Greiðsla sérfræðiþjónustu fyrir fatlað fólk
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Málmfríður Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svör hans. Varðandi fyrri lið spurningar minnar og það svar sem hann gaf þar má náttúrlega um það deila hversu réttlátt mat þetta er á skiptingu á greiðslunni, hverjir greiða hærra og hverjir greiða lægra. Margt og mikið er gert fyrir fötluð börn og foreldra þeirra en það fólk sem ég hef verið að tala um, foreldrar fatlaðra barna, sem þarf ef til vill að aka börnum sínum langar leiðir til þjálfunar, býr við mismunun t.d. gagnvart fólki á þéttbýlissvæðum. En nú hefur ráðherra upplýst það mér til mikillar gleði að þetta muni falla undir skilgreininguna á því að þetta sé greiðsluskylt en þannig hefur það ekki verið túlkað þar sem ég þekki til, fólki til undrunar og angurs, því eitt sinn var þetta greitt. En úr því að þetta svar liggur nú fyrir þá verð ég að fagna því að foreldrar megi nú vænta þess að eiga kost á því að fá þessar endurgreiðslur og ítreka þakkir mínar til ráðherra fyrir svörin.