Bygging og rekstur álvers
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að fara mjög mörgum orðum um þau efnisatriði sem hér hafa verið til umræðu. Mig langar til að svara nokkrum spurningum. Ég geri ráð fyrir því að við eigum eftir að ræða þetta mál nokkrum sinnum enn á hinu háa Alþingi áður en málið hlýtur endanlega afgreiðslu. Hvað umhverfismálin sjálf varðar hef ég í hyggju að leggja fyrir Alþingi skýrslu umhverfisráðherra um umhverfisáhrif vegna hins væntanlega álvers og með hvaða hætti mun staðið að mengunarvörnum þar. Ég tel að sjálfsagt sé og eðlilegt að ég geri Alþingi á þann hátt grein fyrir málinu, efnisatriðum málsins hvað umhverfisáhrifin varðar. Sú vinna er í fullum gangi á vegum ráðuneytisins og er að vísu mjög vel á veg komin en henni er hvergi nærri lokið. Því er ekki tímabært að rekja í smáatriðum þær leiðir né þær hugmyndir sem við erum að fara í gegnum þessa dagana til þess einmitt að tryggja það að mengunarvarnir verði hinar ýtrustu sem völ er á og allt verði gert til þess að koma í veg fyrir að umhverfisáhrif frá álverinu verði mikil.
    Ég veit ekki hvort ástæða er til að ég fari að eltast við ýmis skeyti sem ég hef fengið frá hinum hv. alþm. sem hér hafa tekið til máls. Það eru að vísu margar ágætis ábendingar sem hafa komið fram. Sumar eru réttmætar, aðrar ekki. Ég get að sjálfsögðu tekið undir það með hv. 2. þm. Austurl. að eina örugga vörnin gegn mengun af völdum álvers er að byggja ekkert álver. Það er að sjálfsögðu alveg hárrétt, undir það get ég tekið. Það er hins vegar einu sinni svo að sú umhverfismálaumræða sem nú á sér stað um allan heim byggir á einu grundvallaratriði sem er að öll efnahagsleg þróun skuli vera innan þeirra marka sem náttúran sjálf setur þannig að maðurinn gangi ekki lengur þannig á náttúruna að hann eyðileggi hana með þeirri efnahagslegu þróun sem hann stuðlar að. Öll efnahagsleg þróun í heiminum á að vera innan þeirra marka sem náttúran setur. En þetta grundvallarlögmál þýðir ekki að ekki eigi að eiga sér stað nein efnahagsleg þróun. Því fer fjarri. Það er enginn sem heldur því fram að umhverfismál eigi að túlka með þeim hætti að hér með sé allri efnahagslegri þróun í heiminum lokið. Ég get að vísu vel hugsað mér að hverfa eins og tvær aldir aftur í tímann og lifa í þeirri náttúru sem þá hefur verið og vera laus við alla mengun, bæði frá bifreiðum og alls konar orkuverum. Ég gæti vel hugsað mér að keyra hér um á hestvögnum í fögru umhverfi eins og maður sér stundum þegar verið er að sýna fyrri tíma með rómantískum blæ. Það er nú einu sinni svo að það verður ekki snúið til baka. Við lifum á þróunarbraut, en að sjálfsögðu hljótum við að taka undir með öllum öðrum sem fjalla um þessi mál, að efnahagsleg þróun verður að vera innan þeirra marka sem náttúran setur. Bygging álvers er dæmi um efnahagslega þróun en að sjálfsögðu verður að tryggja það að þarna haldi menn sér enn innan þeirra marka sem náttúran setur og það er það sem verið er að reyna að gera.

    Ég gæti að sjálfsögðu farið rækilega í þau efnisatriði sem hér hafa verið nefnd, en ég veit ekki hvað ég á að fara langt í þeim efnum. Mig langar þó til að skjóta aðeins hérna inn einu atriði handa þeim sem hafa haft hvað mestar áhyggjur af þeirri mengun sem álverið veldur og þeim umhverfisspjöllum sem það óneitanlega hlýtur að einhverju leyti að hafa í för með sér, en það er ferðamannaþjónusta sem margir hafa talað um að væri hlutur sem Íslendingar ættu að sinna betur og ég er sömu skoðunar. Hins vegar er mjög athyglisvert í allri þessari umræðu um umhverfismál að Umhverfismálastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur eindregið hvatt öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna til að draga úr ferðamannaþjónustu, ferðamannastraumi, helst snúa til baka ef hægt er og minnka ferðamannastraum til allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna. Eins og Umhverfismálastofnun Sameinuðu þjóðanna segir veldur aukinn ferðamannastraumur mjög auknum umhverfisspjöllum. Þetta er mjög athyglisvert. Enn hef ég engan heyrt hafa áhyggjur af þessu hér á hinu háa Alþingi. Þvert á móti hafa allir viljað auka ferðamannaþjónustu og draga hingað til lands fleiri ferðamenn.
    Nú skal ég flýta mér að segja það að ég tel að við eigum að auka ferðamannaþjónustu og tel að við getum gert það í góðu sambýli við náttúruna. Ég vildi vekja athygli á því að þessi umræða er hins vegar í fullum gangi á alþjóðlegum vettvangi, þ.e. að ferðamannaþjónusta sé mikill umhverfisspillir sem er mjög athyglisvert. Reyndar kemur það nú engum á óvart sem hefur t.d. nýlega komið í Dimmuborgir í Mývatnssveit.
    Mér heyrist að menn hafi fyrst og fremst haft áhyggjur af einum mengunarþætti. Menn hafa haft miklu minni áhyggjur af hinum alvarlega mengunarþætti sem fylgir rekstri álvers, en það er flúormengun. Mjög lítið hefur verið fjallað um hana. Að vísu minnist ég þess að landbrh. var ekki alveg ánægður með tölur sem höfðu verið nefndar og lái ég honum það ekkert. Ég hef hins vegar fullvissu fyrir því, og það hafa mínir sérfræðingar sem hafa verið að fara yfir þau mál tjáð mér, að með þeim kröfum sem nú er búið að ná samkomulagi um í starfsleyfi eða starfsleyfisdrögum sé það tryggt að flúormengunin frá hinu væntanlega álveri verði eins lítil og þekkt er í heiminum í dag. Það verður beitt fullkomnustu mengunarvarnatækni til þess að hreinsa flúor úr útblásturslofti frá kerjunum og líklegasta niðurstaðan er að flúormengunin verði langtímum saman vel undir 1 / 2 kg á hvert framleitt tonn af áli. Með mjög umfangsmiklum mælingum, sem öllum ber saman um að séu meiri og umfangsmeiri en þekkist í nokkru álveri sem er í rekstri í heiminum í dag, er hægt að tryggja að hægt sé að fylgjast svo vel með þessum þætti mála að það eitt sé í raun og veru betri mengunarvörn en að setja kannski einhver ströng mörk sem síðan verði eilíft vandamál að standist. Hins vegar hef ég lýst því yfir að við munum endurskoða mengunarmörk hvað varðar flúormengun þegar komin er full reynsla á rekstur álversins. Fyrr er í raun ekki hægt að sjá endanlega hver mengunarmörkin geta orðið. Eins og ég gat um

hér í upphafi þessarar umræðu, þá er það ekki mengunarbúnaðurinn einn sér sem er afgerandi í þessu máli, heldur er það kannski starfsfólkið að jafnmiklu leyti sem ræður úrslitum um það hver flúormengunin verður. Það er hvernig starfsmennirnir ná samstöðu um að vinna samviskusamlega að því að þessi mengunarbúnaður virki.
    Menn hafa mikið rætt um ímynd Íslands og talið að hún muni bíða mikinn hnekki við það að við reisum hér álver þó að fullkomnustu mengunarvörnum verði beitt. Það kann vel að vera að svo verði. En því miður, þegar talað er um ímynd Íslands á erlendum vettvangi, eru nú þeir útlendingar sem hafa komið hingað til lands, kynnt sér staðhætti og ferðast um landið fljótir að finna veilurnar í umhverfismálum okkar. Ég er ansi hræddur um að ímynd Íslands líði miklu meira fyrir mjög slæma sorphirðu um allt land þar sem opnir sorphaugar blasa við, úgangur úr sláturfé liggur þar fyrir hunda og manna fótum, þar sem vargfuglinn heldur sína veislu og ber svo salmonellusmitið út um allt eða þar sem skolprásir liggja alls staðar beint út í sjó og öllu skolpi er dengt óhreinsuðu í sjóinn. Þetta vekur mikla furðu útlendinga sem hingað koma og þeir spyrja: Hvernig í ósköpunum getur þjóð sem segist vera matvælaframleiðsluþjóð, á allt sitt undir útflutningi á fiskafurðum, leyft sér það að demba öllu skolpi óhreinsuðu í sjóinn? Þetta hefur slæm áhrif á ímynd Íslands á erlendum vettvangi og ég mundi vilja biðja þá sem hér hafa kannski haft hvað mestar áhyggjur af umhverfisáhrifunum frá væntanlegu álveri að veita mér stuðning sinn þegar við komum að því að reyna með löggjöf að taka fyrstu skrefin á þeirri braut að bæta hér um.
    Eitt mál hefur sérstaklega verið til umræðu hvað varðar mengunarþætti álversins, en það er brennisteinstvíildismengun sem menn hafa haft mjög miklar áhyggjur af og talið að væri aðalvandamál álversins. Menn hafa, eins og ég sagði hér áðan, kannski haft minni áhyggjur af flúormenguninni sem er þó miklu alvarlegri. Þess vegna verð ég að segja eins og er að mér hnykkti við þegar mér var tjáð að nýtt stórt fyrirtæki sem hóf störf fyrir stuttu síðan, þ.e. Nesjavallavirkjun, þarf ekki starfsleyfi, en hún sendir 2600 tonn af brennisteini út í andrúmsloftið á hverju ári. Hún þarf ekki einu sinni starfsleyfi. Ég hef falið embættismönnum mínum að kanna það hvernig standi á því að Nesjavallavirkjun þarf ekki starfsleyfi og hvers vegna enginn þarf að gera neinar athuganir á því hvernig mengunarvörnum er háttað í því orkuveri. Þetta hefur vakið mikla furðu mína. ( FrS: Þarf ekki starfsleyfi fyrir Geysi í Haukadal líka?) Ja, það er kannski góð spurning. En ég tel að að sjálfsögðu þurfi orkuver eins og Nesjavallavirkjun að hafa starfsleyfi og þar þurfi að fara fram athugun á því með hvaða hætti mengunarvörnum skuli hagað því að það eitt að 2600 tonn af brennisteini skuli fara þar út í andrúmsloftið hlýtur að kalla á einhverjar aðgerðir ef menn á annað borð vilja gera eitthvað í þessum málum. Nú veit ég að til eru þeir sem halda því fram að svokallað brennisteinsvetni sé tiltölulega hættulítið. Það muni

hvarfast í andrúmsloftinu þannig að það hafi engin skaðleg áhrif. Um þetta deila efnafræðingar. Menn eru ekkert sammála um það með hvaða hætti brennisteinsvetnið hvarfist í andrúmsloftinu og geta ekki sagt til um það með hvaða hætti það skilar sér til jarðarinnar á nýjan leik. Það vantar allar grundvallarrannsóknir til þess að hægt sé að segja um það af nokkru viti. ( Landbrh.: Þeim mun meiri ástæða til að fara varlega með.) Vissulega, hæstv. ráðherra, en ég vildi bara benda á að það er ekki nóg að tala eingöngu um álverið. Við þurfum að tala um öll þessi mál í samhengi. Ég get bent á önnur skaðleg umhverfisáhrif sem stórskaða ímynd Íslands þegar t.d. útlendingar koma hingað í heimsókn, hæstv. ráðherra. Það er að horfa á þann aragrúa af sauðfé sem er að naga landið ofan í rót, örfoka land, gróðurvana. Þetta vekur mikla athygli þeirra útlendinga og þeirra ferðamanna sem hingað koma og hefur áreiðanlega veruleg áhrif á hugtakið ímynd Íslands. (Gripið fram í.) Nei, ég er einungis að segja það að ég held að við verðum og hljótum að skoða öll umhverfisáhrif í samhengi. Við getum ekki tekið einn þáttinn út úr og sagt að hér skuli allt vera 100%, helst eigi ekki að byggja neitt álver af því að óneitanlega verður einhver mengun frá því, en síðan sé allt í lagi að reisa alls konar iðjuver og með öðrum hætti menga umhverfið. Það geri ekki neitt til. Ég get ekki tekið þátt í slíku. Ég hlýt að vilja skoða öll þessi mál í samhengi.
    Um þessar mundir er verið að kanna hvaða möguleikar séu á því að hreinsa brennisteinstvíildi á vegum þess sérfræðingahóps sem ég hef mér til ráðuneytis um þessi mál og þeir hafa kannað ýmsar leiðir. Vothreinsibúnaður hefur verið mjög til umræðu og það er að verða með vothreinsibúnað eins og ísinn í Þjórsá þegar var verið að undirbúa byggingu Búrfellsvirkjunar. Ís í Þjórsá á þeim tíma átti ekkert skylt við eðlisfræði eða náttúrulegar staðreyndir. Það var pólitísk ákvörðun hvort það var ís í Þjórsá eða ekki. Það er að verða mjög svipað með vothreinsibúnaðinn. Það er ekkert hugsað um raunveruleikann í þeim efnum. Hvað er vothreinsibúnaður? Hvað gerir hann? Hver er nýtnin? Hverju skilar hann? Er hagkvæmara að vera með vothreinsibúnað og menguð kol eða er hagkvæmara að vera með stranga kröfu um hrein kol og gera síðan ráð fyrir vothreinsibúnaði ef fást ekki lengur hrein kol? Ég vil fá svör við slíkum spurningum. (Gripið fram í.) Gifsið er einn af mörgum kostum, þ.e. að úða kalkupplausn í gegnum útblástursloftið frá kerunum. Það er ein leið af mörgum og það eru ýmsar leiðir til til að hreinsa brennisteinstvíildið. Allar slíkar leiðir eru í athugun. Það er spurning um hvaða árangri það skilar. Ef við tökum t.d. hreinræktaðan vothreinsibúnað sem byggir á því að sjó er dælt upp í háa turna þar sem loftið frá kerskálanum er leitt í gegn til þess að hreinsa brennisteinstvíildið getum við búist við að nýtnin í slíkum sjóhreinsiturni geti verið einhvers staðar á bilinu 80 -- 90%. Það er hugsanlegt að auka hana í 90%, en það er þó ekki víst. Það fer eftir ýmsum aðstæðum á staðnum, eftir seltuinnihaldi í sjónum og mörgu öðru. Það er hins

vegar alveg ljóst að ef sett yrði ófrávíkjanleg krafa um slíkan vothreinsibúnað þá ráðum við ekki við það skilyrði að það verði ekki notuð menguð kol, svo einfalt er málið. Hvað svo sem við gerum. Reyndar er staðreyndin sú að þó við getum enn um sinn gert kröfu um hrein kol, þ.e. rafskaut með brennisteinsinnhaldi innan við 2% er ekki víst að við getum gert slíka kröfu í framtíðinni því eftir því sem mér skilst eru allar líkur á því að það verði erfiðara og erfiðara að fá kol sem eru tiltölulega hrein og með litlu brennisteinsinnihaldi. Það er því alveg ljóst að við verðum að vera við því búin að skella inn hreinsibúnaði fyrir brennisteinstvíildi innan tíðar. Um það er krafa í þeim starfsleyfisdrögum sem núna eru í vinnslu hjá okkur.
    Ef haldið áfram með þessa hugsun getum við reiknað það út að verði brennisteinsinnihald í rafskautum innan við 2% þá losar 200.000 tonna álver innan við 4.000 tonn af brennisteini út í andrúmsloftið á ári hverju ef engin hreinsun er viðhöfð. Ef hins vegar yrði notaður vothreinsibúnaður með hugsanlega 80% nýtni, hún gæti orðið betri og 6% innihald af brennisteini í kolum samsvarar það 1,2% brennisteinsinnihaldi í skautum án vothreinsibúnaðar. Eftir sem áður færu því 2.400 tonn af brennisteini út í andrúmsloftið. Það vakna því ýmsar spurningar í þessu sambandi. Hvað gerist þá þar til viðbótar? Jú, eftir því sem brennisteinsinnihaldið í skautunum er hærra, þeim mun meiri fylgiefni eru þar einnig með. Það mundi þýða að mikið meira magn af alls konar þungmálmum rynni þá með hreinsivatninu af sjóhreinsiturninum út í sjó ásamt alls konar eiturefnum. Þess vegna hljótum við að vega og meta hvað er skynsamlegast í þessu máli. Það er ekkert á borðinu sem segir mér að endilega sé skynsamlegast að gera strax kröfu um vothreinsibúnað og heimila síðan, sem hlyti að verða ófrávíkjanleg krafa framleiðendanna eða rekstraraðilanna, að nota hvaða skaut sem væru fáanleg á markaði. Ég er ekkert viss um að við fáum betri niðurstöðu með þeim hætti. Þetta eru mínir ráðunautar og sérfræðingar að athuga og það er svo fjarri lagi að það sé neitt öruggt að það borgi sig að hafa vothreinsibúnað, að það þýði betri umhverfisvernd fyrir það svæði sem álverið verður reist á. Þvert á móti getur vel verið að það verði verra. Það liggur ekki ljóst fyrir og þetta erum við að láta athuga.
    Ég fyrir mitt leyti get ekki séð neina skynsemi í því að ætla að hreinsa brennisteinstvíildi úr útblásturslofti frá kerskálanum eins mikið og hægt er eftir því sem nýtnin segir til um í sjóhreinsiturni, en það kosti þá það að dælt verði miklu magni af þungmálmum og alls konar eiturefnum út í sjóinn við Reykjanes. Ég er ekki sannfærður um að það sé skynsamleg niðurstaða, þvert á móti. Ég vil a.m.k. fá tækifæri til þess að rannsaka þessi mál miklu betur og kanna alla tiltæka kosti sem eru færir í þessari stöðu áður en endanleg ákvörðun um slíkt er tekin. Það er ekki ljóst og alls ekki víst að það séu neinir góðir kostir í þessari stöðu hvað þetta atriði varðar. Þess vegna held ég að langskynsamlegasta leiðin að svo

stöddu sé að gera kröfu um brennisteinssnauð skaut. Það er eina örugga vörnin gegn alvarlegri brennisteinstvíildismengun sem völ er á þessa stundina og hefur ekki neinar aukaverkanir í för með sér.
    En ég get fullvissað hv. alþm. um það og hæstv. landbrh., sem hér stendur í salnum, að við munum halda áfram að kanna hvaða leiðir eru mögulegar í þessum efnum. Ég hef í hyggju þegar þessum athugunum okkar er lokið að leggja fyrir Alþingi skýrslu um með hvaða hætti best verði staðið að mengunarvörnum og hvernig verði leitast við að koma í veg fyrir óþarfa umhverfisspjöll af völdum hins væntanlega álvers.