Fræðsla í fjármálaumsýslu í skólum
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil, eins og fleiri sem hér hafa stigið í pontu, þakka fyrir þessa þáltill. og lýsa því yfir að hún er bæði tímabær og þörf. Ég vil nú samt, eins og fleiri hafa gert hér, gera það aðeins að umræðuefni hvort þessi tillaga er nógu víðtæk en ég er hrædd um að það sem ég hef um það að segja sé ekki alveg í takt við það sem ýmsir hafa sagt hér á undan, þ.e. um nauðsyn þess að taka upp kennslu í þjóðhagfræði í öllum skólum. Ekki mundi ég svo sem beita mér gegn því þó að slík tillaga kæmi fram. En það er ýmislegt annað sem mér finnst tengjast þessum málum sem ætti að koma fyrst.
    Aftur á móti hefur nú hver af öðrum lýst yfir að nauðsyn sé á því að sem flestir nemi þjóðhagfræði. Ég hélt að síst væri skortur á slíku fólki hér inni á Alþingi og þess vegna ætti einmitt þeirrar menntunar að gæta mjög mikið hér. Ég er ekki viss um að það sé rétt að beina athyglinni svona mikið að þessari hlið stjórnmála. Það verður að vísu að segjast eins og er að þetta er sú hlið sem þingmenn ganga mjög hart fram í að beina athyglinni að. Efnahagsmoldviðrinu er þyrlað upp alveg stanslaust og kannski dimmir þá svo fyrir augum að það vefst fyrir mörgum að skilja að pólitík snýst um margt annað en efnahagsmál. Þau eru auðvitað nauðsynlegur grunnur sem annað byggist á, en m.a. má merkja það hér í þingsölum að fjölmargir alþingismenn virðast álíta að stjórnmál snúist ekki um neitt nema efnahagsmál. Væri betur ef sumir þeirra færu á námskeið í ýmsu öðru sem tengdist meira mannlegu lífi og aðstæðum fólks.
    Það kann vel að vera að visst samhengi sé milli þessarar áherslu á efnahagsmál og sífells tals um peninga og aftur peninga, að það sé viss tenging milli þess og einmitt þess að fólk eyðir um efni fram. Það má með nokkrum rétti segja að trúarbrögð nútímans séu hlutir og peningar, þ.e. efnaleg verðmæti. Og undir þá skoðun ýtir stjórnmálaumræðan svo sannarlega. Það er von að fólk haldi að það sé mælikvarði, bæði á hvernig því vegnar í lífinu og hvernig því líður, hvað það hleður í kringum sig af munum. Það er því ekki víst að gjaldþrot og ýmis önnur óhamingja sem af fjárskorti eða umframeyðslu leiðir sé endilega vegna kunnáttuleysis heldur er þetta kannski fyrst og fremst gildismat. Neyslusamfélagið byggir á því að ýta undir sem allra mesta neyslu sem allra flestra. Hvernig á þá fólk, t.d. ungt fólk sem hefur alist upp við þetta sjónarmið, mjög breytt verðmætamat, allt í einu að spyrna við fótum og staldra við og hugsa: Nú, er bara allt sem mér hefur verið sagt, allt sem mér hefur verið kennt, er það bara vitleysa? Á ég ekki að eyða svona miklu? Er ekki hamingjan fólgin í því að kaupa mér allt? T.d. þessi stefna sem rekin hefur verið hér í húsnæðismálum að það sé blátt áfram nauðsyn hverjum og einum að eiga sitt húsnæði. Manni skilst að það sé bara lykillinn að lífshamingjunni og rekur fólk kannski ótímabært út í að afla sér húsnæðis, enda má líka segja að það sé ekki mikið úrval á leigumarkaði. En það er örugglega orsakasamhengi á

milli þeirrar hugmyndafræði sem haldið er að ungu fólki og t.d. þessara gjaldþrota.
Þetta er ekkert út í bláinn, það er ekki tilviljun að gjaldþrotum fjölgar svona mikið og að ungt fólk er svona fjölmennt í hópi þeirra sem verða gjaldþrota. Og það virðist ekki vera vegna þess að það sé verið að stofnsetja fyrirtæki eða annað slíkt heldur einfaldlega vegna annaðhvort húsnæðiskaupa eða neyslu. Það eru nefnilega skuggahliðar á neysluþjóðfélaginu. Það er ekki bara neyslugleðin ein, það hefur svo sannarlega ýmsar afleiðingar, ekki bara efnalegar heldur andlegar líka sem miklu minna er hirt um.
    Hæstv. viðskrh. sagði að nú hefðu náðst tök á verðbólgunni og það væri til marks um hvað fjármálastjórn væri góð. Hann er nú menntaður maður í þessum fræðum og ætti að hafa vit einmitt á þeirri hlið mála og efa ég ekki vit hans þar, en það er athyglisvert að þessum árangri er alltaf lýst einungis sem björtum, þ.e. honum er lýst fyrst og fremst út frá, mér liggur við að segja sjónarhóli verðbólgunnar, verðbólguhólnum. Minna er hirt um það hvernig almennt launafólk og ég tala nú ekki um þá sem skipa lægstu flokka hafa farið út úr þessari svokölluðu þjóðarsátt og á hvers kostnað hún er gerð. Þannig að það er nú ekki bara birtan ein sem ríkir í þeim málum. Það getur vel verið að margir hefðu gott af því að fara á þjóðhagfræðinámskeið en ýmsir, bæði stjórnmálamenn og aðrir, hefðu líka gott af að fara á annars konar námskeið. T.d. dettur manni í hug að námskeið í siðfræði gæti verið hollt námsefni fyrir ýmsa bæði innan þessara veggja og utan því þar virðist oft vera mikill skortur á, einmitt þegar kemur að ákvörðunum og ýmissi hegðun t.d. stjórnmálamanna.
    En svo við snúum okkur aftur að þessari till., sem í sjálfu sér er mjög góð og ég vil strax lýsa stuðningi við, þá langar mig samt að ræða ýmislegt annað í þessum efnum sem hugsanlega mætti taka til greina og það er almenn fræðsla fyrir ungt fólk um margt fleira sem lýtur að heimilishaldi heldur en fjárreiður. Það er nú einu sinni svo að fyrir flestum á að liggja með einum eða öðrum hætti að stofna til fjölskyldu og það er náttúrlega ekki vansalaust að við skulum ekki uppfræða ungt fólk örlítið um hvernig að barnauppeldi skuli staðið, í næringarfræði og ýmsu öðru sem lýtur að heimilishaldi. Auk þess eru líka hlutir sem ég vil nefna hér, eins og upplýsingar um fasteignir, skráningu fasteigna. Það er t.d. athyglisvert að ákaflega fáar konur virðast vita það að þær eiga ekki fasteignir sem menn þeirra eru skráðir fyrir, að þær eiga þær ekki í raun, fyrr en kemur til skilnaðar. Mörg konan hefur farið illa út úr því að vita ekki sinn rétt í þeim málum. Þess vegna væri það eitt af því sem þyrfti að brýna fyrir ungu fólki, að huga að því t.d. að báðir aðilar séu skráðir fyrir fasteignum sem báðir sannanlega leggja fé af mörkum til að afla. (Forseti hringir.)
    Já, tími minn er útrunninn en ég hefði aðeins viljað minnast hér á þá sem skrifa upp á annarra manna skuldir og hvernig stendur á því að bankinn skuli ekki vera ábyrgur í því heldur alltaf einstaklingar. Það má

þá spyrja hvort bankar landsins beri ekki ábyrgð í sínum viðskiptum, hvort þeir séu að varpa þeirri ábyrgð yfir á einstaklinga. En ekki ætla ég nú að reyna meira á þolinmæði forseta og læt þessu lokið.