Rannsókn álmálsins
Miðvikudaginn 17. október 1990


     Hreggviður Jónsson :
    Hæstv. forseti. Sú tillaga til ályktunar sem hér liggur fyrir um að skipa sérstaka nefnd skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til að rannsaka álmálið er athyglisverð út af fyrir sig. Ég vil taka undir hugsunina á bak við þessa ályktun, að þingmenn fái meiri, betri og gleggri upplýsingar um feril slíkra stórmála og þá á ég ekki aðeins við álmálið heldur yfirleitt um slík stórmál. En jafnframt tel ég að kostnaður við slíka tillögu eins og hér er borin fram geti hlaupið á tugum milljóna kr. Ég hef heyrt áætlanir um að slík rannsókn geti jafnvel farið upp í 50 millj. kr. Og ég verð að segja það að ég get ekki lagt til að það verði enn frekar aukið á skattbyrði almennings í landinu. Hún er næg nú þegar af völdum þessarar ríkisstjórnar og þeirra stuðningsmanna hennar sem leggja hér sí og æ fram tillögur um að hækka útgjöld ríkisins sem þýðir hærri skatta.
    En ég vil líka og tel rétt að árétta sjónarmið okkar sem búum á Reykjanesi, en í umræðum um atvinnumál hefur það slag í slag komið í ljós að litið er á atvinnuleysi hér á suðvesturhorninu sem sjálfsagðan hlut. Því verður að breyta. Hver einstaklingur er jafndýrmætur hvort sem hann býr á Kópaskeri eða í Kópavogi. Atvinnuleysi var í júlí talið ná til 2036 einstaklinga. Á Austfjörðum voru 77 án atvinnu, á Norðurlandi eystra 281 en í Reykjavík og á Reykjanesi voru samtals 1170 skráðir atvinnulausir. Á liðnu sumri hafa verið aflögð 55 eða 60 störf Íslendinga á Keflavíkurflugvelli einum. Hefðu 60 menn úti á landi misst vinnuna mundu fjölmiðlar hristast og stöðugt væri klifað á því hvað ríkisstjórnin ætti að gera og hvort ætti að leggja byggð þessa fólks niður. Það hvarflar að manni að landsbyggðarlúðrarnir telji fólkið á suðvesturhorninu einskis virði.
    Það er sjálfsagt að láta það koma fram að það verður að hugsa til þess að fólkið á suðvesturhorninu er auðvitað alveg jafnmikilvægt, hver og einn einstaklingur, eins og annars staðar á landinu. Það er aðeins ein þjóð í landinu og hver einstaklingur er jafnmikilvægur hvar sem hann býr. Ég tel að rísi álver á Suðurnesjum þá sé það fyrst og fremst heildarhagsmunirnir sem skipta máli. Ég tel að það sé mjög ábyrgðarlaust ef menn eru að reyna að koma atvinnutækifærum af Suðurnesjunum því að þar er atvinnuástandið með þeim hætti að við hljótum að gera kröfu um að það verði gerðar úrbætur í þeim atvinnumálum því að atvinnuleysi þar er með því mesta á landinu. Það hlýtur að vera krafa okkar þingmanna Suðurnesja að það verði bætt úr því. Og ég vil undirstrika hér að ef álverið er þjóðhagslega hagkvæmur kostur þá eigum við að byggja það og við eigum að byggja það á Keilisnesi.