Umboðsmaður barna
Miðvikudaginn 21. nóvember 1990


     Flm. (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Frv. það sem ég mæli nú fyrir í þriðja sinn liggur frammi á þskj. 143 og er 137. mál þingsins. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Árni Gunnarsson, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir, Hjörleifur Guttormsson og Jón Kristjánsson. Þegar frv. var flutt í fyrsta sinn voru meðflutningsmenn mínir hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Kristín S. Kvaran og Hjörleifur Guttormsson og í annað sinn voru það þeir hv. þm. Árni Gunnarsson og Hjörleifur Guttormsson þar sem hv. þm. Kristín S. Kvaran er horfin af þingi og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir orðin ráðherra. Að þessu sinni hafa hins vegar bæst við nýir liðsmenn og það er því von mín að þetta frv., sem þegar hefur fengið verulega meðferð hér í þinginu, nái nú fram að ganga á þessu þingi.
    Frv. sjálfu fylgir allítarleg greinargerð og í bæði skiptin sem ég talaði fyrir því gerði ég nokkra grein fyrir því líka. Ég mun því í ræðu minni nú aðallega víkja að þeim breytingum sem orðið hafa á frv. frá því að það var fyrst flutt. Það kann að vera hálfgerð kaldhæðni að minna menn á að þeir hafi heyrt ræður mínar fyrr þar sem nú er sama staða í þingsal Nd. að það eru örfáir sem hlýða á þessa ræðu eins og gerst hefur undanfarin ár. Verður nú enn að ítreka það að það lítur út fyrir að mjög mikil þreyta sæki á hv. þm. þegar talað er um málefni barna og hefur það áður komið fram hér í umræðu.
    Þegar þetta frv. var fyrst flutt árið 1986, og raunar einnig 1987, var ráð fyrir því gert að embættinu yrði fundinn staður í dómsmrn. Þar gekk flm. það fyrst og fremst til að þeir óttuðust að frv. næði síður fram að ganga ef menn ættu von á viðbót við hið opinbera kerfi. Frá því að frv. var flutt fyrst hefur það gerst að umboðsmaður Alþingis hefur tekið til starfa. Flutningur þessa frv. hefur verið ræddur við Gauk Jörundsson, umboðsmann Alþingis, og var m.a. um það rætt við hann hvort embætti umboðsmanns barna mætti koma fyrir innan embættis umboðsmanns Alþingis. Niðurstaða þeirra viðræðna varð þó sú að verkefni umboðsmanns barna væru allt annars eðlis en verkefni umboðsmanns Alþingis og því væri eðlilegt að umboðsmaður barna starfaði sjálfstætt og umfram allt óháð framkvæmdarvaldinu. Það er því ráð fyrir því gert í þessu frv. að umboðsmaður barna heyri beint undir Alþingi eins og umboðsmaður Alþingis. Viðfangsefni umboðsmanns Alþingis, hvort sem þau varða börn eða fullorðna, yrðu eftir sem áður í verkahring embættis hans, enda engin krafa gerð um að embætti umboðsmanns barna skipi löglærður aðili eins og er um umboðsmann Alþingis.
    Þá er þess að geta að frv. það sem nú liggur fyrir 113. löggjafarþingi til laga um vernd barna og unglinga, og nær vonandi samþykki á þessu þingi, tekur enn frekar fyrir að verkefni umboðsmanns barna, barnaverndarnefnda og Barnaverndarráðs kynnu að skarast og er það vel. Eins og fram kemur í 4. gr. frv. er hlutverk umboðsmanns barna fyrst og fremst að gæta hagsmuna barna á öllum sviðum við stjórnvaldsákvarðanir en honum er ekki ætlað að vinna að einstökum einstaklingsmálum heldur vísa þeim til fagmanna sem þar kunna með að fara.
     Menn deila tæpast um það að í löggjöf þjóðarinnar skuli tillit tekið til þarfa allra þjóðfélagsþegna svo að þeir megi allir þrífast sem best í landinu. Því síður deila menn um mikilvægi þess að vel sé í haginn búið fyrir þá sem eru að vaxa úr grasi og eiga að taka við af okkur hinum eldri. Það má þó ljóst vera að börnin sjálf eru ekki á sama hátt í stakk búin til að fylgja eftir sjálfsögðum mannréttindum sínum í samfélaginu og hinir sem eldri eru og þroskaðri. Aðbúnaður allur og uppvaxtarskilyrði þeirra eru á ábyrgð okkar hinna fullorðnu.
    Tilgangurinn með því frv. sem hér er til umræðu er því að stíga mikilvægt skref í áttina til þess að börnin eigi sér málsvara sem taka verður tillit til. Í þeirri greinargerð sem fylgdi frv. upphaflega og fylgir nú enn með því er í raun og veru fátt sem þarfnast breytinga þó að þessi greinargerð sé orðin fjögurra ára gömul. Það vekur hins vegar athygli að þá fylgdi frv. mannfjöldaspá þar sem Hagstofa Íslands spáði því að öldruðum fjölgi mjög en börnum hljóti að fækka. Þó að þessi spá sem birtist með frv. upphaflega sé ekki nema fjögurra ára gömul hefur hún svo sannarlega ræst. Nú eru í landinu 253.785 manns en árið 1985 voru þeir 241.500 og þeim hefur því fjölgað. Börn á aldrinum 0 -- 6 ára eru nú 29.490 eða 11,6% en voru þá 30.200 eða 12,5%. Börn á aldrinum 7 -- 15 ára eru nú 33.955 eða 13,4% en árið 1985 voru þau 37.300 eða 15,4%. Þessar tölur tala sínu máli og eru í samræmi við mannfjöldaspá Hagstofu Íslands sem fylgdi hinu upphaflega frv. Þær sýna svo að ekki verður um villst að börnum á aldrinum 7 -- 15 ára fækkar í landinu á sama tíma og þjóðin nær æ hærri lífaldri. Fólki þykir ekki fýsilegt að ala upp barnahóp við þær aðstæður sem því eru til þess búnar og getur hver séð sjálfur hverjar afleiðingar það hefur fyrir framtíðarþjóðfélagið að æ færri verða vinnufærir meðan þeim sem lokið hafa starfsdegi fjölgar stöðugt.
    Þetta ástand er víðar að finna en hér á landi. Trú mín er hins vegar sú að við séum dálítið öðruvísi að þessu leyti. Ég held að það sé miklu meira eftir af vilja Íslendinga til þess að eiga stórar fjölskyldur. En ég geri mér fullkomlega grein fyrir, og ég held að það hljótum við öll að gera, að það er ekki efnilegt fyrir ungt fólk að stofna til stórrar fjölskyldu þar sem svo til engin þjónusta er við þetta unga fólk sem ætlast er til að vinni úti á vinnumarkaðinum, oft óheyrilega langan vinnudag. Það fær skólavist fyrir börnin sín sem á engan hátt hentar fjölskyldunni þegar litið er til vinnudags allra fjölskyldumeðlima. Alþingi Íslendinga
telur sex mánuði nægjanlegan tíma til að finna þau tengsl sem hafa áreiðanlega úrslitaáhrif fyrir hverja lifandi manneskju allt lífið með því að fæðingarorlof er einungis sex mánuðir og svo mætti lengi telja og hefur þó verið úr þessu bætt síðan frv. var fyrst flutt þar sem þá var einungis um að ræða þriggja mánaða fæðingarorlof. Því hefur einfaldlega ekki verið svarað hvert á að senda barnið þegar þeim tíma lýkur. Þjóðfélagið hefur ekkert svar við því. Það er ætlast til að það fari eitthvað, flækist á milli dagmæðra þar sem vistin kostar kannski helminginn af launum annars foreldrisins fyrir heils dags vinnu o.s.frv. Svo mikið er búið að tala um húsnæðismál hér á hinu háa Alþingi nýlega að ég ætla ekki að fara að víkja að því líka. En það er í raun og veru sama hvert er litið. Foreldrar standa einfaldlega ráðþrota með börnin sín miðað við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu. Og ég held að Alþingi Íslendinga sé til neytt að taka á þessum málum af alvöru og gera sér ljóst að það er löngu kominn tími til að a.m.k. einn starfsmaður í þjóðfélaginu hafi þá ábyrgð að fylgjast með því að réttindi barna séu tryggð og tillit tekið til þarfa þeirra við þær ákvarðanir sem teknar eru. Það er að mínu viti nokkuð sem á eftir að skila árangri því að einhvers staðar segir í fornum bókum að illt sé þeim sem á ólandi er alinn. Og það er ekki annað að sjá af nýlegum blaðaskrifum en að við séum að búa börnum okkar hér óland.
    5. sept. sl. er viðtal í DV við Sólveigu Ásgrímsdóttur sálfræðing. Tilefni þess var umræður um ofbeldi meðal barna. Sólveig er t.d. spurð að því hvað hún telji að valdi þessu upplausnarástandi sem hún segir vera í samfélaginu. Og hún er m.a. spurð að því hvort ofbeldismyndir muni hafa áhrif á þetta. Sólveig Ásgrímsdóttir sálfræðingur segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þetta getur hvort tveggja átt sér einhverja stoð en það sem ég held að skipti máli er að þessi börn sem eru hvað verst farin af vídeóglápi hafa verið í stjórnlausri vídeóneyslu þar sem fullorðnir hafa ekki horft á þessar myndir með þeim. Það skiptir mjög miklu máli að fullorðnir séu með þegar börnin eru að horfa á sjónvarp til þess að stjórna á hvað þau horfa, hve mikið og einnig til að útskýra og ræða hvað þarna fór fram og vinna með það áfram. Þó eru ákveðnar myndir sem eru handan allra velsæmismarka og eiga ekkert erindi til barna.``
    Síðan er hún spurð hver sé ástæðan fyrir því að svona ung börn beiti ofbeldi en það kemur fram í þessari grein að 11, 12 og 13 ára börn beiti og verði fyrir ofbeldi. Og Sólveig Ásgrímsdóttir heldur áfram, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég er nokkuð viss um að þessi óskaplega vinna foreldra skaðar börn því að foreldrar geta ekki fylgst með þeim. Ég var skólasálfræðingur 1983 þegar vísitala á launum var afnumin og þann vetur komust margir í mjög miklar fjárhagskröggur og maður horfði hreinlega á fjölskyldu eftir fjölskyldu hrynja. Þá sagði ég einhvers staðar að það mætti mikið vera ef við fengjum ekki þessi börn sem nú eru að alast upp á vergangi í hausinn þegar þau yrðu eldri. Það hversu illa er búið að börnum hvað varðar umhyggju og gæslu er tímasprengja í samfélaginu. Börn sem fá ekki umönnun og aðhlynningu á aldrinum frá fæðingu til 12 ára aldurs og eru sett á guð og gaddinn eru í mikilli hættu á að skaðast og geta lent í einhverjum

ógöngum af eigin hvötum eða leiðst út í þær með öðrum.``
    Þetta eru hörð orð sálfræðings sem starfar meðal skólabarna í höfuðborg landsins, að hún minnist á eina ákveðna stjórnvaldsákvörðun sem tekin var 1983 þegar vísitala á launum var afnumin. Og hún fullyrðir að hún hafi séð merkjanlegan skaða á börnum fjölskyldna beinlínis af þessum ástæðum. Hefði þarna verið umboðsmaður barna hefði hann kannski getað bent á hver áhrif slíkar ákvarðanir hafa á velferð fjölskyldunnar.
    Hér er ég með úrklippu úr dagblaðinu Tímanum og hún er nýrri, frá 13. nóv. Þar er talað við einn kunnasta skólamann í Reykjavík, Anton Bjarnason, núverandi lektor við Kennaraháskólann. Hann hefur áhyggjur af því að börn nú til dags fái of litla hreyfingu og telur að það gæti hamlað námsárangri síðar meir. Það eru gömul og ný sannindi að samhengi sé á milli líkamlegrar velferðar og andlegrar og ,,heilbrigð sál í hraustum líkama`` er gamalt orðtæki sem flestir kannast við. Hann talar um að hann sjái þess merki að börn eigi erfitt með að leika sér í hópi nú orðið. Þau séu úthaldslaus. Hann skýrir frá, og ég ætla að vitna orðrétt í hann, með leyfi hæstv. forseta, hvernig þolleysið lýsti sér þegar hann ætlaði að láta börn fara í leiki eins og hann gerði áður og hreyfa sig í 40 mínútur. Hann segir: ,,Mörg þeirra héldu ekki út í 10 mínútur. Í miðjum stórfiskaleik t.d. sem tekur ekki nema 3 -- 4 mínútur hrundu sum hver niður við rimlana. Og þegar að var gáð gátu þau ekki meira.`` Þetta er að mínu viti mikið áhyggjuefni og vitaskuld er þetta árangur af því að börn eru allt of mikið ein heima, vinnudagur foreldra er of langur, það stjórnar því enginn hvort börnin fara út að leika sér og auðvitað sækja þau mörg í að sitja yfir vídeótækjum og sjónvarpi og öðru slíku af því að það er enginn til þess að hvetja þau til að leika sér. Börn eru ekki dugleg við að finna sér afþreyingu, eins og við öll könnumst við, og þau hafa mikla þörf fyrir að fullorðnir vísi þeim leið til þess.
    Síðan segir einnig í þessari grein og ég vitna enn í Anton Bjarnason, lektor við Kennaraháskólann, að hann sjái mikla breytingu á því sem var og sérstaklega það hve streita fullorðinna hefur mikil áhrif á börnin. Hann segir einnig að hreyfiþroski og námsárangur fari saman. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Allar rannsóknir sýna að þau börn sem byrja í skóla líkamlega vel á sig komin standa sig betur í námi.`` Og hann benti á tölur frá Danmörku sem styðja þetta. Þar var gerð könnun árin 1983, 1984 og 1985 á sex ára börnum. Hann segir að skýr fylgni hafi reynst vera á milli námsárangurs og hreyfiþroska.
    Ég hef áður gert hér að umtalsefni kunnáttu barna í handmennt og ég minntist einnig á það þegar ég talaði fyrir þeim málum hér að reynt yrði að efla handmenntakennslu í skólum landsins, því að sú þjálfun sem börn fá á eigin höndum við að vinna eitthvað í höndunum er auðvitað einn anginn af þessu eins og íþróttir og leikir þjálfa líkamann almennt.
    Það mætti finna margar blaðagreinar þar sem vitnað er í sérfræðinga á þessum sviðum. Ég lagði ekki vinnu í það en það er auðvelt að minna á umræðu sem hér varð fyrir um það bil ári síðan þegar kennarar höfuðborgarinnar hófu upp ramakvein yfir því að börn væru vannærð, skólabörn fengju ekki morgunmat, þau hefðu ekki með sér nesti, og skólalæknar ráku sig á það að börn voru beinlínis van - og illa nærð. Ef við sem sitjum hér á hinu háa Alþingi ætlum að horfa upp á það, án þess að eitthvað sé í því gert, að verið sé að ala upp kynslóð í þessu ríka landi, kynslóð barna sem er úthaldslítil, vannærð, með lélegan málþroska, sem áður hefur komið hér til umræðu, þá veit ég í raun og veru ekki hvernig við lítum á ábyrgð okkar sem alþingismanna. Við vitum það öll að menningarlega hafa börn ævinlega orðið afgangs og þarf ekki annað en líta til ríkisfjölmiðlanna sem telja sig ekki hafa efni á að framleiða hollt og gott menningarefni fyrir börn. Því að það er rangt, alveg eins um börn og um fullorðna, að börnin vilji lélegt efni. Þau mundu heldur kjósa gott efni ef það væri á boðstólum. Það hefur verið margreynt, t.d. í bókaútgáfu í þessu landi, að keppa við lélegt efni og ég hef ekki orðið vör við annað en að það hafi tekist með ágætum vel. Nú er verið að sýna hér íslenska barnakvikmynd sem ég hygg að njóti mikilla vinsælda, enda einn kunnasti barnarithöfundur landsins þar á ferðinni, Herdís Egilsdóttir kennari. Vitaskuld sækja börnin slíkt efni ef það er fyrir þeim haft.
    Um þessa hluti væri hægt að tala mikið og lengi og ég skal ekki taka meiri tíma, hæstv. forseti. Ég vil hins vegar geta þess að borist hefur bréf, sem fylgir með í frv. á eftir greinargerð, frá Foreldrasamtökunum í Reykjavík þar sem mjög er hvatt til þess að þetta frv. nái nú fram að ganga og stofnað verði embætti umboðsmanns barna. Við erum hér að fara fram á að við stjórnvaldsákvarðanir verði tekið tillit til fjórðungs þjóðarinnar. Við skulum vona að börnin verði áfram fjórðungur þjóðarinnar en óneitanlega eru ýmsar blikur á lofti, að börn kynnu að verða miklu minni hluti hennar.
    Ég vil því skora á hv. þm. að skoða frv. vel og veita því brautargengi á þessu þingi. Ég held að Alþingi væri til sóma að þetta mál næði fram að ganga hér eins og það hefur gert annars staðar á Norðurlöndum og reynst mjög vel þar enda vandað til ráðningar slíks umboðsmanns og vil því að lokum, hæstv. forseti, leggja til að frv. fari að lokinni 1. umr. til umfjöllunar í hv. allshn. eins og áður.