Ferill 359. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 359 . mál.


Sþ.

975. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Ólafs Þ. Þórðarsonar um verðbreytingarfærslur Landsvirkjunar.

    Þar sem Landsvirkjun er undanþegin tekjuskatti og eignarskatti, sbr. 16. gr. laga nr. 42/1983, hafa skattyfirvöld ekki undir höndum upplýsingar til þess að svara þeim spurningum sem fram koma í fyrirspurninni. Af þessum sökum óskaði ráðuneytið eftir því við Landsvirkjun að umbeðnar upplýsingar yrðu látnar í té. Með svari þessu fylgir bréf Landsvirkjunar, dags. 11. þ.m., þar sem umbeðin svör eru látin í té eftir því sem unnt er.
    Í bréfi sínu til Landsvirkjunar, dags. 28. mars 1990, fer fjármálaráðuneytið þess á leit að Landsvirkjun veiti ákveðnar upplýsingar um verðbreytingarfærslu fyrirtækisins í tilefni af fyrirspurn Ólafs Þ. Þórðarsonar alþingismanns. Fara umbeðnar upplýsingar hér á eftir, en spurningarnar eru tvær, sú fyrri varðandi verðbreytingarfærsluna sjálfa og sú síðari varðandi verðstuðul til endurmats á varanlegum eignum Landsvirkjunar.

1. Verðbreytingarfærsla Landsvirkjunar.
     Hverju munar á þeirri verðbreytingarfærslu sem Landsvirkjun hefur beitt á þeim árum sem slíkar færslur hafa verið notaðar og þeirrar sem ríkisskattstjóri hefur gefið út á sama tímabili?
    Áður en gerð er tölulega grein fyrir þeim mun sem fram kemur við samanburð á verðbreytingarfærslu Landsvirkjunar og þeirri færslu sem miðast við fyrirmæli skattalaganna er rétt að skýra í örfáum orðum tilgang þessarar færslu og hvers vegna fyrirtækið notar ekki aðferð skattalaganna við útreikning á henni.
    Aðaltilgangur færslunnar í tilviki Landsvirkjunar er að eyða endurmati á langtímaskuldum í formi gengismunar og verðbóta í því skyni að draga fram raunvaxtakostnað af lánum fyrirtækisins. Útreikningi færslunnar er þannig hagað að tekið er mið af peningalegri stöðu fyrirtækisins í upphafi og lok hvers árs, auk þess sem tekið er tillit til breytinga á stöðunni á viðkomandi ári. Miðað er við verðbreytingarstuðul fyrirtækisins sem byggist á úttekt á kostnaði við mannvirkjagerð í orkuiðnaði, en sá stuðull er einnig notaður við framreikning á kostnaðarverði mannvirkja. Stuðullinn miðast að einum þriðja við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar, en að tveimur þriðju hlutum við breytingar á gengi SDR að viðbættri veginni verðbólgu í þeim löndum sem skráning á SDR miðast við.
    Afkomuhugtak fyrirtækisins miðast samkvæmt þessu við að ekki komi fram hagnaður á rekstrarreikningi nema starfsmáttur fyrirtækisins hafi aukist.
    Samkvæmt fyrirmælum skattalaga miðast verðbreytingarfærslustuðullinn við meðaltalsverðbreytingar á milli ára og er í því sambandi miðað við vísitölu byggingarkostnaðar. Af þessu má ráða að stuðull skattalaganna miðast við annað tímabil en rekstrarreikningar fyrirtækja taka til sem yfirleitt eru fyrir almanaksárið. Eins og útreikningi verðstuðuls skattalaga er hagað tekur hann til verðbreytinga frá u.þ.b. 1. júní á einu ári til 1. júní á næsta ári. Á undanförnum árum hefur misvægi í breytingum á verðlagi innan ára og á milli ára verið talsvert, en það hefur þau áhrif að útreikningur skattalaga á verðbreytingarfærslunni getur verið mjög villandi. Af þessum sökum var verðstuðli skattalaganna hafnað við afkomumælingar Landsvirkjunar. Raunar hafa nú flest stór og meðalstór fyrirtæki í landinu hafnað útreikningi skattalaganna í þessu efni við reikningagerð sína. Við útreikninga á sköttum er þó að sjálfsögðu miðað við fyrirmæli skattalaga þótt þau séu gölluð.
    Stuðull Landsvirkjunar tekur mið eins og að framan greinir bæði af innlendum og erlendum verðbreytingum. Það hefur þau áhrif að dregið er úr því misvægi sem annars vegar er á milli verðbreytinga innan og á milli ára og hins vegar á milli verðbreytinga innan árs og gengisbreytinga fyrir sama tíma. Með þessum hætti er dregið úr þeim ávinningi eða tapi sem fyrirtæki virðast verða fyrir á tilteknum tímabilum, en á hins vegar ekki við þegar til nokkurra ára er litið. Sveiflurnar jafnast út.
    Hér á eftir fer tafla sem sýnir verðbreytingarfærsluna fyrir síðastliðin fimm ár. Eins og ráða má af tölum fyrir árið 1989 hefði orðið umtalsvert tap á rekstrarreikningi fyrir árið ef reglum skattalaganna hefði verið beitt. Verðbreytingarfærsla samkvæmt ákvæðum laganna hefði orðið 6,2 milljarðar króna, en er skráð 9,0 milljarðar króna í ársreikningi fyrirtækisins. Í stað hagnaðar að fjárhæð um 714 milljónir króna hefði orðið tap að fjárhæð um 2 milljarðar króna á árinu. Slík niðurstaða fengi ekki staðist þegar litið er til annarra atriða í afkomu fyrirtækisins.

             Landsvirkjun    Skattalög
             M.kr.    M.kr.
    1989 .........         9.074    6.262
    1988 .........         5.322    4.336
    1987 .........         2.046    4.027
    1986 .........         2.262    5.516
    1985 .........         3.700    4.722
    1984 .........         4.000    3.186
    1983 .........         4.745    4.319
    1982 .........         2.656    1.440

    Landsvirkjun tók upp nýjar reikningsskilaaðferðir á árinu 1982 í samráði við Alþjóðabankann sem er umsagnaraðili um reglur fyrirtækisins í þessum efnum. Verðbreytingarfærslur tíðkuðust hins vegar fyrst á árinu 1979 í reikningsskilum skattskyldra fyrirtækja hér á landi.

2. Endurmat varanlegra rekstrarfjármuna.
     Hve mikið hefði bókfærð eiginfjárstaða Landsvirkjunar aukist ef verðbreytingarfærslum ríkisskattstjóra hefði verið beitt á umræddu tímabili og hver var aukning á bókfærðri eiginfjárstöðu Landsvirkjunar á sama tímabili?
    Ljóst er að verðbreytingarfærslan, eins og henni er lýst hér á undan, hefur ekki áhrif á bókfært eigið fé. Hér skiptir aðeins máli hvernig að endurmati varanlegra fjármuna er staðið. Samkvæmt reglum Landsvirkjunar miðast endurmatið við stuðul sem felur í sér innlendar og erlendar verðbreytingar eins og nánar er vikið að í lið 1 hér að framan. Endurmatið miðast sem sé ekki við verðbreytingarstuðul á grundvelli byggingarvísitölu einnar sér eins og skattalög gera ráð fyrir. Samtals er stuðull fyrirtækisins nánast sá sami og stuðull skattalaganna fyrir það tímabil sem samanburðurinn beinist að, þ.e. frá 1982. Stuðull fyrirtækisins er 9,64, en skattstuðullinn er 9,44. Framreiknaða kostnaðarverðið yrði því nánast það sama. Á hinn bóginn er bókfært verð fastafjármuna fyrirtækisins, og þar með eigin fjár, mun hærra en það hefði orðið samkvæmt fyrirmælum skattalaganna þar sem afskriftahlutföll skattalaganna eru talsvert hærri en fyrirtækið notar.
    Þar sem það mundi krefjast nokkurra mánaða vinnu að bera nákvæmlega saman það endurmat sem fram kæmi samkvæmt ákvæðum skattalaganna og endurmat samkvæmt reglum fyrirtækisins gefst ekki tími til að svara með neinni nákvæmni þeirri spurningu sem hér er til umfjöllunar. Hins vegar skal ítrekað að lítill munur er á stuðlunum samtals yfir umrætt tímabil og ljóst er að bókfært verð eigin fjár fyrirtækisins að hætti skattalaga yrði milljörðum króna lægra en það er samkvæmt bókum fyrirtækisins sem skýrist aðallega af því hve afskriftahlutföll skattalaga eru eins og áður segir hærri en þau sem fyrirtækið býr við og teljast eðlilegri með tilliti til endingartíma eigna virkjanafyrirtækis þó að önnur atriði geti líka haft þar áhrif.

Virðingarfyllst,


Halldór Jónatansson,


forstjóri.