Jarðalög
Þriðjudaginn 27. nóvember 1990


     Flm. (Geir H. Haarde) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. sem við hv. 1. þm. Reykv. flytjum um breytingu á jarðalögum, sem eru lög nr. 65/1976, með síðari breytingum. Menn sem hafa langa reynslu hér í þingsölum muna eflaust eftir því þegar þessi lög voru samþykkt á vorþinginu 1976 en þá voru harðar deilur um þetta efni. Fór þá fremst í flokki þeirra sem lýstu andstöðu við frv. hv. núv. 3. þm. Reykv., Ragnhildur Helgadóttir.
    Við sem flytjum þetta frv. leggjum til í því tvenns konar meginbreytingar á núgildandi jarðalögum. Annars vegar er lagt til að úr lögunum falli brott ákvæði sem gera mönnum að skyldu að leita heimildar og samþykkis sveitarstjórnar og jarðanefndar í viðkomandi sýslu, vilji þeir selja eða ráðstafa að öðru leyti jörðum sínum eða fasteignaréttindum utan skipulagðra þéttbýlissvæða. Þetta er önnur meginbreytingin. Hin er sú að lagt er til í frv. að niður falli forkaupsréttur sveitarfélaga við sölu fasteignaréttinda, þ.e. þau ákvæði að sveitarfélag geti gengið inn í hæsta boð, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, og leyst til sín þá jörð eða eign sem eigandi vill selja.
    Hér er um að ræða tvenns konar meginbreytingar. Þær eru óskyldar að því leyti til að það má hugsa sér að samþykkja aðra efnisbreytinguna án þess að hin fylgi með. Þannig væri hugsanlegt að fella niður núgildandi ákvæði um að leita þurfi samþykkis sveitarstjórnar og jarðanefndar án þess að fella niður samtímis ákvæði um forkaupsrétt sveitarfélaga og öfugt. Það er hins vegar brugðið á það ráð í þessu frv. að leggja til að hvort tveggja falli brott, enda telja flm. að bæði þessi ákvæði setji óeðlilegar hömlur á ráðstöfunarrétt manna yfir eignum sínum.
    Allir vita að í 67. gr. stjórnarskrárinnar er sérstakt ákvæði um það að eignarrétturinn sé friðhelgur og engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefjist, auk þess sem til þess þarf lagafyrirmæli og fullt verð verður að koma fyrir. Það er skoðun flm. að þetta stjórnarskrárákvæði verndi þá meginreglu að mönnum sé frjálst að ráðstafa eignum sínum, þar með talið jörðum, sem þeir telja sjálfir heppilegast, enda fari það ekki í bága við svokallaða almenningsþörf. Við teljum að sú kvöð að þurfa að afla samþykkis sveitarstjórnar og sérstakrar jarðanefndar, sem koma þar fram sem fulltrúar nágrannanna, sé óeðlileg hindrun í vegi fyrir því að menn fái neytt þess sjálfsagða réttar að ráðstafa eign sinni að eigin vild í þeim tilgangi að fá fyrir hana sannvirði. Og við teljum að þessi ákvæði séu líkleg til þess að koma frekar í veg fyrir það en hitt að menn geti fengið fullt verð fyrir eignir sínar og það dragi úr því að menn freisti þess að fá keyptar jarðir og séu með ýmsum hætti hindrun í vegi fyrir eðlilegum viðskiptum með fasteignaréttindi utan skipulagðra þéttbýlissvæða.
    Við teljum jafnframt að þær hindranir sem eru í núgildandi jarðalögum séu þeim mun óeðlilegri þegar þess er gætt að engar áþreifanlegar viðmiðanir er við að styðjast þegar sveitarstjórn eða jarðanefnd leggur mat á það hvort samþykkja skuli fyrirhugaða ráðstöfun á fasteign. Ég kalla það ekki áþreifanlega viðmiðun sem stendur í 2. mgr. 6. gr. jarðalaganna í dag, að sveitarstjórn eða jarðanefnd geti meinað samþykkis eða hafnað kaupsamningi ef hún telji það, eins og það er orðað í texta gildandi laga, ,,andstætt hagsmunum sveitarfélagsins``. Við teljum mjög hæpið að heimila stjórnvaldi svo mikil afskipti af ráðstöfun manna á eigum sínum án þess að kveðið sé nánar á um efnisskilyrði þess að til afskipta megi koma. Og það er rétt að benda á í því sambandi að sveitarstjórn, ef hún telur óhjákvæmilegt að leysa til sín jörð eða önnur réttindi vegna sérstakra aðstæðna, hefur auðvitað heimild til þess, á grundvelli þess stjórnarskrárákvæðis sem ég nefndi, 67. gr., þegar almenningsþörf svokölluð knýr á um slíka ráðstöfun, þegar um almenningsheill er að tefla. Um framkvæmd slíks eignarnáms, á grundvelli þessa ákvæðis, gilda sérstök lög, frá árinu 1973 að mig minnir, og auðvitað þarf svo í hverju tilviki, eins og stjórnarskrárákvæðið kveður á um, að afla sérstakrar lagaheimildar fyrir hverri ráðstöfun. Ég tel reyndar að þessar heimildir nægi sveitarfélögum til þess að gæta hagsmuna sinna, sem vissulega geta verið fyrir hendi og eru oft fyrir hendi, auk þess sem heimildir í skipulagslögum gera sveitarfélögum kleift að ráða því nokkuð hvernig með land innan þeirra lögsögu er farið.
    Ég tel, virðulegi forseti, að það megi líkja núgildandi lagaákvæðum við það að eigendum íbúða í fjölbýlishúsum yrði gert að skyldu að leita samþykkis húsfélags eða annarra nágranna fyrir sölu íbúða sinna. Og raunar jafnframt að húsfélagið hefði forkaupsrétt og gæti krafist mats á því hvort fyrirhugað söluverð væri það sem kallað er ,,óeðlilega hátt`` og síðan fengið lán úr opinberum sjóði til að kaupa eignina sem það mætti svo ráðstafa að vild og jafnvel endurselja á nýjan leik. En forkaupsréttarákvæði jarðalaganna, einkum 30., 34. og 41. gr., eru að dómi okkar flm. einmitt þessa eðlis. Þar er kveðið á um það að það sé hægt að óska eftir sérstöku mati, líki sveitarstjórn, sem hyggst nýta sér forkaupsrétt, ekki umsamið verð. Og þar er jafnframt kveðið á um það að Jarðasjóður megi veita lán til þess að gera sveitarstjórninni kleift að hagnýta sér forkaupsrétt sinn.
    Ég tel þessi forkaupsréttarákvæði í jarðalögunum ekki eðlileg, í það minnsta finnst mér vanta mjög á að fyrir þeim séu haldbær rök. Þau eru vissulega mjög óskyld samningsbundnum forkaupsrétti sem þekkist víða í viðskiptum, til að mynda fasteignaviðskiptum í þéttbýli, til að mynda í viðskiptum með hlutabréf þar sem fyrri hluthafar geta fengið forkaupsrétt að bréfum sem út kunna að vera gefin, ef samþykktir viðkomandi hlutafélags kveða á um slíkt. En samningsbundinn forkaupsréttur er sem sagt að mínum dómi allt annað og miklu eðlilegra fyrirbæri en þessi lagaákvæði
og þeim væri að sjálfsögðu hægt að koma miklu víðar við. Væri lögunum breytt væri að sjálfsögðu hægt að áskilja með samningsbundnum hætti forkaupsrétt í ýmsum tilvikum þar sem slíkt er ekki gert í dag og

menn e.t.v. reiða sig á þessi ákvæði jarðalaganna.
    Ég lét þess getið fyrr í ræðu minni, virðulegi forseti, að þessi ákvæði um samþykki sveitarstjórnar og jarðanefndar, svo og um forkaupsrétt sveitarfélaga, drægju úr áhuga manna á því að leita eftir kaupum á fasteignum til sveita og þar með úr líkum á því að seljendur slíkra eigna fái sannvirði fyrir þær. Þess má geta, án þess að ég telji ástæðu til þess að tíunda einhver slík dæmi, að það hefur vissulega komið til árekstra vegna þessara ákvæða og jafnvel dómsmála, þar sem menn telja að ákvæði jarðalaga hafi verið á sér brotin eða þeim hafi verið beitt með óeðlilegum hætti.
    Það liggur fyrir, virðulegi forseti, tvennt að mínum dómi hvað varðar framboð og eftirspurn á landi og jörðum til sveita. Í fyrsta lagi má gera ráð fyrir því að áhugi þéttbýlisbúa á aðstöðu fyrir orlofsdvöl og útivist fari vaxandi. Og það má benda á að stéttarfélög hafa í mjög ríkum mæli leitað eftir því að byggja upp sumardvalaraðstöðu úti á landi og sömuleiðis ýmsir einstaklingar og áhugamannafélög á hinum ólíkustu sviðum. Það má nefna skógrækt, hestamennsku, aðrar íþróttir o.s.frv. Og það má gera ráð fyrir því eftir því sem samgöngur fara batnandi hér í landi, vegir batna, og eftir því sem frítími almennings eykst, vonandi á komandi árum, þá eigi þessi áhugi eftir að vaxa og þar með eftirspurn eftir landi og jörðum til þessara nota. En á sama tíma er það að gerast, virðulegi forseti, að framleiðsla hefðbundinna búvara fer minnkandi og þeim fer fækkandi sem stunda hefðbundna landbúnaðarframleiðslu. Það er ekki ólíklegt að á næstu árum muni stefna í enn frekari fækkun vegna skipulagsbreytinga og breyttra aðstæðna á markaðinum fyrir þær vörur sem þarna eru framleiddar. Þess vegna er líklegt að þeim fari fjölgandi sem vilji koma jörðum sínum í verð vegna þessara aðstæðna.
    Ég tel eðlilegt að greiða fyrir markaðsviðskiptum á milli manna sem annars vegar vilja bregða búi og selja slíkar eignir af fúsum og frjálsum vilja og hins vegar þeirra sem festa vilja á þeim kaup til að koma sér þar upp útivistar - eða orlofsaðstöðu. En það liggur í eðli málsins og eðli ákvæða gildandi jarðalaga að þau verka hamlandi á slík viðskipti þótt þau hafi ekki stöðvað þau alveg. Það dregur úr mönnum að þurfa að leita samþykkis sveitarstjórnar og jarðanefndar og vita að sveitarstjórn getur neytt forkaupsréttar þegar þeir eru að leita sér að landi, en það verður ekki til þess að allir hætti við.
    Jafnframt eru þessar tálmanir þess eðlis, að mínum dómi, eins og allar hömlur á ráðstöfun eigna, að þær bitna helst á þeim sem eiga viðkomandi eignir. Þær draga í þessu tilfelli úr líkunum á því að seljendur jarða fái sannvirði fyrir sínar eignir. En það er einmitt eitt af því sem er skráður tilgangur jarðalaga, í 1. gr. gildandi laga, að tryggja að eignarráð á landi séu í samræmi við hagsmuni ,,þeirra sem landbúnað stunda``, eins og það er orðað. Ég tel þvert á móti að það sé ekki í samræmi við hagsmuni þeirra sem landbúnað hafa stundað ef þeir vilja bregða búi sínu að hamla gegn því að þeir fái sannvirði fyrir sínar jarðir. Þvert á móti.
    Þá má gjarnan koma hér fram, virðulegi forseti, að í stjórnarsáttmála, eða réttara sagt starfsáætlun, ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar var sérstakt ákvæði um að endurskoða ætti jarðalögin í því augnamiði að auðvelda eigendaskipti á bújörðum. Þeirri ríkisstjórn vannst ekki tími til að ljúka því máli og hefur ekki af því spurst síðan í tíð þeirra ríkisstjórna sem hér hafa setið frá árinu 1988. Mér er ekki kunnugt um hvort núv. ríkisstjórn hyggst beita sér fyrir einhverjum breytingum á þessum lögum.
    Ég hyggst nú skýra í örstuttu máli, virðulegi forseti, einstakar greinar þessa frv. þó að það sé vandlega gert í grg. með frv.
    1. gr. frv. gerir ráð fyrir nokkurri breytingu á hinni stefnumótandi grein laganna þar sem markmiðum þeirra er lýst. Þar er gert ráð fyrir því að í stað orðanna ,,eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra sem landbúnað stunda`` komi: ,,eigendaskipti á landi og bújörðum geti gengið auðveldlega fyrir sig``. Og með þessari brtt. er lögð áhersla á það meginmarkmið frv. að auðvelda frá því sem verið hefur viðskipti með land og jarðir og tryggja þannig betur hagsmuni þeirra sem slíkar fasteignir eiga, svo og þeirra sem þær vilja eignast. Greinin hljóðar í gildandi lögum svo, með leyfi forseta:
    ,,Tilgangur laga þessara er að tryggja að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og að eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra sem landbúnað stunda.``
    Það er sem sagt lagt til í 1. gr. frv. að síðara hluta þessarar mgr. verði breytt. Brtt. snertir ekki þessar tvær meginefnisbreytingar sem ég hef lýst, en er hins vegar í fullu samræmi við þær og þann megintilgang sem er með þessu frv. Þess vegna tel ég eðlilegt að breyta markmiðsgrein laganna með þessum hætti og því er það lagt til.
    Hins vegar er í 2. gr. frv., sem kveður á um breytingar á 6. gr. laganna, komið að fyrri meginefnisbreytingu þeirri sem lagt er til að gerð verði á gildandi lögum. Í 2. gr. frv. er sem sé lagt til að brott falli sú skylda að afla samþykkis sveitarstjórnar og jarðanefndar til ráðstöfunar á fasteignaréttindum. En eftir sem áður helst, skv. frv., sú skylda að tilkynna þessum aðilum um slíka ráðstöfun. Aðrar breytingar í þessari grein leiða beint af þessari meginbreytingu.
    Sama er að segja um 3. gr. frv. Þar er lagt til að 7., 8. og 9. gr. gildandi laga falli brott og er það í beinu samræmi við það sem lagt er til í 2. gr. frv.
    4. gr. frv. snertir 12. gr. gildandi laga, en 1. mgr. hennar er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Land sem við gildistöku laga þessara er nýtt til landbúnaðar má ekki taka til annarra nota, nema heimild sé til slíks í lögum. Að öðrum kosti þarf samþykki ráðherra, enda hafi það áður verið samþykkt af jarðanefnd.``
    Síðan koma nánari ákvæði um þetta og í 13. gr. núgildandi laga eru ákvæði um það, og reyndar í 12.

gr., að eigi megi skipta landi jarða og sameiginlegu landi jarða. Í 13. gr. eru nánari ákvæði um það og hvernig unnt sé að sameina jarðir sem hafi verið skipt. Í 4. gr. frv. er lagt til að þessar greinar báðar falli brott. Það er talið af hálfu flm. vera í eðlilegu samræmi við önnur ákvæði og meginstefnu frv. Þetta er hins vegar ekki hluti af þeim stóru meginbreytingum sem ég hef áður rakið.
    Að því er varðar 5. gr. frv., en hún tekur til 18. gr. gildandi laga, þá er lagt til í 5. gr. að brott falli refsiákvæði þau sem í gildi eru í jarðalögunum, en þau er að finna í 18. gr. þeirra. Þar er að finna ákvæði um refsingar og fleira sé fasteign ráðstafað andstætt fyrirmælum laganna. Þar sem frv. að öðru leyti gerir ráð fyrir því að ákvæði sem áskilja samþykki við ráðstöfun fasteignaréttinda falli brott, þá er ekki ástæða til þess að hafa í lögunum áfram sérstök refsiákvæði.
    6. gr. frv. snertir aftur á móti þá meginbreytingu að brott falli ákvæði í 30. gr. núgildandi laga um forkaupsrétt sveitarfélags. Þarna er sem sagt komin hin meginbreytingin sem er að finna í þessu frv. Það er í 6. gr. frv., sem tekur til 30. gr. laganna, en hún gerir eigi að síður ráð fyrir því að áfram haldi gildi sínu forkaupsréttarákvæði gagnvart leiguliða sem setið hafi jörð í tíu ár eða lengur og gerir ráð fyrir að hann skuli áfram hafa forkaupsrétt að jörðinni, enda taki hann hana til ábúðar og fullra nytja.
    7. gr. frv. er í beinu framhaldi af hinni 6. Þar er gert ráð fyrir því að brott falli allt sem varðar forkaupsrétt sveitarfélags, en hins vegar bætt inn í ákvæðum um hvernig með skuli fara forkaupsrétt leiguliða. Það er einmitt athyglisvert í gildandi lögum að þar eru ítarleg ákvæði um hvernig sveitarfélag skuli standa að því að hagnýta sér sinn forkaupsrétt en ekkert um það hvernig leiguliðinn eigi að fara að vilji hann hagnýta sér forkaupsrétt. Úr þessu er bætt í frumvarpsgreininni.
    Kem ég þá að 8. gr. frv., virðulegi forseti. Þar er um það að ræða hvort og við hvaða aðstæður og með hvaða skilyrðum forkaupsréttarhafi geti leitað eftir mati dómkvaddra manna á eign sem honum er boðið að neyta forkaupsréttar að. Það er sem sé gert ráð fyrir því í þessu frv. að slík ákvæði mundu þá eingöngu ná til leiguliðans en ekki sveitarfélagsins. Núgildandi orðalag þessa ákvæðis er að dómi flm. vafasamt og býður heim geðþóttakenndu mati á þeim aðstæðum sem kunna að vera fyrir hendi, án þess að flm. vilji fullyrða neitt um að misfarið hafi verið með þessar heimildir. En það er gert ráð fyrir breyttu orðalagi þannig að alveg skýrt sé að forkaupsréttarhafi verði að sanna að kaupverð eða aðrir skilmálar hafi verið ranglega tilgreindir þegar honum var boðið að neyta forkaupsréttar og það hafi verið gert í því skyni að koma í veg fyrir að hann neyti þess réttar síns. Um þetta mundu þá gilda venjulegar sönnunarreglur íslenskra laga.
    Í gildandi orðalagi laganna er, eins og ég sagði áðan, boðið heim meiri óvissu en eðlilegt má teljast. Þar er til að mynda talað um ,,óeðlilega hátt`` kaupverð. Hvernig á að meta það? Þar er talað um ,,ósanngjarna skilmála``. Hvernig á að meta þá? Og þar er notað orðalagið: ,,Ætla má að það sé gert í því skyni að halda forkaupsréttarhafa frá því að neyta réttar síns`` o.s.frv. Við flm. teljum eðlilegt að kveða skýrt á um þessa hluti, en bjóða ekki heim geðþóttakenndu mati á þessum aðstæðum, sem ekki er við hæfi hvorki í þessum viðskiptum né öðrum.
    Í þessu sambandi má hafa í huga að seljandi jarðar gæti hafa náð hagstæðum samningum um að selja jörð sína miðað við aðrar þekktar jarðasölur, án þess að það sé neitt óeðlilegt eða ósanngjarnt við það. Og ef forkaupsréttarhafi getur knúið fram kaup til sín á lægra verði en um hefur samist væri hann einfaldlega að leggja undir sig verðmæti í eigu seljanda bótalaust. Hins vegar er það auðvitað alveg skýrt að forkaupsréttarhafi á skýlausa kröfu á því að fá réttar upplýsingar um verð og skilmála og geti hann fært sönnur á að hann hafi fengið rangar upplýsingar þá er eðlilegt að hann geti krafist mats óvilhallra aðila og hafi þá heimild til að ganga til kaups á matsverðinu.
    Í 9. gr. frv. er gert ráð fyrir breytingu á 35. gr. gildandi laga. Þar segir að hreppsnefnd eigi rétt á að fá keypt fasteignaréttindi við erfðir, þegar um er að ræða aðra erfingja en börn, barnabörn, kjörbörn, fósturbörn, systkini eða foreldra. Þetta telja flm. óeðlilegt ákvæði og réttast og eðlilegast að um þessar fasteignir, eins og aðrar, gildi sömu reglur gagnvart fjarskyldum erfingjum, eða öðrum þeim sem arfshlut kunna að eiga, hvort sem það er samkvæmt erfðaskrá eða samkvæmt erfðalögum að öðru leyti. Þetta er hins vegar ekki ein af meginbreytingunum í frv. heldur sérstök brtt. um að breyta ákvæði sem flm. telja óeðlilegt í þessum lögum.
    Að því er varðar 10. gr. frv. þá er um hana að segja að báðar breytingarnar sem þar eru leiða beint af ákvæðum 6. gr. frv. og lúta að forkaupsrétti sveitarfélaga. Sama er að segja um ákvæði 11. gr. þar sem kveðið er á um að Jarðasjóði sé heimilt að veita sveitarfélögum lán til þess að hagnýta sér forkaupsrétt
sinn á jörðum.
    Að því er varðar 12. gr. þá fjallar hún um kaup Jarðasjóðs á jörðum og varðar 42. gr. gildandi laga þar sem eru ákvæði um að semjist ekki milli Jarðasjóðs og seljanda þá geti hvor aðili um sig vísað málinu til mats hjá sérstakri nefnd sem starfar á vegum landbrn.
    Auðvitað er þarft og eðlilegt að slík nefnd sé starfandi en breytingin sem þetta frv. gerir ráð fyrir er sú að þangað verði málum ekki vísað nema með samkomulagi beggja aðila, þ.e. bæði Jarðasjóðs og seljanda jarðarinnar, þannig að annar hvor aðilinn geti ekki sett hinn í þá aðstöðu að vísa ágreiningi um verð til þessarar nefndar og gert hinum þar með að lúta slíkum úrskurði. Verðið getur verið ráðandi þáttur í því hvort viðskipti takast af þessum toga og í frjálsum viðskiptum er það samkomulagsatriði milli aðila og það er óeðlilegt að annar aðilinn geti knúið hinn til að samþykkja mat gegn vilja sínum. Hins vegar er auðvitað eðlilegt að aðilar geti í samkomulagi skotið

máli til slíkrar úrskurðarnefndar. Það er það sem frv. gerir ráð fyrir.
    Að því er varðar síðan 13. gr. frv. þá er um hana það eitt að segja að hún er bein afleiðing 6. gr. frv. þar sem fjallað er um forkaupsrétt sveitarfélaga og ástæðulaust að hafa um hana fleiri orð.
    14. gr. frv. skýrir sig sjálf.
    Ég hef nú lokið yfirferð minni um þetta mál, virðulegi forseti. Ég geri mér vel grein fyrir því að um þessi efni hafa menn skiptar skoðanir og við því er að sjálfsögðu ekki neitt að segja. Ég tel hins vegar þessi ákvæði í jarðalögum, sem hér hafa verið rakin flest hver, þess efnis að þau eigi ekki heima í Lagasafni Íslands, þau séu þess eðlis að þeim beri að breyta í þá veru sem þetta frv. gerir ráð fyrir. En ég vek athygli á því sem ég sagði í upphafi að innbyrðis eru þessi atriði ekki öll skyld þannig að það má hugsa sér að einhver af þeim nái fram að ganga án þess að þau geri það öll.
    Ég ætla ekki að lengja þetta, virðulegi forseti, en geri að sjálfsögðu tillögu um að málið fari til 2. umr. og nefndar. Ég hef hins vegar verið svolítið hugsi yfir því til hvaða nefndar ætti að vísa þessu máli. Í fljótu bragði virðist blasa við að þetta frv. eigi heima í landbn. deildarinnar og þar voru jarðalögin vissulega afgreidd á sínum tíma. Hins vegar er hér að mínum dómi um að ræða í aðalatriðum viss lögfræðileg prinsippatriði og álitamál sem eru fyrst og fremst þess eðlis en snerta ekki atvinnugreinina landbúnað sem slíkan. Þess vegna er það mín tillaga, virðulegi forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.