Endurskoðun barnalaga
Fimmtudaginn 25. október 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. 6. þm. Vesturl. og hv. 7. þm. Norðurl. e. beina til mín fsp. á þskj. 31 svohjóðandi:
    ,,Hvenær má vænta þess að dómsmrh. leggi fram frv. til laga um breytingar á barnalögum?``
    Eins og fram kom í máli hv. 6. þm. Vesturl. var frv. til laga um breytingu á barnalögum flutt á Alþingi 1987, frv. um sameiginlega forsjá, en hlaut þá ekki afgreiðslu. Annað frv. nokkuð annars efnis var lagt fram undir lok þings vorið 1990 og hlaut heldur ekki afgreiðslu.
    Sifjalaganefnd vinnur nú að endurskoðun beggja þessara frv. Þær breytingar á barnalögum, sem væntanlega munu felast í frv. sem stefnt er að að leggja fram hér á þinginu í næsta mánuði eru, að hluta byggðar á framangreindum frv. Að auki verður með frv. lagt til að heimildir verði rýmkaðar til þess að bera ágreiningsmál um forsjá barna undir dómstóla.
    Helstu breytingarnar sem gert er ráð fyrir að verði í þessu frv. eru eftirfarandi:
    1. Ákvæði um sameiginlega forsjá.
    2. Ákvæði um réttarfar í sifjamálum þar sem gert verður ráð fyrir að dómstólar leysi úr ágreiningi í forsjármálum nema aðilar verði ásáttir um að málin lúti úrlausn stjórnvalda.
    Jafnframt er gert ráð fyrir því að sýslumenn skeri úr ágreiningi í umgengnisréttarmálum en að heimilt verði að skjóta úrlausnum þeirra til dómsmrn. Auk þessa verða vitaskuld ýmis önnur ákvæði þessara laga endurskoðuð um leið.
    Ég hef lagt á það ríka áherslu að sifjalaganefnd hraði svo störfum við þetta verk sem kostur er. Mér er kunnugt um, eftir viðræður við formann nefndarinnar, Ármann Snævarr, fyrrv. prófessor og hæstaréttardómara, að þessari vinnu hefur miðað verulega nú undanfarið. Aðrir í sifjalaganefnd eru Baldur Möller, fyrrv. ráðuneytisstjóri, Guðrún Erlendsdóttir hæstaréttardómari, Drífa Pálsdóttir deildarstjóri og Anna Guðrún Björnsdóttir deildarstjóri, sem er ritari nefndarinnar.
    Eins og ég sagði bind ég vonir við að frv. verði tilbúið í næsta mánuði. Það er háð því að nefndin hafi lokið sínu starfi í tæka tíð til þess að það megi takast og önnur umfjöllun um málið sem þarf að fara fram áður en hægt er að leggja það fram á hv. Alþingi.