Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Það sem gerir þetta mál e.t.v. dálítið snúið er að varðandi þau atriði sem hv. 10. þm. Reykn. tók til þá heyra þau undir félmrh. og eru raunar hluti af skipulagsmálum þessa svæðis. Eins og ég gat um í mínum upphafsorðum þá var gert á miðjum síðasta áratug sérstakt svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið sem ég tel að rekist nokkuð á þessi áform. Hins vegar var það svæðisskipulag aldrei staðfest og sveitarfélögin hafa í sjálfu sér ekki náð neinu samkomulagi um að fylgja því eftir. Hvað varðar umkvörtun íbúa Mosfellsbæjar þá er þeim beint til félmrh. sem fer með þennan málaflokk fram til 1. jan. nk. Að sjálfsögðu hefði verið þægilegra og auðveldara fyrir þann sem veitir starfsleyfið að huga að þeim málum samhliða en það getum við því miður ekki gert fyrr en eftir næstu áramót.