Flm. (Stefán Valgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Mér kom á óvart þessi ræða hæstv. forseta Nd. Það er ekki verið að tala um neinn úrskurð. Hvar er í till. talað um úrskurð? Getur umboðsmaður Alþingis í sjálfu sér kveðið nokkurn tíma upp úrskurð? Hefur hæstv. forseti Nd. virkilega ekki lesið till.? Það er ekki um úrskurð að ræða. Það er álitsgerð sem er beðið um. Ef vinnubrögðin hefðu verið eðlileg hér á hv. Alþingi og forsetar væru sammála um að þetta væri óeðlileg tillaga, þá væri þetta röng meðferð, þá hefði átt að leggja það fyrir þingið hvort leyfa ætti þessa þáltill.
    Ég tel það óviðeigandi vinnubrögð að nefndin skuli ekki fá að fjalla um málið og gera þá sínar ráðstafanir í því, leita álits ef henni sýndist svo. Hér virðist vera nokkurs konar salómonsdómur forseta þingsins um málsmeðferðina og er auðvitað vegna þess að það má alls ekki skoða þetta mál. En hvernig mundi þeim svo líða sem vilja ekki láta kanna málið, ekki einu sinni í nefnd, ef dómsniðurstaða yrði sú að þrátt fyrir ábendingar, þrátt fyrir umræður, þrátt fyrir allt það klúðursmál sem hér er til umræðu, að þeir hafi samþykkt þessi lög.
    Ég beini því enn til hæstv. forseta Sþ. að hún dragi sína tillögu til baka en það stendur ekki til að ég geri það, það stendur ekki til. Ég vil fá þennan úrskurð. Málið er erfitt. Þetta er klúðursmál og ég vil ekki greiða atkvæði þannig að hægt sé að segja þegar fram líða stundir að ég hafi greitt atkvæði, jafnvel vitandi vits, um að það orki tvímælis hvort þessi lög standist stjórnarskrána.