Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Á haustdögum fyrir tveimur árum varð mikið fjaðrafok í íslenskum stjórnmálum eins og margir ræðumenn hafa rifjað hér upp í kvöld. Ríkisstjórn riðaði til falls. Jón Baldvin hélt því blákalt fram að Þorsteinn Pálsson hefði stungið rýtingi í bakið á sér. Það þótti Jóni ekki nógu gott og stjórnin sprakk. En var það þessi frægi rýtingur sem sprengdi stjórnina? Að sjálfsögðu ekki. Ástæðan var sú að eftir aðeins eins árs samstjórn sjálfstæðismanna, Framsóknar og krata var komið kreppuástand. Útgerð og fiskvinnsla var að stöðvast, hætta var á gífurlegu atvinnuleysi um land allt og óleyst vandamál hrönnuðust upp. Það þurfti að taka óvinsælar ákvarðanir og það varð Sjálfstfl. um megn. Flokkurinn hljóp frá vandanum og Alþb. tók sæti hans í nýrri stjórn. Ný stefna var mörkuð. Millifærsla án kollsteypu var kjarni hennar. Þessi stefna skilaði sér strax í minnkandi verðbólgu. Vextir lækkuðu en höfðu áður hækkað ár frá ári. Skattar á matvæli voru aftur lækkaðir.
     Í dag er ástandið gjörbreytt, það viðurkenna allir. Verðbólgan er komin niður í 6%. Vextir hafa lækkað um þriðjung og staða útflutningsgreina hefur gjörbreyst til batnaðar. Jafnvel Þorsteinn Pálsson hefur tekið gleði sína aftur eins og við heyrðum hér áðan með gamalkunnug orð á vör: Nú get ég.
    Það er stagast oft á því að innan Alþb. séu deilur um menn og málefni. Það er alveg rétt. Í hvaða flokki eru ekki meiri eða minni átök? Allir flokkar vilja verka heilsteyptir út á við en bak við tjöldin er tekist á. Þetta er eðli lýðræðisins, annað væri óheilbrigt. Um hitt er eining hjá okkur að ráðherrar flokksins hafa staðið sig mjög vel hver á sínu sviði og það skiptir mestu.
     Í menntamálum hefur Svavar Gestsson staðið fyrir stórfelldri nýsköpun. Mörkuð hefur verið heildarstefna í skólamálum sem nær til allra skólastiga. Viðvera yngstu barnanna í skóla hefur verið lengd og framhaldsskólalög endurbætt. Svavar hefur staðið traustari vörð um Lánasjóð námsmanna en nokkur annar ráðherra á seinni árum.
    Það hefur gustað um Ólaf Ragnar Grímsson í fjmrn. enda hefur hann beitt sér fyrir stórbættri innheimtu skatta og fengið almennt lof fyrir. Undir forustu hans hefur hallinn á ríkissjóði minnkað jafnt og þétt og erlendar lántökur hafa einnig minnkað með stóraukinni innlendri lánsfjáröflun. Hann og hæstv. menntmrh. höfðu forustu um afnám veltuskatta af listastarfsemi og íslenskum bókum.
    Steingrímur J. Sigfússon landb. - og samgrh. hefur unnið ötullega að gerð nýs grundvallar fyrir búvöruframleiðsluna. Jarðgangagerð er hafin af krafti og mun senn breyta öllum aðstæðum í Vestfirðingafjórðungi. Steingrímur hefur beitt sér fyrir jöfnun símkostnaðar og náð þar mjög myndarlegum árangri. Hann er fyrsti ráðherrann sem flytur ríkisstofnanir út á land, Skógræktina austur á Hérað og Hagþjónustu landbúnaðarins á Hvanneyri. Vissulega er margt ógert. Vextir þyrftu að lækka enn frekar og veltuskattar af matvörum að hverfa með öllu. En auðvitað er aldrei unnt að gera allt í einu. Í heildina tekið erum við ánægð með samstarfið og viljum að ríkisstjórnin sitji sem lengst.
    Nú er uppi ágreiningur í ríkisstjórn um hugsanlega byggingu álvers á Suðurnesjum. Margir alþýðubandalagsmenn hafa gagnrýnt efnisatriði og vinnubrögð í því máli. Þingflokkurinn hefur alltaf haft fyrirvara um þrjú meginatriði: Staðarvalið, orkuverðið og fullnægjandi mengunarvarnir. Við höfum aldrei útilokað stóriðju en viljað meta slík áform út frá málavöxtum. Okkur finnst óskiljanlegt þegar menn heimta eitt stykki álver en láta sig engu skipta hvernig að því er staðið.
    Það er kjarni þessa máls að Íslendingum er ætlað að taka erlend lán sem nema tæpum 200 þús. kr. á hvert mannsbarn í landinu. Þetta er gífurleg upphæð og ber háa vexti. Er það nema von að menn vilji reyna að meta þá miklu áhættu sem felst í slíkri lántöku? Auðvitað fylgja álveri líka ýmsir kostir. Því fylgja umsvif og atvinna og fyrirtækið skilar talsverðum sköttum. Gallinn er hins vegar sá að orkuna á að selja langt undir kostnaðarverði níu fyrstu árin. Fyrsta áratuginn verður því mikið tap á orkusölu, það er viðurkennt af öllum. Þetta tap eigum við síðan að bæta okkur upp eftir 15 -- 20 ár, ef álverð hefur þá hækkað eins og vonir standa til. Það er einmitt þetta ,,ef`` sem áhyggjum veldur. Orkuverðið á að breytast í réttu hlutfalli við álverð sem sveiflast mikið og oft er mjög lágt. Ekki er neitt lágmarksverð. Verði langvarandi tap af orkusölu lendir það með fullum þunga á innlendum fyrirtækjum og heimilum.
    Iðnrh. hefur svarað því til að Íslendingar séu vanir að róa upp á hlut. En þekkir einhver íslenskan sjómann sem væri tilbúinn að ráða sig á skip til 25 ára án þess að fá nokkra tryggingu? Það held ég varla. Þetta mál þarf að endurskoða. Gera þarf úttekt á orkuverði til álvera í öðrum löndum, enda virðist orkuverðið sem iðnrh. hefur kynnt vera eitt hið lægsta sem þekkist á Vesturlöndum á seinustu árum. Setja verður lágmarksverð sem varla má vera lægra en framleiðslukostnaður orkunnar. Endurskoðunarákvæði vantar. Jafnframt ber að krefjast ýtrustu mengunarvarna, m.a. vothreinsibúnaðar, en það hefur ekki verið gert.
    Því miður blasir það við að álver við Faxaflóa mundi stuðla að verulegri byggðarröskun og magna fólksflótta víða úr dreifðum byggðum, enda er nú talað um að draga í staðinn úr öðrum opinberum framkvæmdum til að forðast verðbólgu. Atvinnulíf víða um land mundi því gjalda þessara framkvæmda beint og óbeint.
    Eitt af mörgu sem mismunar fólki eftir búsetu er mismunandi raforkuverð. Munurinn er víða 20 -- 30%. Þennan ójöfnuð hefði þurft að leiðrétta fyrir löngu. Það á að selja raforku á sama verði um land allt, en nýr stóriðjusamningur, byggður á allt of lágu orkuverði næsta áratuginn, mun torvelda jöfnun orkuverðs frekar en hitt.
    Góðir hlustendur. Fólk hefur verið að átta sig á því seinustu vikurnar að í þessu máli eru ýmsir maðkar í mysu. Uppákoman nú á dögunum þegar iðnrh. skrifaði undir án þess að hafa til þess umboð frá öðrum

en sjálfum sér og viðbrögð stjórnar Landsvirkjunar hafa sýnt fólki að þetta mál er óburðugra en af var látið. Nú er ljóst að margir mánuðir munu líða áður en það fer að skýrast. Við skulum nota þennan tíma vel til að meta rökin með og á móti og helst með vænum skammti af heilbrigðri skynsemi. --- Ég þakka fyrir.