Ferðamálastefna
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Þetta er í annað sinn sem þetta mál kemur hér fyrir þingið, till. til þál. um ferðamálastefnu, og nú í svolítið breyttu formi, þ.e. nokkrum atriðum hefur verið aukið við tillögukaflann eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra sem mælti hér fyrir till. Og í grg. með till. er bætt við nokkrum atriðum og nýjum köflum jafnvel frá því sem var þegar till. var flutt síðla á síðasta þingi. Þessi endurskoðun er afrakstur af umsögnum og frekari umræðu um efni þessarar till. þar sem mjög margir hafa komið að máli.
    Ég ætla ekki að rekja þetta í einstökum atriðum en ég vil nota tækifærið til þess að þakka þann ágæta og jákvæða anda sem hefur komið fram í meðferð þessa máls við fjölmarga hagsmunaaðila og eins hér á hv. Alþingi. Þegar till. var rædd í fyrra, þá sveif sá andi yfir vötnum að menn teldu að það væri nokkuð á sig leggjandi til þess að ná saman um svona ferðamálastefnu sem megingrundvöll fyrir þróun ferðamála í landinu sem löggjöf yrði síðan byggð á og einstakar aðgerðir og það var auðvitað ásetningur okkar sem að þessu störfuðu í nefnd að reyna að verða við þessum óskum með okkar vinnu.
    Það hefur verið mjög ánægjulegt að vinna að þessu verki í nefndinni sem starfaði á vegum samgrn. því að þar hefur tekist full samstaða um markmið og leiðir í þessum efnum. Nefndin er langt komin í sínu starfi, hefur skilað til hæstv. ráðherra, og til ríkisstjórnar eru komnar tillögur að nýrri löggjöf um ferðaþjónustu sem væntanlega sjá dagsins ljós hér á hv. Alþingi innan skamms.
    Vegna þess sem fram kom hjá hv. 11. þm. Reykn. sem talaði hér næst á undan mér, þá finnst mér að hann hafi kannski sett sig svolítið í varnarstellingar gagnvart þessu þingskjali. Þó las ég út úr orðum hans efnislegt samþykki við þessa stefnumörkun sem hér liggur fyrir, en hann hnykkti á um það að hún væri til lítils nema fjármunir fylgdu. Undir þetta er vissulega hægt að taka. En ég held að það sé jafnnauðsynlegt að hafa markaðar leiðir, hafa ákveðin markmið og skilgreindar leiðir hvernig hið opinbera á að koma að þessari atvinnugrein og leitast við að styðja hana með almennum aðgerðum, til þess að það fjármagn sem til greinarinnar er lagt hverju sinni nýtist sem best og falli inn í einhverja hugsaða heild út frá mótuðum þjóðhagslegum sjónarmiðum og þeirri nauðsyn sem er á að vernda þá auðlind sem ferðamennskan byggir á hjá okkur, þ.e. náttúru landsins. Þannig vil ég taka öllu sem hefur komið fram í rauninni sem jákvæðu framlagi inn í þessa umræðu þrátt fyrir nokkrar ábendingar og viðleitni til gagnrýni af hálfu síðasta ræðumanns hér, hv. 11. þm. Reykn.
    Það hafa komið fram hér í umræðunni fáein atriði sem ég nefni. Hæstv. ráðherra mun vafalaust víkja hér almennt að málinu á eftir, en það eru örfá atriði sem ég sé ástæðu til að koma hér að og það er kannski fyrst af öllu gagnrýni hv. 10. þm. Reykn. sem kvartaði undan því að stjórnarandstaðan hefði ekki komist

að málinu og ekki fengið upplýsingar sem skyldi um málið, sérstaklega um frv. sem væri komið til stjórnarflokka. Ég mundi skilja þá gagnrýni ef þingflokkur Kvennalistans hefði ekki átt fulltrúa í nefndinni sem samdi þær tillögur. Sú stefna sem hér liggur fyrir er flutt óbreytt frá því sem samstaða var um í þessari undirbúningsnefnd og sama gildir að ég best veit um þær tillögur sem nefndin skilaði í síðustu viku í formi frv. til laga um ferðaþjónustu. Og ég veit ekki til þess að fulltrúar flokka í nefndinni eða þeir sem tengjast þingflokkunum hafi verið undir neinum þagnareiði í sambandi við undirbúning eða efni. Við höfum þvert á móti reynt að vinna þetta mál mjög opið gagnvart öllum aðilum og það gagnvart hagsmunaaðilum eins og listinn langi yfir viðmælendur nefndarinnar ber vott um. Þetta vildi ég nú bara nefna hér til upplýsingar um þetta en ég met þau ágætu orð sem komu fram hjá hv. 10. þm. Reykn. almennt varðandi málið og þar kom fram fullur stuðningur eins og hjá öðrum hv. ræðumönnum.
    Það var eitt atriði í hennar máli sem ég vildi þó bæta aðeins við. Það er varðandi fræðslumálin og fræðsluþáttinn. Það var vikið að því að það væru ekki nógu skilmerkilegar tillögur varðandi þróun fræðslu og menntunar í ferðaþjónustu. Það kann að vera að þar þyrfti fastar að að kveða í tillögu sem þessari. En þó vil ég vekja athygli á því að það er sérstakur kafli í leiðum sem varðar fræðslu og menntun og auk þess er ítarleg frásögn í grg. á bls. 13 í þskj. og sérstakt fskj. nr. IV sem fjallar um fræðslumálin. Ein af leiðunum sem bent er á í tillögutextanum varðandi fræðslu og menntun er sú að sett verði á fót fræðsluráð ferðaþjónustu á framhaldsskólastigi skv. lögum um framhaldsskóla og samin námsskrá vegna fræðslu í ferðaþjónustu. Við ræddum ítrekað við fulltrúa menntmrn. um þennan þátt málsins og af hálfu þeirra kom fram að þeir teldu ekki skynsamlegt að auka við sérstökum tillögum í lögum, og vissulega hefði það komið til álita, né ganga lengra en gert er hér í tillögunni varðandi þennan þátt sérstaklega. Það eru almennar heimildir í lögum um framhaldsskólastig að setja á fót fræðsluráð vegna atvinnugreina og fullur stuðningur af hálfu menntmrn. að svo verði gert vegna ferðaþjónustunnar. Það er gert um sjávarútveginn og slíkt fræðsluráð er starfandi varðandi málefni sjávarútvegs en heimild til að bæta slíku við og væntanlega verður það einn ávöxturinn af þessari tillögu að svo verði gert varðandi þennan fjölskrúðuga akur ferðaþjónustunnar sem auðvitað þarf að sinna í fræðslukerfi landsins.
    Þá var það einn þáttur sem vikið var að af tveimur hv. ræðumönnum að ég hygg sem töluðu um þýðingu þess að tengja ferðaþjónustuna við atvinnulíf landsmanna, að nýta þá möguleika sem í því felast að kynna ferðamönnum atvinnustarfsemi í landinu vegna þess að hún er forvitnileg fyrir ferðafólk og oft ekki aðgengileg sem skyldi þannig að það þarf að taka tillit til þess og greiða fyrir því að svo geti orðið. Að þessu efni er sérstaklega vikið í tillögutextanum sjálfum á bls. 3 í kafla sem ber yfirskriftina ,,Byggðaþróun og ferðaþjónusta``. Þar er ein aðgerðin sem vísað er til að ,,varðveita sögulegar minjar í landinu og gera ferðafólki kleift að kynnast menningu og atvinnuháttum að fornu og nýju``. Um þetta efni er síðan rætt nánar á bls. 12 í tillögutextanum með svofelldum orðum:
    ,,Atvinnulíf til lands og sjávar hefur aðdráttarafl fyrir ferðamenn og með samvinnu við það má skapa framboð á viðfangsefnum fyrir ferðafólk. Dæmi um það er þátttaka ferðamanna í dagróðrum eða lengri veiðiferðum eða ígrip í landbúnaðarstörf. Sveitarstjórnir og ferðamálanefndir á þeirra vegum geta haft milligöngu um slíkt framboð og félög áhugamanna á ýmsum sviðum geta lagt sitt af mörkum.``
    Þetta nefni ég til að vísa til þess að einnig er á þessu máli tekið í tillögugreininni sjálfri og í grg.
    Það eru ágæt dæmi sem eru vegvísandi í þessum efnum. Það er fyrirtæki í fiskvinnslu á Ísafirði, Íshúsfélag Ísfirðinga. Það fyrirtæki hefur einmitt greitt götu ferðamanna og unnið með ferðamálaaðilum á Ísafirði með því að skapa skilyrði fyrir ferðafólk að heimsækja fyrirtækið án þess að valda þar röskun á starfseminni með átroðslu og slíku. Og það eru einmitt svona dæmi sem geta hjálpað okkur á leið í sambandi við að tengja saman ferðaþjónustuna og atvinnulífið, raunar báðum aðilum til hagsbóta því að auðvitað skiptir það máli að þeir sem okkur sækja heim fái vissu um það að við stöndum vel að okkar útflutningsiðnaði t.d. og frystiiðnaðurinn er þar dæmi þannig að þetta tengist um leið markaðsöflun fyrir okkar útflutningsafurðir og við skulum vona að vel sé að staðið og til fyrirmyndar þannig að það verði til framdráttar.
    Í þessari till. er víða vikið að umhverfisverndinni og enn frekar mun það koma fram í væntanlegu frv. þar sem tekið er sérstaklega á þeim málum að styrkja þann þátt í tengslum við ferðaþjónustuna og þar þarf að leggja nokkuð af mörkum af opinberri hálfu. En vegna þess sem hér hefur komið fram um nauðsynina á fjármögnun, þá er það eins og hv. 2. þm. Vesturl. vék að í skilmerkilegu máli hér áðan, að það er ekki verið að gera ráð fyrir ríkisforsjá í þessari atvinnugrein eða að farið verði að verja stórum upphæðum til fyrirtækja í greininni. Þvert á móti er það meginhugsun þessara tillagna að ferðaþjónustan megi ná þannig stöðu að hún verði arðgæf á heildina litið og það verði einstaklingar og félög einstaklinga, það verði fyrirtæki í landinu sem byggi upp ferðaþjónustuna,
en jafnnauðsynlegt er það að af opinberri hálfu verði henni sköpuð starfsskilyrði eins og öðru því atvinnulífi sem byggt hefur verið upp og við þurfum á að halda.
    Ég ætla, virðulegur forseti, ekki að lengja mál mitt. Ég talaði við umræðu í fyrravetur þegar málið var lagt fram hið fyrra sinn og get vísað til þess. Ég ítreka þakkir til þeirra sem tekið hafa jákvætt undir það mál sem hér liggur fyrir og til samgrn. sem leitaðist við að búa okkur sem að þessu unnum sæmilegar aðstæður til að vinna að þessu verki. Alveg sérstaklega

var ánægjulegt hve góð samstaða tókst um þetta á milli þeirra fulltrúa sem sumpart voru tengdir stjórnmálaflokkunum að koma þessu verki áfram og leggja það fyrir þingið í þeim búningi sem ráðherra hefur valið, að taka tillögur nefndarinnar eins og hún skilaði þeim af sér.
    Ég held að þetta sé rétt röð á málum að almenn stefna sé mótuð eins og hér liggur fyrir og síðan fjalli þingið um löggjöfina, lagabætur í sambandi við ferðaþjónustu, eins og væntanlega verður hér á vettvangi þingdeilda innan skamms.