Sumarvegur um Sprengisand
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn til hæstv. samgrh. á þskj. 33 sem lögð er fram af Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni varaþm. Framsfl. Fyrirspurnin hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Hvað hefur verið gert til þess að fylgja eftir skýrslu, unninni af Trausta Valssyni í samvinnu við Landsvirkjun og Vegagerð ríkisins, um gerð varanlegs sumarvegar í tengslum við lagningu háspennulínu yfir Sprengisand?``
    Hér á hv. Alþingi hafa farið fram umræður um hálendisvegi, ekki síst í tengslum við þáltill. frá fyrirspyrjanda á 111. löggjafarþingi. Nú þarf að líta þetta mál í nýju ljósi og í tengslum við nýjar aðstæður, þar sem með væntanlegri byggingu álvers, eða við skulum segja hugsanlegri byggingu álvers og virkjanaframkvæmdum því samfara, þá hefur verið ákveðið að hönnunarvinna fari í gang þegar í þessum mánuði vegna byggingar Sprengisandslínu og áfram norður Bleiksmýrardal. En áður hafði verið reiknað með að þessi vinna færi fram á árinu 1994 -- 1995. Landsvirkjun áætlar að um 125 millj. kr. fari í línuveginn og það er því ákaflega mikilvægt að þetta fjármagn glatist ekki sem framlag í framtíðarveg þessa leið, en það mundi það gera ef ekki kemur til viðbótarfjármagn frá Vegagerð ríkisins. Þá er ég að tala um þokkalegan sumarveg og með því má segja að brotið yrði blað í samgöngumálum og þar með ferðamálum hér á landi.