Fjáraukalög 1990
Fimmtudaginn 29. nóvember 1990


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Ég sný mér beint að efnisatriðum málsins.
    Í ræðu hæstv. ráðherra komu fram nokkur atriði sem ég tel ástæðu til að minnast örstutt á. Ég veit að það gefst tækifæri síðar til að ræða um sjálft jöfnunargjaldið því að fyrir þinginu liggja tvö frv. um það efni.
    Ég lét þess getið í minni ræðu að ég hefði einhvers staðar séð að lækka ætti jöfnunargjaldið á næsta ári og hafði skilið það svo að það yrði lækkað frá því sem áætlað hafði verið í fjárlagafrv. en það reyndist á misskilningi byggt. Það sem ruglaði mig var að aðstoðarmaður fjmrh. sagði í blaðaviðtali að jöfnunargjaldið yrði lækkað um 400 millj. á næsta ári. ( Gripið fram í: Frá því sem gefið er.) Einmitt eins og réttilega er kallað fram í þá átti að skilja það svo að það væri frá því sem það gæfi ríkissjóði í ár. Reyndar er þetta ekki alveg rétt og það er eðlilegt að ruglast á þessum tölum því að í fjárlagafrv. segir að jöfnunargjaldið gefi 960 millj. í ár en 700 millj. á næsta ári og mismunurinn er ekki 400 millj. heldur 260 millj. En auðvitað hefði verið réttast að orða það þannig að í fjárlögum yfirstandandi árs var gert ráð fyrir 500 millj. en í fjárlagafrv. fyrir næsta ár, sem væntanlega verður að lögum fyrir áramót, er gert ráð fyrir 700 millj. eða 200 millj. kr. hækkun á milli ára. Og hef ég þá gefið skýringu á því hvers vegna menn ruglast á þessu.
    Ég get heldur ekki fallist á það, virðulegi forseti, að því sé haldið fram að fyrri liður tillögu minnar sé óþarfur vegna þess að gert sé ráð fyrir hækkuninni í heildartekjuaukanum í því frv. sem hér er til umræðu, vegna þess að það verður að gera mun annars vegar á því þegar áætlun stenst ekki og hinu þegar nýjar ákvarðanir leiða til tekjuauka fyrir ríkissjóð. Ég legg áherslu á þetta vegna þess að aukningin á tekjunum varðandi jöfnunargjaldið byggðist á þeirri nýju ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja gjaldið ekki af á miðju ári eins og ráðgert hafði verið í upphafi. Þess vegna tel ég það skyldu að láta það sjást í fjáraukalögum að þessi nýja ákvörðun hafi leitt til aukinna og nýrra tekna.
    Ég heyrði að hæstv. ráðherra sagði að Reykjavíkurborg hefði ekki kvartað yfir því að enn hafi ekki verið samið á grundvelli sjöttugreinarheimildar sem heimilar hæstv. ráðherra að semja um greiðslur vegna verkefnaframkvæmda þar sem sveitarfélög hafa lagt út fjármuni sem ríkinu er síðan ætlað að greiða. Ég skil yfirlýsingar hans á þann veg að hann sé tilbúinn til samninga hvenær sem er og þegar Reykjavíkurborg, eða aðrir aðilar sem þarna eiga hlut að máli, en það eru sveitarfélög með fleiri íbúa en 10.000, fara fram á slíka samninga.
    Loks, virðulegur forseti, og það var nú kannski aðaltilgangur minn með því að fá að taka hér til máls sem ekki var gert af neinum öðrum hug en þeim að taka þátt í umræðunni um það dagskrármál sem hér er til umræðu, þá vildi ég láta þess getið að ég kallaði

tillögu mína aftur til 3. umr. og mun að sjálfsögðu leggja hana fram aftur þá því ég tel að ekki megi afgreiða þessa tillögu að hæstv. iðnrh. fjarstöddum en mér skilst að hann verði kominn til landsins þegar 3. umr. fer fram um fjáraukalög.
    Og að allra síðustu þá þykir mér leitt að fyrri hluti ræðu minnar skuli hafa leitt til þessara tafa á fundarstörfum okkar hér í dag.