Umboðsmaður barna
Miðvikudaginn 21. nóvember 1990


     Flm. (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég skal virða það að hér er kominn tími til þingflokksfunda. Ég vil aðeins þakka þeim hv. þm. sem tekið hafa til máls í þessari umræðu fyrir vinsamlegar undirtektir og ég vona svo sannarlega að orð hv. 6. þm. Norðurl. e. eigi stoð í veruleikanum, að hér sé á ferðinni eitt stærsta mál þingsins.
    Ég skal ekki halda hér langa ræðu. Ég vil aðeins taka undir þá ábendingu hv. 6. þm. Norðurl. e. að vel má vera að í 3. gr. frv. þurfi að koma skýrt fram hve oft og hvenær ráðgjafarnefndin komi saman. Ég hygg að ég hafi nú hugsað það við samningu frv. að það ákvæðu nefndin og umboðsmaður sín í milli en það er auðvitað öruggara að hafa það ljóst í sjálfum lögunum, ef svo skyldi fara að frv. yrði að lögum.
    Ég get tekið undir allt það sem hér hefur fram komið. Ég vil aðeins upplýsa, vegna þess að ég eyddi ekki löngum tíma í e.t.v. einn alvarlegasta þáttinn sem varðar aðstöðu barna, slysatíðnina, sem er miklu meiri en víðast hvar annars staðar, og vegna þess að aðrir komu inn á það mál að ég er með í höndunum skýrslu um umferðarslys á Íslandi árið 1989. Á bls. 29 í því riti er aldursdreifing látinna í umferðarslysum á árunum 1972 -- 1989. Það er skelfilegt til þess að vita að á þessum árum létust á aldrinum 0 -- 6 ára 35 börn og á aldrinum 7 -- 14 ára 38, þ.e. 73 börn létust í umferðarslysum á þessum tíma. Og þá getum við rétt hugsað okkur hversu mörg hafa slasast og bera kannski örkuml ævilangt. Þessi þáttur er því auðvitað alveg sérkafli.
    Einmitt þarna ætti umboðsmaður barna að koma inn. Ég hef dálítið fylgst með starfi umboðsmanns barna í Noregi. Það er ekki langt síðan yfirvöld í Óslóborg höfðu skipulagt íbúðahverfi í landi utanvert í borginni þar sem börn höfðu gjarnan stundað skíðaíþróttir. Umboðsmaður barna skarst í þann leik og hafði það í gegn með dyggri aðstoð barnanna í hverfinu að þessum skipulagsáformum var breytt og svæðið ekki lagt undir húsbyggingar.
    Eins og fram kom í máli mínu áðan er ábyrgðarhluti til þess að vita að hægt sé að benda á stjórnvaldsaðgerð eins og 1983, þegar launavísitalan var tekin úr sambandi, að það skuli vera hægt að benda á það eftir orðum sálfræðings hér í borginni að hún hafi séð raunverulega, eins og hún orðar það, hvernig fjölskylda eftir fjölskyldu hrundi. Þessi stjórnvaldsaðgerð er aðeins ein af mörgum sem virkilega hafa áhrif á líf og starf fjölskyldnanna í landinu.
    Vegna orða hv. 2. þm. Vestf. held ég að það sé engu síður þörf fyrir þetta embætti fyrir fólk úti á landi. Og ég get nú, svo að ég taki ekki tíma, sýnt honum frekar í viðtalinu við Anton Bjarnason, lektor við Kennaraháskólann, sem ég vitnaði í áðan að þar tekur hann skýrt fram að samkvæmt rannsóknum hans á líkamlegu ástandi barna mun það engu betra úti á landi og hann vitnar þar í rannsókn sem hann gerði á Norðausturlandi.
    Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta. Það er auðvitað allt rétt sem hér hefur fram komið. Þó vil ég aðeins vitna í orð hv. 3. þm. Norðurl. e. Ég kynnti mér mjög vel þá þáltill. sem hann gerði hér að umræðuefni, sem hann sjálfur flutti ásamt fleirum, um ýmislegt sem til úrbóta gæti orðið fyrir börn. Ég get glatt hann með því að ýmislegt sem þar var upp talið hefur svo sannarlega komist í framkvæmd. Við getum alltaf huggað okkur við það, hv. þm., að allar umræður um mál verða til þess fyrr eða síðar að eitthvað er í þeim gert, eða það skulum við a.m.k. vona. Það er áreiðanlega hægt að telja upp um það bil helming þeirra atriða sem hv. 3. þm. Norðurl. e. gerði að umræðuefni í sinni tillögu sem þegar hefur komist í framkvæmd.
    Ég skal ekki hafa þetta lengra, hæstv. forseti. Ég vil hins vegar fara fram á það við hæstv. forseta að hann beiti sér fyrir því, og ég vil gjarnan óska eftir því að það verði gert að reglu, að umræður um þau mál sem flutt eru og send til nefnda fylgi með frv. til nefndarinnar. Fæstir þingmanna hafa heyrt þessa umræðu í dag og ég tel það í raun og veru sjálfsagða skyldu hv. nefndarmanna að lesa þessa umræðu. Ég held að það væri ágæt regla og satt að segja undrast að við skulum aldrei hafa beitt okkur fyrir því að umræður um mál fylgi með gögnum til nefndanna þannig að þeir hv. þm. sem þar sitja geti lesið og eigi greiðan aðgang að umræðunni.
    Ég vil endurtaka þakkir mínar til hv. þm. sem hér hafa talað og vona að nú nái þetta mál fram að ganga á þessu þingi.