Ástandið á húsbréfamarkaðnum
Mánudaginn 19. nóvember 1990


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Það kemur ekki á óvart í þessari umræðu að hæstv. ráðherra skuli kenna öðrum um það ástand sem nú ríkir í þessum málum. Það kemur ekki á óvart að hlusta á það að aðgerðir Landsbréfa hafi verið ámælisverðar. Það kemur ekki á óvart að hlusta á það þegar hún talar að það sé fasteignasölum að kenna hvernig komið er. Og það kemur ekki á óvart að hlusta á hana segja að það séu einstakir þingmenn sem beri hér sök.
    Ég vil minna á það, virðulegi forseti, að Landsbréf höfðu ekki aðrar skyldur en þær að kaupa húsbréf fyrir 300 millj. kr. á mánuði. Það stóð þannig á þegar lokað var að búið var að kaupa þennan kvóta og sátu þá Landsbréf uppi með um það bil 1 milljarð í óseldum bréfum. Og þá er komið að kjarna málsins og hann er þessi: Sá aðili sem hefur tæmt þennan markað, sem hefur selt svo mikið af bréfum á yfirstandandi ári að ekki er hægt að koma húsbréfum út á þeim vöxtum sem til stóð að selja þau á, er ríkissjóður. Ríkissjóður hefur líklega fjármagnað sig um a.m.k. fjóra, ef ekki vel á fimmta milljarð umfram fyrri áætlanir á þessum markaði. Með sölu á spariskírteinum, ríkisskuldabréfum, á ríkisvíxlum hefur það gerst að hann sópaði nánast allt fjármagn af markaðnum á fyrri hluta þessa árs. Þetta verða menn að hafa í huga þegar rætt er um það hverjum hér sé um að kenna.
    Hæstv. ráðherra veit að það vantar fjármagn í almenna húsnæðiskerfið. Það er ekki grænan eyri að finna í fjárlagafrv. hæstv. ríkisstjórnar. Hæstv. ráðherra hefur reynt að þvo hendur sínar af því, en jafnframt hefur hæstv. ráðherra lýst því yfir að hann vilji ekki hækka vexti nema þegar íbúðasölur eiga sér stað.
    Ráðherra hefur jafnframt lýst því yfir að loka eigi gamla kerfinu. Framsfl. hefur lýst sig andstæðan þeirri hugmynd. Það er eingöngu verið að fara fram á það, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra, og reyndar aðrir hæstv. ráðherrar, geri hreint fyrir sínum dyrum. Það er kominn tími til þess að fólk hér á landi fái að vita hver sé stefna ríkisstjórnarinnar. Það er kominn tími til að hæstv. ráðherra segi okkur hér á þessu þingi, hér á hv. Alþingi, hvað hæstv. ríkisstjórn ætlar að gera, en komi ekki sífellt hér upp og kenni öðrum um það sem aflaga hefur farið.