Umboðsmaður barna
Miðvikudaginn 21. nóvember 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér hefur farið fram athyglisverð umræða um málefni barna og þá skipan sem við höfum á ýmsum málum. Vissulega er það satt og rétt, sem hér hefur komið fram, að víða eru lög brotin og eftirlit ekki sem skyldi. Hitt er svo annað mál að ég veit ekki hvort allir þeir þættir yrðu leystir þó að þetta frv. yrði að lögum. Hins vegar staldra ég mjög við það að íslenskt þjóðfélag er nauðbeygt að forgangsraða verkefnum. Við höfum ekki efni á öllu. En við höfum heldur ekki efni á því að láta suma hluti vera eins og þeir eru. Ég tel t.d. að það sé gersamlega óverjandi að hafa ekki skólamáltíðir fyrir börn á barnaskólaaldri. Ég tel það gjörsamlega óverjandi og ég hygg að það sé rétt sem hér kom fram hjá hv. 12. þm. Reykv. að það er eitt af þeim málum sem íslenskt samfélag getur ekki verið þekkt fyrir að láta vera í því fari sem það er.
    Persónulega hef ég aldrei skilið að það sé hægt að setja það þannig upp að þjóðfélagslega séð kosti það peninga að börnin fái mat í skólanum nema þá sé litið svo á að það sé samkomulag um það að börnin fái ekki mat. Það er vitað að þarna er aðeins um tilfærslur að ræða. Hins vegar liggur tilfærslan í því að sé komið á skólamáltíðum má ætla að matarvenjur unglinga verði betri en þær eru og þar kemur margt á eftir, m.a. ástand tannanna sem er kannski það heilbrigðisvandamál sem íslensk börn eiga í mestum vandræðum með. Það er nú
svo að áhrif Morgunblaðsins eru mikil og ég minnist þess að ég las það í því blaði að það var enskur dómari sem dæmdi strák sem hafði vanist á óknytti til að borða hollan og eðlilegan mat. Og Bretarnir urðu hissa þegar þeir sáu niðurstöðuna því strákur lagði niður óknyttina. Það hvarflar nú kannski að manni að hann hafi ekki fengið þennan mat og orðið að afla sér fæðu með öðrum hætti af og til.
    Ég hef vissulega horft á hinn mikla umferðarvanda sem hefur verið en viðurkenni að ég hef e.t.v. dálítið aðrar skoðanir á því en þær sem hafa verið mest í áherslunni. Ég held að við náum ekki umferðarhættunni niður nema með stórátaki í vegagerð á Íslandi, bæði innan borgarmarka og utan. Ég held að það blasi við að áhersluatriðin sem við höfum verið að leggja mest upp úr, m.a. hraði, eru atriði sem vissulega verður að leggja upp úr miðað við aðstæður vegakerfisins í dag. En það land Evrópu sem er með minnsta umferðarskaðann er Þýskaland með sínar hraðbrautir og sinn mikla hraða, en jafnframt með sína góðu vegi, jafnt innan bæjar sem utan, sem tryggir það að skilin á milli gangandi umferðar og akandi eru hreinni en annars staðar.
    Ég ætla einnig af því að þessi umræða hefur gripið til margra þátta að víkja að fjölmiðlunum. Að mínu viti er það eitt alstærsta málið til að styrkja menningararfleifð Íslendinga og stöðu barna þegar þau hefja grunnskólanám að farið verði í að talsetja allt það efni sem ætlað er ungum börnum í sjónvarpi. Ég held að það sé grundvallaratriði að þetta sé gert. Og satt best

að segja finnst mér Ríkisútvarpið hafa brugðist í þessum efnum og það verður að segja þeim á Stöð 2 til hróss að þeir hafa lagt fjármuni í það að talsetja efni fyrir börn. Og það er ekkert vafaatriði að sjónvarpið, myndböndin og kvikmyndirnar, þ.e. þessi tækni nútímans, eru það sem mótar verulega allt í okkar samfélagi. Þess vegna spyr maður sjálfan sig: Hlýtur það ekki að vera rökrétt að almenningsbókasöfn þessa lands taki það upp sem eitt af sínum stóru verkefnum að safna góðum myndböndum, þá á ég við góðum í þeirri merkingu að myndirnar hafi gildi, hafi listrænt gildi, þó að vafalaust takist gott og illt oft og tíðum á í þeim myndum, og hafi þessar myndir til leigu á hóflegu verði? Ég held að það þýði ekki að snúast gegn straumnum. Ég held að ekki þýði eins og sumir hafa haft trú á og var algengara áður að menn vildu fyrst og fremst skamma þessa tækni. Ég held að við eigum að taka hana í þjónustu okkar. Þetta gerist ekki með öðru móti. Ef við gerum þetta mun það sjálfkrafa gerast að mínu viti að þeir aðilar sem hafa blómstrað á hæpnum forsendum í leigu á kvikmyndum standast ekki samkeppnina nema þá með gjörbreyttum vinnubrögðum.
    Ég vil líka bæta því við að auðvitað eru skiptar skoðanir á því hvernig við eigum að nálgast það að vernda börn og unglinga í þeim fíkniefnavanda sem er og ég játa það að ég á enga algilda lausn hvernig við sleppum út úr því öngþveitisástandi sem við erum komnir í. Það hvarflar stundum að mér hvort íslenskt samfélag geri ekki allt of lítið að því að hlusta á krakkana sjálfa, jafnaldra þeirra, hvað þeir leggi til að gert sé. Og oft er það svo að þeirra hugmyndir eru skilvirkari en margra annarra. Það er t.d. mikil spurning hvort ungmenni sem er staðið að því að hafa smyglað eiturlyfjum til landsins gæti ekki með réttu setið uppi með þann dóm að það hefði ekki ferðafrelsi til útlanda vissan tíma eða, ef slíkt ferðabann væri ekki talið samrýmast alþjóðlegum lögum, að það sæti þá uppi með það að þurfa að yfirgefa landið ef það færi utan, líka vissan tíma.
    Þegar ég segi þetta varpa ég hér fram atriði sem unglingar hafa sagt við mig en ég hef ekki kannað hvort gæti átt rétt á sér. En það er ömurlegt til þess að vita hvað eiturefnin flæða yfir og hve miklum skaða þau valda. Ég játa það að ég hef verið að því leyti til skeptískur á þetta frv. að ég hef efað það mjög að það hefði hagnýtt gildi nema e.t.v. hér á höfuðborgarsvæðinu. Þó vil ég segja það að Reykjavíkurborg hefur eytt þó nokkrum fjármunum í fyrirbyggjandi starf og ég vil ekki gera lítið úr því sem þeir hafa verið að reyna að gera á því sviði því að ég hef þekkt menn sem hafa unnið fyrir borgina og veit að þeir hafa virkilega lagt sig fram í því að reyna að hafa áhrif á unglinga. En að sumu leyti hafa skólarnir brugðist. Þeir hafa kannski brugðist vegna þess að stundum gerist það hreinlega, eins og allir vita sem fengist hafa við kennslu, að þeim sem kennsluna stunda er léttir að losna við ákveðna nemendur, að þeir gráta það ekki þó að þeir hætti að koma í tíma. Það er vandamál sem tengist þessum hlutum.

    Við höfum búið við það kerfi á Íslandi að barnaverndarnefndum er ætlað mikið starf og mikil völd. Það er lýðræðislegt fyrirkomulag. Spurningin er: Höfum við tryggt þeim næga starfskrafta til að geta sinnt þeim verkefnum sem þeim er ætlað að sinna? Ég hygg að það sé rétt að svo sé ekki. En auðvitað er hægt að finna þess dæmi að barnaverndarnefndir hafi ekki skilað sínu starfi en mjög oft hafa þær líka gert það. Og kannski skiptist landið dálítið í svæði í þessum efnum eftir því hversu fjölmennt það svæði er sem viðkomandi barnaverndarnefnd er ætlað að glíma við og þar af leiðandi hversu auðvelt er að glíma við þann vanda sem um er að ræða.
    Ég vil aftur á móti taka undir það sem hér hefur komið fram að auðvitað er mál af þessum toga, eins og það sem hér er til umræðu, eitt af stóru málunum í okkar samfélagi og ég fellst ekki á þá skoðun að ástæðan fyrir því að fáir eru í þingsalnum sé að verið sé að ræða um málefni barna. Ég held bara að því miður gerist það harla oft, þegar búinn er aðalhasarinn í afgreiðslu mála í deildum, fækki hér heldur skjótt í þingsalnum og það er vissulega vandamál þingsins að skapa þá virkni að menn fylgist meira með málum en gert er.