Stjórnarskipunarlög
Þriðjudaginn 16. október 1990


     Ólafur G. Einarsson :
    Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem til umræðu kemur hér á hv. Alþingi hugmynd um annaðhvort að þrengja réttinn til útgáfu bráðabirgðalaga eða fella hann alfarið niður, eins og raunar kom fram í máli hv. flm. þessa frv. og kemur einnig fram í grg. með frv. Ég minni á það sem einnig er tæpt á hér í grg. og í ræðu hv. flm. að á 111. og 112. þingi var lagt fram frv. til stjórnskipunarlaga þar sem 1. flm. var hv. þm. Páll Pétursson. Það kom til nokkurrar umræðu vorið 1989 en ekki á þinginu í fyrra vegna þess hversu seint það var lagt fram. Í því frv. var lagt til að 28. gr. stjórnarskrárinnar yrði þrengd mjög, hins vegar var ekki lagt til að hún yrði felld brott, eins og hér er gert.
    Ég vil aðeins í þessu samhengi rifja upp það sem ég sagði í umræðum hér í hv. Nd. þann 26. apríl 1989. Um frumvarpsgreinina sem varðar 28. gr. lét ég orð falla á þessa leið: ,,Frv. gerir ráð fyrir að verulega sé þrengdur réttur ríkisstjórna til slíkra athafna, eins og hv. 1. flm. rakti hér áðan. Allt er þetta til bóta, en ég vil hins vegar stíga skrefið til fulls og afnema algjörlega heimildina til að gefa út bráðabirgðalög.``
    Ég bætti síðan við nokkrum atriðum sem er etv. rétt að ég rifji upp hér, með leyfi hæstv. forseta: ,,Þingmenn hafa gjarnan gagnrýnt yfirgang framkvæmdarvaldsins eins og það heitir og oftast er sú gagnrýni á rökum reist. En þeir eiga það hins vegar við sjálfa sig og eiga við sjálfa sig að sakast og raunar ekki aðeins um það að framkvæmdarvaldið gangi á rétt löggjafans, heldur verður að viðurkenna það að löggjafarvaldið seilist oft og tíðum inn á svið framkvæmdarvaldsins og það er ekkert betra. Það er á valdi þingsins hvaða heimildir það veitir framkvæmdarvaldinu. Þær heimildir eru allt of rúmar í dag. Löggjafarvaldið á aldrei að framselja. Það hefur hins vegar verið gert en þær heimildir ber að afnema. Meðan löggjafarvaldið gerir það ekki er gagnrýni á framkvæmdarvaldið að þessu leyti marklaus. Það er auðvelt að kalla þingið saman ef nauðsyn krefur að sett sé ný löggjöf í þinghléum. Það eru allt aðrar aðstæður nú en ríktu hér á landi þegar þessi heimild var sett í stjórnarskrána. Samgöngur hafa gjörbreyst, þingið situr miklu lengur en það gerði áður. Raunar kom það ekki saman nema annað hvert ár til kannski nokkurra vikna setu. Og það er ekki bara það að þingið sitji lengur en áður, heldur eru líkur á að þingtíminn lengist með hverju ári sem líður. Allt þetta ber því að sama brunni. Heimildir til útgáfu bráðabirgðalaga eiga ekki að vera í stjórnarskrá. Þær á að afnema með öllu.``
    Þetta voru mín orð vorið 1989 og skoðun mín hefur alls ekkert breyst síðan, nema síður sé. Og það er vegna þess að ýmislegt það hefur gerst frá því að þessi orð voru töluð sem renna enn frekari stoðum undir þá skoðun mína að þessar heimildir ríkisstjórna til útgáfu bráðabirgðalaga eigi að afnema með öllu.
    Hv. flm. frv. sem hér er til umræðu rakti nokkuð

það sem hefur gerst frá þessum tíma og nægir þar að nefna það sem einnig er rakið hér í grg. með frv. sem gerst hefur á árinu 1990, þessu ári. Og ég hef svo sem engu að bæta við það sem þar er rakið og, eins og ég sagði, rennir stoðum undir þá skoðun að þessi heimild eigi ekki að vera í stjórnarskránni.
    Hv. þm. Kristín Einarsdóttir, 1. flm. þessa frv., tók þátt í umræðunni 1989 og sagði þá um þetta atriði, um þessa grein í því frv. um 28. gr. stjórnarskrárinnar, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ég vænti þess að nokkur almennur stuðningur sé við þau ákvæði frv. að setja meiri skorður en nú er við útgáfu bráðabirgðalaga. Slíkt er a.m.k. eðlilegt frá sjónarhóli þingsins og þörfin fyrir slíkt ákvæði hlýtur að vera minni frá sjónarhóli ríkisstjórna þegar litið er til þess ákvæðis frv. að kalla Alþingi saman eigi síðar en fjórum mánuðum eftir þingrof og þrem vikum eftir skipun nýrrar ríkisstjórnar.``
    Ég skil hv. þm. svo að hún hafi breytt afstöðu sinni þannig að nú sé hún orðin sannfærð um það sem hún hefur varla verið vorið 1989 að þessa heimild eigi að afnema með öllu. Ég fagna þeirri breytingu á afstöðu.
    Það er aðeins rakið hér í grg. og kom líka fram í orðum hv. flm. hverjar heimildir eru hér í næsta nágrenni við okkur. Þar er m.a. sagt að í Danmörku sé heimildin til að gefa út bráðabirgðalög bundin því skilyrði að ekki sé unnt að kalla þingið saman. Raunverulega eru skilyrðin í dönskum lögum enn þá þrengri vegna þess að það er t.d. alls ekki heimild í dönskum lögum til þess að gefa út bráðabirgðalög sem varða skattamál að einu eða neinu leyti. Það er algjörlega bannað. Það var meginástæðan fyrir því að danska þingið var kallað saman á síðasta ári til þess að fjalla um skatt á steinolíu þegar þúsundir ef ekki tugþúsundir Dana voru komnir með fullt af steinolíubrúsum í kjallarana hjá sér vegna breytinga á skattlagningu á steinolíu. Það var sem sagt ástæðan og það er auðvitað algjört lágmark að þrengja þetta svo, ef það á að vera með nokkra heimild, sem ég sem sagt er andvígur. Ég lýsi þess vegna yfir fullum stuðningi við þetta frv.