Framkvæmd flugmálaáætlunar
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að hv. alþm., fjárveitinganefndarmenn og aðrir hv. þingmenn fái betri tíma til að kynna sér rækilega þær aðstæður sem hér eru fyrir hendi. Það verður vonandi mögulegt á næstu dögum, enda ætlunin og aldrei verið annað en ætlunin, að ákvarðanir um tilfærslu eða breytingar vegna breyttra aðstæðna og forsendna yrðu teknar af alþingismönnum. Samgrn. hefur ekki annað gert í raun og veru en að senda þessar upplýsingar áfram beina leið til fjvn. og Alþingis.
    Ég held að það sé nauðsynlegt að menn átti sig á að flugmálaáætlun er skipt niður í tímabil, tveggja ára tímabil sem framkvæmdum er skipt á. Og þar er ekki um að ræða prósentuskiptingu á kjördæmi eins og er til að mynda í vegamálum, sá er nokkur munur á. Eða mundu Austfirðingar t.d. sætta sig við þá prósentu sem Suðurlandskjördæmi eða Vesturland hafa fengið í flugvöllum? Tæplega. Enda hefur milli þriðjungur og helmingur af framkvæmdafé í flugmálum sum árin farið til Austfjarðakjördæmis, eðlilega vegna þess að þar eru miklar framkvæmdir í gangi. Eins og ég nefndi verður unnið á þessu ári fyrir sjálfsagt einar 50 millj. á Egilsstöðum. Til þess að upplýsa hv. þm. þess svæðis um það mál þá stendur það þannig að það var í fyrsta lagi gerð upp skuld frá fyrra ári. Hönnun á burðarþoli og slitlögum er lokið á þessu ári. Útboð annars áfanga í flugstöð hefur farið fram og eru framkvæmdir að hefjast. Útboð og framkvæmdir við sandgeymslu, útboð hefur farið fram og framkvæmdir eru að hefjast og vinna við fjórða verkáfanga, þ.e. öryggissvæði og endanlega fyllingu í flughlað, um það verður væntanlega samið á næstu vikum. Hvort framkvæmdir hefjast fyrir eða eftir áramót ræðst m.a. af þeim tekjum sem stofnunin hefur. Ég leyfi mér því að fullvissa hv. þm. Austurl. um að Egilsstaðaflugvöllur hefur ekki verið settur hjá umfram það sem efni standa til.
    Ég held að það sé líka nauðsynlegt, hæstv. forseti, að menn átti sig á því að rekstur Flugmálastjórnar er nokkuð sérstakur. Framkvæmdaþátturinn er mjög nátengdur ákaflega viðkvæmum rekstri, sem er flugreksturinn. Það hefur því miður reynst óhjákvæmilegt á þessu ári að grípa til tiltekinna ráðstafana af öryggisástæðum eins og þeirra að sjá fyrir varaafli á Reykjavíkurflugvelli sem ekki var fyrir hendi með fullnægjandi hætti. Fyrir því var ekki heimild. En ég spyr hv. alþingismenn: Átti Flugmálastjórn og átti samgrn. að láta flugreksturinn fara fram við ófullnægjandi öryggisaðstæður?     Malbikunarframkvæmdir bæði á Ísafirði og í Vestmannaeyjum fóru nokkuð fram úr áætlun. Ég spyr hv. alþingismenn: Átti Flugmálastjórn að loka flugvöllunum í Vestmannaeyjum og á Ísafirði daginn sem hin markaða fjárveiting var búin eða átti hún að leyfa sér að ljúka verkáfanganum sem hafði verið samþykktur þó svo að verkið færi nokkuð fram úr kostnaðaráætlun? Ég hygg að þetta skýri kannski pínulítið við hversu viðkvæmar aðstæður hér er að glíma.

Og reksturinn á þessu sviði er mjög samtengdur framkvæmdum, því miður. Það breytir síðan engu um það að að sjálfsögðu hefur hvorki Flugmálastjórn né samgrn. heimild til að breyta ákvörðunum Alþingis. Um það er ekki deilt hér enda hafa engar ákvarðanir verið teknar. En Flugmálastjórn hefur leyft sér að grípa til ráðstafana sem hún hefur væntanlega talið óhjákvæmilegar til þess að halda áfram flugrekstrinum og ljúka tilteknum framkvæmdaáföngum.
    Ég vona að í samráði við fjvn. og hv. þingmenn megi leiða þetta mál farsællega til lykta og ég hvet menn fyrst og fremst til að kynna sér allt efni þessa máls og þá hygg ég að það skýrist með fullnægjandi hætti.