Launamál
Þriðjudaginn 23. október 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. sem ber það sakleysislega heiti ,,Frv. til laga um launamál``, en er í raun frv. til laga um staðfestingu á þeim bráðabirgðalögum
sem hæstv. ríkisstjórn setti á sl. sumri og beindist sérstaklega að samningum hennar sjálfrar við Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna.
    Þetta frv. og öll málsmeðferð sem að baki liggur er eitt alvarlegasta dæmi um siðferðisbrest í stjórnmálum sem við höfum orðið vitni að á undanförnum árum. Í þessu máli hafa samningar ekki staðið. Í þessu máli hafa orð ekki staðið og í þessu máli hefur niðurstaða æðsta dómstóls þjóðarinnar ekki verið virt. Þetta er dæmi um alvarlegan trúnaðarbrest sem orðið hefur milli stjórnmálamanna og fólksins í landinu.
    Fyrri ræðumenn í dag hafa gert þetta mál allítarlega hér að umræðuefni og rakið gang þess og sögu. Ég skal ekki fara mjög ítarlega út í þá sálma en það eru þó nokkur atriði, nokkrir atburðir sem tengjast þessu máli sem nauðsynlegt er að gera örlítið að umtalsefni, þó í stuttu máli verði.
    Það er upphaf þessa máls að hæstv. ríkisstjórn, hæstv. fjmrh. undirritaði samning við BHMR að loknu allhörðu og snörpu verkfalli. Þessi samningur var um margt sérstakur. Hæstv. fjmrh. lýsti honum sem tímamótasamningi á sínum tíma eins og margt af því sem hann gerir. Hann telur það yfirleitt marka tímamót sem hann gerir og svo var um þennan samning á sínum tíma. En í þessum samningi var það viðurkennt að leitast yrði við að lagfæra eða breyta launum háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna þannig að þau yrðu sambærileg við laun sambærilegra starfsstétta á hinum almenna vinnumarkaði.
    Síðar gerðist það að svokölluð þjóðarsátt var gerð, þ.e. aðilar vinnumarkaðarins, vinnuveitendur og launþegasamtök, gerðu kjarasamning sem var á þann veg að fljótlega komu upp raddir um það að samningurinn við BHMR væri ekki í samræmi við þjóðarsátt. Það vakti strax athygli að hvorki hæstv. fjmrh. né ríkisstjórnin í heild gerði nokkuð til að hafa samband við BHMR til að taka upp viðræður við BHMR úr því að það var álit manna að þessi samningur gengi á svig við þjóðarsátt. Auðvitað bar ríkisstjórninni skylda til að taka upp slíkar viðræður úr því að hún var þessarar skoðunar. Það var t.d. athyglisvert að hæstv. forsrh. lét hafa eftir sér í Morgunblaðinu í ítarlegu viðtali sunnudaginn 19. ágúst sl. að hann teldi að það hefði átt að taka upp viðræðurnar við BHMR strax að lokinni þjóðarsátt. Hann segir í viðtali við Morgunblaðið, með leyfi forseta, það er hæstv. forsrh. sem hefur orðið:
    ,,Hann leggur áherslu á að ítarleg tilraun hafi verið gerð til að ná samkomulagi við BHMR en án árangurs. Hann hefði verið talsmaður þess að viðræður yrðu teknar upp við BHMR strax að loknum þjóðarsáttarsamningunum um breytt viðhorf en það ekki fengið hljómgrunn innan ríkisstjórnarinnar.``

    Hér er hæstv. forsrh. auðvitað góða barnið eins og venjulega. Það eru einhverjir aðrir sem bera sökina, það voru aðrir sem komu í veg fyrir að ríkisstjórnin tæki upp viðræður við BHMR strax að lokinni þjóðarsátt. Nú vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Hvaða aðilar voru það innan ríksistjórnarinnar sem komu í veg fyrir að þessar viðræður yrðu teknar upp? Það væri auðvitað æskilegt að fá álit hæstv. fjmrh. á því líka. Var það kannski hæstv. fjmrh. sem kom í veg fyrir það að þessar viðræður yrðu strax teknar upp að lokinni þjóðarsátt? Fengu þessar hugmyndir hæstv. forsrh. ekki hljómgrunn hjá hæstv. fjmrh.? Þetta er auðvitað brýn nauðsyn á að verði upplýst hér í þessari umræðu.
    Það sem næst gerðist var að ríkisstjórnin tók einhliða ákvörðun þann 12. júní, sendi tilkynningu til BHMR þess efnis að hún mundi ekki standa við þennan samning. Að öðru leyti voru samtökin ekki virt viðlits um það mál. Þetta var einhliða ákvörðun annars samningsaðilans um það að hann mundi ekki standa við samninginn að sínu leyti. BHMR sætti sig ekki við þessa niðurstöðu og málinu var vísað til dóms, félagsdóms, sem er æðsti dómstóll þjóðarinnar í málum sem þessum. Dómur var síðan kveðinn upp og sá dómur staðfesti að túlkun ríkisstjórnarinnar á þessum samningi fengi ekki staðist og að einhliða yfirlýsing hæstv. ríkisstjórnar um að hún mundi ekki standa við samninginn, sem hún birti 12. júní, fengi ekki staðist. Þess vegna ætti samningurinn að halda fullu gildi sínu. Það er athyglisvert, ekki síst vegna viðbragða ýmissa hæstv. ráðherra, m.a. hæstv. fjmrh., strax eftir niðurstöðu dómsins að um þetta voru allir dómararnir sammála. Félagsdómur er fjölskipaður dómur, hann skipa fimm dómarar, m.a. á ríkisstjórnin sinn fulltrúa í þessum dómi, og það var athyglisvert að allir fimm dómararnir voru sammála um þessa niðurstöðu.
    Það vakti auðvitað sérstaka athygli að viðbrögð hæstv. fjmrh. voru strax þau að byrja að skamma dóminn, það var dómurinn sem var vitlaus. Það var ekki samningurinn sem hann hafði gert og átti að standa við samkvæmt dómnum. Það var niðurstaða dómaranna sem var vitlaus og hafði hæstv. fjmrh. stór orð um það í fjölmiðlum fyrstu dagana á eftir. Þó mátti greina mjög ákveðin viðbrögð sumra ráðherra við þessum dómi. Halldór Ásgrímsson, hæstv. sjútvrh., gegndi þá starfi hæstv. forsrh. í forföllum Steingríms Hermannssonar. Hann lýsti því strax yfir í fjölmiðlum að bráðabirgðalög til að hnekkja þessum dómi kæmu ekki til greina. Og eins og hv. 12. þm. Reykv. rifjaði upp í sinni ræðu áðan þá var hæstv. fjmrh. einnig á sömu skoðun. Hann sagði í viðtali við DV að bráðabirgðalög yrðu ekki sett. Blaðamaður spyr, með leyfi forseta: ,,Kemur til greina að setja bráðabirgðalög á þessar hækkanir?`` ,,Nei, það tel ég ekki vera, það kemur ekki til greina að setja bráðabirgðalög á niðurstöðu dóms.``
    Þetta álit stóð þó ekki lengi því að bráðabirgðalögin voru sett eins og öllum er kunnugt um. Þar með ógilti hæstv. ríkisstjórn sinn eigin samning. Hún ákvað að ganga í berhögg við niðurstöðu okkar æðsta dómstóls í þessum efnum. Það er auðvitað hreinn kattarþvottur sem hæstv. forsrh. hefur hér uppi í málflutningi í dag að dómnum hafi ekki verið breytt heldur aðeins forsendum dómsins. Slík rök fá auðvitað ekki staðist. Það sem gerðist var auðvitað að hæstv. ríkisstjórn sætti sig ekki við að þurfa að standa við eigin samning sem dómstóll vildi knýja hana til að gera og þess vegna voru sett þessi bráðabirgðalög. Ég hygg að þetta sé einhver grófasta misnotkun á bráðabirgðalagavaldi ríkisstjórnar sem við höfum séð dæmi um og þarf vafalaust að fara langt aftur í tímann til að finna sambærileg dæmi.
    Það er athyglisvert að hugleiða ýmis ummæli og viðbrögð hæstv. ráðherra eftir að þessar umræður fóru allar í gang um dóminn, um bráðabirgðalögin og um samninginn. Hæstv. forsrh. hefur sagt, bæði í blaðaviðtölum sem ég vitnaði í áðan og hann sagði líka í sinni ræðu hér fyrr í dag: 1. gr. samningsins átti að halda. Hvaða atriði eru það í 1. gr. samningsins sem áttu að halda að mati hæstv. forsrh.? Í 1. gr. samningsins segir, með leyfi forseta:
    ,,Endurskoða skal launakerfi háskólamenntaðra starfsmanna ríkisins með tilliti til ábyrgðar, sérhæfni og menntunar sem nýtist í starfi. Skal þessi endurskoðun hafa það að markmiði að háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn njóti sambærilegra kjara og menn sem gegna hliðstæðum störfum eða hafa sömu eða svipaða menntun, sérhæfni og ábyrgð og ekki taka laun samkvæmt launakerfi ríkisstarfsmanna, enda sé þá tekið tillit til hlunninda og annarra atriða sem hafa áhrif á starfskjör. Standa skal að umræddum breytingum með þeim hætti að ekki valdi röskun á hinu almenna launakerfi í landinu.``
    Og í lokasetningu samningsins segir: ,,Tímabundnar sveiflur og sérstakar aðstæður á vinnumarkaði skulu ekki hafa áhrif á þessa endurskoðun.``
    Það er einkum setningin um það að þetta valdi ekki röskun á hinu almenna launakerfi í landinu sem forsrh. segir að hafi átt að halda. En út á hvað gengur þessi samningur BHMR? Þessi samningur gengur út á það að BHMR - fólk fái leiðréttingu, að laun þess verði gerð sambærileg og laun stétta í sambærilegum stöðum. Með öðrum orðum, þetta er samningur um að raska launahlutföllum í landinu, það er alveg ljóst. Hæstv. ríkisstjórn hefði aldrei gert slíkan samning ef hún hefði ekki viðurkennt að BHMR - fólk hefur haft lægri laun en sambærilegt fólk í öðrum störfum í þjóðfélaginu. Aðeins var spurningin um að finna réttar viðmiðanir, hvar ætti að nema staðar, hvar ætti að draga mörkin og hvað hækkunin þyrfti að vera mikil. En það er alveg ljóst að samningurinn var um það að raska því launakerfi sem komið er á í landinu, raska þeim launahlutföllum. Og þegar hæstv. forsrh. segir nú að 1. gr. hafi átt að halda, þá þýðir það með öðrum orðum: Við ætluðum okkur aldrei að standa við þennan samning. Við undirrituðum hann í erfiðri stöðu eftir langt verkfall. Við vissum hvað við vorum að gera, settum inn ákvæði sem áttu að halda, sem áttu að koma í veg fyrir að staðið yrði við þennan samning.

    Það er fróðlegt, virðulegi forseti, að huga að ýmsum ummælum alþýðubandalagsmanna í sambærilegum málum í gegnum tíðina. Ég skal ekki tefja tímann á löngum upplestri á slíkum ummælum. Mér koma þó t.d. í hug orðaskipti sem ég átti við núverandi hæstv. menntmrh., Svavar Gestsson, í umræðum á Alþingi þann 18. apríl 1988. Þá var verið að ræða frv. sem ég, sem þá sat í sæti menntmrh., hafði lagt fram á þingi. Þá sagði hæstv. núv. menntmrh. Svavar Gestsson um mig:
    ,,Hæstv. menntmrh. hefur lagt fyrir þingið mörg frv. og sum góð um skólamál. Þau frv. gera enga stoð, duga ekki neitt nema tekið sé á kjaramálum kennara. Það er gagnslaust að flytja fín frv. um að lagfæra skólana og skipulag skólamála í landinu öðruvísi en því fylgi marktækar tilraunir til að leysa kjaradeilur kennara og til þess að það verði gert þarf að koma í fjmrn. maður sem fjmrh. sem skilur að starf skólanna er líka undirstöðuatvinnuvegur ef við ætlum að lifa sem sjálfstæð menningarþjóð í þessu landi.``
    Skelfing hlýtur hæstv. menntmrh. að hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með þann mann sem settist í fjármálaráðherrasætið ef marka má þessi ummæli hans. ( Gripið fram í: Það er nú opinbert leyndarmál.)
    Annað dæmi og það er núv. hæstv. fjmrh. Hann hefur líka látið ýmislegt frá sér fara um þessi mál í gegnum tíðina. Hann ritaði grein í DV þann 11. mars 1987. Þar segir hann, með leyfi forseta:
    ,,Það verður að veita þeim sem vinna við sköpun útflutningsverðmæta og þeim sem vinna við uppeldi æskunnar og umönnun sjúkra og aldraðra forgang í nýju launakerfi. Ríkisstjórn og ráðamenn sem ekki gera slíka stefnubreytingu að kjarna allra aðgerða í kjaramálum eiga bókstaflega ekki rétt á að ráða örlögum Íslands. Þeir munu bera ábyrgðina á því að Íslendingar haldi áfram að dragast aftur úr öðrum þjóðum.``
    Þetta sagði hæstv. fjmrh. í grein í DV og það er ekki lengra en þrjú ár síðan. Nú hefur hann verið í þeirri stöðu að efna þessi stóru orð og ekki nóg með það. Hann skrifaði undir samning við BHMR sem átti að marka spor í þessa átt. En svo fór sem fór.
    Ég ætla ekki að vitna í fleiri ummæli af þessu tagi. Þau eru mörg til og væri hægt að æra óstöðugan en þau sýna auðvitað það að það er yfirleitt ekkert að marka það sem alþýðubandalagsmenn segja. Orð þeirra standa yfirleitt ekki því að þeir eru ákaflega orðaglaðir þegar þeir eru í stjórnarandstöðu, jafnvel í ríkisstjórn, en þegar til á að taka og þegar á að efna það sem sagt er, þá standast orðin ekki.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, vekja athygli á ummælum hæstv. forsrh. hér áðan, bæði um þetta mál og reyndar um fleiri mál sem hafa komið fram í umræðunni áður. Þessir samningar munu taka fullt gildi eftir þjóðarsátt, segir hæstv. forsrh., í september 1991. Það er auðvitað ekki stórmannlegt að koma fram, vísa hverju vandamáli sem menn standa frammi fyrir á fætur öðru aftur til september 1991, aftur til þjóðarsáttar eftir kosningar þegar ný ríkisstjórn verður tekin við völdum. Þannig er hverju vandamálinu á fætur öðru skotið á frest fram yfir kosningar. Það er ósköp auðvelt
fyrir hæstv. forsrh. að standa hér og lofa nú BHMR: Þetta verður allt í lagi í september 1991, sú ríkisstjórn sem þá verður komin til valda mun standa við allt sem við höfum lofað.
    Það er auðvitað engin hagfræði að halda því fram að allt færi úr skorðum nú ef þessi hækkun gengi í gegn. Maður hlýtur að spyrja sig í því sambandi: Verður eitthvað auðveldara í september 1991 að ráða við verðbólguna? Verða nokkur þau rök fyrir hendi þá sem gera það að verkum að þessi hækkun geti gengið í gegn og samningurinn í fullt gildi án þess að hafa áhrif á verðbólgustigið í landinu? Auðvitað sjá allir menn í gegnum málflutning af þessu tagi.
    Virðulegi forseti. Þessi lög eru vottur um siðferðisbrest íslenskra stjórnmálamanna. Þau fela í sér trúnaðarbrest milli fólks og þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Hver getur treyst slíkri stjórn til verka eftir að hún hefur orðið jafnber og raun ber vitni í þessu máli að málsmeðferð sem ber vott um slæmt pólitískt siðferði? Sjálfstfl. getur ekki sett stimpil sinn á slíkan gerning og mun því ekki styðja þetta frv.