Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vil láta það koma fram að ég afturkallaði beiðni mína úr sæti mínu áðan þegar ég hafði gefið forseta merki um að fá að tala um þingsköp. Ég afturkallaði þá beiðni undir ræðu hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur. Ég vildi að það kæmi fram vegna orða hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar.
    Ég vil svo aðeins segja það að ég held að allur þingheimur hljóti að hafa á því skilning að það var fullkomlega eðlilegt að sú mikilvæga yfirlýsing sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson flutti áðan yrði flutt í sameinuðu þingi, þannig að þær ákvarðanir og þær umræður sem fram hafa farið hér síðustu sólarhringana yrðu skýrari og allir gætu betur áttað sig á því hvernig málin liggja.