Flm. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um skrifstofur heilbrigðismála í kjördæmum landsins. Till. er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa að komið verði á fót í kjördæmum landsins á næstu fjórum árum skrifstofum heilbrigðismála sem sinni m.a. verkefnum fyrir héraðslækna, heilbrigðismálaráð og Tryggingastofnun, svo og fjárhagslegri og faglegri áætlanagerð og eftirliti með heilbrigðisþjónustu á svæðinu.``
    Í greinargerð með till. segir m.a.:
    ,,Með breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sem ákveðin var með lögum nr. 87/1989, tók ríkið við stjórn heilsugæslu í landinu, en áður var hún að hluta á hendi sveitarfélaganna. Þessi breyting mun leiða til þess að verkefni í heilbrigðisþjónustu á vegum ríkisins fara vaxandi og flytjast að óbreyttu í vaxandi mæli til Reykjavíkur.
    Þegar stjórn heilbrigðismálanna færist nú á eina hendi hjá ríkinu er nauðsynlegt að samræma hana og styrkja svæðisbundna stjórnun í læknishéruðum sem að mestu fylgja kjördæmaskiptingu. Í því skyni er hér lagt til að komið verði á fót skrifstofum heilbrigðismála í hverju kjördæmi landsins.``
    Það varð til að ýta á eftir flutningi þessa máls að um það var ályktað á vettvangi Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi 1989 en í ályktun þess fundar sagði:
    ,,Aðalfundur SSA haldinn á Vopnafirði 25. og 26. ágúst 1989 skorar á Alþingi og ríkisstjórn að marka þá stefnu að komið verði á fót umboðsskrifstofu heilbrigðismála í héruðum landsins. Skrifstofan sinni verkefnum heilbrigðismálaráðanna auk annarra skyldra verkefna sem henni verða falin.``
    Svipuð ályktun var gerð á fundi stjórnar Fjórðungssambands Vestfjarða 15. nóv. 1989 þar sem sagði m.a. að stjórn sambandsins ,,telur rétt að komið verði á fót héraðsstjórn í hverju kjördæmi landsins, sem hafi á hendi skipulagningu og stjórnun á heilbrigðisþjónustu, í umboði og á kostnað heilbrrn.``
    Frá árinu 1978 hafa verið í lögum ákvæði um heilbrigðismálaráð og þeim verið ætluð veigamikil verkefni. Héraðslæknum, sem verið hafa án teljandi starfsskyldu, hefur verið ætlað að starfa með heilbrigðisráðum og þeim ekki verið séð fyrir annarri aðstoð. Niðurstaðan hefur orðið sú að starf þeirra hefur orðið afar veikburða í flestum umdæmum og ekki tekist að framfylgja lögboðnum ákvæðum. Þessi heimastjórn hefur þannig verið lömuð og ekki horfur á að fram komnar hugmyndir um breytingu nægi til að ráða þar bót á.
    Til að bæta stöðu þessara mála er því brýnt að komið verði á fót skrifstofum heilbrigðismála í hverju kjördæmi og verði þær tengiliðir ráðuneytis við viðkomandi læknishérað.
    Það er fengin góð reynsla af slíkum svæðismiðstöðvum í stórum málaflokkum. Nægir í því sambandi að benda á fræðsluskrifstofur og umdæmisskrifstofur Vegagerðar ríkisins og Pósts og síma og nú eru

komnar fram hugmyndir um það að færa einnig stjórn húsnæðismála út í kjördæmin. Er það breyting sem ég styð heils hugar og hef reyndar oft nefnt hér í umræðum á Alþingi að væri þörf á.
    Með þessari þáltill. eru prentaðar sem fskj. álitsgerðir frá tveimur læknum, Skúla G. Johnsen, nú borgarlækni í Reykjavík, og Stefáni Þórarinssyni, héraðslækni á Egilsstöðum. Þessi fskj. lýsa þeim hugmyndum enn betur en gert er í grg. með till. sem búa að baki þessa máls og kemur þar fram mjög eindreginn rökstuðningur fyrir því að þessi breyting sé á gerð og settar á fót slíkar skrifstofur heilbrigðismála í kjördæmunum.
    Báðir þessir menn hafa mikla reynslu í læknisstarfi úti um land sem héraðslæknar og mega því vel til þekkja. Ég met það mikils að þeir hafa lagt þessum málum lið á ýmsum vettvangi eins og m.a. birtist í þessum fskj.
    Ég er þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að í raun sé löngu tímabært að koma á miklu skilvirkari stjórn þessara mála í landinu með því að koma á nýju stjórnsýslustigi, svokölluðu þriðja stjórnsýslustigi, milli sveitarstjórna og ríkisins, til þess einmitt að taka við verkefnum frá ríkinu eins og hér er verið að leggja til. Það hefur hins vegar ekki fengið þann stuðning sem vert væri að mínu mati. Á meðan sú breyting er ekki gerð verður að reyna að þoka þessum málum áfram frá málaflokki til málaflokks eins og hér er verið að gera með þessum tillöguflutningi varðandi heilbrigðismálin.
    Ég treysti því að þetta mál, sem flutt var seint á síðasta þingi og komst þá ekki til nefndar, fái góðar undirtektir og afgreiðslu hér á þinginu. Ég legg til að tillögunni verði að lokinni umræðu vísað til félmn. Sþ.