Ferill 580. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 580 . mál.


Nd.

1209. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá fjárhags- og viðskiptanefnd.



1. gr.

    5. málsl. 1. mgr. 64. gr. laganna orðist svo: Eftirlifandi maka skal ætíð heimilt að telja fram allar tekjur sínar og hins látna maka sem hjón væru í samræmi við ákvæði 63. gr., í allt að níu mánuði frá og með andlátsmánuði makans og fer þá um álagningu tekjuskatts og ákvörðun persónuafsláttar samkvæmt því.

2. gr.

    Við 81. gr. laganna, sbr. 9. gr. laga nr. 51/1989, bætist ný málsgrein er orðist svo:
    Eignarskattsálagningu eftirlifandi maka eða sambúðaraðila, sbr. 3. málsl. 1. mgr., skal á dánarári maka eða sambúðaraðila hagað á sama hátt og um hjón væri að ræða.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu koma til framkvæmda við álagningu gjalda á árinu 1991 vegna tekna á árinu 1990 og eigna í lok þess árs.

Greinargerð.



    Nefndin hefur haft til umfjöllunar frumvarp Friðriks Sophussonar og Inga Björns Albertssonar um breytingu á tekjuskatts- og eignarskattslögum, 494. mál þingsins, er miðar að því að auka rétt eftirlifandi maka til að nýta persónuafslátt látins maka. Við athugun nefndarinnar kom fram að gera þyrfti ýmsar breytingar á frumvarpinu til að hægt væri að ná fram markmiðum þess og ákvað því nefndin að velja þann kost að flytja sjálfstætt frumvarp um málið.
    Samkvæmt gildandi lögum getur eftirlifandi maki nýtt sér persónuafslátt hins látna á því almannaksári sem andlát makans bar að. Eftirlifandi maki getur þannig nýtt sér persónuafslátt látins maka í einn til tólf mánuði eftir því hvenær árs maki lést. Samkvæmt þessum ákvæðum er það háð því hvenær andlát ber að innan ársins hve mikinn persónuafslátt eftirlifandi maki getur nýtt sér.
    Í frumvarpi nefndarinnar er gert ráð fyrir að réttur eftirlifandi maka til að nýta persónuafslátt þess maka, er fellur frá, verði sá sami í öllum tilvikum þannig að allir, sem missa maka sinn, geti nýtt persónuafslátt eftirlifandi maka í jafnlangan tíma. Lagt er til að þessi réttur vari í fulla níu mánuði frá og með þeim mánuði er maki féll frá.