Sérprentun á húsnæðislögunum
Mánudaginn 26. nóvember 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég vil þakka frummælanda fyrir þær upplýsingar sem hann kom með hér og jafnframt forseta fyrir að hafa tekið á því máli eins og eðlilegt hlýtur að teljast. Hins vegar hafa fleiri fréttir komið hér og sumar hljóta að vera sérprentaðar, því að sú stjórnarskrá sem ég hef lesið minnist hvergi á það sem stjórnarskráratriði að kjósa skuli í apríl. Ég veit ekki hvar sú sérprentun hefur farið fram. En ég vona að forseti upplýsi það því að við þurfum að sjálfsögðu annaðhvort að eignast eintak af þeirri sérprentun eða þá að fara í það að leita okkur leiða hjá okkur fróðari mönnum hvar hægt sé að fá þetta staðfest.