Áfengislög
Þriðjudaginn 23. október 1990


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil aðeins koma hér til að taka undir efni þessa frv. sem hv. 3. þm. Vesturl. hefur nú mælt fyrir. Eins og fram kom í hans máli hefur hann flutt það áður en þá var of skammur tími til þess að afgreiða þetta mál, væntanlega aðeins af þeirri ástæðu því ég tel þetta mál vera svo sjálfsagt. Ég trúi ekki öðru en það fái góðan stuðning og reyndar ætti ekki að þurfa langan tíma til að afgreiða svona mál hér í gegnum þingið. Ég lít svo á að þetta sé liður í því forvarnarstarfi sem væntanlega allir eru sammála um að þurfi að vinna á þessu sviði, þ.e. í áfengismálum. Og ef ég má nota svo nútímalegt orðalag að segja að ég blæs á það að einhver tormerki séu á því að koma slíkum merkingum á umbúðir undir áfengi eins og kom reyndar fram og hv. 3. þm. Vesturl. skýrði réttilega frá hjá forstjóra Áfengis- og tóbakseinkasölunnar. Ég held að það sé ekki meira vandamál að koma þessum merkimiðum fyrir en það reyndist vera á tóbaksumbúðunum og eins og reyndar kom fram í hans máli þá auðvitað leggst slíkur kostnaður á vöruna svoleiðis að þetta er aðeins framkvæmdaratriði.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv., hæstv. forseti. Ég lýsi eindregnum stuðningi við það.