Stjórnarskipunarlög
Þriðjudaginn 16. október 1990


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Hvað eftir annað á síðustu árum hafa gosið upp umræður um nauðsyn þess að gera breytingu á stjórnarskipunarlögum og þingskapalögum sem ég held að flestir séu sammála um að séu meingölluð. Forsetar Alþingis hafa tekið þátt í þessari umræðu og rætt um þessi mál hvað eftir annað og talið eðlilegt að beita sér fyrir breytingum á þessu þingi þegar kosningar til Alþingis eru fram undan. Tveir af forsetum þingsins sem sæti eiga í hv. Nd. voru enda meðflm. frv. til stjórnarskipunarlaga sem var 512. mál síðasta þings og 1. flm. var Páll Pétursson. Hinn 19. sept. sl. skrifuðu forsetar Alþingis formönnum þingflokka bréf sem ég er ekki viss um að hafi verið kynnt öllum þingflokkum, enda ekki mjög langt um liðið. Ég tel því ástæðu, með leyfi hæstv. forseta, að kynna efni þessa bréfs. Það hljóðar svo:
    ,,Forsetar hafa frá því sl. vetur rætt á fundum sínum um ýmisleg atriði í framkvæmd þingskapa sem nauðsynlegt er að þeirra dómi að breyta eða a.m.k. að orða skýrara en gert er í núgildandi þingsköpum. Í þessum umræðum hefur þó jafnan komið fram það sjónarmið að eðlilegast væri áður en lögð verður vinna í að yfirfara þingsköpin, að láta fyrst reyna á það grundvallaratriði hvort samstaða geti tekist meðal þingmanna um að afnema deildaskiptingu Alþingis þannig að það starfaði framvegis í einni málstofu.
    Í þessu sambandi má benda á að á tveimur síðustu þingum hefur verið lagt fram mjög ítarlegt frv. til stjórnarskipunarlaga sem felur í sér afnám deildaskiptingar þingsins. 1. flm. þess var Páll Pétursson en meðflm. voru úr öllum þingflokkum nema Sjálfstfl. Formaður Sjálfstfl., Þorsteinn Pálsson, lýsti hins vegar yfir því í eldhúsdagsumræðum við þinglok í vor að höfuðverkefnið innan Alþingis væri að sameina það í eina málstofu og formaður þingflokks sjálfstæðismanna, Ólafur G. Einarsson, sagði í fjölmiðlum skömmu eftir þinglausnir að deildaskiptingin væri ekki aðeins úrelt, heldur væri hún einnig skaðleg fyrir vinnulag innan þingsins og álit Alþingis í þjóðfélaginu og færði fyrir því margvísleg rök.
    Forsetar hafa því ástæðu til að ætla að afnám deildaskiptingarinnar hafi mjög mikinn hljómgrunn í öllum þingflokkum og að samstaða gæti tekist um slíka gerbreytingu á skipulagi Alþingis nú á því þingi sem í hönd fer.
    Það er niðurstaða forseta eftir talsverðar umræður um þetta mál að heppilegast sé á þessu stigi að leita til formanna þingflokka með ósk um að þeir reyni að ná samkomulagi sín á milli um frv. sem fæli í sér nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá og þingskapa-lögum til þess að þetta mætti takast nú á síðasta þingi þessa kjörtímabils.
    Í þeim frv. sem lögð hafa verið fram og í þeim umræðum sem um þau hafa orðið, til að mynda frv. Páls Péturssonar og fleiri, hefur verið tekið á mörgum fleiri þáttum sem varða störf Alþingis, svo sem eftirliti þingsins með framkvæmdarvaldinu, þingsetu ráðherra, bráðabirgðalögum, þingrofi, aukafjárveitingum,

samkomutíma Alþingis og mörgu fleira. Um þau er hins vegar að dómi forseta ekki eins mikil samstaða og því mjög mikilvægt við meðferð málsins og gerð frv. um það að afnám deildaskiptingarinnar strandi ekki á ágreiningi um önnur atriði sem varða störf Alþingis.
    Rétt er þó og sjálfsagt að taka með í slíkt frv. þau efnisatriði sem einhugur getur skapast um og varðar starfshætti þingsins. Hins vegar er óhjákvæmilegt, ef samstaða næst um afnám deildaskiptingarinnar, að setja nýjar reglur um nefndaskipunina, stjórn þingsins og e.t.v. nokkur fleiri atriði.
    Forsetar telja að hér sé um brýnt mál að tefla og fara þess vegna eindregið fram á það við þingflokksformenn að þeir fjalli um málið sem fyrst nú við upphaf þings. Forsetar eru reiðubúnir að leggja fram þau vinnugögn sem þeir hafa undir höndum um málið og leggja til það starfslið sem þeir hafa og aðra nauðsynlega sérfræðiaðstoð til þess að frágangur og formsatriði verði ekki til tafa.
    Á það skal bent að nú á síðasta þingi þessa kjörtímabils er gott tækifæri til að koma fram umbótum á starfsháttum Alþingis, þar sem það þingrof sem fylgir í kjölfar breytinga á stjórnarskrá, gæti fallið saman við eðlileg starfslok þingsins að vori, og þyrfti þannig ekki að hafa neina aðra pólitíska röskun í för með sér.
    Alþingi 19. sept. 1990. Guðrún Helgadóttir, forseti Sþ., Jón Helgason, forseti Ed., Árni Gunnarsson, forseti Nd.``
    Ég taldi rétt að kynna efni þessa bréfs hér sem þingflokkum verður eflaust kynnt mjög fljótlega. Hv. 2. þm. Reykn. Ólafi G. Einarssyni var falið að kalla þingflokksformenn saman og hefur hann þegar gert það. Nú hef ég heyrt að hann hafi verið kjörinn formaður þeirrar nefndar sem úr þeim fundi varð. Við forsetar leggjum á það mikla áherslu að þeir sem þá nefnd skipa leggi í það vinnu og afl á þessu þingi að ná fram þeim breytingum sem nokkur vissa er um að nái samþykki.
    Það frv. sem hér liggur fyrir og hv. 6. þm. Reykv., sem raunar fékk einmitt þetta bréf forseta sent, þó að hún sé ekki lengur þingflokksformaður síns flokks, hefur nú talað fyrir er vitaskuld einn þáttur þessa máls. Ég vil hins vegar lýsa því yfir að ég held að það sé ekki hægt að taka af með öllu rétt til setningar bráðabirgðalaga. Sú staða getur hugsanlega komið upp, og skortir mig nú raunar nokkurt hugmyndaflug til að koma með dæmi um slíka stöðu, að ríkisstjórninni væri nauðugur einn kostur að setja bráðabirgðalög. En í mínum huga ætti sá réttur að vera ámóta oft notaður og réttur forseta lýðveldisins til þess að neita að undirrita lög. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að þrengja þennan rétt til mikilla muna þannig að einungis í algjörum neyðartilvikum nýti ríkisstjórn sér rétt til setningar bráðabirgðalaga.
    Ég vil biðja þá sem sitja í þeirri nefnd sem ég nefndi hér áðan að taka þetta mál einnig til athugunar. Vitaskuld fær frv. þinglega meðferð hér og verður sent til hv. allshn. vænti ég, en ég vil skora á alla

hv. þm. að sinna þessum hugmyndum, svo og þeim sem hér hafa verið áður ræddar eins og þeirri breytingu að gera hið háa Alþingi að einni málstofu sem ég held að sé orðið mjög brýnt mál. Og sú er tvímælalaust ósk forseta þingsins að á þessu 113. löggjafarþingi náist samkomulag um verulega breytt þingsköp og breytta skipan þingsins. Ég held að þar með værum við að vinna að markvissari vinnubrögðum hér á hinu háa Alþingi sem auðvelduðu alla starfsemi þingsins.