Íslenska óperan
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins koma hér og þakka hv. 12. þm. Reykv. fyrir að bera fram þessa fsp. og með því vekja athygli á þeim fjárhagslega vanda sem Íslenska óperan býr við. Ég verð að segja það að mér fyndist það dapurlegur endir á því annars merka og mikla starfi sem íslenskt tónlistarfólk hefur unnið í Íslensku óperunni frá því að hún var stofnuð, ef svo færi að ekki væri hægt að finna leiðir til að leysa þennan fjárhagslega vanda. Ég verð nú að segja að ekki er hægt að tala um að þetta séu stórar fjárhæðir miðað við ýmislegt annað sem Alþingi þarf að takast á við þegar um er að ræða fjárhagslegan vanda ýmissa fyrirtækja og atvinnureksturs í landinu, því við verðum að líta svo á að tónlistin í landinu og sú tónlistarmenning sem haldið er uppi í landinu sé arðbær og góð fjárfesting. Og við megum ekki láta það gerast að Íslenska óperan verði að hætta starfsemi sinni vegna þess að það sé ekki hægt að finna lausn á þessum vandamálum hennar.