Úrbætur á aðstæðum ungmenna
Mánudaginn 12. nóvember 1990


     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir mjög margt af því sem hv. 6. þm. Reykn. sagði um þetta mál. Því miður var mér það ekki ljóst fyrr en um hádegi að þetta mál væri á dagskrá hér í dag og stafar nú kannski af því að ég er hér hálfgerður utangarðsmaður eins og menn vita. En ég vil eindregið taka undir þessa ályktun. Það hefði vissulega verið þess virði að ræða þetta miklu ítarlegar hér á þingi. Hins vegar vænti ég þess og veit að þetta fær og verður að fá mjög ítarlega umfjöllun í nefnd og hún mun vinna þetta mál eins og mögulegt er að gera.
    Þó vil ég aðeins geta þess að í grg. er rætt um skrár Hagstofunnar og nefndar tölur um ungmenni sem hurfu úr skóla á Íslandi í nokkur ár. Þar vil ég aðeins skýra það atriði að þessar tölur eru því miður ekki nægilega áreiðanlegar sem stafar af því að í skólakerfinu hefur þeim sem þar fara með mál ekki tekist að ná nægilega virkri skráningu um það hvar nemendur eru í skóla og hvernig tilflutningum er háttað. Reynt hefur verið að koma á samræmdri nemendaskráningu núna um nokkurra ára bil en m.a. vegna mannaflaskorts og fleiri örðugleika hefur það ekki tekist svo að fullnægjandi sé, auk þess sem ég á von á því að inni í þessum tölum séu núverandi 10. bekkjarnemendur sem veitt hefur verið heimild til að hverfa frá grunnskólanámi samkvæmt ákvæðum laga þar um. Þessi heimild er nefnilega yfirleitt nýtt aðeins að hálfu, þ.e. nemendum er veitt leyfi til þess að hverfa frá grunnskólanámi í eitt ár til þátttöku í atvinnulífinu, eins og segir í lögunum, en ekki hafa verið tök á því að fylgja því eftir að eftir þetta ár komi þeir inn í grunnskóla eða aðra skólastofnun aftur. En í þessum tölum mun vera þó nokkuð af nemendum sem hafa gert þetta. Meginreglan er sú að þessir nemendur fara beint í atvinnulífið og eru þar e.t.v. eitt, tvö, fimm eða tíu ár en stór hluti af þeim, við vitum ekki hversu stór, fer síðan í öldungadeildir eða á annan hátt nýtur þeirra möguleika sem fullorðinsfræðsla er núna. Þetta hefur mjög mikið batnað frá því sem áður var.
    Í tengslum við þetta er ekki hægt annað en að nefna það að grunnskólarnir í landinu búa við það að kennaraskortur er viðvarandi, landlægur, sérstaklega í sumum umdæmum. Og það svo, svo ég nefni Vestfjarðaumdæmi sérstaklega, að þar hafa undanfarin þrjú ár verið helmingaskipti í hópi þeirra sem kenna þessum ungmennum, sem við erum að hafa áhyggjur af. Helmingur þeirra hefur til þess menntun og hefur til þess lært að kenna þessum nemendum, hinn helmingurinn ekki. Úr hópi þeirra sem ekki hafa menntun til þess eru fjöldamargir sem hafa ekki öllu meiri menntun í skóla en þeir nemendur sem þeir eiga að leiðbeina. Sumir aftur á móti hafa bætt við sig lífsreynslu, þeir hafa bætt við sig þekkingu á því að ala upp eigin börn og ýmislegt fleira, en það sér hver maður sem vill sjá það að þetta ástand getur ekki verið nægilega gott.
    Ég held að ef við erum að hugsa um þessi alvarlegu mál sem snerta unglingana okkar þá þurfum við að hugsa um aðdragandann að því líka og hvað það kostar okkur að búa þannig að þeim sem eiga að annast þetta fólk, þ.e. kennurunum sem eiga að vinna með þeim, veita þeim þroska, leiðbeina þeim á lífsbrautinni. Ef við sinnum því ekki að veita þeim starfsskilyrði sem eru slík að þeir komi til starfa, þá getum við kannski ekki búist við því að það starf sem þeim er ætlað að vinna með unglingunum beri fullnægjandi árangur. Þetta á reyndar ekki bara við um kennara, þetta á líka við um ýmsa sérfræðinga aðra sem eiga að starfa og vinna fyrirbyggjandi störf. Það má nefna sálfræðinga, það eru sömu vandamálin að fá þá út á landsbyggðina eins og kennarana. Sálfræðingar eru þó jafnvel enn þýðingarmeiri en kennarar í þessum efnum vegna þess að þeirra starf, þegar þeir fást til starfa, er fyrst og fremst fólgið í því að ræða við þessa unglinga sem eru kannski á leið að flosna út úr skóla eða hafa flosnað frá skóla og reyna að leysa þeirra vandamál.
    Þá vil ég líka nefna stofnanir hér á landinu sem hafa legið undir áföllum um mörg ár. Það eru héraðsskólarnir. Menn hafa bæði í ræðu og riti veist að þessum stofnunum, sagt þetta vera steinbörn í kerfinu og þetta séu úreltar stofnanir sem eigi ekki lengur rétt á sér. En af mínum kynnum af héraðsskólunum get ég fullyrt að þeir hafa leyst ótrúlega mörg vandamál og þeir hafa með fyrirbyggjandi aðgerðum gert það að verkum að þessar tölur sem við erum að velta fyrir okkur um fjölda þessara ungmenna eru mun lægri en ella hefði verið. Því þrátt fyrir það að héraðsskólarnir búi við þröngan kost hvað snertir tæki og sérstaklega sérmenntaðan mannafla þá hefur þeim samt tekist ótrúlega vel að leysa vanda margra unglinga og með því móti hafa þeir komið í veg fyrir aðgerðir sem eru bæði sársaukafullar og dýrar síðar meir.
    Ég vildi nefna það í þessu samhengi að ég tel að við þurfum að líta á þetta mál, sem ég tek að öðru leyti fyllilega undir, við þurfum að líta á það í nokkuð breiðara samhengi og skoða fleira en bara það vandamál sem komið er upp. Við skulum skoða feril þessara ungmenna og sérstaklega kennaramálin og starfsmannamálin, mál þeirra sem eiga að aðstoða þau þegar að þessu kemur.