýta framkvæmdum í samgöngumálum á sama tíma og fé er skorið niður til vegamála.
    Með langtímaáætlun í vegamálum frá 1982 setti Alþingi fram ákveðin markmið sem stefnt skyldi að. Við fjárveitingar samkvæmt þeirri áætlun hefur aldrei verið staðið, en þrátt fyrir það hafa mikil stórvirki verið unnin. Nú þyrfti að taka á að nýju og standa við upphaflegu fyrirheitin í stað þess að renna af leið. Og til þess þarf aukið fjármagn.

———


    Flestir þeir sérfræðingar, sem um alþjóðamál fjalla, eru þeirrar skoðunar að sú mikla og merkilega þróun, sem átt hefur sér stað í ríkjum Austur-Evrópu síðasta missirið, muni ekki leiða til þess að varnarbandalög álfunnar verði lögð niður. Hlutverk þeirra muni hins vegar verða annað og breytt í framtíðinni. Þannig má gera ráð fyrir því að með aukinni afvopnun stórveldanna á höfunum verði enn meiri þörf en nú er á virku eftirliti með því að slíkir alþjóðasamningar verði haldnir. Mikilvægi Norður-Atlantshafsins í þessum efnum mun ekki fara minnkandi. Eftir sem áður verður það mikilvægasta birgðaflutningaleiðin milli Ameríku og Evrópu. Hlutverk Íslands mun því að margra dómi verða enn þýðingarmeira en áður við eftirlitsstörf með umsvifum þeirra þjóða sem hér eiga í hlut. Atlantshafsbandalagið fær hér nýtt og aukið hlutverk á þessu sviði og engin ástæða er til að ætla að það hverfi af sjónarsviðinu af þessum sökum um alllanga framtíð. Aðild okkar að því mun áfram tryggja varnar- og öryggishagsmuni okkar í þeirri afvopnunarþróun sem nú er sem betur fer að hefjast.

———


    Enn er rétt að minnast á eitt mikilvægt atriði sem styður meginmarkmið þessarar þingsályktunartillögu. Það er nauðsyn þess að byggja upp hér á landi virkar og traustar almannavarnir. Þær eru nauðsynlegar hvort sem er vegna náttúruhamfara eða vegna ófriðarástands. Hins vegar höfum við Íslendingar vanrækt þann þátt öðrum þjóðum fremur og er það mjög miður. Góðar samgöngur eru einn mikilvægasti þáttur almannavarna, svo sem viðurkennt er af öllum sem til þekkja. Þess vegna er rökrænt samband milli varna landsins og almannavarna sem snúa beint að hagsmunum fólksins sem byggir landið allt. Hér er því fær leið til þess að efla og treysta almannavarnir landsins, styrkja byggðirnar og færa fólkið nær hvert öðru.



Fylgiskjal I.


Helgi Hallgrímsson:

MANNVIRKJAÞING 1990


Vegir, brýr og jarðgöng.



    Mér er ætlað að fjalla um framkvæmdir í vegagerð í víðasta skilningi, þar með taldar brýr og jarðgöng. Ég verð í upphafi að setja nokkurn fyrirvara á þær tölulegu upplýsingar sem hér fara á eftir. Þó að fjórðungur ársins sé liðinn hefur vegáætlun fyrir árið enn ekki verið afgreidd og því ekki ljóst á þessari stundu hverjar verða niðurstöðutölur hennar að lokum. Þær tölur, sem hér verða settar fram, ber því að skoða sem mat ræðumanns á því hvað líklegt sé í þessum efnum.
    Við skulum byrja á að líta á heildarfjármagn til framkvæmda hjá Vegagerðinni.

Áætlað fjármagn í m.kr. til framkvæmda 1990:
    Nýjar framkvæmdir ..........         2.200
    Sumarviðhald ...............         1.240
    Vetrarþjónusta .............         480
    Annað ......................         150
                        —–
                       4.070
                      —–

    Á föstu verðlagi er þetta heldur minna en var á síðasta ári. Á hinn bóginn er þetta miklu minna en vera átti á þessu ári, 1990, samkvæmt vegáætlun sem samþykkt var á Alþingi sl. vor. Raunminnkun er um 1 m.kr. og veldur hún miklum höfuðverk hjá alþingismönnum um þessar mundir, en þeir þurfa að beita hnífnum óspart. Enn fremur veldur þetta miklum vanda hjá þeim sem undirbúa, skipuleggja og framkvæma eiga verkin.
    Séu nýframkvæmdir skoðaðar og skipting þeirra á landshluta kemur eftirfarandi í ljós.

Skipting nýrra framkvæmda á kjördæmi, upphæðir í m.kr.:
    Suðurland ..................         230
    Reykjanes ..................         300
    Vesturland .................         230
    Vestfirðir .................         300
    Norðurland vestra ..........         180
    Norðurland eystra ..........         650
    Austurland .................         310
                        —
                       2.200
                      —

    Áður en við lítum nánar á þessar tölur ber að geta þess að framlög til þjóðvega í þéttbýli eru ekki talin með hér. Þessi framlög nema um 360 m.kr. alls. Af þeirri upphæð fær höfuðborgarsvæðið um 60% eða um 210 m.kr. Þessum framlögum er sleppt hér vegna þess að sveitarfélögin annast sjálf um framkvæmdirnar og telja þær fram sem sínar.
    Langmest fjármagn fer til Norðurlands eystra og valda þar mestu jarðgöng í Ólafsfjarðarmúla sem lokið verður á árinu. Þau munu taka til sín um hálfan milljarð á þessu ári og eru langstærsta verkefnið hjá Vegagerðinni. Af öðrum stórum verkefnum má nefna brú og veg um Arnarneshæð, en kostnaður við þá framkvæmd verður um 290 m.kr. á árinu, svo og veg og brú yfir Dýrafjörð, en það er verk sem á að vinnast á þessu og næsta ári og mun alls kosta um 300 m.kr. Önnur verkefni eru smærri en nokkur þeirra kosta þó um og yfir 50 m.kr.

Áætluð skipting á framkvæmdaraðila í m.kr.:
    Verkútboð og samningar .....         1.550
    Eigin framkvæmdir ..........         1.550
    Efniskaup ..................         200
    Aðkeypt vélaleiga ..........         770
                        —
                       4.070
                        —

    Hér er sett fram skipting á framkvæmdaraðila og er þá miðað við svipuð hlutföll og verið hafa á allra síðustu árum. Útboð og verksamningar er svipað að magni og eigin framkvæmdir Vegagerðarinnar (hvor liður tæplega 40%). Munurinn er hins vegar sá að útboðin eru að miklum meiri hluta í nýjum framkvæmdum, en eigin verk eru að miklum meiri hluta í þjónustu, rekstri og viðhaldi. Leiga vinnuvéla og vörubifreiða er um helmingur af stóru liðunum eða tæplega 20%. Loks eru efniskaup um 5%.
    Rétt er að taka fram að mikið af verkefnum ársins hefur þegar verið boðið út þrátt fyrir óvissu í fjármálum. Það sem eftir er verður boðið út á næstu vikum eða eins fljótt og unnt er.
    Til að fjármagna verkefnin, sem hér eru til umræðu, svo og önnur þau sem Vegagerðin þarf að sinna, eru henni markaðir tekjustofnar með lögum. Þessir tekjustofnar eru bensíngjald og þungaskattur af dísilbifreiðum. Standa þessir tekjustofnar undir öllum útgjöldum til vegamála. Nokkuð er þó um að tekin séu skammtímalán til að ljúka verkum eða verkáföngum. Þessi lán eru yfirleitt greidd af fjárveitingum næsta árs eða næstu ára. Í tölunum hér á undan hefur verið reynt að taka tillit til líklegra skammtímalána á árinu.
    Þrátt fyrir lögbundna tekjustofna gengur ekki alltof vel að skapa festu í fjármálin. Stundum ákveður Alþingi að nota peningana í annað þrátt fyrir lögin, stundum skirrast menn við að hækka stofnana í takt við verðlagsþróun. Þetta skeður þótt vegáætlun sé æ ofan í æ samþykkt með þeirri stefnumörkun að nýta skuli tekjustofna til fulls og ráðast í nýja fjárfreka verkefnaflokka. Ein slík stefnumörkun var samþykkt við afgreiðslu vegáætlunar á Alþingi sl. vor. Þar var ákveðið að ráðast af auknum krafti í ýmis stórverkefni, svo sem jarðgöng, stórbrýr og vegagerð á höfuðborgarsvæðinu. Miðað var við að fjármagn ykist að því marki að almenn vegagerð og bundin slitlög héldu sínum hlut að mestu.
    Var það reyndar grundvallaratriði vegna þess hve mikið er þar enn ógert. Þessi aukning skilar sér ekki á þessu ári eins og fram kom hér á undan. Væru tekjustofnar fullnýttir gæfu þeir 500–700 m.kr. í viðbót við það fjármagn sem nú er til umráða.
    Tilgangur þessa mannvirkjaþings er að fá yfirlit um líklegar framkvæmdir á árinu 1990. Mig langar þó í lokin að skyggnast aðeins lengra. Í Vegagerðinni höfum við reynt að meta þörf fyrir fjárfestingu í vegamannvirkjum á næstu 20 árum.

Áætlaður kostnaður í ma. kr. við uppbyggingu vegakerfisins:

    Höfuðborgarsvæðið ..............         15
    Jarðgöng .......................         14
    Stórbrýr og fjarðarþveranir ....         3
    Stofnbrautir, önnur verkefni ...         21
    Þjóðbrautir ....................         16
                        —
                       69
                        —

    Sum þessara verkefna eru mjög brýn og öll æskileg. Sé miðað við að ljúka þessu á 20 ára tímabili þarf um 3,5 m.kr. á ári. Hafa ber einnig í huga að útgjöld vegna þjónustu í vegakerfinu, reksturs þess og viðhalds munu fara vaxandi á næstu árum. Ljóst er því að nýta verður núverandi tekjustofna til fulls. Jafnframt verður að huga að nýjum tekjuöflunarleiðum. Má þar nefna veggjald eins og verið hefur til umræðu í Hvalfirði eða svæðisbundið bensíngjald eins og rætt hefur verið í tengslum við jarðgöng á Vestfjörðum. Í hugum okkar Vegagerðarmanna er ekki vafi á því að kröfur til vegakerfisins og þjónustunnar þar munu fara vaxandi á næstu árum. Til að standast þær kröfur þarf verulega aukið fjármagn.



Fylgiskjal II.


Vegagerð ríkisins:

NOKKUR STÓR VERKEFNI



    Þegar stórverkefni voru til umræðu við afgreiðslu vegáætlunar 1989 voru teknir saman listar yfir nokkur helstu verkefnin í jarðgöngum og stórbrúm þó að ekki væru þeir tæmandi. Þessi verkefni eru talin hér á eftir og lauslega metin og kostnaður tilgreindur á áætluðu verðlagi 1990 (vísitala vegagerðar 4300).

Stórbrýr með tilheyrandi vegum, kostnaður í m.kr.:
    Kúðafljót á Suðurlandsvegi, V-Skaft. .................         280
    Markarfljót á Suðurlandsvegi, Rang. ..................         290
    Laxá í Kjós á Vesturlandsvegi, Kjós. .................         260
    Botnsvogur um Þyrilsey, Kjós. ........................         380
    Gilsfjörður, Dalas. — A-Barð. ......................         690
    Dýrafjörður, V-Ísafj. ................................         260
    Vesturós Héraðsvatna, Skagaf. ........................         150
    Skjálfandafljót í Köldukinn, S-Þing. .................         140
    Jökulsá á Dal á Austurlandsvegi, N-Múl. ..............         130
    Breiðdalsá á Austurlandsvegi, S-Múl. .................         130
    Jökulsá í Lóni á Austurlandsvegi, A-Skaft. ...........         140
                             —
              Samtals             2.850
                              —

Jarðgöng, kostnaður í m.kr.:
    Ólafsfjarðarmúli — verður lokið í ár ...............         —
    Botnsheiði og Breiðadalsheiði ........................         3.100
    Austfjarðagöng (tengja Seyðisfj. og Neskaupst.) ......         5.500
                           —
              Samtals             8.600
                              —
    
Höfuðborgarsvæðið, kostnaður í m.kr.:
Tekin voru með verkefni sem ljúka þyrfti á fjórum árum
(1989–1992) samkvæmt sérstakri skýrslu              2.900
                             —–


    Auk þeirra verkefna, sem hér eru talin, er fjöldi stórra og brýnna verkefna í þjóðvegakerfinu, en í mörgum tilvikum má skipta þeim í áfanga sem taka má í not jafnóðum og þeim lýkur. Tenging undir Hvalfjörð var ekki tekin með í þetta, enda hefur verið miðað við að hún yrði fjármögnuð utan vegáætlunar.