Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Miðvikudaginn 17. október 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst víkja að því að framkvæmd á þessum breytingum er í verkahring embættis ríkisskattstjóra og undirbúningurinn að framkvæmd þessa máls er á vegum þess embættis og honum miðar vel. Ég vil í því sambandi árétta að efasemdir sem margir höfðu hér á þinginu fyrir síðustu áramót um að virðisaukaskatturinn væri svo illa undirbúinn að framkvæmd hans mundi klúðrast hafa sem betur fer ekki reynst vera á rökum reistar. Satt að segja hefur gengið ótrúlega vel að koma virðisaukaskattskerfinu hér í framkvæmd þó að um sé að ræða einhverja flóknustu og viðamestu skattkerfisbreytingu sem Íslendingar hafa gert um langan tíma.
    Það er ætlun fjmrn. að stefna að því að þessar endurgreiðslur geti verið með reglubundnum hætti þótt hægt verði farið af stað í byrjun. Verður það metið eftir vinnuálagi og kröfum almennings hvað margir endurgreiðsluáfangar verða á hverju ári. Það er nú oft þannig að framkvæmdir af þessu tagi taka nokkuð langan tíma hjá fólki almennt þannig að oft og tíðum stendur framkvæmdatímabil marga mánuði svo að eðlilegt er að menn safni þessum greiðslum saman. En hitt er ljóst að þegar reynsla verður komin á þessa vinnu verður stefnt að því að gera þetta eins fljótt og oft og unnt er. Það er enn fremur ætlunin að þessi endurgreiðsla haldi fullu verðgildi þannig að það er ekki um það að ræða eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni að það væri verið að rýra þessa peninga almennings með biðinni. Ætlunin er einnig að gefa út á vegum ríkisskattstjóraembættisins og fjmrn. ítarleg leiðbeiningarit til almennings, upplýsingabækling og fræðsluefni þar sem hver og einn einstaklingur getur fengið mjög ítarlegar upplýsingar um það í hverju endurgreiðslurnar eru fólgnar, hvernig þarf að ganga frá reikningum og öðru af því tagi. Þetta efni er væntanlegt á næstunni og ætti eins og annað fræðsluefni um virðisaukaskattinn að vera þannig úr garði gert að það auðveldi mjög alla framkvæmd. Það hefur verið reynslan af því upplýsingaefni og þeim eyðublöðum sem gefin hafa verið út til þessa og sami háttur verður hafður á varðandi þetta atriði. Ég óttast þess vegna ekki að þetta verði erfitt í framkvæmd og ætti á tiltölulega skömmum tíma að vera hægt að koma hér upp endurgreiðslukerfi þar sem nokkrum sinnum á hverju ári verður gengið frá þeim endurgreiðslum sem ber að greiða samkvæmt þeim skilmálum sem í lögum og reglugerðum verða sett.