Áfengislög
Þriðjudaginn 23. október 1990


     Flm. (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég hef á þskj. 51 leyft mér að endurflytja frv. til laga um breytingu á áfengislögum frá því í júlí 1969. Frv. sem ég hef hér flutt gerir ráð fyrir því að við 13. gr. áfengislaganna bætist ný mgr. er orðist svo, með leyfi forseta:
    ,,Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skal að höfðu samráði við landlæknisembættið og Umferðarráð merkja allar umbúðir undir áfengi, sem selt er í útsölum hennar, með viðvörun þar sem fram kemur að áfengisneysla barnshafandi kvenna geti valdið fósturskaða og að neysla áfengis og akstur ökutækja fari ekki saman.``
    Ég hef áður flutt frv. um þetta sama efni. Fyrst um það að merkja áfengisumbúðir þannig að það komi skýrt fram að neysla áfengis og akstur ökutækja fari ekki saman og síðar þegar var í fréttum greint frá nýjum skýrslum sérfræðinga um það að áfengi, ef barnshafandi konur neyta þess jafnvel þótt í mjög litlum mæli sé, geti valdið fósturskaða og geri það raunar sannanlega.
    Frv. samhljóða þessu var flutt á síðasta þingi en kom þá seint fram og varð ekki útrætt. Í grg. er minnt á það að Íslendingar voru meðal fyrstu þjóða sem lögleiddu það að merkimiðar með varnaðarorðum um skaðsemi tóbaks voru settir á allar tóbaksumbúðir. Þetta framtak vakti mjög víða athygli og gerir enn. Og þótt erfitt sé að mæla hver bein áhrif slíkar aðvaranir hafa er flm. sannfærður um að slík varnaðarorð hafa bæði bein og óbein áhrif.
    Fyrir allnokkru var lögleitt í Bandaríkjunum að aðvaranir um skaðsemi áfengis skuli að finna á öllum umbúðum utan um áfengi og þar er ekkert undan skilið, hvorki létt vín né bjór, þótt hann sé raunar mjög lítið áfengur á þann mælikvarða sem hér er jafnan notaður. Þetta er sem sagt letrað með einhverjum hætti á allar umbúðir utan um áfengi. Þessi aðvörun hljóðar svo í lauslegri þýðingu: Opinber aðvörun. Að ráði landlæknis ættu barnshafandi konur ekki að neyta áfengis vegna hættu á fósturskaða. Áfengisneysla dregur úr ökuhæfni og hæfileika til að stjórna vélum og kann að valda heilsutjóni.
    Það er rétt að það komi fram hér að íslenskt áfengi sem selt er í vínbúðum í Bandaríkjunum, svo sem Eldur Ís vodka, sem Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins framleiðir, og Icy-vodka, sem fyrirtækið Sproti framleiðir og búið er til í Mjólkurbúinu í Borgarnesi, er að sjálfsögðu selt í Bandaríkjunum með viðvörum eins og að framan greinir því annars væri sala á því ekki leyfð á bandarískum markaði. Þegar frv. sama efnis var til umræðu hér fyrir tveimur árum man ég að forstjóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins kom á fund nefndarinnar og taldi ýmis tormerki á því að koma slíkum merkingum við. Ég fæ ekki séð að á því séu neinir tæknilegir örðugleikar að merkja áfengi sem selt er hér á landi með sama hætti og nú er lögboðið í Bandaríkjunum. Það er sjálfsagt rétt og má með rökum styðja að þessu fylgi einhver lítils háttar kostnaður. En sé gert ráð fyrir þessu strax í upphafi við

prentun þá hlýtur sá kostnaður að vera hverfandi lítill og ekki skipta neinu máli varðandi verðlagningu á þessari vöru.
    Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa um þetta mikið fleiri orð. Ég held að það sé skynsamlegt að gera þetta. Ég held að það sé heilsuverndaratriði að vara við þessu. Alveg eins og varað er við skaðsemi tóbaks eigi að vara við skaðsemi áfengis, sérstaklega þar sem sannað er að áfengisneysla í mjög litlu magni getur haft fósturskaða í för með sér hjá konum sem ganga með barn.
    Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fjölyrða frekar um þetta en legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.