Umboðsmaður barna
Miðvikudaginn 21. nóvember 1990


     Stefán Valgeirsson :
    Herra forseti. Þetta er nú það stórt og mikið mál að við förum ekki mikið ofan í það á svona fundi, enda eru fáir sem hlusta. Ég hef farið yfir þetta frv. og ég er ekki viss um að það muni ná sínum tilgangi öðruvísi en að breyta því nokkuð. Sérstaklega held ég að það sé nauðsynlegt að í 3. gr., þar sem segir að ákveðnir aðilar skuli tilnefna ráð eða ráðgjafa, sé sett inn ákvæði um að þetta ráð verði að koma saman ekki skemur en eitthvað tiltekið til þess að bera saman bækur sínar. Það er engin trygging fyrir því að það vinni, eins og ég veit að flm. hv. ætlast til, öðruvísi en að tiltekið sé að það skuli koma saman. Ég ætla ekki að nefna neitt en málið er svo hrikalegt að það er engin ástæða til annars en að ákveða að það sé nokkuð oft á hverju ári. Til þess að upplýsa mál, til þess að fá yfirsýn yfir hvernig þessi mál standa. Þetta tengist mikið öðru máli sem ekki hefur heldur verið sinnt sem skyldi og það er fjölskylduráðgjöf. Þetta tvennt tengist saman. Það hafa ekki fengist fjárveitingar til þess að sinna þessu verkefni. Ég kannski veit ekki nægilega vel hvernig þetta er í Reykjavík en mér er sagt að það sé bara á einum stað á landinu sérstakur félagsráðgjafi sem sinnir þessu verkefni og það er á Akureyri. En þar sem ég þekki marga félagsráðgjafa sem eru í nánu sambandi við mig þá veit ég dálítið um það hvernig þessi mál standa. Ef maður er með opin augun, bara í hverfinu sem maður býr, þá sér maður hvað sum börn eru bæði vannærð og eru á útigangi. Þeim er ekki sinnt. Og ég hef lent í því að krefjast þess að foreldrar sæki barn sem er með dóttursyni mínum vegna þess að honum er ekki sinnt í lengri tíma, kannski allan daginn.
    Ég held að það þurfi að fara ofan í þetta frv. Það er spurning hvort hægt er að tengja það átaki í sambandi við fjölskylduráðgjöf. En það er a.m.k. alveg sjálfsagt mál og nauðsynlegt að það sé ákveðið hvað oft þessi ráðgjafanefnd á að koma saman og, ef þetta verður að lögum, þar sem náttúrlega umboðsmaður verður í öndvegi. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni að það er spurning, til þess að fá umræðu um þetta í þjóðfélaginu, hvort ekki ætti t.d. að boða áheyrnarfulltrúa annað slagið, a.m.k. ríkisfjölmiðlana, til þess að kynna sér málin og geta um þau skrifað.
    Ég ætla ekki að fara ofan í þetta mál frekar. Ég vil bara benda flm. á að mínar hugrenningar í þessu máli. Það er ekki ofsagt að þetta er er kannski stærsta mál þessa þings. En náttúrlega er sú spegilmynd af þjóðlífinu sem hér hefur komið fram fyrst og fremst sú að við erum eiginlega ekki búin að ná fótfestu eftir það að bændasamfélagið hrundi. Afarnir og ömmurnar og langafarnir eru hætt að kenna börnunum. Það er allt einangrað.
    Ég held að það sé ekki fleira sem ég hef að segja um þetta en mér þætti vænt um að ég gæti eitthvað fylgst með þessum málum í nefnd.