Sérprentun á húsnæðislögunum
Mánudaginn 26. nóvember 1990


     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Það kann að vera álitamál hvort erindi mitt hingað heyri beinlínis undir liðinn þingsköp. Nær væri kannski að kalla þetta þingglöp eða alla vega er um að ræða afglöp framkvæmdarvaldsins, í þessu tilfelli félmrn., við afgreiðslu lagafrv. sem þingið hefur samþykkt og gengið frá.
    Mér var að berast í hendur, virðulegi forseti, sérprentun á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins sem út hafa verið gefin í samræmi við ákvörðun Alþingis á síðasta vori og felld saman í ein lög, áður gildandi lög með þeim breytingum sem Alþingi hefur gert. Hins vegar segir hér, með leyfi forseta, í neðanmálsgrein í þessari sérprentun á bls. 24, þar sem vitnað er til 100. gr. laganna, eftirfarandi:
    ,,Í yy - lið 3. gr. laga nr. 70/1990 er ranglega vísað í 2. mgr. 102. gr.``
    En í textanum sjálfum hefur þessari tilvitnun í 2. mgr. 102. gr. verið breytt og þar stendur nú í hornklofa: ,,101. gr.``
    Nú er það svo, virðulegi forseti, að vitaskuld er heimilt að leiðrétta augljós pennaglöp eða vélritunarvillur sem verða við meðferð eða frágang mála hér á Alþingi og ég hygg að fræðimenn á þessu sviði telji slíkt ekki fara í bága við þær reglur sem um þessi efni gilda. En það er að sjálfsögðu óheimilt, ámælisvert og aðfinnsluvert þegar eitt af ráðuneytunum tekur það upp hjá sjálfu sér að breyta með þessum hætti ákvörðunum Alþingis vegna þess að hér er ekki um neina augljósa pennavillu að ræða. Tilvitnunin í þessari grein varðar ákveðna reiknireglu og snertir kaupskyldu húsnæðisnefnda á íbúðum sem fólk í þessu húsnæði vill selja. En hins vegar er sú tilvitnun, sem er í lögunum eins og þau voru afgreidd á Alþingi, í aðra reiknireglu þannig að það er alls ekki augljóst að þarna hafi orðið mistök.
    Ég hygg að vísu að það hafi hvorki verið ætlun ráðuneytisins né löggjafans hér á síðasta vori að gera breytingu frá því sem áður var í þessu efni. Sú breyting var eigi að síður gerð og er auðvitað til marks um það hversu illa var staðið að afgreiðslu þessa máls á síðasta vori og hversu þetta frv., sem nú er lög nr. 70/1990, var illa undirbúið. Þessi breyting var gerð og hún verður auðvitað ekki aftur tekin nema með lögum. Félmrn. hefur ekki leyfi til þess að gefa út í sérprentun aðra útgáfu á lögum frá Alþingi en þá sem Alþingi hefur sjálft samþykkt. Og ég mælist til þess við hæstv. forseta að hann hlutist til um að á þessu verði gerð breyting og sú bragarbót --- til að mynda í tengslum við eitthvað af þeim frumvörpum sem hæstv. félmrh. er hér að flytja í þinginu og ætla má að verði að lögum --- að þessari tilvísun verði breytt með lögum.
    Það kann vel að vera að sumum finnist að svona sérprentun sé ekki merkilegt plagg. Hún hefur ekki sama lagagildi og Stjórnartíðindin og að því leyti til má líkja henni við handbók til notkunar fyrir þá sem við þessi verkefni vinna. Ef farið yrði í mál út af þessu, þá mundi auðvitað útgáfan í Stjórnartíðindum

gilda. En þetta er plagg sem er ætlað til nota fyrir þá sem við þessi mál starfa og það er auðvitað gersamlega ólíðandi að ráðuneytið skuli taka það upp hjá sjálfu sér að breyta lagatextanum í þessu efni þegar ekki er augljóst að um pennaglöp eða einfaldar vélritunarvillur hefur verið að ræða. Og ég beini því til forseta að hann hlutist til um að hér verði kippt í taumana og þessum málum breytt þannig að Alþingi hafi sóma af þessari meðferð.