Bláa lónið
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Jóhann Einvarðsson :
    Hæstv. forseti. Ég þakka heilbrrh. fyrir svör hans. Eins og kom fram í máli hans er þetta mál búið að vera á dagskrá í þinginu allar götur síðan 1981. Ég vænti þess að sú nefnd sem hann hyggst skipa með aðild þeirra aðila sem hann nefndi hérna áðan, verði skipuð hið allra fyrsta og henni verði settur takmarkaður starfstími, þ.e. að reynt verði að ljúka störfum fyrir þingslit núna í vor, þannig að Alþingi geti fengið að fylgjast með því hvað þarna er á ferðinni. Ég er sannfærður um það að þarna er stórt verkefni fram undan. Ég er líka jafnsannfærður um að ekki má rjúka út í neinar miklar aðgerðir að óathuguðu máli. Það þarf bæði að liggja ljóst fyrir að heilbrigðisyfirvöld mæli með notkun lónsins og geti gefið út einhvers konar ,,vottorð`` fyrir því að það sé til bóta fyrir sjúklinga með húðmein að baða sig þarna. Hitt er svo annað mál að þetta mun líka örugglega tengjast mjög ferðamálaiðnaðinum. Mikill fjöldi erlendra ferðamanna sækist eftir því að koma á nýja staði við nýjar aðstæður. Ég hef sjálfur farið með útlendinga í Bláa lónið og þeir hafa margir hverjir skrifað mér bréf til baka og undrast að við ættum slíka perlu hér heima. Þetta var hápunktur ferðarinnar að komast í að baða sig þarna úti í miðju hrauninu við þær aðstæður sem þarna eru. Eða eins og þeir hafa sumir orðað það að þarna er ,,ekki nútíma steypt fyrirbæri`` heldur er þetta úti í náttúrunni í tengslum við orkuverið sem þarna er við hliðina.
    Ég hef engar athugasemdir við það hvernig ráðherra hyggst halda á þessu máli og hvernig hann skipar nefndina. Ég bendi samt á að það væri að mínu viti nauðsynlegt og gott að hafa náið samstarf við Ferðamálasamtök Suðurnesja sem mikið hafa verið að vinna í þessum málum og kynna sér það og hafa fengið fjölmargar fyrirspurnir um á hvern hátt væri hægt að komast í tæri við Bláa lónið, ef ég má orða það þannig.