Jöfnun orkukostnaðar
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir) :
    Að gefnu tilefni í upphafi þings vill forseti segja eftirfarandi: Á síðasta þingi varð forseti fyrir gagnrýni fyrir að vera of rýmileg í fyrirspurnatímum og man ég ekki betur en hv. 2. þm. Austurl. væri einn af gagnrýnendum um þetta atriði. 5. mgr. 31. gr. þingskapalaga hljóðar svo:
    ,,Fyrirspyrjandi eða framsögumaður fyrirspyrjenda mælir fyrir fyrirspurn. Ráðherra, er hlut á að máli, svarar síðan fyrirspurn. Hvor um sig, fyrirspyrjandi og ráðherra, má ekki tala oftar en tvisvar, fyrirspyrjandi eigi lengur en tvær mínútur og ráðherra eigi lengur en fimm mínútur í senn. Öðrum þingmönnum er heimilt að gera stutta athugasemd.``
    Og í tíð forvera míns, hv. 4. þm. Vestf., minnist ég þess að reiknað var með einni mínútu til slíkra athugasemda.
    Nú er svo komið að hér hafa hv. þm. fengið að gera athugasemdir. Hv. 4. þm. Austurl. og hv. 2. þm. Austurl. biðja nú enn um orðið. ( EgJ: Ég skal falla frá orðinu.) Ég vil biðja hv. þm. að virða þessar reglur hér á þessum fyrsta fyrirspurnafundi svo forseti geti farið að þingsköpum á þessu þingi.