Fræðsla um réttindi og skyldur á vinnumarkaði
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að leggja hér fram fsp. til hæstv. mennntmrh. um fræðslu í efsta bekk grunnskóla og fyrstu bekkjum framhaldsskóla um réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Fsp. hljóðar svo, með leyfi forseta:
 ,,1. Er fyrirhugað að taka upp fræðslu um réttindi og skyldur á vinnumarkaði í efsta bekk grunnskóla og framhaldsskólum?
    2. Hefur nefnd sú, er mótar stefnu í námsráðgjöf og starfsfræðslu á vegum menntmrn., komið með tillögur um slíka fræðslu, sbr. rökstuðning í nál. á þskj. 1160 á síðasta þingi er þáltill. um réttindi og skyldur á vinnumarkaði var vísað til ríkisstjórnarinnar?
    3. Er fyrirhugað að leita samstarfs við Félagsmálaskóla alþýðu og MFA um fræðslu í skólum um réttindi og skyldur á vinnumarkaði?``
    Svo sem sjá má af texta fsp. er ég fyrst og fremst að leita eftir upplýsingum um hvort verið sé að vinna að því að koma þessari fræðslu inn í skólakerfið. Og ef svo er, með hvaða hætti fyrirhugað er að staðið verði að slíkri fræðslu.
    Þáltill. okkar kvennalistakvenna um að gera átak til kynningar á réttindum og skyldum á vinnumarkaði var í fyrra vísað til ríkisstjórnarinnar með afskaplega jákvæðri umsögn um málið og fyrirheitum um að ýmsar aðgerðir væru fyrirhugaðar sem tryggðu að efni tillögunnar kæmist í framkvæmd. M.a. voru gefin ákveðin fyrirheit um að skipulögð yrði fræðsla um þessi mál innan skólakerfisins, annaðhvort í samvinnu við Félagsmálaskóla alþýðu eða á annan hátt. Því beini ég nú fsp. minni til hæstv. menntmrh.
    Sífellt er verið að vísa fleiri mikilvægum verkefnum til skólanna. Alltaf er álitamál hve lengi er hægt að ætlast til þess að nýjum hlutverkum sé bætt á starfsfólk skóla að óbreyttu. Því er mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvort ætlast er til að kennarar bæti við sig kennsluefni um réttindi og skyldur á vinnumarkaði á þéttsetna verkefnaskrá eða hvort leita verður annarra leiða í slíkri fræðslu.
    Þekking á vinnumarkaðinum í öllum sínum margbreytileik hlýtur að vera nauðsynlegt veganesti út úr efsta bekk grunnskóla og nauðsynlegt námsefni innan framhaldsskólanna. Það er því ekki verjandi að hika við að skipuleggja einhverja fræðslu um vinnumarkaðsmál innan skólakerfisins og því vonast ég til að svör hæstv. menntmrh. leiði í ljós hvort eitthvað hefur verið aðhafst innan menntmrn. í þessum málum síðan í vor. Það mál þolir ekki bið.