Umboðsmaður barna
Miðvikudaginn 21. nóvember 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka 1. flm. þessa frv. og jafnframt láta í ljósi ánægju yfir því að fá að vera meðflutningsmaður að því og leggja þessu máli lið.
    Undanfarið hafa komið nokkur mál til meðferðar á Alþingi sem snerta hag barna mjög mikið. Það er ástæða til þess að harma að þau skuli ekki vekja meiri athygli og áhuga en raun ber vitni því að það mun mála sannast að við höfum ekki allt of mikinn tíma. Það eru of margar blikur á lofti til að við getum látið það afskiptalaust. Hættumerkin berast í sífellu, en það stendur svo sannarlega á viðbrögðum þessarar samkundu.
    Frv. sem hér er til umræðu tekur auðvitað bara á fáeinum þáttum þessa mikla vanda sem við stöndum frammi fyrir í uppeldi barna okkar og unglinga og í málefnum fjölskyldna á Íslandi. En ekkert eitt mál getur auðvitað leyst allan vandann og því ber að leggja hverju því máli lið sem tekur á einhvern hátt á vandanum.
    Í greinargerð með frv. er farið nokkuð vítt yfir völlinn og tæpt á helstu málum þar sem alvarlega horfir og færa þarf til betri vegar. Ég vil sérstaklega gera hér að umræðuefni þann þátt sem verður að fylgjast mun betur með en hingað til hefur verið gert og stórbæta. Það er einmitt það efni sem börn eiga kost á í fjölmiðlum. Ég hef að vísu þegar rætt það við 1. flm. frv. að ég hefði kosið að sjá tilgreinda fleiri aðila sem kæmu í ráð það sem skal vera umboðsmanni til ráðgjafar og vil ég þá sérstaklega nefna til tvo. Í fyrsta lagi held ég að það gæti verið hollt að í þessu ráði væri einhver fulltrúi fjölmiðla. Það efni sem tilreitt er fyrir börn og unglinga í meira að segja ríkisfjölmiðlum okkar er til háborinnar skammar. Það er lítið, en það er ekki nóg með það, það er líka vont að flestu leyti. Það heyrir til undantekninga ef hér er í sjónvarpi --- ég vil að vísu undanskilja hljóðvarp, en við vitum öll að því miður er hlustun á slíkt efni í útvarpi kannski ekki mikil en þeim mun meira fylgjast börn með sjónvarpi og þess vegna geri ég það nú aðallega að umræðuefni. Þar er þannig haldið á málum að það er ekki bara að það láti börn afskiptalaus eða sé meinlaust. Það beinlínis vinnur gegn börnum.
    Í fyrra var flutt á Alþingi þáltill. um könnun á ofbeldi í myndmiðlum þar sem lagt var til að kannaðar yrðu sérstaklega tíðni og tegund ofbeldis sem sýnt væri í dagskrá ríkissjónvarps, og það talar náttúrlega sínu máli að það skuli þurfa að flytja slíka tillögu, auk þess í dagskrá Stöðvar 2, í kvikmyndahúsum og á þeim myndböndum sem eru á boðstólum í myndbandaleigum.
    Það hefði svo sannarlega ekki veitt af að einhver löggiltur aðili fylgdist með þessu efni og sæi til þess, þó ekki væri nema að lögum væri framfylgt, því ég er sannfærð um að ef svo væri væri stór hluti efnis Ríkissjónvarps dæmdur úr leik. Því miður náði þessi tillaga ekki að ganga fram í óbreyttu formi, þótti of dýrt, of mikil útgjöld, og væri nú betur að þingmenn

væru alltaf eins aðsjálir og þeir eru þegar kemur að málefnum barna.
    Ábyrgð þessara fjölmiðla er mikil vegna þess að við vitum það að börn eyða miklum tíma fyrir framan fjölmiðla, ýmist við þá dagskrá sem í boði er eða myndbönd að eigin vali. Þróuninni verður auðvitað ekki snúið við. Við getum ekki fjarlægt þessa fjölmiðla eða dæmt þá úr leik, heldur verðum við að reyna að stýra efni þeirra og notkun þessara miðla. En eins og hv. flm. kom inn á þá er sá tími mjög takmarkaður sem foreldrar hafa aflögu, oft og tíðum, til að fylgjast með hvað börn horfa á og verða þeir oft að treysta á að aðrir annist það eftirlitshlutverk. Þá stendur auðvitað eftir sá vandi þegar börn eru oft og iðulega að horfa á efni sem þeim er torskilið og fá kannski skilaboð í gegnum þessa fjölmiðla sem þau átta sig ekki á og hafa e.t.v. engan til þess að deila þeim hugrenningum með sem vakna með þeim við horfun.
    Slíkt eftirlit með dagskrá þarf ekki einungis að ná til barnaefnis heldur líka þess efnis sem ætlað er fullorðnum. Það hefur m.a. orðið umræða um það að fréttir séu oft og tíðum svo yfirfullar af ofbeldi að það sé ekki verjandi að börn horfi á þær. Ég vildi nú e.t.v. ganga lengra og segja að ekki væri heldur verjandi að fullorðnir horfðu á það. En mestu varðar nú að börn geri það ekki.
    Málið sem fyrir börnum er haft í fjölmiðlum er auðvitað ekki alltaf eins og skyldi, en þó er það nú kannski ekki versti hlutinn. Nú er það svo að meiri hluti efnis ætlaður börnum er auðvitað erlent efni og er textað með rittexta og því geta alls ekki öll börn tileinkað sér innihald. Eflaust ætti þess vegna að reyna að talsetja allt efni þó það liggi við að maður hugsi stundum: Guði sé lof að barnið skildi þetta ekki. Oft er vitleysan slík að maður þakkar næstum fyrir að hún skuli þó vera á erlendu tungumáli.
    Fyrst og fremst er það ofbeldið sem fyrir þeim er haft og vitleysan. Það er svo mikið af heimskulegu efni og það að tala niður til barna, hvort sem er í tóni eða efnisvali, er alls ekki hin rétta leið. Ég held að við sem höfum t.d. komið nálægt einhvers konar listsköpun fyrir börn, og það hafa bæði ég og hv. 1. flm. gert, vitum að því betra efni sem framleitt er fyrir börn því betri eru viðbrögðin og þeim mun meira gaman hafa þau af efninu. Það þarf ekkert að hlífa börnum andlega. Það er ekki það að ekki megi sýna þeim dökku hliðar mannlífsins og jafnvel ganga dálítið langt í þeim efnum svo framarlega sem það er vel fram sett og höfðar til þeirra tilfinningalega en er ekki bara kalt ofbeldi sem oftar en ekki er framreitt eins og ekkert sé sjálfsagðara og jafnvel oft á þann máta að það sé sjálfsagt og eðlilegt og eina leiðin til þess að leysa úr deilum fólks t.d. sé ofbeldi.
    Ég vissi af því um daginn að drengjum nokkrum á aldrinum 12 -- 13 ára gömlum var gefin klámmynd í vídeóleigu. Klámmynd af andstyggilegustu gerð. Svo andstyggileg að jafnvel þessum strákpottormum, sem héldu fyrst að þetta væri bara sniðugt og þeir mundu svona vera dálítið mennilegir við að horfa á þetta,

blöskraði svo að þeir þorðu ekki að horfa. En hvert er nú eftirlitið þegar í fyrsta lagi svona myndir eru á boðstólum inni á vídeóleigunum og í öðru lagi þegar börnum er gefið svona efni? Sem betur fer í þessu tilfelli komst þetta upp í skóla viðkomandi drengja og skólinn ætlar að bregðast við. En þetta segir náttúrlega sína sögu hvar foreldrar standa í dag jafnvel þó þeir sjálfir reyni að leggja af mörkum ef eftirlitshlutverkið er svona slæmt. Þarna er t.d. bara eitt dæmi um það hvernig svona umboðsmaður, eins og hér er lagt til, gæti gripið inn í því þarna er sannarlega verið að brjóta lög.
    Hinn aðilinn sem ég vildi gjarnan að kæmi þarna við sögu er fulltrúi listamanna því ég held að það sé mál til komið að við tengjum betur saman líkamlega og andlega velferð barna. Það er auðveldara að taka á hinni líkamlegu velferð, þó vissulega sé þar oft pottur brotinn, en þótt hin andlegu verðmæti og andlegt umhverfi barna verði aldrei mælt eða vegið endanlega þá megum við ekki skirrast við að taka á því að þeim sé líka búið heilbrigt andlegt umhverfi. Við erum öll sammála um það að við viljum helst ekki að börnin okkar neyti eiturefna, hvort sem það er í formi vímugjafa eða jafnvel bara óæskilegra efna í mat. Við viljum helst ekki heldur að þau þurfi að anda að sér mjög óhreinu lofti. En við þurfum að vera jafnvakandi fyrir því að hugur þeirra og tilfinningalíf sé líka í hreinu lofti. Það menningarlega svelti sem börnum er haldið í á Íslandi hefur líka afleiðingar. Það hvað lítið þau kynnast sögu, menningu og arfleifð sinnar eigin þjóðar gerir þau fortíðarlaus og þá um leið auðvitað framtíðarlaus vegna þess að enginn getur ímyndað sér framtíð nema hann spegli þá framtíð í fortíð. Ef við ætlum okkur að búa sem þjóð í þessu landi þá verðum við m.a. að gefa þeim þennan fortíðarspegil.
    Ég hef líka þá trú að börn sem fá þroskavænlegt uppeldi, sem inniber m.a. listneyslu og listupplifun og sköpun, séu betur í stakk búin til þess að skilja flest annað sem að þeim snýr í lífinu vegna þess að þau öðlast við það meiri tilfinningaþroska. Þau öðlast dýpri og betri skilning á lífi og kjörum annarra, bæði í sínu nánasta umhverfi og víðar í heiminum, en það er einmitt þessi skilningur á högum annarra sem okkur er svo nauðsynlegur til þess að geta lifað í friði og sátt í þessum heimi. Andlega fátækur maður er lítið betur staddur þó að séð sé fyrir líkamlegri velferð hans.
    Sem betur fer hefur undanfarið oft verið rætt nokkuð um þessi mál hér og margt tínt til. Hv. flm. talaði hér áðan um þegar kennarar vöktu athygli á því í fyrra að hér gengju um vannærð börn, sem er náttúrlega eins og háðung í velferðarþjóðfélagi að við skulum ekki einu sinni geta nært börn okkar sæmilega. Samt treysta menn sér ekki til að koma hér á skólamáltíðum þó að vitað sé að stór hluti foreldra er ekki heima í hádeginu til þess að gefa börnum sínum að borða, enda er skólatíma í mörgum tilfellum hagað þannig að börnin komast ekki heim.
    Það eru ýmis fleiri merki. Hér eru tannskemmdir meiri en þekkjast í sambærilegum löndum. Hér eru

umferðarslys á börnum tíðari en þekkist annars staðar. og nú mun svo komið að um 10% þeirra nemenda sem koma í framhaldsskóla að loknu grunnskólaprófi eru ólæs. Þetta kom m.a. fram á fundi sem menntmn. þingsins voru á í morgun í Menntaskólanum við Sund. Þar hafa verið gerðar talsverðar rannsóknir á því hvers vegna brottfall nemenda er svona mikið og komist að þeirri niðurstöðu að hvorki meira né minna en 10% nemenda væru ólæs. Það segir okkur náttúrlega ýmislegt um skólakerfi landsins en það segir okkur líka mikið um ástand fjölskyldna landsins vegna þess að það er vafasamt að draga þá ályktun að það sé vegna gáfnaskorts sem svona stór hluti barna lærir ekki að lesa. Þar veldur m.a. ástand fjölskyldna. Bæði að börnum líður illa, geta ekki einbeitt sér að námi, festa sig ekki við það og eins að þau fá ekki hvatningu eða hjálp heima við eins og þau þurfa. Við getum ekki bara skellt skuldinni á skólakerfið.
    Það er svo sem gleðilegt sem fram kom í drögum að menntastefnu til ársins 2000 á ráðstefnu um sl. helgi, að nú stendur fyrir dyrum að stórauka list- og verkmennt í skólum. Vona ég svo sannarlega að það reynist meira en orðin tóm og gert verði stórátak þannig að þær greinar fái sama vægi í skólum og bóklegar greinar hafa núna. Það hefur sjaldan verið meiri þörf fyrir þessar greinar en einmitt núna þegar heimilin verða sífellt verr í stakk búin til þess að taka t.d. handmennt eða verkmennt að sér. Börnin læra þær ekki lengur heima. Listgreinarnar, eins og ég sagði áðan, eru auðvitað vel til þess fallnar að ýta undir þroska þeirra og gera þá hæfari einstaklinga sem ná betri andlegum þroska en þeir mundu gera ella.
    Ég vildi vekja athygli á þessum tveim atriðum. Það mætti ef til vill huga að þeim þegar þetta frv. kemur til umræðu í nefnd. Auðvitað væri, ég segi eins og hv. flm. sem talaði hér á undan mér, hægt að tala um þetta endalaust því vandfundið mun það mál í þjóðfélaginu, eða sú ákvörðun sem tekin er, sem ekki snertir börn með einu eða öðru móti. Ég vil þó ljúka máli mínu í þetta sinn með því að ítreka að þannig er komið málum að það fólk sem hér hefur valist til starfa má ekkert tækifæri láta ónotað til þess að leggja sitt af mörkum til þess að betur sé búið að börnum þessa lands og að við getum skilað þeim sómasamlegum til fullorðinsára.