Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka undirtektir hæstv. samgrh. undir þetta mál. Hann fjallaði um það með nokkrum orðum og ég hef ekkert að athuga við það sem þar kom fram. Auðvitað þarf, eins og hann benti á, að athuga rekstrargrundvöllinn en hann
benti líka á að fordæmi væri fyrir því að styrkja loftflutninga til einangraðra staða og ég geri ráð fyrir að hann hafi ekki verið að nefna það nema vegna þess að hann hefði í huga að slíkt úrræði væri til í þessu tilfelli sem hér um ræðir, þ.e. að koma á póstflugi frá Ísafirði til Hólmavíkur og Reykhóla.
    Mér þykir gott til þess að vita að ráðuneytið skuli hafa áhuga á þessu máli og ég verð að segja að ég treysti hæstv. ráðherra fullkomlega til að fylgja þessu máli eftir og má ég segja að ég gæti látið mér koma til hugar, og vona það reyndar, að hann geri sitt til þess að flýta afgreiðslu þessa máls. Og ég ætla að honum verði ekki skotaskuld úr því, þessum hæstv. ráðherra sem gat flýtt jarðgöngum á Vestfjörðum um nokkur ár.