Stjórn fiskveiða
Mánudaginn 03. desember 1990


     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Kveikja að þessari umræðu varð til hjá Halldóri Blöndal fyrir nokkrum dögum þegar hann bað hér um orðið utan dagskrár til þess að ræða um störf sjútvn. Þau snerta mig að nokkru leyti þar sem ég er formaður þeirrar nefndar og vil þess vegna aðeins fara yfir hvernig að því máli var staðið.
    Staðreyndin í málinu er sú að sjútvrh. óskaði eftir því að koma á sameiginlegan fund sjútvn. beggja deilda þann 26. nóv. fyrir réttri viku síðan til þess að kynna þingnefndum, sjútvn. beggja deilda þingsins, þær reglugerðir sem meiningin er að gefa út vegna stjórnunar fiskveiða. Ég held að ég muni það rétt að það voru ein tvö atriði í reglugerðinni sem menn vildu sérstaklega láta athuga betur. Og staðreyndin er sú að þessi atriði voru bæði tekin inn og með þeim breytingum er reglugerðin gefin út.
    Það væri betri siður hér í þinginu að fleiri ráðherrar gerðu slíkt, að kynna þingmönnum og þingnefndum reglugerðir áður en þær væru gefnar út. En ég held að þetta sé eini ráðherrann sem það gerir. Ég kannast ekki við það í nokkurri einustu nefnd sem ég starfa í í þinginu að við fáum að líta reglugerðir áður en þær sjá dagsins ljós. Þess vegna ber vitaskuld að þakka sjútvrh. fyrir það að leyfa þingnefndum að fylgjast svo grannt með málum. ( HBl: Það er nú ekki hægt að beygja sig í duftið, held ég.) Þú þurftir nú að beygja þig hér fyrir nokkrum dögum, Halldór Blöndal, og þá hafði ég orð á því, hv. þm., að kraftaverk væru ekki hætt að gerast þegar þú sæir ástæðu til að koma upp í þennan ræðustól til þess að biðjast afsökunar. Það gerist ekki á hverjum degi, Halldór Blöndal. ( Gripið fram í: Það er sjaldgæft.) Menn þurfa að virða leikreglur og haga málum sínum á skikkanlegan hátt. ( HBl: Við skulum taka upp umræðu um það.) Já, við skulum spjalla. Við getum verið hér í nótt, okkur liggur ekkert á. ( KP: Á morgun líka.) Já, á morgun líka.
    Síðan var það að hv. þm., títtnefndur Halldór Blöndal, kom með offorsi til mín og sagðist krefjast þess að ég boðaði tafarlaust sjútvn. beggja deilda saman til fundar til þess að fjalla um einhver blöð sem hann hefði frétt að væru á sveimi norður í Grímsey. Ég sagði þingmanninum að það væri meira en sjálfsagt mál að boða til fundar í nefndinni og fundur var boðaður strax næsta morgun. Þangað mættu fulltrúar ráðuneytisins, Fiskifélags Íslands og fulltrúi frá Félagi smábátaeigenda. Þeir kynntu okkur nefndarmönnum þær útreikningsreglur sem þeir höfðu farið eftir. Það er rétt að það komi skýrt fram að þessir ágætu menn sem þarna voru sögðu að vitaskuld væru þeir tilbúnir til þess að fara yfir öll gögn málsins fyrir hvern einasta bát, rúmlega 2000 báta. Þeir voru tilbúnir að fara yfir þetta með okkur í herbergjum þingnefnda eða uppi í sjútvrn. sjálfu. Þetta buðu þessir ágætu menn.
    Það er hins vegar rétt að þeir voru ófáanlegir til þess að afhenda okkur þingmönnum þessi gögn vegna þess að hér var aðeins um vinnugögn að ræða. Því eins og stendur í reglugerðinni, sem gefin var út, hafa

allir aðilar rétt þangað til 15. þessa mánaðar til þess að gera athugasemdir við útsendar upplýsingar. Hér var því og er um vinnuplögg að ræða þannig að mér finnst menn hafa tekið nokkuð mikið upp í sig í þessum efnum. Mér finnst frekar ástæða til þess að þakka þó fyrir það hvað sjútvn. hefur komið að þessu máli frekar en hitt. Það má vitaskuld endalaust deila um það hversu mikið. Það er hins vegar ljóst að enginn, mér er ókunnugt um að nokkur nefndarmaður hafi beðið þessa heiðursmenn að sýna sér útreikninga, farið upp í ráðuneyti til þess að fara yfir gögnin. Mér er ókunnugt um að nokkur einasti þingmaður hafi farið. En mikið var þeim niðri fyrir hér. ( KP : Sumum.) Já, það er gaman að tala fyrir fjölmiðla fyrir suma menn.
    Ég verð einnig að segja það að mér finnst sú umræða vera býsna leiðigjörn sem snýr oft að hæstv. sjútvrh. að menn vilja gjarnan stilla honum upp hér sem einhverjum svörnum andstæðingi smábátaeigenda. Það er undarleg árátta það. Auðvitað er hún komin af vanþekkingu þessara manna sem um þessa hluti blaðra vegna þess að þeir nenna ekki að setja sig ofan í þessi mál. Staðreyndin er sú að sjútvrh. hafði forgöngu um það að Félag smábátaeigenda komst á laggirnar og studdi þá fyrstu sporin. Og nákvæmlega sama á við um stofnun hagsmunafélags fyrir hrefnuveiðimenn. Þetta eru staðreyndir í málunum. Þess vegna er það hart að þurfa ætíð að stilla ráðherra upp sem einhverjum sérstökum andstæðingi þessa hóps. Það er mikill misskilningur.
    Ég verð að segja það að mér finnst oft furðuleg umræða sem fer fram í hinu háa Alþingi um sjávarútvegsmál. Hún fer oft fram undir býsna einkennilegum kringumstæðum. Vissulega þurfum við að ræða hér um þessa atvinnugrein og ættum að gera það miklu meira en við gerum, þá atvinnugrein sem allt annað byggist á í þessu landi. En merkilegast er þó af öllu hvernig sjálfstæðismenn tala um stjórnun fiskveiða. Sá flokkur sem hafnar þjóðarsátt og telur sig engu varða þjóðarhag. Það hefðu einhvern tíma þótt tíðindi að Sjálfstfl. væri jafnstefnulaus flokkur í svo þýðingarmiklu máli sem stjórnun fiskveiða er. Að Sjálfstfl. er svo gersamlega slitinn frá frumatvinnuvegi þjóðarinnar að hvergi er að finna ákveðna né markaða stefnu í sjávarútvegi er mjög merkilegt út af fyrir sig. Ég held að kompásinn hjá íhaldinu sé bilaður og því er siglingin eftir því.
    Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson talaði hér áðan og ég hef margt við hans málflutning að athuga en ætla ekki að gera það hér í kvöld. Ég gerði það þegar við ræddum um frv. hans sl. vetur, en hann flutti þá frv. um stjórnun fiskveiða sem gekk í allt aðra átt en frv. sjútvrh. Ég held að ég muni það rétt, þingmaðurinn leiðréttir mig þá, ég minnist þess ekki að hann hafi fengið mikinn stuðning samþingmanna sinna í þessu máli. Ég var honum vissulega mjög ósammála. En það verður þó að virða að hann hafði þó skoðun á sjávarútvegsmálum. En það hefur verið svo fróðlegt að fylgjast með því hvernig komið er nú fyrir þessum annars mæta þingmanni. Athyglisvert er að þeir sem harðast gengu fram gegn þessum hv. þm. eru

einmitt þungavigtarmenn íhaldsins í sjávarútvegi, málpípur íhaldsins þar. Það eru mennirnir sem gengu harðast fram gegn hv. þm., þeim eina af öllu þingliði íhaldsins sem var þó með stefnu í sjávarútvegsmálum. Þetta hefðu einhvern tíma þótt tíðindi hjá Sjálfstfl. Hann má muna tímana tvenna.
    Hv. þm. Halldór Blöndal spurði: Hvað er hægt að gera fyrir ákveðna staði og nefndi, að mig minnir, bæði Grímsey og Bakkafjörð. Mér finnst nú eins og sumir þingmenn geri sér ekki grein fyrir því að ný lög um stjórnun fiskveiða taka gildi um næstu áramót. Mér finnst menn vera býsna fastir í þeim lögum sem við vinnum nú eftir. En í nýjum lögum um stjórnun fiskveiða segir t.d. í 11. gr. með leyfi, virðulegi forseti. Vegna þess að mikið hefur verið rætt um það að menn hafi verið að selja skip og kvóta þá finnst mér rétt að lesa hér upp nokkur orð sem standa í þessu frv.:
    ,,Eigi að selja fiskiskip sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni til útgerðar, sem heimilisfesti hefur í öðru sveitarfélagi en seljandi, á sveitarstjórn í sveitarfélagi seljanda forkaupsrétt að skipinu. Forkaupsréttur skal boðinn skriflega þeirri sveitarstjórn sem hlut á að máli og söluverð og aðrir skilmálar tilgreindir á tæmandi hátt. Sveitarstjórn skal svara forkaupsréttartilboði skriflega innan fjögurra vikna frá því henni berst tilboð og fellur forkaupsréttur niður í það sinn sé tilboði ekki svarað innan þessa frests. Neyti sveitarstjórn forkaupsréttar skv. 3. mgr. þessarar greinar skal hún þegar í stað gefa útgerðaraðilum sem heimilisfestu eiga í sveitarfélaginu kost á að kaupa skipið og skal opinberlega leitað tilboða í það.``
    Hér er vissulega um mikla breytingu að ræða. Hér er kveðið skýrt á um það að það er bannað að selja bát eða togara, ekki ugga af fiski nema auglýst sé og viðkomandi sveitarstjórn hefur forkaupsrétt. Þetta var ekki í upphaflegu drögunum sem hér voru lögð fyrir um stjórnun fiskveiða. Þetta atriði kom hér inn í breytingum í meðferð Alþingis í þessu máli. Ég er sannfærður um það að þetta nálgast mjög sjónarmið margra þeirra sem hér hafa talað í þessari tóntegund.
    Það voru einnig samþykkt hér önnur lög um svipað leyti, mig minnir að þetta hafi verið um 5. maí, um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. Ákveðnir þingmenn Sjálfstfl. töldu að með stofnun þessa sjóðs væri verið að stíga fyrsta skrefið að auðlindaskatti og töldu sig þess vegna þurfa að greiða atkvæði gegn Hagræðingarsjóði sjávarútvegsins. En staðreyndin er sú að hér er ekki stigið fyrsta skref í auðlindaskatti. Hér er aðeins um það að ræða að menn greiða í sjóð innan greinarinnar sjálfrar. Það er ekki á annan hátt. Þetta er innan greinarinnar sjálfrar og fyrst og fremst ætlað til þess að flýta þeirri hagræðingu sem svo mjög nauðsynlega verður að koma á í sjávarútvegi.
    Ekki óskylt því sem ég las upp áðan langar mig líka til að vitna aðeins í það sem segir í þessum lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, m.a. í 5. gr. Við skulum segja af því að hv. þm. minntist á Bakkafjörð og Grímsey ef illa áraði hjá þessum stöðum þá vildi ég fá að lesa upp hvað stendur í þessari 5. gr.:

    ,,Hagræðingarsjóður skal árlega úthluta þeim aflaheimildum sem ekki nýttust á næstliðnu fiskveiðiári vegna álags á aflamark við útflutning á óunnum fiski, sbr. 7. mgr. 10. gr. laga um stjórn fiskveiða. Aflaheimildir þessar skulu þó aldrei vera meiri en 12 þús. þorskígildistonn árlega miðað við verðmætahlutföll er ráðherra ákveður. Skal allt að helmingur þessara aflaheimilda vera til eflingar fiskvinnslu í byggðarlögum er höllum fæti standa, sbr. 9. gr. Að öðru leyti skulu aflaheimildir þessar framseldar skv. ákvæðum 8. gr. til að standa undir kaupum á skipum til úreldingar.``
    Hér er stigið annað skref til þess að reyna að varna verulegum skakkaföllum. En ég er ekki svo blindur að ég viðurkenni það ekki að þetta hlýtur að koma við einhverja vegna þess að við erum búin að ákveða það hvað við ætlum að draga úr hafinu. Þegar við vorum að afgreiða þetta frv. á sl. vori man ég eftir því að einn af þingmönnunum, sem er í salnum núna, kallaði þennan sjóð, sem átti að koma til og hugsanlega rétta hag hinna smæstu byggðarlaga sem af einhverjum ástæðum færu sérstaklega illa út úr atvinnumálum sínum, aumingjasjóð. Það voru kveðjurnar sem þessir staðir fengu þá, Bakkafjörðurinn og Grímseyjan.
    Það er einnig rétt að taka það fram hér að frv. það sem lagt var fyrir Alþingi um stjórnun fiskveiða var í öllum meginatriðum unnið, ekki
í sjútvrn., eins og títt er um frv. að þau séu unnin í ráðuneytunum. Þetta mál var unnið af ráðgjafanefnd sem sett var á laggirnar og allir hagsmunaaðilar áttu aðild að. Þessi ráðgjafanefnd starfaði ... ( Gripið fram í: Kvótaklíkan.) Hvað segir hv. þm.? Kvótaklíkan, ég skal ekkert segja um það. Þetta var ráðgjafanefnd sett saman af öllum hagsmunaaðilum og þessi nefnd starfaði í 1 1 / 2 ár að því að koma saman þessum lögum. Ég verð að segja það að mér finnst það býsna merkilegt hvað þó tókst að ná mikilli samstöðu um þetta mál. Það var ekki einfalt mál. ( KP: Voru ekki flestir með fyrirvara?) Nei, það voru nokkrir með fyrirvara en þeir fyrirvarar voru ekki mjög, a.m.k. hjá sumum, veigamiklir.
    Ég held að við þurfum að átta okkur á því að vandinn í sjávarútveginum er ekki kvótinn, heldur auðvitað fyrst og fremst það hvað við megum taka lítið úr hafinu. Það er vandamálið, að við skulum ekki geta sótt þangað meira. Við verðum að skilja og virða að hafið er ekki ótæmandi auðlind, eins og dæmin sanna. Á okkur þingmönnum hvílir sú skylda að ganga svo frá að stofninn sé ekki ofveiddur.
    Það er ástæða til þess að vekja athygli á fróðlegum upplýsingum sem hv. þm. Halldór Blöndal dreifði í dreifibréfi til hv. kjósenda sinna í Norðurlandskjördæmi eystra, ég held að þetta sé nú mest upp úr því, þessar upplýsingar. Þar var hann að benda fólkinu fyrir norðan, í kjördæminu sínu, á það hvernig komið væri nú fyrir ýmsum þjóðum sem ofveitt hefðu stofnana í hafinu og var að leggja áherslu á það að menn þyrftu að fara varlega. Þar sagði hann að þorskafli Kanadamanna hefði farið úr 700 -- 800 þús. tonnum í 200 -- 300 þús. tonn. Í Barentshafi hefði aflinn fallið

hvorki meira né minna en úr rúmum milljón tonnum í 300 -- 400 þús. tonn. Svipað er að segja hjá Norðmönnum. Þeir eru að berjast við sama vandamálið. Grænlendingar veiddu um 1960 um 450 þús. tonn en veiddu á síðustu árum rétt um 15 þús. tonn. Þetta segir mér nægilega mikla sögu. Þetta segir mér það að við þurfum að ganga varlega um þennan auð. Slíkt sem þetta má ekki henda við Ísland. Þá væri illa komið fyrir íslenskri þjóð.
    Það má öllum hugsandi mönnum vera ljóst að hagræðing verður að verða í sjávarútvegi okkar og ný lög um stjórnun fiskveiða bjóða mun betur upp á það en núgildandi lög gera. Við verðum að koma því svo fyrir að arðsemin aukist í sjávarútveginum. Það er grundvallaratriði. Við verðum að róa lífróður til að búa svo um að íslenskar vinnslustöðvar standist samkeppni við erlenda aðila, m.a. þær vinnslustöðvar sem núna er verið að byggja upp á Humber-svæðinu. Ég veit að sú hagræðing sem hér er talað um kemur við ýmsa. Mér dettur ekki í hug að halda öðru fram. En það mun vera enn verra að aðhafast ekki neitt í málinu. Ég gæti nefnt dæmi, fleiri en eitt og fleiri en tvö, sem sýna svo ótvírætt að breytingar í þessari atvinnugrein eru óumflýjanlegar. Aukin hagræðing og bætt nýting sjávarfangs verður að koma til m.a. til að greiða hærra fiskverð og hærri laun til þess starfsfólks sem í fiskiðnaði vinnur. Þetta er kjarni málsins. Ef við eigum að standast þá hörðu samkeppni sem blasir við okkur í dag þá verðum við að koma meiri hagnaði í sjávarútveginn til þess að hægt sé að standast þessa samkeppni með því að borga hærra fiskverð og hærri laun til þess fólks sem enn þá fæst til þess að vinna í sjávarútvegi. Annars verður skammt í það að við verðum aðeins veiðiþjóð í þessu landi.
    Virðulegi forseti. Ég þarf að gefnu tilefni að segja nokkur orð við hv. þm. Skúla Alexandersson. Þingmaðurinn vék í máli sínu hér í dag að Fiskiðju Sauðárkróks og fór þar með rakalaus ósannindi hvað fyrirgreiðslu úr opinberum sjóðum varðar til þessa fyrirtækis og ég harma slík ummæli. En úr því að farið er að tala á þessum nótum þá væri nú aðeins gott um stund, af því að við höfum svo rúman tíma, að líta aðeins um öxl og velta því fyrir okkur hvað þessi maður, hv. þm. Skúli Alexandersson, málsvari Alþb. alls, hvar sem þeir nú annars eru, hafði fram að færa. Hverjar voru tillögur Skúla Alexanderssonar um frv. um fiskveiðistjórn? Hann talaði mjög títt til sjómanna sem hér sitja á pöllum í dag og fylgjast með þessari umræðu. Hann talaði mjög títt til þeirra og fyrir fjölmiðlana. Hann sagði ekki þessum ágætu mönnum, sem hér sitja í kvöld og hafa setið í allan dag, að hans tillaga var sú að taka frá ykkur 30 -- 40% af þeim aflarétti sem þið hafið. Og gera hvað? Hann ætlaði ekki að færa hann einhverjum aumingjastöðum, eins og hann var að tala um, einhverri Grímsey eða Bakkafirði. Nei, hann ætlaði að færa fiskvinnslustöðvunum í landinu þessi 30 eða 40%. Og fékk dyggan stuðning margra þingmanna við þessu.
    Ef við förum nú aðeins út á land og á einhverja þessa staði, þá dettur mér í hug af því að hv. þm. er

hér og ég horfi á hann, að ef þessar tillögur hefðu náð fram að ganga þá hefði fiskvinnslan á Hellissandi fengið til ráðstöfunar 30 -- 40% af aflanum sem þar hefði verið lagður upp. Hverjir halda menn nú að hefðu fengið að fiska þessi 30 -- 40% sem vinnslan hefði fengið? Halda menn að hann hefði verið settur á stærri skipin, togarana, sem eru í eigu þessara vinnslustöðva og eru bundnir í meira en 100 daga á ári við bryggju? Haldið þið að þessi hefðbundni, stabíli, gamli, góði sjómaður hefði fengið að fiska þessi 30 -- 40%? Nei, ætli vinnslan hefði ekki haft vit á því að nýta sína eigin útgerð og láta hana fiska. Þvílík tvöfeldni í málflutningi er svakaleg. Ég segi það satt að svona málflutningur er alveg ótrúlegur.
    Það er rétt að víkja aðeins að Kvennalistanum, ekki má nú gleyma honum. Hann hefur talað hér líka og látið til sín heyra. Hann talaði líka mikið í kvótamálinu og það er nú virðingarvert við hann, fram yfir marga aðra, að hann hafði stefnu þar. Hún var langt frá mér, en hvað vildu þær? Hvað vildu þessar ágætu kvennalistakonur? Hvað haldið þið, sjómenn góðir? Ég sá að þingmaðurinn talaði til ykkar líka, eins og hv. þm. Skúli Alexandersson, leit ýmist í sjónvarpstækin eða til ykkar sem hér á pöllunum sitjið. Kvennalistinn ætlaði að taka frá sjómönnum og útgerð 80 -- 90% af fiskinum, það voru þeirra hugmyndir, og færa það til sveitarstjórnanna. Það var Davíð borgarstjóri sem átti að fá bitann hér og úthluta honum. Ja, það væri fróðlegt vestur á Granda að vita hverjir fengju að róa og hverjir ekki. Þær gleymdu að segja frá þessu en þetta skiptir kannski engu máli. Í mínum huga er það mikið mál.
    Hvernig halda menn, það hefur aldrei fengist rætt, að fari um kjaramál sjómanna eftir að sveitarfélögin og vinnslustöðvar hefðu öðlast meirihlutarétt yfir aflanum og getað ráðstafað honum að eigin vild? Hver halda menn að samningsstaða sjómanna væri eftir slíkt? Því hafa þessir ágætu þingmenn örugglega ekki einu sinni velt fyrir sér, það er ég handviss um, og sjálfsagt talið að það væri ekkert vandamál. Ég sagði það hins vegar sl. vetur þegar rætt var um stjórnun fiskveiða, og ég get sagt það enn og aftur, að ég er ófáanlegur til þess að samþykkja það að rétturinn til hafsins verði tekinn frá sjómönnum og útgerð. Frá þeim er hafa og munu afla á veisluborð þessarar þjóðar. Ég er ófáanlegur til þess.
    Þetta er kjarni málsins. Og það væri gaman ef menn kæmu hér upp og segðu eitthvað svipað. En því miður eru það of margir hér inni sem hugsa bara ekki um þessa þætti, slá svonalöguðu fram og halda að þetta sé allt í hinu besta lagi.
    Virðulegi forseti. Það féll í hlut Framsfl. að stýra þeim breytingum sem nauðsynlega þurfti að gera bæði í landbúnaði og sjávarútvegi. Það þarf að skipuleggja og hagræða í báðum þessum atvinnugreinum. Í báðum þessum atvinnugreinum verður að skipuleggja og hagræða og það verk verðum við auðvitað að vinna.