Meðferð mála á Alþingi
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Ellert Eiríksson :
    Virðulegi forseti. Örstutt athugasemd. Vegna orða síðasta ræðumanns, hv. 16. þm. Reykv., þá frábið ég mér sem þingmaður stjórnarandstöðunnar að vera kallaður hér terroristi eða öfgamaður sem noti sömu vinnubrögð og þessir hópar til að ná málum fram. Það er útilokað og rétt, eins og kom fram hjá forseta, að þetta jaðraði við að kalla á vítur á hv. þm. að hafa þessi orð í frammi. Það liggur í hlutarins eðli að þegar mál eru til umfjöllunar á Alþingi, og hvar sem er á málþingum, að menn notfæra sér þann rétt sem þeir hafa til að koma sínum málum fram. Ég treysti því að forsetar Alþingis líði ekki terroristahátt eða öfgaskap hér á þessu hv. þingi.