Ferill 450. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 450 . mál.


Sþ.

1152. Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Sverris Sveinssonar um atvinnuþróun á Norðurlandi vestra.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvað líður úttekt þeirri á atvinnulífi á Norðurlandi vestra sem ríkisstjórnin samþykkti 28. janúar 1982 að fram færi, m.a. í tengslum við verklok Blönduvirkjunar?
    Samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 28. janúar 1982, sem vitnað er til, er svohljóðandi:
    „Ríkisstjórnin samþykkir að fela Framkvæmdastofnun ríkisins, byggðadeild, að vinna í samvinnu við heimaaðila að úttekt á atvinnulífi á Norðurlandi vestra og móta tillögur um eflingu þess, þar á meðal á sviði iðnaðar. Athugaðir verði hið fyrsta möguleikar atvinnufyrirtækja á svæðinu er eiga hlut að framkvæmdum við virkjun Blöndu og að atvinnulíf verði treyst til að koma í veg fyrir samdrátt á vinnumarkaði á svæðinu þegar virkjunarframkvæmdum lýkur.“
    Með bréfi dags. 23. febrúar 1982 fól forsætisráðuneytið áætlanadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins að gera athugun á mikilsverðustu breytingum sem vænta má af uppbyggingu og vexti orkuframkvæmda í landinu. Skyldi deildin m.a. kanna mannaflaþörf við orkuframkvæmdir og áhrif þeirra við þróun annarra atvinnugreina auk annarra þátta.
    Í desember 1982 skilaði Framkvæmdastofnun ríkisins skýrslunni Mannafli við virkjanaframkvæmdir. Athugun á svæðisbundnum áhrifum við Hrauneyjafoss og Blönduvirkjun. Í skýrslunni eru dregnar saman ýmsar upplýsingar um mannafla við framkvæmdir við Hrauneyjafossvirkjun og að nokkru leyti Sigölduvirkjun og við þær stuðst í ályktunum og spám um ýmis áhrif Blönduvirkjunar á mannafla í þeim héruðum sem næst virkjunarstað eru.
    Beiðni ríkisstjórnarinnar til Framkvæmdastofnunar er nokkuð almennara eðlis en samþykktin frá 28. janúar. Henni var síðan svarað með skýrslu í desember sama ár.
    Forsætisráðherra átti 25. júlí 1989 fund með sveitarstjórnarmönnum í Norðurlandskjördæmi vestra og fulltrúa Iðnþróunarfélags Norðurlands. Á fundinn mætti einnig fulltrúi frá Byggðastofnun. Þar var lögð fram skýrsla eða samantekt Byggðastofnunar um áhrif Blönduvirkjunar á vinnumarkaðinn á Norðurlandi vestra. Í niðurlagi þeirrar skýrslu segir svo:
    „Eins og fram kemur hér að framan er þess ekki að vænta að sá samdráttur, sem margir óttast í kjölfar virkjanaframkvæmdanna, verði mjög mikill. Hver áhrifin verða á vinnumarkaðinn ræðst hins vegar af miklu leyti af því hvernig að verði verður staðið. Þar má greina tvær leiðir:
    Annars vegar geta heimamenn tekið þátt í framkvæmdum á óskipulegan hátt, þ.e. iðnaðarmenn og aðrir segja upp núverandi störfum og ráða sig til starfa við byggingarframkvæmdir. Það gæti leitt til þess að starfandi fyrirtæki mundu eiga við verulega erfiðleika að stríða og geta orðið veikari eftir að framkvæmdum lýkur en áður. Auk þess er óvíst hvort þeir sem ráðast til byggingar virkjunarinnar geti horfið til fyrri starfa ef þessar tímabundnu framkvæmdir verða til þess að starfsemi fyrirtækjanna dregst saman eða leggst niður. Reynslan af þessum verkum gæti því orðið að mjög miklu leyti eftir í fjórðungnum. Hins vegar geta heimamenn tekið þátt í framkvæmdum á skipulegan hátt, þ.e. starfandi fyrirtæki verða þátttakendur í framkvæmdum. Auk þess að halda sínu starfsliði gætu þau eflst bæði af reynslu og búnaði sem nýttust þeim í öðrum verkefnum.
    Þótt síðarnefnda leiðin kunni að þykja æskileg frá félagslegu sjónarmiði kunna fjárhagslegir hagsmunir að sníða þeirri leið þröngan stakk. Þannig er mikill framkvæmdahraði grundvöllur þess að þeir fjármunir skili sér fljótt sem í framkvæmdina eru lagðir. Þessi krafa felur í sér þörf á fjölmennu og hæfu starfsliði, góðum tækjakosti, skipulagshæfni og sterkum fjárhagslegum bakhjarli. Búast má við að staðbundinn iðnaður, sem er tiltölulega smár í sniðum, geti ekki mætt þessum kröfum nema að takmörkuðu leyti.
    Því verður að gera ráð fyrir að helstu verktakar verði utan svæðisins. Hlutdeild heimamanna getur þó orðið með tvennu móti. Annars vegar sem aðalverktakar í smærri verkeiningum og hins vegar sem undirverktakar eða samstarfsaðilar að öðrum stærri verktökum sem getu hafa til að auka framkvæmdahraða ef þörf krefur. Þannig ætti í framkvæmdum að felast tækifæri til að byggja upp fyrirtæki á staðnum, m.a. hvað varðar tækjabúnað, tæknikunnáttu og þekkingu á sviði stjórnunar. Í þessu skyni mætti veita fyrirtækjum á svæðinu aðstoð, t.d. í formi ráðgjafar til að takast á við þessi verkefni. Jafnframt er brýnt að fyrirtækin hugi að auknu samstarfi með það fyrir augum að standa betur að vígi gagnvart útboðum.
    Æskilegt er að viðgerðar- og viðhaldsþjónusta (rafvirkjun, pípulagnir, járnsmíði, málun o.fl.) verði sótt til fyrirtækja á svæðinu eftir því sem kostur er. Rökin fyrir þessu eru m.a. þau að þannig mætti draga úr hlutfallslegri stærð framkvæmdarinnar miðað við aðra atvinnustarfsemi á svæðinu, enda er talið óæskilegt að ein framkvæmd beri hlutfallslega mikla ábyrgð á atvinnuþjónustu í einu byggðarlagi. Annar iðnaður gæti því notið góðs af þessu sambýli ef vel er að verki staðið.
    Samkvæmt nýjustu áætlunum er gert ráð fyrir að um 475 manns verði starfandi við virkjunina á árinu 1990. Hugsanlegt er að leita leiða til að efla byggingariðnað á svæðinu árið 1992 þegar framkvæmdum lýkur. Þetta má t.d. gera með því að leggja aukna áherslu á íbúðarbyggingar og e.t.v. flýta öðrum opinberum framkvæmdum um skeið eftir að virkjunarframkvæmdum lýkur ef atvinnulíf að öðru leyti gefur tilefni til.“
    Á fundi forsætisráðherra með heimaaðilum 25. júlí 1989 kom m.a. fram að fjalla þyrfti vandlega um stöðu atvinnumála á Norðurlandi vestra eins og hún er nú. Á þessum fundi var fastmælum bundið að koma á fót samstarfsnefnd um framgang samþykktarinnar frá 1982 er starfaði að málinu í samvinnu við Byggðastofnun á Akureyri. Samstarfsnefndin hefur nú verið skipuð og eiga í henni sæti fulltrúar frá héraðsnefnd Vestur-Húnvetninga, héraðsnefnd Austur-Húnvetninga, héraðsnefnd Skagfirðinga, Siglufjarðarkaupstað og Iðnþróunarfélagi Norðurlands vestra. Af hálfu samstarfsnefndarinnar hefur þess verið óskað við forsætisráðherra að boðað verði til fundar með nefndinni og alþingismönnum Norðurlandskjördæmis vestra til að fjalla um framkvæmd áðurnefndrar samþykktar. Er ætlunin í samvinnu við Byggðastofnun og heimamenn að verða við þeirri beiðni.