Umferðarlög
Miðvikudaginn 31. október 1990


     Flm. (Árni Gunnarsson) :
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu. Ég átti von á því að umræða yrði mikil um þetta frv. og ég spái því að hún eigi eftir að verða enn meiri á síðari stigum málsins. Ýmislegt hefur hér komið fram sem ber vott um annaðhvort fordóma eða skilningsleysi á tilgangi þess sem fram kemur í frv. Ég held að fólk verði fyrst og fremst að átta sig á því að hér er um að ræða forvarnir. Um það snýst nánast allt starf, t.d. innan heilbrigðiskerfisins á Íslandi, að reyna að beita meiri forvörnum en gert hefur verið, frekar en að þurfa að greiða þann gífurlega kostnað sem til fellur vegna lækninga á hvers konar meinum. Hér er um að ræða mein í samfélaginu sem er rétt að koma í veg fyrir, beita forvörnum gagnvart, koma í veg fyrir að slysin verði, að óhöppin verði o.s.frv.
    Ég tók eftir því að hv. 5. þm. Vesturl. sagði eitthvað á þá leið að þetta væri mjög slæmt vegna þess fólks sem hefði kannski ekki drukkið mikið áður en það færi upp í bifreið og gæti ekki gert sér grein fyrir því hvort það væri undir áhrifum áfengi eða ekki. Þetta er nákvæmlega það sem frv. snýst um. Það snýst um það að koma í veg fyrir að fólk þurfi að velkjast í vafa. Það stendur í greinargerðinni. Um það snýst allt málið að fólk þurfi ekki að beita sjálfsmati til þess að gera sér grein fyrir því hvort það er hæft til þess að aka bifreið eða ekki. Auk þess er mjög veruleg hætta á því, og það vitum við allir sem neytum áfengis, að maður sem drekkur áfengi og ætlar sér ekki að drekka nema einn bjór, að sjálfsmatið brenglist eftir bjórinn og þá komi annar bjór og sá hinn þriðji og síðan þarf ekki að spyrja að leikslokum.
    Hv. 5. þm. Vesturl. spyr: Hví er skrefið ekki stigið til fulls? Hv. þm. Kristín Einarsdóttir hefur nú svarað þessu að hluta til. Það er til þess að fólk geti m.a. notað lyf sem áfengi er í, drukkið léttan pilsner, fengið sér konfektmola með áfengi í og jafnvel gengið til altaris. Það er ekki verið að koma í veg fyrir það að fólk geti sinnt og gert það sem kannski er nauðsynlegt í daglegu lífi vegna þessara laga.
    Mér fannst nú duggulítið fyndið að hlusta á fyrrv. hv. sýslumann, Friðjón Þórðarson, tala um það að þetta frv. kæmi í veg fyrir það að kvefsæknir Íslendingar gætu drukkið einn sopa af koníaki að morgni dags til þess að koma í veg fyrir kvef og spýttu síðan út úr sér. Ég mundi nú ráðleggja þeim sem það gera að jafnaði að hafa koníakið heldur ódýrt. Erfitt á ég með að sjá fyrir mér þá menn sem skola í sér munn með koníaki og spýta því síðan út úr sér. Það er hlutur sem ég hygg að ekki margir geri. En ég get þá sagt hv. þm. það að enda þótt vínandamagn fari yfir mörk í öndun fólks, þá er ekki þar með sagt að það fari yfir mörk þegar blóðsýni eru tekin og mæld. Það er tvennt ólíkt. Það sást greinilega í sjónvarpi í gær að maður sem tekur nokkra gúlsopa af malti mælist með vínandamagn í öndunarprófi, en sá hinn sami maður mælist ekki með vínandamagn í blóðprófi. Þarna verða menn að draga mjög skarpa markalínu.
    Af hverju er gildistaka 1. júlí 1991? Jú, ástæðan er einföld. Við viljum hafa tíma til þess að kynna málið, til þess að allur almenningur geri sér grein fyrir því að það eru komnar nýjar reglur. Það eru komin ný lög. Sú kynningarstarfsemi verður að fara fram svo að enginn gæti borið því við, ef hann yrði tekinn, að hann hefði ekki vitað af hinum nýju lögum.
    Rétt kann að vera hjá hv. 5. þm. Vesturl. að í greinargerðinni hefði átt að ,,standa bruggun og sala áfengs öls`` og verður þess gætt að leiðrétta það.
    Hv. þm. nefndi líka að það væri sinn vilji að fremur ætti að auka áróður og þyngja refsingar. Ég er sammála honum um fyrra atriðið, að auka áróður, það á að gera. En ég er ekki refsiglaður maður. Ég er algerlega mótfallinn þeirri skoðun að það eigi að þyngja refsingar við áfengisbrotum í umferðarlögum frá því sem nú er. Við þekkjum fjöldamörg dæmi þess að ungt fólk, sem hefur verið dæmt til frelsissviptingar í fangelsi vegna þess að það hefur ekið bifreið undir áhrifum áfengis, er flokkað með öðrum mönnum sem fara í fangelsi þar sem þeir verða að taka út hegningu sína, með mönnum sem verða að teljast óheppilegir félagar. Þetta er kannski eitt af stóru málunum sem nú eru rædd í sambandi við fangelsismál. Og það kemur mér svolítið á óvart að heyra þetta frá hv. 5. þm. Vesturl. vegna þess að hann hefur beitt sér í þessum málaflokki og hann þekkir til, t.d. í stærsta fangelsi landsins á Litla - Hrauni, þar sem stærsti vandinn er sá að það er ekki hægt að flokka í sundur menn sem eru í raun ekki afbrotamenn heldur hafa slysast til þess að aka ölvaðir, kannski tvisvar sinnum, kannski þrisvar sinnum, og þurfa að taka út refsingu með afbrotamönnum sem eru forhertir glæpamenn. Ég er því algerlega mótfallinn því að menn láti refsigleði sína koma fram í þessu máli. Í þessu frv. er ekki kveðið á um refsingar. Það er eingöngu kveðið á um það að lækka prómilltölu í blóði manna.
    Hv. 6. þm. Norðurl. e. talaði um þetta fræga dæmi, maltið og öndunarprófið. Þar gildir það sama og ég nefndi áðan. Það mælist í öndun en það mælist ekki í blóði.
    Hv. þm. Friðjón Þórðarson segir hér: Það á að fækka umferðarslysum. Flm. er búinn að benda á það að á 10 ára bili hafa orðið 1100 umferðarslys sem tengd eru áfengisneyslu, í þeim hafa 66 látist, 66 mannslíf vegna ölvunaraksturs. Ef menn segja í fyrsta lagi: Það á að fækka umferðarslysum, en eru síðan mótfallnir tillögum sem fram koma um það hvernig eigi að gera það, þá er ég ekki með á nótunum. Hann telur að með þessu frv. sé skotið yfir markið. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir hvaða mark hv. þm. er að tala um. Ég held að markið eða markmiðið sé fyrst og fremst það að draga úr umferðarslysum og það gerum við m.a. með þessum hætti, með þessu lagi, með þessari aðferð. Hv. þm. segir að það eigi að framfylgja þeim viðurlögum og þeim lögum sem fyrir hendi eru. Það er gert, eins og mögulegt er. En sá leikur yrði miklu, miklu auðveldari, svo margfalt auðveldari, ef þetta frv. yrði að lögum. Þá eru ekki til

nein vafaatriði. Þá er fólki algerlega ljóst að ef það drekkur áfengi þá á það ekki að keyra bíl. Þetta er svo einfalt og þetta liggur svo ljóst fyrir að hver maður sem hugsar þetta mál að einhverju leyti hlýtur að gera sér grein fyrir að þessi leið er miklu skynsamlegri en sú leið sem hér hefur verið lögð til, að auka refsingar.
    Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að rökræða meira um þetta. Þetta mál fer í nefnd og hún kallar væntanlega til þá aðila sem gerst þekkja til þessa málaflokks. Að baki flutningi þessa frv., svo að menn viti það gjörla, liggur m.a. ósk löggæslumanna, manna sem starfa að umferðaröryggismálum og þeirra sem þurfa að horfa upp á og fylgjast með m.a. alvarlegum afleiðingum umferðarslysa sem verða vegna ölvunaraksturs.